Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Indíana, Ingólfur og dóttir þeirra, Vivian Magnea, skoða rauðrófu.
Indíana, Ingólfur og dóttir þeirra, Vivian Magnea, skoða rauðrófu.
Líf og starf 22. september 2023

Ungir garðyrkjubændur í Þingeyjarsveit með margar tegundir í útiræktun

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Það þykir tíðindum sæta þegar bætist í fremur fámennan hóp íslenskra garðyrkjubænda í útiræktun grænmetis. Enn fágætari eru dæmi af norðlenskum garðyrkjubændum sem koma nýir inn í greinina, en í Vallakoti í Þingeyjarsveit eru einmitt ungir bændur á sínu öðru ári með margar tegundir í ræktun – til að mynda rauðrófu sem er sjaldgæf í innlendri framleiðslu.

„Það er allt brjálað í upptöku hjá okkur núna, helmingurinn af akrinum okkar er brokkolí en svo erum við með blómkál – sem er næst umfangsmest – grænkál, hvítkál og rauðkál. Við erum líka með tvær litategundir af hnúðkáli. Þá vorum við með aðeins af gulrófum, sem eru reyndar allar búnar, og rauðrófur og sellerí. Það er ótrúlegur bragðmunur á selleríi sem hefur verið ræktað úti, það verður einhvern veginn mun kraftmeira miðað við inniræktunina,“ segir Indíana Þórsteinsdóttir, garðyrkjubóndi í Vallakoti.

Aðstæður eru mjög góðar í Vallakoti, landið hentar vel til akuryrkju og svo er mjög veðursælt þar líka.

Heimahagarnir toguðu í

„Við maðurinn minn bjuggum í Noregi og eignuðumst barn þar. Þá fóru heimahagarnir að toga í okkur og okkur langaði til að fara að vinna fyrir okkur sjálf – gera eitthvað skapandi. Ég hringdi því í mömmu og spurði hana hvernig henni myndi lítast á að við kæmum heim í Vallakot. Upp úr því spjalli kom sú hugmynd hvort við flyttum ekki bara til þeirra og gerðumst garðyrkjubændur á þeirra landi,“ segir Indíana um forsögu þess að þau fóru í garðyrkjuna.

„Bróðir minn er kokkur og hafði lengi dreymt um að gerast rauðrófubóndi, þannig að það blasti við að hann myndi koma með okkur í þetta ævintýri. Mamma hefur alltaf ræktað sitt grænmeti ofan í okkur þannig að við vorum alin upp við gott grænmeti og með sterkar taugar til slíkrar ræktunar.

Svo blöstu líka tækifærin við okkur, þar sem ekki nokkur garðyrkjubóndi í útiræktun er hér á svæðinu – allt kemur að sunnan. Fyrsta tilraunaárið gekk bara mjög vel,“ segir hún.

Vænt selleríbúnt.
Mjög góðar aðstæður í Vallakoti

„Við erum því allnokkur saman í þessu; við maðurinn minn, Ingólfur Örn Kristjánsson, bróðir minn og kona hans, Aldey Unnar Traustadóttir. Foreldrar okkar heita Jóhanna Magnea Stefánsdóttir og Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson.

Svo hentaði það líka vel að foreldrar mínir áttu hér land, enda hafa þau stundað bæði kúabúskap og nautakjötsframleiðslu hér um árabil. Þau tóku við kúabúi af ömmu minni og afa, en færðu sig svo yfir í nautakjötsframleiðslu fyrir um átta árum, en afurðirnar seldu þau beint frá býli. Þau voru tilbúin að hætta búskapnum með nautgripina og koma alveg yfir í garðyrkjuna með okkur. Eini búfénaðurinn sem eftir er hér eru nokkrar kindur og einhverjar hænur.

Aðstæður hér eru mjög góðar, landið hentar vel til þessarar akuryrkju og svo er mjög veðursælt líka hér í sveitinni,“ segir Indíana en Vallakot er beint suður af Húsavík, í um 35 kílómetra fjarlægð. „Við erum neðarlega í dalnum hér og stundum frýs hér allt í kring en við sleppum. Við vorum enn að uppskera í október í fyrra.

Hún segir að ekkert þeirra sé með fagmenntun í garðyrkjunni, þannig að þau hafi þurft að prófa sig áfram og læra af mistökunum. „Að vísu höfðum við reynslu móður okkar til að byggja á, sem kom sér mjög vel – og þegar við vorum komin af stað fengum við ótrúlega mikinn stuðning frá öðrum garðyrkjubændum. Sérstaklega voru þau Sigrún og Þröstur í Garðyrkjustöð Sigrúnar hjálpleg.“

Jóhanna M. skoðar hvítkálshaus.

Svipað umfang á næsta ári

Indíana telur að tegundirnar sem þau verði með í ræktun á næsta ári verði nokkuð svipað því sem þau voru með í sumar. „Við erum búin að finna út hvað hentar okkur af umfangi, hvað við viljum vera með mikið af hvaða tegund. Sumt fer ekki í almenna dreifingu, heldur bara á veitingastaði hér í nágrenninu.

Annars leggjum við brokkolí, blómkál og grænkál inn til Sölufélags garðyrkjubænda – sem kemur kálinu í dreifingu fyrir okkur. Við höfum líka sent aðeins af gul- og rauðrófum beint til Krónunnar, á Bændamarkað hennar. Það er skemmtilegt að vera með margar tegundir og matgæðingurinn sem er í okkur nýtur þess mikið að vera með svona fjölbreytt úrval, þannig að við myndum líklega aldrei fara út í einhæfa ræktun á einni eða tveimur tegundum þótt það væri líklega hagkvæmara.

Við vorum búin að forsá þegar við funduðum fyrst með Sölufélaginu. Sáðum bara fyrir því sem við vissum að okkur þætti gott, grænmeti sem við bíðum sjálf eftir á haustin – og töldum líklegt að væri hægt að selja á markaði. Við vissum reyndar ekkert hvernig við ætluðum að selja uppskeruna, en síðan höfum við átt í góðu samstarfi við Sölufélagið,“ segir Indíana.

Hún segir að uppskeruhorfur nú séu mjög góðar, allt sé að koma vel upp. „Við ætluðum að reyna að stjórna eitthvað brokkolíinu, þannig að við gætum skorið það upp yfir lengra tímabil en það mistókst þannig að það er allt tilbúið á sama tíma,“ segir hún. Þau áætla að uppskerumagn af akrinum í Vallakoti verði um 24 tonn.

Skylt efni: Garðyrkja

Kona í fremstu röð
Líf og starf 8. desember 2023

Kona í fremstu röð

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu útgáfu af rafmagnsbílnum Hyundai Kona í Style...

Hátíðarbragur með jólastjörnum
Líf og starf 7. desember 2023

Hátíðarbragur með jólastjörnum

Jólastjarna er eitt vinsælasta jólablómið á Íslandi. Þessa dagana eru jólastjörn...

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu
Líf og starf 6. desember 2023

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu

Fjölmennt og góðmennt var á afmælisráðstefnu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins ...

Guðni á Þverlæk heiðraður
Líf og starf 5. desember 2023

Guðni á Þverlæk heiðraður

Guðni Guðmundsson, bóndi á bænum Þverlæk í Holtum í Rangárþingi ytra, var á dögu...

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð
Líf og starf 4. desember 2023

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru nýlega veitt á 25 ára afmælisráðstefnu...

Jólamarkaðir í desember
Líf og starf 30. nóvember 2023

Jólamarkaðir í desember

Hinn árlegi Jólamarkaður Miðjunnar verður haldinn í Framsýnarsalnum 1. desember ...

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...