Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Verðlaunahrútarnir, þrír efstu. Efstur stóð svartbotnóttur lamb- hrútur frá Austvaðsholti, þá svartgolsóttur frá Árbæ og loks kolsvartur frá Köldukinn. Þau sem halda í eru: Viktor í Selási, Ólafur í Árbæ og Valería á Hellu.
Verðlaunahrútarnir, þrír efstu. Efstur stóð svartbotnóttur lamb- hrútur frá Austvaðsholti, þá svartgolsóttur frá Árbæ og loks kolsvartur frá Köldukinn. Þau sem halda í eru: Viktor í Selási, Ólafur í Árbæ og Valería á Hellu.
Mynd / Páll Imsland
Líf og starf 25. október 2023

Sauðalitasýning

Höfundur: Páll Imsland, jarðfræðingur & áhugamaður um íslenska húsdýrastofna.

Sunnudaginn fyrsta þessa mánaðar fór fram árleg sauðalitasýning Fjárræktarfélagsins Litar í Holta- og Landsveit, sem nú er hluti af Rangárþingi ytra. Sýningin var haldin í Árbæjarhjáleigu og var fjölsótt að vanda.

Hún tókst hið besta undir stjórn formanns félagsins, Guðlaugs Kristmundssonar á Lækjarbotnum, og var rekin áfram af dugnaði kynnisins, Kristins Guðnasonar í Árbæjarhjáleigu.

Félag þetta eiga bændur og annað sauðalitaáhugafólk í uppsveitum Rangárþings með sér og hafa átt í meira en 20 ár. Félagið var stofnað 12.12.2002 að undirlagi Guðlaugs í Lækjabotnum og taldi í upphafi um 25 félaga. Félagið hefur haldið sýningar síðan árið 2005, en þá var fyrsta sýningin haldin í Flagbjarnarholti og dómari var Jón Sigurðsson frá Úthlíð. Markmið félagsins var að bæta og efla ræktun á mislitu fé og skemmta sér yfir umræðu um fé og fjárliti. Þetta hefur fyrir löngu tekist svo vel að mislitt fé á þessum slóðum er nú enginn eftirbátur þegar kemur að samanburði við annað fé og litaauðgin er ótrúleg. Þarna má finna alla liti og litaafbrigði og alls kyns litmynstur sem þekkjast í íslenska sauðfjárstofninum, nema hinn nýtilkomna úlfgráa lit sem var að uppgötvast austur á Hlíð í Lóni.

Á sýningunni er féð dæmt fyrir bæði hefðbundin fjárgæði, eins og á hinum vinsælu og frægu hrútasýningum, og eins fyrir feldinn og litinn.

Dómar fara fram í þrem flokkum. Fyrst eru dæmdar lambgimbrar, því næst lambhrútar og loks ær með afkvæmum. Þrjátíu og níu gimbrar mættu til dóms, átján hrútar og eitthvað innan við 10 ær með afkvæmum. Vart þarf að taka fram að eðli málsins samkvæmt gætti þarna allra lita nema hvíts.

Dómarar voru Lárus Birgisson, ráðunautur í Borgarnesi, og Vignir Siggeirsson í Hemlu og ritari þeirra var Lovísa Herborg Ragnarsdóttir í Hemlu og fórust þeim störfin fagmannlega. Í mati á lambhrútum og gimbrum vegur litur 50% á móti skrokkgerð en í tilviki áa með afkvæmum vegur liturinn aðeins meira, eða 60%.

Auk hinnar almennu sýningar og dóma voru sett sér í dilk allmörg lömb í skemmtilegum eða athyglisverðum litum og litmynstrum og áhorfendum gefinn kostur á að velja litfegursta lambið. Auk þess voru sýnd nokkur feldlömb. Feldfé kallast fé með ullarafbrigði sem er sérlega mjúkt og hrokkið og er ræktað á allmörgum bæjum sérstaklega vegna þessara eiginleika. Af feldfé er bæði notuð ull og gærur.

Félag þetta er ekki fjárglæfrafélag þó það snúist um fé og félagsgjöld eru engin. Árlegri fjárþörf félagsins
er haldið uppi með því fé sem fæst fyrir efnilega og fallega lífgimbur sem einhver félagsmanna leggur til og er boðin upp í lok samkomunnar.

Litfegurstu lömbin samkvæmt kjöri sýningargesta, þrjú efstu. Efst stóð grá feldfjárgimbur frá Köldukinn, þá gráflekkótt baugótt gimbur frá Selási og loks grábotnótt gimbur frá Skarði. Þau sem halda í eru: Hákon í Selási, Lýsa í Köldukinn og Sumarliði í Skarði.

Verðlaunagimbrarnar, fjórar efstu. Efst stóð morgrá golsubotnótt gimbur frá Skarði, þá svört gimbur frá Skarði og í þriðja sæti var grá gimbur frá Árbæ og loks grábaugótt gimbur frá Austvaðsholti. Þau sem halda í eru talið frá vinstri: Jens í Stóra-Klofa, Anna Sigríður og Berglind í Skarði, Guðmundur í Árbæ og Viktor í Selási.

Ær með afkvæmum frá Húsagarði og gamalreynt fólk við sýningar, Markús, Sveinn Bjarki og Dýrfinna í Húsagarði.

Skylt efni: litir sauðfé

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...