Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Sóknarfæri í lífrænni ræktun
Líf og starf 17. júlí 2014

Sóknarfæri í lífrænni ræktun

Dagana 9. til 12. júní síðastliðinn fóru fulltrúar frá Samtökum ungra bænda í ferð til Danmerkur til að kynna sér lífræna ræktun og hitta forystu hagsmunasamtaka bænda þar í landi.

Aðdragandi ferðarinnar var sá að sendiherra Íslands í Danmörku, Sturla Sigurjónsson, hafði samband við formann Samtaka ungra bænda, SUB, vegna heimsóknar sem hann hafði nýlega farið á búið Knuthenlund, á Lálandi. Á Knuthenlund býr Susanne Hovmand-Simonsen, fjórða kynslóð fjölskyldunnar á búinu. Hún tók við búinu af föður sínum árið 2006, en fram að því var stunduð hefðbundin mjólkurframleiðsla á staðnum. Árið 2007 voru breytingar gerðar á búskaparháttum og öll framleiðsla gerð lífræn. Með því varð Knuthenlund-búið eitt stærsta lífræna bú Danmerkur og hefur umfang þess vaxið ört síðan.

Sturla bauðst til þess að hafa milligöngu um heimsókn á búið ef vilji væri til þess af hálfu SUB. Við þekktumst boð hans og stjórn SUB ákvað því að senda tvo stjórnarmeðlimi í heimsókn á Knuthenlund-búið.

Ferðin var farin dagana 9.–12. júní og það voru formaður og varaformaður sem voru erindrekar SUB. Ferðin var mjög fróðleg og skemmtileg, og hér skal stiklað á því markverðasta úr henni.

Þegar til Kaupmannahafnar var komið tók Sturla á móti okkur í sendiherrabústaðnum að Fuglebakkevej í Frederiksberg, en þar var hann búinn að bjóða okkur gistingu á meðan ferðinni stóð. Þar var afskaplega gott að vera og það var gaman að fræðast um starfið sem sendiráðið og sendiherrann standa fyrir.

Á miðvikudagsmorgninum keyrði Sturla okkur frá Kaupmannahöfn til að heimsækja lífræna búið Knuthenlund á Lálandi. Eftir tveggja tíma akstur komum við á áfangastað þar sem Susanne Hovmand-Simonsen tók á móti okkur.

Breytingar og bústofnar

Susanne var 32 ára þegar hún tók við rekstri búsins, árið 2006, af föður sínum. Fram að því var stunduð hefðbundin mjólkurframleiðsla á bænum. Fljótlega áttaði hún sig á því að breytinga væri þörf í rekstri búsins, annaðhvort þá að minnka við sig eða gera stórvægilegar breytingar á búskaparháttum. Hún ákvað því að hætta með kýrnar og fara yfir í lífrænan búskap með geitum, sauðfé og svínum ásamt talsverðri akuryrkju.

Það reyndist henni auðvelt að fá lán fyrir breytingum, enda fjörugir tímar í fjármálabransanum árið 2007 í Danmörku eins og víða annars staðar.

Ýmis vandamál skutu upp kollinum á meðan reksturinn á nýja lífræna búinu var að komast á skrið. Vandamál komu upp með hönnun á mjólkurvinnslunni sem hægði talsvert á. Susanne sér hins vegar fram á bjarta tíma, enda rekstur búsins farinn að skila ágætis hagnaði.

Þegar Susanne ákvað fyrst að yfirfæra búskapinn yfir í lífræna ræktun voru viðbrögðin sem hún fékk afar misjöfn. Hún fékk að heyra að landið sem hún byggi á væri óhentugt til þess og hún spurð hvernig hún þyrði að taka þessa áhættu, að hætta með kýrnar og umturna rekstrinum.

Hún svaraði því til að það hafi einnig verið mikil áhætta fólgin í því að gera engar breytingar. Stöðnun í rekstrinum hafi ekki verið ástand sem hún gat sætt sig við, enda stöðnun helsti óvinur framfara.

Susanne sagði að lykilatriði við lífræna ræktun væri öflug markaðsvitund bóndans. Það þýði þannig ekki að stunda lífrænan búskap einungis útfrá hugsjón heldur þurfi bóndinn að skilja þarfir markaðarins og vera tilbúinn að hlusta á neytendur. Hún lýsir því sem svo að það séu ekki lengur bara hippar syngjandi við varðeld sem sjái skynsemi í lífrænni ræktun. Neytendur vilji lífræn matvæli og það er skylda bænda að anna þeirri eftirspurn.

Bústofninn á Knuthenlund telur um 530 ær, 300 geitur, 120 svín og 5 kýr. Ærnar og geiturnar eru mjólkaðar og afurðir þeirra allar unnar á búinu. Hluti fjóssins var tekinn undir mjólkurvinnsluna, búð og svo mjaltaaðstöðu. Mjaltabásinn er með 26 tæki hvorum megin og notaður til að mjólka bæði ærnar og geiturnar. Hún sagði auðveldara að mjólka ærnar en geiturnar, vegna þess hve miklu forvitnari þær eru en ærnar.

Ein af hindrununum í upphafi var sú að fá fólk með reynslu af sauðfé og geitum, vegna þess hve óalgengar skepnur það eru í Danmörku. Það hefur hins vegar lukkast vel og meðalnytin er um 1,5 kg á dag hjá ánum og 2,5 kg hjá geitunum.

Knuthenlund-búið hefur hlotið fjölmörg verðlaun

Knuthenlund-búið hefur unnið til fjölmargra verðlauna fyrir osta sem þar eru framleiddir, sem undirritaðir fengu að smakka og geta vottað um gæði þeirra. Susanne sagði að hún hefði ákveðið það í upphafi; hún ætlaði sér að búa til bestu ostana.

Öll ostaframleiðslan er samkvæmt AOC stöðlum sem tryggir gæði og upprunamerkingu vörunnar.
Auk ostaframleiðslunnar er framleidd jógúrt úr mjólkinni frá ánum. Þá selur hún að sjálfsögðu lamba- og geitakjöt. Susanne segir geitakjötið vera vanmetna vöru, því auk þess sem það sé bragðgott hafi það mjög lágt kólesterólinnihald í samanburði við aðrar kjöttegundir.

Það merkilega við svínin og kýrnar er að hvoru tveggja eru af gömlum dönskum stofnum sem eru á lista Sameinuðu þjóðanna yfir tegundir í útrýmingarhættu. Ætlunin er að fjölga kúnum á næstu árum og stefnt að því að geta unnið afurðir þeirra heima á búinu. Með því að rækta þessa stofna skapar hún sér sérstöðu og aukna athygli neytandans.

Kýrnar hjá henni eru fimm talsins, en einungis 150 hreinræktaðar rauðar danskar kýr eru eftir í heiminum. Hún stefnir á stækka stofninn og vinna afurðir þeirra heima.

Svínin á Knuthenlund koma aldrei á hús, enda er stofninn harðgerðari en hefðbundin svín. Þó að ekki þurfi að byggja yfir svínin þá þurfa þau að jafnaði 30% meira fóður en önnur svín vegna þess hve þau hreyfa sig mikið og þau ná að sjálfsögðu ekki sama fallþunga og svín í hefðbundinni framleiðslu. Susanne býr hins vegar við afar góð skilyrði á Lálandi. Á Knuthenlund er mikill skógur og þá er veðurfar mjög milt, og því hentugt land fyrir svínin.

Við ræktun svínanna og kúnna hefur Susanne leitað í norræna genabankann eftir sæði.

Í nágrenni við Knuthenlund er lítið sláturhús sem tekur við skepnum frá Knuthenlund og sér það jafnframt um kjötvinnsluna. Þegar lífrænum skepnum er slátrað eru þær teknar fyrst þann daginn. Ef búið væri að slátra öðrum skepnum þyrfti að þrífa allt saman áður en hægt væri að taka við frá lífrænu búi. Þetta er þó lítið mál, svo lengi sem slátrarinn veit að von er á lífrænum dýrum með fyrirvara. Susanne segir það hentugt að þurfa ekki að flytja sláturdýr langar leiðir og um leið sé gaman að geta stutt við atvinnu í heimabyggð.

Jarðrækt

Á Knuthenlund eru um 740 ha af ræktarlandi og um 225 ha skógur.

Rúgur, hafrar, bygg, baunir, repja og fleiri tegundir eru ræktaðar á búinu. Susanne er með um 10% markaðshlutdeild lífrænnar kornvöru á dönskum markaði, auk þess sem mikið fer í útflutning.

Mikil áhersla er lögð á skiptirækt til að minnka smitálag á ökrunum. Þá er stunduð skipulögð skiptibeit til þess að draga úr hættu á ormasmiti og minnka hlutfall illgresis í ökrunum. Þannig skilja t.a.m. kindur og geitur eftir orma í ökrum, sem svínin svo hreinsa í burtu. Hún er með mikla flóru af jurtum í túnunum og telur að slíkt fóður skili heilbrigðari skepnum og náttúrulegu bragði afurðanna.

Mikil vinna hefur farið í að finna tegundir og yrki sem henta lífrænni ræktun. Þannig hefur mikið verið horft til þeirra tegunda sem algengar voru áður fyrr, og eru ekki jafn áburðarfrekar. Reglum samkvæmt má bera 70 kg/ha af köfnunarefni á tún, en á Knuthenlund eru, með lífrænum áburði, borin á um 30 kg/ha. Í staðinn hefur áhersla verið lögð á að nýta niturbindandi jurtir og þannig hefur smárarækt í ökrunum borið góðan árangur.

Til að eyða skaðvöldum sem herja á nytjaplöntur í ökrum er búið að gróðursetja runna með reglulegu millibili. Runnarnir eru hýbýli fyrir skordýr sem halda skaðvöldum í skefjum. Sérstaklega eru það kóngulær og maríubjöllur sem eru í runnunum. Runnunum er raðað í rendur með 150 metra millibili. Áætlað er að skordýrin fari um 75 metra frá runnanum í hvora átt, og ná þannig að vinna á öllum akrinum.

Lífrænn búskapur og viðskipti

Aðspurð um helstu vandamálin við yfirfærsluna í lífrænan búskap segir hún að mesta vinnan hafi falist í því að skipta um bústofn. Það hafi tekið tíma að kynnast og læra á geitur og ær eftir að hafa verið með kýr á staðnum í fjöldamörg ár.

Hún segir regluverkið í kringum lífræna búskapinn ekki vera fyrirstöðu. Það séu strangar reglur en að það sé í raun betra, og eitthvað sem að bændur ættu frekar að nýta sér við markaðssetningu. Það sé öruggara fyrir neytendur að kaupa lífrænt frá umhverfi þar sem reglur eru strangar og eftirlit öflugt. Þetta kom okkur á óvart, enda frekar háværari umræðan um að regluverkið heima sé of strangt.

Hún ráðleggur því íslenskum bændum að líta frekar á strangar reglur og eftirlit sem sóknartækifæri frekar en fyrirstöðu, það geti allir grætt á því.

Á Knuthenlund eru þrjátíu starfsmenn sem er býsna mikið starfsmannahald á einu búi, en Susanne segist ánægð með að geta staðið fyrir fjölmennum vinnustað úti á landi. Miðstýring og fólksfækkun á landsbyggðinni sé óhjákvæmileg, en hvert starf sem skapast úti á landi sé verðmætt og eigi að berjast fyrir. Allir starfsmenn eru Danir, fyrir utan tvo Hollendinga, en hluti af því er í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Sjálf sér Susanne einkum um sölu- og markaðsstarf fyrir búið. Hún er menntuð í alþjóðaviðskiptum og með meistaragráðu í listasögu. Sú menntun og reynsla var grundvöllur breytinga og vaxandi velgengni búsins. Hún leggur áherslu á hönnun söluvarnings og framsetningu. Reynsla og þekking á alþjóðaviðskiptum er svo hluti af velgengni hennar við útflutning, en helmingur allrar framleiðslu Knuthenlund-búsins er seldur erlendis. Þó helstu markaðir séu nágrannalönd Danmerkur, gerir hún einnig út á vaxandi markaði í Asíulöndum og hefur selt vörur til Kína, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Japans.

Það var fróðlegt að heyra hana lýsa muninum á því að eiga viðskipti við Kína og Japan. Stærð markaðarins í Kína geri litlum aðilum erfitt að komast þar inn, auk þess sem viðskiptahættir eru frábrugðnir því sem gerist í Vesturlöndum. Viðskiptamenning Japan svipi hins vegar meira til þess sem við eigum að venjast, og því auðveldara að fóta sig þar.

Mikilvægur liður í því að mynda viðskiptatengsl er að hitta fólk, en árlega koma um 30.000 manns og heimsækja Knuthenlund.

Landbrug og Fødevarer

Til þess að við fengjum sem mest út úr ferðinni kom Sturla Sigurjónsson á fundi hjá Landbrug og Fødevarer, þannig að við gætum kynnt okkur hagsmunasamtök landbúnaðarins í Danmörku. Við hittum Søren Gade framkvæmdastjóra Landbrug og Fødervarer og Jan O.F. Lausen forstjóra viðskipta-, markaðs- og næringarsviðs stofnunarinnar. Sören Gade fór yfir uppbyggingu og innviði samtakanna. Stofnunin var sett á laggirnar fyrir fjórum árum og er samstarfsverkefni hagsmunasamtaka bænda, afurðastöðva og þjónustufyrirtækja innan landbúnaðargeirans.

Stofnunin er hagsmunaaðili fyrir danskan landbúnað og stendur fyrir öflugu markaðsstarfi. Öflugt rannsóknarstarf er auk þess stundað á vegum stofnunarinnar á öllum sviðum landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Að sögn Sörens breytti tilkoma Landbrug og Födevarer miklu fyrir hagsmunabaráttu allra sem starfa við landbúnað og tengdar greinar. Skiptir þar mestu að á bak við stofnunina eru fleiri aðilar og meira fjármagn heldur en áður þekktist. Breytingar á framleiðsluháttum og byggðaþróun olli því að vægi hinna hefðbundnu bændasamtaka varð orðið minna og því erfiðara að hafa áhrif innan embættismannakerfisins og stjórnmálanna.

Á fundinum var einnig rætt um sóknartækifæri í dönskum og íslenskum landbúnaði. Sören deilir að vissu leyti þeirri skoðun með Susanne á Knuthenlund að það eigi ekki að vera hlutverk þessara landa að vinda ofan hungursneyð í fjarlægum löndum með eigin framleiðslu. Sören leggur áherslu á að aðkoma þessara landa að þeim vanda eigi fyrst og fremst að vera í formi miðlunar á þekkingu og tækni. Það verði seint raunhæft fyrir Danmörku að framleiða matvæli á verði sem þróunarlönd geti keypt á. En með því að stunda öflugt tilrauna- og rannsóknarstarf geti þessar þeir lagt sitt af mörkum. Gefðu svöngum manni fisk, og hann verður saddur í dag. Kenndu honum að veiða, og hann verður saddur alla ævi.

Fyrst og fremst á að stefna á markaði sem borga hátt verð

Útflutningur matvæla landa eins og Íslands og Danmerkur á fyrst og fremst að vera, segir Sören, til landa sem vilja kaupa gæðavöru og borga hátt verð fyrir.

Að þessu sögðu er auðvitað ekki verið að segja að eingöngu eigi að framleiða rándýrar vörur. Neytendum verður líka að gefast kostur á því að versla ódýrari matvæli, en það eigi ekki að vera stefnan að auka þá framleiðslu. Það verður að horfast í augu við aukna áherslu neytenda á öfluga gæðastýringu.

Það er skoðun undirritaðra að þetta megi heimfæra á íslenskan veruleika. Það verður því spennandi að sjá hvernig Hinn íslenski landbúnaðarklasi, sem stofnaður var þann 6. júní sl, muni þróast.

Eins og þeir sem fylgst hafa með vita, þá er bakgrunnur landbúnaðarklasans mjög svipaður Landbrug og Fødevarer í Danmörku. Þetta gæti því orðið spennandi vettvangur fyrir aðila innan landbúnaðargeirans til að hafa áhrif, auk þess sem öll miðlun þekkingar og reynslu ætti að verða auðveldari. Það er von okkar að tilkoma Landbúnaðarklasans verði til þess að enn frekar verði gefið í þegar kemur að útflutningi og markaðssetningu á erlendri grundu. Þá þarf að gera átak í rannsóknarstarfi við landbúnað, en það hefur verið í allt of mikilli lægð.

Mikil tækifæri

Undirritaðir eru hæstánægðir með vel heppnaða ferð og vona að lesendur séu nokkru fróðari eftir lesturinn. Það er margt sem við getum lært af Dönum, sérstaklega þegar kemur að markaðssetningu og útflutningi. Það er skoðun undirritaðra að þegar kemur að nýsköpun séu mikil tækifæri í lífrænni ræktun. Grundvöllur öflugrar nýsköpunar er að sjálfsögðu nýliðun. Þessir tveir þættir haldast í hendur, og eru mikilvægir fyrir framfarir í íslenskum landbúnaði.

Styrktaraðilar ferðarinnar voru; Sjávar­útvegs- og landbúnaðar­ráðuneytið, Bændasamtök Ísland, Bíó-Bú, Sláturfélag Suðurlands og Mjólkursamsalan. Við færum þessum aðilum, sem gerðu okkur kleift að gera okkur ferð út og víkka sjóndeildarhringinn, okkar bestu þakkir.

Sérstakar þakkir færum við Sturlu Sigurjónssyni fyrir höfðinglegar móttökur og milligöngu um heimsókn okkar til Knuthenlund og fund með forsvarsmönnum Landbrug og Födevarer.

Einar Freyr Elínarson
formaður SUB

Ástvaldur Lárusson
varaformaður SUB

7 myndir:

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...