Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Unga fjölskyldan á Signýjarstöðum. Arnþór Pálsson, fæddur 1986, og Birna Rún Ragnarsdóttir, fædd 1989, ásamt börnum sínum, Ragnari Páli, fimm ára og Rúnari Inga, þriggja mánaða.
Unga fjölskyldan á Signýjarstöðum. Arnþór Pálsson, fæddur 1986, og Birna Rún Ragnarsdóttir, fædd 1989, ásamt börnum sínum, Ragnari Páli, fimm ára og Rúnari Inga, þriggja mánaða.
Mynd / ÁL
Líf og starf 8. október 2022

Rekstur auðveldari á stærra búi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Signýjarstöðum í Hálsasveit tóku ungu hjónin Birna Rún Ragnarsdóttir og Arnþór Páls­ son við fjölskyldubúi þess síðarnefnda.

Þar er kúabú með nálægt 65 mjólkandi kúm og 25 kindum. Í vor stukku þau á óvænt tækifæri þegar nágrannajörðin Refsstaðir fór á sölu. Með þeim kaupum hefur búreksturinn nærri þrefaldast og mjólkurkýrnar orðnar 144 eftir sameiningu. Þó þau segjast aldrei hafa dreymt um að verða svona stórir bændur þá segja hjónin að allur rekstur hafi orðið auðveldari með þessum breytingum.

Arnþór er uppalinn á Signýjarstöðum og Birna Rún er frá Akranesi. Fyrir nokkrum árum ákváðu þau að taka við býlinu af Páli Herberti Jónassyni og Svandísi Ástu Þorsteinsdóttur, foreldrum Arnþórs.

„Ég vildi leyfa pabba að klára að vera í búskap eins lengi og hann vildi,“ segir Arnþór, en í sjö ár áður ráku ungu hjónin hótelið í Reykholti. Þegar Arnþór lofaði pabba sínum að hann tæki við, ákvað Páll að halda áfram að fjárfesta í búinu og bæta aðstöðuna. Í því fólst meðal annars að setja upp mjaltaþjón.

Á Signýjarstöðum var kúabú með 65 kúm. Í vor sameinaðist það Refsstöðum þar sem voru í kringum 90 kýr. Eftir sameininguna er þetta orðið með stærri búum og framleiðslurétturinn nálægt 750 þúsund lítrum.

Voru tilbúin þegar kallið kom

Þar sem báðir aðilar voru búnir að undirbúa sig fyrir kynslóðaskipti í nokkur ár, gátu Arnþór og Birna stokkið til árið 2020 þegar Páll varð á tímabili heilsulítill. Þau sögðu upp störfum sínum og hófu búskap á Signýjarstöðum.

Þar með gat Páll, sem var að nálgast sjötugt, tekið því rólega. „Hann er samt enn þá á fullu í búrekstrinum,“ segir Arnþór.

„Það var mun auðveldara líf að vera hótelstjóri en bóndi, peningalega séð. Í Reykholti vorum við í íbúð á vegum Íslandshótela og við lifðum mjög þægilegu lífi. Við hefðum getað gert nákvæmlega það sem við vildum.

Ef við hefðum viljað kaupa okkur bíl þá hefðum við nánast getað gert það án mikillar umhugsunar,“ segir Arnþór. Þau vildu hins vegar gerast bændur og var ákvörðunin auðveld þegar kallið kom.

Ragnar Páll, fimm ára, er áhugasamur um bústörfin. Mynd / Einkaeign
Vinnutími ekki allt

Þó svo að vinnutíminn sé ekki frá klukkan átta til fjögur þegar starfað er við landbúnað þá er það ekki allt. Búskapur krefst mikillar viðveru en samt segjast Arnþór og Birna hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og öðrum hugðarefnum.

„Okkur líður miklu betur andlega sem bændur en yfirmenn á hótelinu. Ef þig langar til að verða bóndi þá skaltu stökkva á það og láta dæmið ganga upp,“ segir Arnþór. „Ég er alinn upp í sveit og ég vil gefa börnunum mínum tækifæri á að alast líka upp í sveit. Mér finnst það viss lúxus að starfa við að umgangast skepnur.“

Arnþór myndi ekki velja annað, jafnvel þótt honum væru boðin tíföld laun. „Okkur hefur sjaldan liðið jafn vel og eftir að við urðum bændur.“

Lítill kvóti – þungur rekstur

Fjármögnunarhliðin er eitt erfiðasta skrefið þegar ungt fólk er að fara í landbúnað. Sem bændur þurfi þau að hugsa miklu betur um peninginn og allar fjárfestingar krefjist mikillar yfirlegu. Með búið á Signýjarstöðum eitt og sér var reksturinn nokkuð þungur, sérstaklega þar sem þau vantaði kvóta. Þrátt fyrir að hafa reynt að láta kýrnar mjólka sem minnst gátu þau lent í því að vera búin með framleiðsluréttinn í október. Þar með drógust tekjurnar saman síðustu mánuði ársins og róðurinn þyngdist. Eins og kvótamarkaðurinn er núna er erfitt að komast yfir greiðslumark ogsáuþauframáaðverameðof lítinn kvóta næstu árin.

Fjósið á Signýjarstöðum er orðið gamalt og er búið að byggja oft við það. Elsti hluti fjóssins er frá sjötta áratugnum og hefur verið byggt við það oft síðan þá.

„Síðast þegar við vorum að rífa til að koma róbótanum inn sá ég að þakið var einangrað með torfi eða mosa, þannig að sá hluti var eins gamall og hann getur orðið.“

Tækifærið kæmi ekki aftur

Í byrjun árs 2022 sagði nágranni þeirra á Refsstöðum að hann hygðist bregða búi og setja jörðina á sölu.

„Fyrst þegar ég heyrði af sölunni þá ýtti ég henni eiginlega af borðinu. Það var ekkert draumur hjá okkur að verða svona rosalega stór, en svo fórum við að skoða þetta nánar og sáum að þessi fjárfesting væri ekki galin,“ segir Arnþór.

Allt gerðist mjög fljótt. Fyrstu hugmyndirnar af sameiningu búanna koma í byrjun mars. Undir lok mánaðarins gera þau kauptilboð í jörðina með fyrirvara um fjármögnun. Svarið frá bankanum kom 28. mars og Arnþór og Birna taka við Refsstöðum 1. apríl.

Tímasetningin hentaði þeim ekkert allt of vel, því Birna átti von á barni snemma sumars. Þau áttuðu sig samt á því að þetta væri tækifæri sem kæmi ekki aftur, því hugsanlegt var að kvótinn færi á tilboðsmarkað og Refsstaðir hefðu þá staðið eftir án framleiðsluréttar. Þau þurftu því annaðhvort að hrökkva eða stökkva.

Þar sem jarðirnar liggja saman er auðvelt að fá heimild til að sameina búin og færa allan kvótann yfir á eina jörð. „Nú er ég kominn með 750 þúsund lítra kvóta, en var bara með 280 þúsund lítra hérna á Signýjarstöðum áður,“ segir Arnþór.

Nútímaleg aðstaða á Refsstöðum

Á Refsstöðum eru tveir mjaltaþjónar og 120 legubásar, en Birna segir að líklegast sé hæfilegt að vera með 110 kýr hverju sinni.

„Fjósið á Refsstöðum er miklu þægilegra fjós, en það var upphaflega byggt sem róbótafjós,“ segir Arnþór.

Fjósið á Refsstöðum er nýlegt, byggt samkvæmt öllum nútímakröfum og með tvo mjaltaþjóna.
Fjárhagsáhyggjur horfnar

Arnþór segir að fjárhagsáhyggjur sem fylgdu rekstrinum áður séu nær horfnar. Þau gátu lagst í fjárfestingar á tækjabúnaði í sumar sem hefðu annars þurft að bíða í mörg ár ef einungis búið á Signýjarstöðum stæði á bak við þær. „Áður þurfti ég virkilega að pæla í hverri krónu, en með sameinuðu búi stöndum við miklu betur.“

Upphaflega stóð til að færa allar kýrnar yfir að Refsstöðum og nýta húsin á Signýjarstöðum sem aðstöðu til uppeldis. Þar sem byrjað var að borga fyrir alla mjólk umfram kvóta núna í sumar hafa þau slegið endanlegri sameiningu á frest og mjólka á báðum stöðum.

Geta verið með vinnumann

Þau viðurkenna að þetta sé mikið meiri vinna, en þar sem reksturinn stendur á traustari grunni þá geta þau bæði verið með fulla atvinnu af búskapnum ásamt því að ráða til sín vinnumann.

Með því að vera með vanan starfsmann í vinnu sjá þau fram á að geta tekið frí. Það var eitthvað sem ekki var hlaupið að áður. Með tíð og tíma stendur til að selja hluta úr jörðinni á Refsstöðum til að losa um fjármagn.

Þar er til að mynda íbúðarhús og gestahús sem þau ætla að láta frá sér. Sjálf ætla þau að halda áfram búsetu á Signýjarstöðum í íbúðarhúsi sem þau byrjuðu að byggja fyrir nokkrum misserum. „Það að keyra í fimm mínútur að Refsstöðum og í fimm mínútur aftur til baka breytir mjög litlu,“ segir Arnþór.

Hann segir þó að honum finnist þægilegt að vita af einhverjum á hlaðinu og því ætla þau að nýta gamalt timburhús, sem var flutt að Refsstöðum frá Akureyri af fyrri ábúenda, sem aðstöðu fyrir vinnumann.

„Ég er alinn upp í sveit og ég vil gefa börnunum mínum tækifæri á að alast líka upp í sveit,“ segir Arnþór frá
Signýjarstöðum. Mynd / Einkasafn
Öll pappírsvinna tvisvar

Aðspurð hvort þau mæli með því að kaupa tvær jarðir, þá segja þau að best væri að geta gengið frá öllum kaupum í einu. Þar sem þau keyptu fyrst Signýjarstaði og Refsstaði tveimur árum síðar hafi þau þurft að greiða tvisvar fyrir alla pappírsvinnu. Á bak við það er mikill kostnaður.

Þegar þau voru að reikna fjármögnunina á kaupunum á jörðunum fengu þau Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) til að reikna út rekstraráætlun, enda gera bankar kröfu um slík gögn. Þau eru nokkuð gagnrýnin á ýmsar forsendur sem nýttar eru við áætlunargerðina og var þeim ekki breytt þrátt fyrir ábendingar þeirra. Til að mynda gaf RML sér of háan launakostnað að þeirra mati og of lágt verð fyrir þjónustusamninginn á mjaltaþjóninum.

Eftir að rekstraráætluninni eftir sínum forsendum gátu þau séð að dæmið gengi vel upp í bæði skiptin.

Kalla eftir endurmenntun

Þau reikna ekki með því að leggjast út í miklar framkvæmdir og breytingar fyrst um sinn. Með Refsstaðafjósinu fylgdi hins vegar heilfóðurvagn sem þau myndu vilja nýta. Arnþór nefnir að erfitt sé að verða sér úti um þekkingu á útfærslu slíkrar fóðrunar.

„Ef bændum byðist þátttaka í áfanga um heilfóður í gegnum Landbúnaðarháskólann þá myndi ég hiklaust stökkva í hann,“ segir Arnþór, en samkvæmt honum ættu endurmenntunarnámskeið fyrir bændur að vera fleiri.

Skylt efni: Kúabændur

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...