Sóknarrit fyrir húmanisma
Líf og starf 23. desember 2025

Sóknarrit fyrir húmanisma

Höfundur: Þröstur Helgason

Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson er tímabært sóknarrit fyrir húmanisma (enda of seint að leggjast í vörn fyrir hann). Nú á tímum stjórnlausrar tæknihyggju sem telur sig geta leyst öll vandamál mannsins með stærðfræðilegum og verkfræðilegum lausnum og líkönum er fátt mikilvægara en að leita í árþúsunda hefð fræðafólks, heimspekinga og rithöfunda sem hafa rannsakað manninn, mennskuna, menninguna.

Bergsveinn kemur víða við í sögu húmanískra fræða og leitar jafnt til forn-grískra heimspekinga og til íslenskra miðaldabókmennta og fræðafólks samtímans sem leitast við að skilja ástæður og eðli þess ástands sem maðurinn hefur skapað sér með ofurtrú sinni á rök- og skynsemishyggju síðustu alda og virðist komin langleiðina með að reikna manneskjuna sem skyniborna tilfinningaveru út úr jöfnunni. Meginhugmynd bókarinnar um húmanismann er þó sótt til þýska hughyggjumannsins Friedrichs Schiller og þá einkum rits hans, Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins. Þar gerir Schiller greinarmun á tvenns konar hvötum eða eiginleikum í mannfólki sem togast á. Gefum Bergsveini orðið:

„Schiller kallar þetta skynhvöt (þý. Stofftrieb) og formhvöt (þý. Formtrieb), annað helgast af tilfinningu og skynjun, ímyndunarafli og hinu breytilega ástandi, innsæi; hjá formhvötinni drottnar hins vegar skynsemi og rökvísi, það varanlega og þær hliðar mannsins sem snúa að persónuleika hans og að honum sem tegund og veru í siðmenntuðu félagi manna – ekki að ástandi hverju sinni.“

Schiller taldi undir lok átjándu aldar að „við nútímafólk höfum gengið alltof langt í að þroska vitsmuni og skynsemi meðan tilfinningaþroski og næmleiki sálarinnar hafi legið í láginni.“ Og eins og Bergsveinn bendir á hefur „rökskrýmslavæðingin bara margfaldast í styrk eftir hans dag“. Leiðin út úr þessum „verundarógöngum mannsins“ taldi Schiller felast í því að fá hinar tvær ólíku hliðar mannssálarinnar, skynhvöt og formhvöt, til þess að ná saman í skapandi víxlverkun og þar komi til kasta listarinnar og fegurðarinnar. Þá verði til leikhvöt (þý. Spieltrieb) sem vísi til fagurfræðilegrar iðju mannsins.

Í magnaðri yfirferð Bergsveins um ógöngur mannsandans, ekki síst nú á seinni tímum þegar samfélagsmiðlar eru komnir langleiðina með að myrða sannleikann og gervigreind vegur að hlutverki mannlegrar vitundar og veru í mótun samfélags framtíðarinnar, þá kemur Bergsveinn aftur og aftur að hugmynd Schillers um fagurfræðilega veru mannsins.

Meðfram þessari yfirferð, sem ég efast um að margir rithöfundar aðrir hér á landi gætu leikið eftir, segir Bergsveinn frá sinni eigin glímu við að viðhalda mennskunni um leið og hann greinir frá endurbyggingu á hlöðu afa síns á afskekktri jörð norður á Ströndum. Bókin er skrifuð sem bréf til dóttur höfundar og hefur undirtitilinn Þankar til framtíðar, enda er viðgangur mannsins undir.

Þetta er tvímælalaust áhugaverðasta bók þessa hausts.

Hera og Gullbrá
Líf og starf 23. desember 2025

Hera og Gullbrá

Barnabókin hugljúfa, Hera og Gullbrá er eftir rithöfundinn Marínu Magnúsdóttur, ...

Sóknarrit fyrir húmanisma
Líf og starf 23. desember 2025

Sóknarrit fyrir húmanisma

Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson er tímabært sóknarrit fyrir húmanisma (enda of ...

Aðstæður almennings á 19. öld
Líf og starf 23. desember 2025

Aðstæður almennings á 19. öld

Út er komin bókin Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld, ef...

„Breiddu ljóssængina yfir mig“
Líf og starf 23. desember 2025

„Breiddu ljóssængina yfir mig“

Út er komin ljóðabókin Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur.

Leitin að norrænum mönnum á Grænlandi
Líf og starf 23. desember 2025

Leitin að norrænum mönnum á Grænlandi

Valur Gunnarsson, rithöfundur og sagnfræðingur, gaf út fyrir skemmstu bókina Græ...

Klassík í bland við bleikar fjaðrir
Líf og starf 19. desember 2025

Klassík í bland við bleikar fjaðrir

Klassískur Chanel-kjóll fyrir þær smörtustu, þykkt, mjúkt dökkbleikt flauel eða ...

Ekki gripið í tómt
Líf og starf 16. desember 2025

Ekki gripið í tómt

Jarðtengd norðurljós eftir Þórarin Eldjárn inniheldur tvær bækur, Frumbók og Nát...

KR-ingar efstir
Líf og starf 16. desember 2025

KR-ingar efstir

Íslandsmót skákfélaga fór fram á dögunum í Rimaskóla.