Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ársæll Markússon, Þykkbæingur og frumkvöðull.
Ársæll Markússon, Þykkbæingur og frumkvöðull.
Mynd / Orkídea Startup
Líf og starf 16. apríl 2021

Þróar KindaKol úr sauðataði til notkunar í landgræðslu, landbúnaði og stóriðju

Höfundur: smh

Stofnandi fyrirtækisins 1000 ára sveita­­þorps heitir Ár­sæll Markússon. Hann er Þykk­bæingur að uppruna, býr þar og rekur frumkvöðla­fyrirtæki sitt. Á teikniborðinu nú er að framleiða svokölluð KindaKol með margvíslega notkunarmöguleika, þar sem aðalhráefnið er sauðatað og annar vannýttur lífrænn úrgangur. Hann kynnti verkefni sitt formlega á lokadegi viðskiptahraðalsins Startup Orkídea 19. mars ásamt samstarfsmanni sínum, Davíð Alexander Östergaard, þar sem þeir voru meðal þátttakenda.

Hugmyndin með Kindakolunum er að finna farveg fyrir hið mikla magn af sauðataði sem fellur til árlega og er ekki nýtt af bændum. Í fyrsta fasa verkefnisins verður athyglin sett á að búa til lífrænan áburð – þróa vöru til landgræðslu og í öðrum fasa áburðarvöru fyrir landbúnað. Í þriðja fasa er svo stefnt að því að þróa vistvæn iðnaðarkol sem gætu að einhverju leyti leyst af hólmi hefðbundin kol sem notuð eru til að mynda í starfsemi stóriðjuvera.

Skræður og kartöflur

Fyrsta verkefni 1000 ára sveitaþorps var hins vegar að þróa matvöru árið 2017 sem fékk heitið Skræður; sem er þurrkað hrossakjöt, kjötnasl, og byggir á aldagamalli hefð úr Þykkvabænum. Ársæll hefur hins vegar fært matvöruna til nútímans með hliðsjón af aðferðum og kryddjurtum úr öðrum matarmenningarheimum. Hann framleiðir tvær tegundir af Skræðum í dag. „Þetta var allt saman unnið í samstarfi við Samband sunnlenskra sveitarfélaga; ég fékk styrk frá þeim til að hanna umbúðir, vefsíðu, gera prófanir á innihaldsefnum og svo framvegis. Vöruþróun í stuttu máli,“ segir Ársæll.

„Meðan ég var að vinna í Skræðugerð var ég dálítið að hlusta á samræður í samfélaginu og fékk það á tilfinninguna að fólk væri að leitast eftir umhverfisvænum lausnum, minna plasti og minni sóun.

Og ég spurði sjálfan mig, hvað hef ég aðgang að í nærumhverfi mínu sem ég gæti nýtt mér í því að prófa slíkar lausnir? Kartöflur var svarið og því fór ég að skoða umhverfisvænar umbúðir og hvort það væri gerlegt fyrir mig að pakka kartöflum í umhverfisvænar umbúðir. Svarið var já.“

Smælki fyrir hinn venjulega neytanda

Þannig hófst pökkun og framleiðsla 1000 ára sveitaþorps á kartöflum í umhverfisvænum umbúðum, en þær höfðu þá sérstöðu að í stærstu pakkningunum var eingöngu pakkað smælki, eða smáum kartöflum, fyrir veitingastaði sem hugsuðu um umhverfismálin. „Þannig að ég fór í að hanna umbúðir fyrir þetta árið 2018, síðan hefur úrvalið aukist jafnt og þétt. Ég byrjaði á að pakka eingöngu í tveggja kílóa umbúðum, en árið 2019 bætti ég eins kílóa pakkningum við og svo 10 kílóum, sem voru sérstakar að því leyti að í þeim var bara smælki og pakkningarnar sérstaklega markaðssettar fyrir veitingastaði, mötuneyti og hótel, sem væru meðvituð um sóun og umhverfið.

En svo kom COVID-19 og engin sala varð á 10 kílóa pokunum eða smælkinu. Því tók ég upp á því að hanna nýjar umbúðir hugsaðar fyrir hinn venjulega neytanda á Íslandi; 600 gramma öskjur með smælki, lítil og þægileg stærð fyrir tvo til þrjá einstaklinga. Tveggja kílóa og 600 gramma vörurnar mínar er að finna í verslunum Krónunnar og öðrum minni verslunum á landinu.“

Kindakolin verið hugarfóstur frá 2019

„Svo vegna farsóttarinnar þá fann ég tíma til að vinna í Kindakolshugmyndinni – sem hefur verið hugarfóstur mitt síðan 2019,“ segir Ársæll um bakgrunn hugmyndarinnar. Hann er verkefnis­stjóri yfir verkefninu en með honum í hugmyndavinnunni og yfirmaður rannsókna er Davíð Alexander Östergaard.

„Það verður mjög erfitt að ná metnaðarfullum markmiðum mótvægisaðgerða vegna loftslags­breytinga án stórfelldrar minnkunar á kolefnisnotkun. Hingað til hefur lífrænn úrgangur verið urðaður, notaður sem áburður eða einfaldlega látinn renna út í sjó. En frá og með árinu 2023 verður bannað að urða lífbrjótanlegan úrgang hér á landi, samkvæmt lagafrumvarpi frá Alþingi. Það er því þörf á nýjum ferlum til að takast á við lífræn úrgangsefni á Íslandi.

Til að hjálpa til að ná þessu vistvæna og sjálfbæra markmiði viljum við styðja við þróun á hátæknilausnum í bland við hreina orku á Íslandi. Kindakol er sjálfbær orka og áburður sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Ársæll.

Framleiðsluferlið byggir á kolefnisvatnshitun

Ársæll lýsir framleiðsluferlinu þannig að notast sé við svokallaða „kolefnisvatn­shitun“ [e. hydro­thermal carbonization], sem sé hröðun á náttúrulegri myndun kols. „Þetta eru efnahvörf sem umbreyta lífmassa í tvær afurðir: kol og köfnunarefnisvatn.

Kolefnisvatnshitunarver er svo fært um að meðhöndla lífrænan úrgang og breyta honum í vistvæn kol, áburð og lífeldsneyti til frekari notkunar í hagkerfinu. Þau byggja á sjálfbærri tækni sem stuðlar að hringrásarhagkerfi og eru aðlöguð að því magni úrgangs sem er í boði.

Þó að ferlið sjálft á bak við kolefnisvatnshitun hafi verið þekkt í 100 ár þá hefur það ekki verið notað í iðnaðartilgangi nema síðustu 20 árin.

Áburðurinn verður til við vinnsluna en hráefnið sem verður notað breytist annars vegar í þurrefni, sem inniheldur að megninu til hreint kolefni, og hins vegar að vatni sem inniheldur meðal annars steinefni, sykrur og lífrænar sýrur. Þau efni sem eru í hvað ríkustum mæli í frávatninu eru nitur, fosfór og kalíum – og líkt og með annan tilbúinn áburð verða þau uppistaðan í áburðinum sem KindaKol kemur til með að framleiða.

Kindakolin sjálf, það er þurrefnið sem verður til, virka einnig vel í landbúnaðartilgangi en rannsóknir hafa bent til þess að þau auki bæði frjósemi og vöxt plantna. Svo eru að sjálfsögðu miklir kostir fólgnir í því hversu mikið kolefni binst í jarðveginum ásamt því að stór yfirborðsflötur lífkola gerir það að verkum að þau geta haldið miklu vatni sem stuðlar að rakari jarðvegi. Slíkur jarðvegur losar betur næringarefni sem hafa safnast upp í þurrkum.“

Hvað verður um úrganginn okkar?

„Stöðugt er verið að þróa og betrumbæta vinnsluferlana og möguleikar þess eru margir, eins og til dæmis þróun áburðar fyrir landbúnað og landgræðslu, nýtist sem orka fyrir kísilver, lífeldsneyti, snyrtivörur og annars konar nýsköpun með mögulegum útflutningi.

Í lífrænum úrgangi má finna mörg tækifæri til grænnar atvinnusköpunar. En líka möguleika til að binda koltvísýring og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það eru kynslóðirnar í dag sem ákveða með aðgerðum eða aðgerðarleysi hvað verður gert við úrganginn okkar – og það mun hafa áhrif á loftslag og umhverfi komandi kynslóða,“ segir Ársæll.

Hann bætir við að verkefnið sé nú statt þannig í þróunarferlinu að verið sé að þróa frumgerð af Kindakolunum, með rannsóknum og söfnun gagna. Hann vonast til að hægt verði að kynna vöruna að ári liðnu.

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í ve...

Fagleg og fræðandi afmælissýning
Líf og starf 26. febrúar 2024

Fagleg og fræðandi afmælissýning

Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar ...