Nýtt og glæsilegt menningarhús
Það stendur mikið til á Sauðárkróki, sem tilheyrir Sveitarfélaginu Skagafirði, en þar á að fara að byggja glæsilegt menningarhús, sem á að verða tilbúið eftir tvö ár. Sérstök byggingarnefnd er að störfum en á dögunum var skrifað undir samning við Arkís um teikningu og hönnun hússins. Sigfús Ingi Sigfússon er sveitarstjóri og veit allt um nýja menningarhúsið.
„Ég er afar spenntur fyrir vegferðinni, sem er fram undan og hlakka til að mæta í nýtt og glæsilegt menningarhús á Sauðárkróki og njóta alls þess sem þar mun verða í boði,“ segir Sigfús Ingi.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 1999
„Aðdragandi málsins er nokkuð langur því grundvöllur nýs menningarhúss á Sauðárkróki er ákvörðun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi. Árið 2005 undirrituðu svo þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, Gísli Gunnarsson, þáverandi forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Agnar H. Gunnarsson, þáverandi oddviti Akrahrepps, samkomulag um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði.
Samkomulagið var byggt á niðurstöðum samstarfshóps skipuðum fulltrúum menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna í Skagafirði. Annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald. Var endurbætt hús, Menningarhúsið Miðgarður, formlega vígt við upphaf Sæluviku Skagfirðinga í apríl 2009. Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og að þar yrði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, sem hýsti m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn, auk fjölnota sýningarsals,“ segir Sigfús Ingi. Það var svo á atvinnulífssýningu í Skagafirði vorið 2023, sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menningarog viðskiptaráðherra og Sigfús Ingi sveitarstjóri skrifuðu undir samning um byggingu nýs menningarhúss í Skagafirði á grundvelli fyrra samkomulags við ríkið og þarfagreiningar sem unnin var í samstarfi ráðuneytisins og hagaðila í Skagafirði.
200 manna salur
Sigfús Ingi var að skrifa undir samning við Arkís um hönnun á húsinu. „Það var afar ánægjulegur áfangi. Í nýju menningarhúsi, sem verður staðsett á Flæðunum á Sauðárkróki, í hjarta bæjarins, mun verða lifandi vettvangur sviðslista í Skagafirði, sem fá nýja og glæsilega aðstöðu í 180–200 manna sal. Auk þess mun þar fara fram starfsemi Héraðsbókasafns Skagfirðinga, Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Listasafns Skagfirðinga, Byggðasafns Skagfirðinga og tengd fræðastarfsemi, auk þess sem hluti hússins mun rúma viðurkennd varðveislurými, sem uppfylla kröfur ríkisins um aðbúnað opinberra skjalaog byggðasafna eins og fram kemur í lögum og reglugerðum. Í húsinu verður aðstaða til að halda metnaðarfullar sýningar í fjölnota sýningarsal, s.s. myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar, sýningar á höggmyndalist o.s.frv. Þar mun jafnframt verða miðstöð rannsókna á skagfirskum menningararfi og öll aðstaða almennings til að njóta fjölbreyttrar menningar og menningararfs verður stórefld,“ segir Sigfús Ingi. Þarfagreining gerir ráð fyrir að húsið verði ekki undir 2.241 fmen núverandi Safnahúsi Skagfirðinga verður breytt, uppfært til þarfa nútímans, auk þess sem nýbygging verður líklega um 1.450 fm að gólffleti.
Ríkið greiðir 60% og sveitarfélagið 40%
Samkvæmt samningum við ríkið á húsið að vera tilbúið fyrir áramótin 2027/2028. Kostnaðarskipting er með þeim hætti að ríkið greiðir 60% og sveitarfélagið 40% en þátttaka ríkisins er bundin við ákveðin fjárhæðarmörk. „Kostnaðaráætlun fyrir húsið verður uppfærð í því hönnunarferli, sem nú stendur yfir. Við framkvæmd þessa verkefnis er lögð áhersla á að ná fram hagkvæmni í kostnaði, á sama tíma og gætt er að markmiðum gæða byggingarinnar og tímaramma,“ segir sveitarstjórinn.
Gjörbylt aðstaða
En hverju mun nýja húsið breyta fyrir Skagfirðinga? „Það mun gjörbylta allri aðstöðu fyrir söfnin okkar í Skagafirði, bæði með tilliti til sýnigarhalds en einnig aukins þverfaglegs samstarfs. Þá mun aðstaða til sviðslistastarfsemi loksins fá þann sess sem hún hefur kallað eftir til margra áratuga. Við höfum fengið afar jákvæð viðbrögð við fyrirhuguðum framkvæmdum en íbúum gefst einnig færi á að láta skoðun sína í ljós í því deiliskipulagsferli, sem nú er í gangi fyrir svæðið en markmið þess er að hanna heildstætt yfirbragð fyrir áformaða uppbyggingu menningarhúss og umhverfis, afmörkun lóða, skilgreining byggingarreita og skilmála, ásamt því að skapa forsendur fyrir öruggt umferðarflæði gangandi, akandi og hjólandi vegfarenda,” segir Sigfús Ingi að lokum.
