Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Katrín Ásgrímsdóttir tók fyrstu skóflustungu að nýju 2.000 fermetra gróðurhúsi í lok september. Stefnt er að því að sá í húsinu í apríl.
Katrín Ásgrímsdóttir tók fyrstu skóflustungu að nýju 2.000 fermetra gróðurhúsi í lok september. Stefnt er að því að sá í húsinu í apríl.
Mynd / Sólskógar
Líf og starf 21. janúar 2020

Sólskógar reisa nýtt 2000 fermetra gróðurhús

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við finnum fyrir auknum áhuga á trjáplöntum og einkum og sér í lagi er sá áhugi kveikjan að því að við vinnum að þeirri upp­byggingu sem nú stendur yfir á okkar starfssvæði,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sólskóga í Kjarnaskógi við Akureyri.  
 
Fyrirtækið hefur nýverið reist 2.000 fermetra stórt gróðurhús í Kjarnaskógi. Svipað gróðurhús var reist hjá fyrirtækinu árið 2008.  Katrín er ásamt eiginmanni sínum, Gísla Guðmundssyni, eigandi Sólskóga. Hjá fyrirtækinu starfa um 10 manns yfir veturinn en þeim fjölgar yfir sumarmánuðina og eru þá um 20 talsins.
 
Gísli Guðmundsson, eigandi Sólskóga, að störfum við að reisa minna húsið á liðnu sumri.
 
Þrjú minni og léttari hús voru reist á liðnu sumri
 
Framkvæmdir á svæðinu hófust síðasta vetur, en unnið var að deili­skipulagsbreytingum í mars í fyrra og í kjölfar þess var farið í hönnun húsanna, öflun byggingaleyfa og fleira slíkt. 
 
„Við byrjuðum síðan á fram­kvæmdum hér um miðjan júlí með byggingu á léttari gróðurhúsum, þau eru þrjú talsins og alls um 1.000 fermetrar að stærð. Í kjölfarið, eða í lok september, hófumst við handa við byggingu á stóra húsinu, það er um 2.000 fermetrar að stærð,“ segir Katrín en byggingu þess lauk um mánaðamótin nóvember desember síðastliðinn. 
 
„Við höfum verið að klára ýmis verkefni, meðal annars lagnir og fleira innandyra. Það er stefnt að því að sá í stóra húsið i byrjun apríl þannig að við stefnum að því að öllu verði lokið í mars. Við gerum svo ráð fyrir að taka minni húsin í notkun í vor eða byrjun sumars,“ segir Katrín.“
 
Hún segir að út í þessar fram­kvæmdir sé farið til að mæta aukinni eftirspurn eftir trjá­plöntum. Fyrst og fremst fram­leiði Sólskógar plöntur fyrir Skógræktina, – „en við verðum líka vör við aukinn áhuga hjá fyrirtækjum og einstaklingum og það styrkir okkur í þeirri trú að þessi aukning í framleiðslunni eigi framtíð fyrir sér, hún sé komin til að vera,“ segir Katrín.
 
Sólskógar eiga nú tvö gróðurhús um 2000 fermetra að stærð, sem kemur sér vel í ljósi þess að framleiðsla á skógarplöntum vex ár frá ári.
 
Viðhald á eldri húsum og uppbygging útisvæða
 
Samhliða uppbyggingu á nýjum gróðurhúsum hefur verið unnið að viðhaldi á þeim eldri og verður eitt þeirra tekið í notkun á komandi vori, þannig að alls bætast við starfsemina um 3.500 fermetrar í gróðurhúsum. 
 
Alls munu Sólskógar því hafa yfir að ráða um 6.500 fermetrum í gróðurhúsum sem skiptist þannig að 5.500 er fyrir skógarplöntur og um 1000 tengjast garðplönturæktun.  Á komandi sumri og fram á haust verður einnig bætt við útisvæði fyrir skógarplöntur, alls um 6.000 fermetrum.
 
Virðist meiri alvara hjá stjórnvöldum núna
 
„Mér virðist vera meiri alvara hjá stjórnvöldum en oft áður þegar kemur að því að auka fjármagn til skógræktar,“ segir Katrín. 
 
„Við fórum af stað með þessar umfangsmiklu framkvæmdir í þeirri trú að erfitt verði fyrir stjórnvöld að vinda af aukinni skógrækt í ljósi skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Þá gefur aukinn áhugi almennings á skógrækt okkur einnig byr undir báða vængi, en fólk er í auknum mæli að vinna við útplöntun í eigin lönd. Við eigum ekki von á öðru en að almenningur og eins fyrirtæki sem mörg hver sýna skógrækt mikinn áhuga muni veita stjórnvöldum aðhald þegar að þessum málaflokki kemur,“ segir Katrín en fyrirtækin horfa m.a. til þess að kolefnisjafna starfsemi sína. 
 
„Skógarplöntuframleiðsla okkar hefur verið í miklum vexti og því þurfum við á auknu plássi að halda.“

Skylt efni: Sólskógar | gróðurhús

Huldufreyjur Dalrúnar
Líf og starf 30. september 2022

Huldufreyjur Dalrúnar

Sagnfræðingurinn Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir útskrifaðist með doktorspr...

Íslensk matarveisla úr lífrænum hráefnum
Líf og starf 29. september 2022

Íslensk matarveisla úr lífrænum hráefnum

Fyrsti lífræni dagurinn var haldinn sunnudaginn 18. september á Neðra-Hálsi i...

Allur húsakostur hitaður upp með afurð úr eigin skógi
Líf og starf 28. september 2022

Allur húsakostur hitaður upp með afurð úr eigin skógi

Þessa dagana eru merk tímamót í orkuskiptum hjá bændum að eiga sér stað í ...

Saumaskapur unninn með nál hafinn til vegs og virðingar
Líf og starf 28. september 2022

Saumaskapur unninn með nál hafinn til vegs og virðingar

Margt verður til í kvenna höndum er nafn á sýningu í félagsheimilinu Goðal...

Land Rover með leikaraferil
Líf og starf 28. september 2022

Land Rover með leikaraferil

Á Hvammi í Hvítársíðu er Land Rover jeppi sem hefur öðlast frægð á síðus...

Augnablik í lífi þeirra yngstu þetta sumarið
Líf og starf 27. september 2022

Augnablik í lífi þeirra yngstu þetta sumarið

Ungviðið leikur við hvern sinn fingur yfir sumartímann enda svo margt skemmtile...

Ungir bændur taka við keflinu á Brúsastöðum
Líf og starf 27. september 2022

Ungir bændur taka við keflinu á Brúsastöðum

Skafti Vignisson og Lisa Inga Hälterlein tóku um síðustu áramót við búinu ...

Ómar Ragnarsson heiðraður
Líf og starf 27. september 2022

Ómar Ragnarsson heiðraður

Ómar Ragnarsson umhverfisverndarsinni hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigri...