Nútímahippinn ræstur
Ein áþreifanlegasta birtingarmynd náttúruverndar og sjálfbærni tískunnar gæti komið yngri lesendum á óvart.
Þó mikið sé fjallað um mikilvægi endurnýtingar og áherslu á gagnsætt hringrásarkerfi tískuiðnaðarins er nú ekki verið að finna upp hjólið. Með tilkomu hippakynslóðarinnar, þá á árunum í kringum 1960–1970 varð lífræn tíska mikilvægur hluti af lífsstíl og heimspeki þess tíma.
Hipparnir, sem voru hvað þekktastir fyrir andóf gegn hefðbundnum samfélagsgildum, tóku auðvitað upp lífsstíl sem lagði áherslu á sjálfbærni og náttúruvernd auk viðhorfa sem stungu í stúf við hefðbundna tísku. Áhersla á náttúru, ást og frið var í fyrirrúmi og því var lífræn tíska á þessum tíma ekki bara hugtak sem tengdist fatnaði heldur einnig stór hluti af þeirri hugsjón og samfélagslegu breytingu sem hippahreyfingin stóð fyrir. Til að mynda voru þeir á móti því að klæðast efnum sem voru framleidd með skaðlegum aðferðum en leituðust eftir náttúrulegri efnum í fatnað sinn, þá lífrænni bómull, hampi, ull og silki, sem voru framleidd án þess að nota tilbúinn áburð eða skordýraeitur.
Andóf gegn neysluhyggju
Hippatískan hélst í hendur við hugsjón þessa tíma, varð tákn um andóf gegn neysluhyggju, mengun og hinni gífurlegu neysluvæðingu sem var á þeim tíma.
Fatnaður gerður úr lífrænum efnum varð tákn fyrir að vilja lifa í samræmi við náttúruna og fylgja sjálfbærum og heiðarlegum framleiðsluaðferðum, auk þess sem hipparnir voru einnig fyrirmyndir í því að endurvinna og endurnýta gamlan fatnað. Þeir áttu það einnig til að vera afar skapandi þegar kom að því að endurvinna gömul föt, oft undir áhrifum frá náttúrunni, litum hennar og mynstrum. Útkoma sýndi því oft bæði persónulegan stíl viðkomandi og andóf gegn stöðluðum tískukröfum.
Pólitísk yfirlýsing
Hippahreyfingin var einnig afar andsnúin yfirráðum stórfyrirtækja og verksmiðjuframleiðslu almennt og með endurnýtingu, eða vinnslu lífrænna efna, sýndu þeir andstöðu sína gagnvart stofnunum eða vinnuferli sem þeir töldu stuðla að misrétti og óréttlæti.
Lífræn tíska var þess vegna ekki bara um föt, heldur endurspeglaði pólitíska yfirlýsingu hippanna, áhyggjur þeirra af umhverfinu, réttindi fólks og samfélagslega ábyrgð svo eitthvað sé nefnt.
Þarna má segja að hafi vaknað sú hugmyndafræði sem er grundvöllur sjálfbærrar tísku í dag og samfélagslegrar hugsjónar gegn neysluhyggju og umhverfismengun.
Náttúrulegur lífsstíll
Þessi áhrifavaldur í sjálfbærni og náttúruvernd snerti á ýmsum flötum sem áttu ekki upp á pallborðið hjá almenningi á þessum árum.
Til viðbótar við litríkan fatnað, saumaðan upp úr gömlum klæðum, þótti óklippt hár, náttúrulegur skeggvöxtur og fjarvera nærfatnaðar áskrift að viðhorfi um að vera í samræmi við náttúruna. Frjálsar ástir komu þarna inn í reyndar líka svona til að kóróna allt saman og má nærri geta að kynslóðirnar á undan hafi ekki verið hrifnar af þessum „náttúrulega“ lífsstíl.
Betri heimur
Stefna hinna frjálslyndu hippa ríkir þó enn í dag. Hugtakið á við áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd, frið og ást þar sem rétttrúaðir velja oft náttúrulegar eða lífrænar vörur, en þó í bland við nútímatækni og tísku samtímans.
Svona nútímahippa mætti lýsa á eftirfarandi hátt: Einstaklingur sem hefur tekið upp lífsstíl sem byggir á þeim gildum sem hippahreyfingin frá 1960–70 stóð fyrir, en með nútímalegum áherslum á sjálfbærni, náttúruvernd, persónulegt frelsi og samfélagslega ábyrgð.
Nútímahipparnir eru andsnúnir neysluhyggju og þeirri hugmynd að fólk eigi að lifa í samkeppni við annað fólk og safna eignum. Þeir leggja áherslu á einfaldleika, samstöðu og samhengi við samfélagið. Þetta getur falist í því að þeir séu virkir í samfélagsmálum, styðji réttindi dýra, vinni að samfélagsbreytingum eða taki þátt í verkefnum sem stuðla að bættum lífskjörum fyrir alla. Eða í stuttu máli, lifa í samræmi við náttúruna, breiða út boðskap um einfaldara líf og stuðla að betri heimi.
(Svo verður víst að minnast á að fjölástir eru ofsalega mikið í tísku þessa dagana.)
