Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Valgerðarkirkja.
Valgerðarkirkja.
Líf og starf 15. desember 2020

Síðustu dagar Skálholts

Höfundur: Vilmundur Hansen

Höfundur færir hér í letur ósegjanlega sögu af ringulreið við endalok Skálholtsstóls 1796. Brugðið er upp mynd af bekkingum skólapilta, lénsveldi Stefánunga, mannfelli förufólks, hinum sannheilaga Eilífagvendi og uppsveitadrjólum sem reyna að koma á byltingu.

Barátta hefst með deilum milli hreppstjóra Biskupstungna og Skálholtsbiskup um samastað eins hreppsómaga. Málið kemur fyrir Alþingi á Þingvöllum og dagar þar uppi. Í kaflanum hér á eftir bregður höfundur upp mynd af íslenskum byltingarmönnum sem koma vígreifir heim á Skálholtsstað.

Síðustu dagar Skálholts eru lokaþáttur þríleiksins sem hófst með bókunum Í skugga drottins og Í Gullhreppum sem hlutu báðar afburða viðtökur lesenda.

Bændauppreisn

„Þegar það spyrst út um Skálholts­sveitir að stiftskista Skálholts sé alfarin upp í Borgarfjörð verður kurr meðal almúga. Vinnufólk staðarins veit ekki lengur hvar það er niður­komið því að ekki getur staðurinn Skál­holt verið annarstaðar en þar sem stifts­kistan er. Og sé hún farin þá hefur staðurinn farið með henni.

Herra Finnur Jónsson gleðst ósegjanlega þegar hann heyrir að ferjustrákur á Spóa­staðaferju hafi vísað frá norskum hégómamönnum sem komu frá því að sjá goshverina á Söndunum. Þeir hefðu næst viljað sækja heim sögustaðinn Skálholt en strákurinn sagt þeim að halda áfram götuna og fara norður fyrir Mosfell og þá fyndu þeir á endanum Skálholt, það væri þar einhverstaðar. Þangað hafði hann séð farið með kistuna mánuði fyrr. Sumir sögðu reyndar að mennirnir væru ekki norskir heldur skoskir og enn aðrir að þarna hefðu verið breskir tignarmenn.

Bjarni Harðarson, rithöfundur og útgefandi.

Háæruverðugum superintendant Skálholtsstiftis þykir það allt jafn hlægilegt og gott. Best sé að þetta hafi verið þrír mismunandi hópar sem allir dvelji nú norðan við Mosfell og leiti Skálholts. Mikils sé til að vinna að umferð hégómamanna afleggist enda geti hún hreinlega fordjarfað þetta viðkvæma og erfiða land. Tímasóun af þessu tagi sé heldur aldrei Guði þóknanleg og nær því að vera til háborinnar skammar fyrir þá menn sem svona fara um.

En það er ekki allt sem þessu fylgir ábati, og hvarf vísibiskups og stiftskistunnar vekur upp hina áður kulnuðu bændauppreisn Jóns Illuga­sonar. Kvis um að stólsjarðirnar yrðu nú seldar undan heiðarlegum landsetum hefur til þessa verið sem hvert annað fjarstæðu­tal ráð­leysingja. En úr því að Skálholt er ekki lengur þá horfir allt uggvænlega. [. . .]

Eftir þessa ræðu verður löng þögn á kirkjuhlaðinu. Þegar frá líður sammælast þeir sjö karlar sem eftir eru af upprunalegum flokki að bíða þess að kirkjupresturinn Frant frá Hrepphólum eða einhver önnur standspersóna eigi hér leið um. Nei, þeir ætla ekki að blanda einhverri vinnumannsskepnu eða kvenmannsvæflu í þetta vandasama mál, fortakslaust ekki. Og foringjarnir monsjör Páll og bóndinn Eiríkur skorast báðir undan því að fara fylgdarlaust og án boðs á fund biskups, þess gamla gæflynda herra sem er í aldurdómi og mest við rúmið. Og þeir sjálfir sekir menn. Það finna þeir enn betur þegar þeir hafa nú skilið sitt samlag við skálkinn Jón Illugason.

Þeir hafa nú hummað utan við kirkjudyr í hálfra aðra eykt og farið er að kula á þessum síðsumarsdegi. Skálholtshlöð eru vita mannlaus á þessum Drottins degi, enginn maður rekur svo mikið sem nefið út og undir kvöld gefa mennirnir þetta allt frá sér. Draga sig af stað upp á sína Sultarsveit. Þeir nátta sig flestir miðsveitis og eru komnir heim úr erindisleysu sinni um miðjan mánudag.

Og þó halda þetta áfram að vera hinir harðfengu uppsveitardrjólar sem guðhræddu og lítilsigldu fólki í neðri byggðum stendur stuggur af.“

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...