Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sigríður Kristinsdóttir í vinnslusalnum í húsi Breiðar, þróunarfélags á Akranesi, þar sem hún vinnur að þróun á matvælaumbúðum úr sjávarþara.
Sigríður Kristinsdóttir í vinnslusalnum í húsi Breiðar, þróunarfélags á Akranesi, þar sem hún vinnur að þróun á matvælaumbúðum úr sjávarþara.
Líf og starf 22. janúar 2021

Þróar „matvælaplast“ úr sjávarþara

Höfundur: smh

Á Breið þróunarsetri á Akranesi starfa nokkrir frumkvöðlar við nýsköpun og einn þeirra er Sigríður Kristinsdóttir, sem vinnur að þróun á „matvælaplasti“ úr sjávarþara. Hún er nú þegar komin með nokkrar frumgerðir af filmum sem voru niðurstöður úr meistaraverkefni hennar frá umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Undanfarið hefur hún verið að velja hentugar íslenskar tegundir fyrir filmurnar.

Að sögn Sigríðar miðar verkefnið að því að þróa framleiðsluhæfar matvælapakkningar úr nokkrum brúnþörungategundum, en þar sem verkefnið er nokkuð viðamikið gerir hún ráð fyrir að það taki á annað ár að þróa markaðsvöru sem sé fullnægjandi að gæðum.

Sem stendur leitar hún að samstarfsaðilum úr matvælaiðnaði og plastvinnslu til að aðstoða við vöruþróun verkefnisins.

Vannýtt auðlind í þaraskógum

Bakgrunnur verkefnisins er nám Sigríðar í náttúru- og auðlinda­fræðum við Háskólann á Akureyri, sem lauk með BSc-ritgerð í sjávarútvegsfræði. Þar kviknaði áhuginn á sjávarauðlindunum og botnþörungunum, hinum vannýtta sjávargróðri við Íslandsstrendur sem hún segir að megi kalla þaraskóga. „Við eigum þennan mikla lífmassa sem við getum unnið margvíslegar vörur úr og gert þær að útflutningsvöru og jafnvel bætt í hráefnið með sérstakri ræktun á þörungum,“ segir hún.

Síðasta haust hlaut verkefnið atvinnu- og nýsköpunarstyrk úr Uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar Vesturlands til að þróa filmurnar áfram og koma þeim á fram­leiðslustig. „Matvælaplastið sem ég vinn að brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og getur leyst af hólmi lífplast, sem gerir það ekki. Fyrstu skrefin voru að velja nothæfar íslenskar tegundir og hentugar aðferðir við að einangra úr þeim efnin. Þróunarvinnan felst í að þróa hentugar útfærslur á matvælaumbúðum fyrir þetta efni í samstarfi við framleiðendur, ásamt leit að mögulegum samstarfsaðilum á markaði,“ segir Sigríður.

Hugsa þarf heildstætt um vinnsluna og virðiskeðjuna

Að sögn Sigríðar þarf að hafa virðiskeðjuna í huga til að ná árangri á markaði með slíkt verkefni – hugsa heildstætt um vinnsluna frá hráefnisöflun yfir í framleiðslu. „Nú er komið að því að þróa verkefnið í samvinnu við fleiri aðila og nýta þau „spin-off“ verkefni sem skapast í þessu samhengi,“ segir hún.

Verkefnið spratt upp úr áhuga hennar á ræktun þörunga í sjó, sem hún segir að geti aukið við hráefni í þessa vinnslu á matvælaplasti og framleiðslu úr öðrum efnum sem brúnþörungar hafa. Ræktun hefur ýmsa kosti umfram það að slá villtan þara – og hægt að ná miklu framleiðslumagni sem auðvelt er að uppskera. Hún sér fyrir sér að einhverjir samstarfsaðilar sem kæmu til liðs við hana gætu hugsanlega notið góðs af þessu hráefni því þarna séu mörg nytsamleg efni sem nýtast ekki öll til vinnslunnar á matvælaplastinu.

Nokkrar frumgerðir af „matvæla­plasti“ Sigríðar.

Niðurbrjótanlegt og neysluhæft

„Útgangspunkturinn í þessu ferli var lífplast sem hefur lítið vistspor, brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og er svo hreint að mætti jafnvel nota í neysluhæfar umbúðir, til dæmis utan um skyndibitafæði. Þessi áform hafa gengið eftir, þótt enn sé talsverð vinna fram undan við að koma efninu í framleiðslu. Þetta hráefni kemur sterkt inn í umræðu dagsins um sjálfbærni, þar sem umræddur lífmassi krefst ekki akuryrkju með öllu sem henni fylgir, úrvinnslan úr honum er tiltölulega skaðlaus og orkunotkun lítil,“ segir Sigríður. Hún vonast til að lítill „umhverfiskostnaður“ muni reiknast þessu nýja lífplasti til tekna í nánustu framtíð. „Samkeppni um plastumbúðir á markaði er vitaskuld mikil, en auknar kröfur í umhverfismálum gefa þessu efni forskot,“ segir hún.

Beltisþarinn grunnhráefnið

Sigríður segir að grunnhráefnið í framleiðsluna sé beltisþari ásamt fleiri tegundum brúnþörunga og íblöndunarefna. „Stórþörungar hafa ýmsar áhugaverðar sameindir sem eru mikið rannsakaðar og eru þeir nú þegar nýttir í fæðu, snyrti- og lækningavörur, auk þess að vera skoðaðir fyrir margvíslegan annan iðnað.

Plastefni unnið úr stórþörungum getur verið hentugt fyrir nýja hugsun um umbúðir, hlutverk þeirra og mikilvægi. Matvælapakkningar eru umfangsmiklar á markaði, þær auka geymsluþol matvæla og eru í stöðugri þróun. Á sama tíma þurfum við að takast á við þau vandamál sem fylgja uppsöfnun plasts sem brotnar ekki auðveldlega niður við náttúrulegar aðstæður og þarf endurvinnslu eða háþróað jarðgerðarferli fyrir niðurbrot þó það sé unnið úr vistvænum efnum.“

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...