Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Margvíslegt hagræði með skiptibeit
Mynd / Lækjartún
Líf og starf 25. nóvember 2021

Margvíslegt hagræði með skiptibeit

Höfundur: smh

Í Lækjartúni í Ásahreppi eru bændurnir byrjaðir á tilraunum í beitarstjórnun, þar sem grundvöllurinn er það sem kallast á ensku regenerative farming, en mætti útleggja sem jarðvegsbætandi landbúnaður. Beitarstjórnin felst í því að hólfa landið niður með færanlegum rafmagnsstrengjum og beita skepnum þétt á afmarkað svæði í sólarhring eða skemur og færa þær síðan í nýtt hólf og loka á eftir þeim, þannig að þær komist ekki aftur á það hólf sem þær voru að yfirgefa.

Þannig er beit og hvíld stýrt með markvissri skiptibeit. Hver skiki er beittur í stuttan tíma og beitilandið fær lengri hvíld til endurvaxtar áður en gripir eru settir þar aftur til beitar. Grundvallarmarkmið aðferðarinnar er að bæta jarðveginn, auka lífríki hans og gera hann eins sjálfbæran og hægt er. Einnig gengur hún út á að vinna með og herma eftir náttúrunni.

Lögmál sléttunnar

Ábúendur í Lækjartúni eru þau Tyrfingur Sveinsson og Hulda Brynjólfs­dóttir og að sögn Huldu gengur hugmyndafræðin á bakvið jarðvegsbætandi landbúnað út á „lögmál sléttunnar“, sem felist í því að risastórar hjarðir af ýmsum tegundum reika um beitilöndin, bíta gras og annan gróður. „Þeim er fylgt eftir af rándýrum sem veiða veik og slösuð dýr sér til matar. Að lifa af fólst í því að halda hópinn þétt saman og færa sig á milli staða. Þúsundum saman fóru þau í hring um svæðið, bitu þétt, tröðkuðu niður, skitu og héldu svo áfram. Vikum eða mánuðum síðar komu þau aftur á það svæði sem þær höfðu verið á. Á þessu byggir þessi aðferð. Við og rafmagnsgirðingin erum rándýrin. Við höldum búpeningnum á ferðinni með því að halda þeim í þéttum hópi og færum þau daglega á nýtt svæði og friðum það sem er búið að beita,“ segir Hulda.

Hún segir að í grundvallaratriðum snúist aðferðin um að nýta gripi til að bæta landið með markvissri beitarstýringu, við vonum að því fylgi minni notkun á tilbúnum áburði og minni vinnu við heyskap. „Með því að sá plöntum sem binda köfnunarefni og vinna þannig áburð fyrir aðrar plöntur, má spara tilbúinn áburð og auka fjölbreytileika og næringarinnihald flórunnar til beitar og búa til ákveðna hringrás sem byggir á því hvernig náttúran vinnur á eðlilegan hátt.“

Margvíslegur ávinningur

Á bænum er aðallega stundaður sauðfjárbúskapur og nautgriparækt og binda þau Tyrfingur og Hulda vonir við að aðferðin muni skila þeim margvíslegum ávinningi, meðal annars talsverðum sparnaði í notkun á tilbúnum áburði. Hulda útskýrir þetta þannig að skepnurnar dreifa áburðinum um leið og þær éta. „Þær fara ekki með hann í sama náttstaðinn aftur og aftur, heldur dreifa honum á beitarsvæðið og þannig nýtist hann sem áburður fyrir næstu sprettu. Traðkið eykur líka nýtingu næringarefna, því sina og aðrar jurtaleifar traðkast niður þannig að ánamaðkar og önnur skordýr ná að melta það. Við þurfum sem sagt ekki að keyra skítinn út á völl, hann er þegar kominn þangað og þar með spörum við olíuna á traktornum við skítkeyrslu,“ segir Hulda. „Þörfin fyrir ormalyf er mun minni þar sem gripirnir eru aldrei að bíta í kringum skítinn sinn. Landið nýtist betur þar sem afkastageta beitarhaganna eykst og hægt er að fjölga gripum með sama landsvæði,“ bætir Tyrfingur við.

Tyrfingur Sveinsson og holdakúahjörðin. Mynd / smh

Þekkt aðferð víða um heim

„Þetta er aðferð sem er orðin mjög þekkt úti um allan heim og til ótal Facebook-síður í mörgum löndum sem fjalla eingöngu um hana og á einhverju vafrinu duttum við inn í þessa hópa og ákváðum að kynna okkur þetta betur,“ segir Hulda og grunar að ýmsir garðeigendur í þéttbýli viti ýmislegt um aðferðafræðina. „Ég sé svo mikið talað um að þekja jarðveg þar sem þeir tala saman á Facebook og eitt af grundvallarreglunum í þessu er að skilja landið aldrei eftir óvarið – að jarðvegurinn sé aldrei óvarinn. Það hefur verið gefið út mikið af fræðsluefni um aðferðina og svo má finna hafsjó af reynslusögum í þessum spjallhópum.“

Beitt þétt í hverju hólfi

Hulda útskýrir að nauðsynlegt sé að beita þétt í beitarhólfunum, þannig að tryggt sé að allar plöntur séu étnar, skít dreift á allt svæðið á náttúrulegan hátt beint úr skepnunum. „Sú beit sem verður eftir er troðinn niður og þannig búinn til jarðvegur fyrir næstu uppskeru, sem er sambland af rotnandi jurtaleifum og búfjáráburði. Þegar skepnurnar eru færðar í næsta hólf fær þetta hólf frið og allar jurtirnar fá jafnlangan tíma og tækifæri til að vaxa. Plöntur sem eru gómsætar til beitar eru nefnilega oftast étnar upp til agna aftur og aftur þegar skepnur hafa óheftan aðgang að þeim, þar til þær hætta að ná endurvexti og hverfa.“ Tyrfingur segir að þær plöntur sem ekki séu bitnar, og ekki traðkaðar niður, skyggi á hinar sem voru bitnar. „Þessar óbitnu ná því forskoti, halda áfram að þroskast og mynda fræ og fjölga sér á kostnað hinna. Það er óheppileg þróun því að plönturnar sem voru bitnar eru eftirsóttari en hinar sem eru óbitnar. Með því að beita nógu þétt nær maður að stýra traðkinu og átinu þannig að allar plöntur fái jöfn tækifæri til endurvaxtar. Þannig stuðlar maður að því að halda bestu beitargrösunum í beitarhögunum.

Til að brynna gripunum á sumrin voru lagðar ofanáliggjandi vatnslagnir í öll beitarhólf með tengistútum á um 100 m millibili. Þannig var hægt að færa brynningardallinn með gripunum á milli daglegra hólfa og tengja inn á vatnsveituna í næsta stút. Vatnslögnin er svo tæmd á haustin fyrir frost,“ segir hann.

Hafa prófað aðferðina á þessu ári

Auk ávinningsins af minni áburðarnotkun og minni vinnu við heyskap, segir Hulda að sparnaður verði einnig í minni vélanotkun og notkun á rúlluplasti. „Það hlýtur að teljast náttúruvænt og koma sterkt inn í þá umræðu um loftslagsbætandi landbúnað sem nú fer hátt eins og allt annað tengt loftslagsmálum,“ segir hún.

Þau Hulda og Tyrfingur telja að þessi aðferð, sem sé víða útbreidd í öðrum löndum, eigi vel heima á Íslandi. „Við erum búin að sannreyna að það er hægt að stýra skepnunum svona og höfum gert það með þessari aðferð í rúmlega eitt ár núna og við sjáum strax ávinning. Til dæmis með minni heyöflun og heygjöf og þannig minni notkun á innfluttum vörum, svo sem áburði, olíu og plasti. Okkur langar að prófa þetta áfram og vita hvernig það reynist hjá okkur og það væri gaman ef fleiri hefðu áhuga á að kynna sér þetta,“ segir Hulda.

„Með því að stýra beitinni yfir sumartímann getur maður átt góða beit inn í haustið og veturinn. Þannig má spara heygjafir og lengja beitartímann. Einnig slepptum við því að slá hluta af túnunum og erum að beita þau fram á vetur í staðinn í stýrðri beit. Það er mun ódýrara að fara daglega eða tvisvar á dag og færa einn beitarstreng en að keyra kostnaðarsömu heyi í gripina,“ segir Tyrfingur.

Girnilegt beitarland á hverjum degi

Þegar Hulda er spurð hvort það að halda marga gripi í fremur litlum beitarhólfum geti orkað tvímælis hvað varðar dýravelferðarsjónarmið, segir hún að þeirra reynsla sýni eiginlega þvert á móti að fyrirkomulagið virðist að ýmsu leyti ákjósanlegt fyrir gripina. „Í beitaratferli húsdýra – sérstaklega ef við horfum á kýr – þá halda þau yfirleitt alltaf hópinn en eru á stærra svæði. Dýrin eru hins vegar alltaf lengur á sama svæðinu og fara stöðugt um það, margéta bestu plönturnar og skíturinn í þeim dreifist á afmarkaðri svæði, en ekki út um allt hólfið. Þeir leita í náttstað á kvöldin, sem traðkast meira út en aðrir staðir og göngustígar myndast í landið þar sem gripirnir halda til beitar, í brynningu eða hvíld.

Með þessari aðferð eru beitarhólfin færð til daglega og stundum oftar. Þau eru alltaf að fá eitthvað nýtt og eru með allt sem þau þurfa innan hólfsins.

Ef við horfum á sauðfé sem er haldið í rafmagnsgirðingum, þá höfum við tekið eftir að ekki líður á löngu þar til það fer að leita á girðinguna og að lokum heldur hún þeim ekki lengur. Það er af því að kindurnar eru orðnar leiðar á því sem þær hafa og langar í nýtt. Þær eru búnar með bestu bitana, skítur úr þeim sjálfum er um allt svæðið og þetta er ekki lengur girnilegt. Þegar við færðum féð – við beittum þeim svona í vor og aftur í haust – þá litu þær ekki á girðingarnar. Við færðum að morgni þegar þær voru nýlega vaknaðar og þær þurftu ekki að bíða lengi eftir að nýr hagi væri í boði. Þar var enginn skítur úr þeim frá gærdeginum og bestu bitarnir í boði fyrir þær og líka það sem þær er ekki eins hrifnar af.

Það er líka óskaplega gaman að vinna svona náið með skepnunum og finna hversu mikið þær temjast. Við vorum með féð í tveimur hópum í vor. Annan færðum við daglega, en hinum var beitt á hefðbundinn hátt. Hópurinn sem var færður daglega kom hlaupandi til mín þegar ég birtist og beið eftir að ég opnaði fyrir þeim, hinn hópurinn hvarf um leið og þær sáu mig nálgast.“

Skjól mikilvægt
Hulda Brynjólfsdóttir. Mynd / smh

Hulda leggur áherslu á, að þegar aðferðinni er beitt þurfi að huga að því að hafa nægilegt skjól. „Erlendis er það skjól fyrir miklum hita, hér er það fyrir rigningum og hrakviðri. En hrakviðrið er mest á veturna, haustin og vorin.

Á veturna eru kindurnar inni eða við opið og fara ekki langt frá húsunum. Hjá kúnum erum við með frostlausa brynningu á veturna – affall rennur í stórt dekk og það frýs ekki í því. Þær verða að komast í þessa brynningu eins og þær þurfa og því er húsaskjólið sem þær hafa staðsett við hliðina á brynningunni. Þær komast því jafnt í skjól og vatn yfir veturinn. Þá er beitarlandið innan göngufæris, en þær fá samt nýtt beitiland á hverjum degi. Sé þeim gefið er þeim gefið við strenginn.

Skjól á öðrum árstíma er þá meira náttúrulegt og það er eitthvað sem við erum að skoða betur. Við erum að planta skjólbeltum og verða þau staðsett þannig að þau veiti skjól fyrir skepnurnar í sem allra flestum aðstæðum á sumrin.

Við erum bjartsýn á að þetta geri gott. Alla vega ætlum við að prófa þetta áfram og sjá hvernig þetta gengur og ef það tekst vel, getum við mögulega orðið sjálfbærari með búskapinn og ekki eins háð heimsmarkaðsverði á aðföngum,“ segir hún að lokum.

Við skurðgröft í  snarbrattri hlíð
Líf og starf 3. febrúar 2023

Við skurðgröft í snarbrattri hlíð

Hólmar Bragi Pálsson, áður búsettur á Minni-Borg í Grímsnesi en nú á Selfossi, v...

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi
Líf og starf 3. febrúar 2023

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi

Nýsköpunarfyrirtækið AMC hlaut nýverið Sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís ...

Ræðismaður skipaður í Moldavíu
Líf og starf 2. febrúar 2023

Ræðismaður skipaður í Moldavíu

Moldavía er landlukt land í Suðaustur-Evrópu og liggur milli Úkraínu og Rúmeníu....

Gerir allt með sóma
Líf og starf 1. febrúar 2023

Gerir allt með sóma

Að þessu sinni tók Bændablaðið til prufu hinn nýja Kia Niro EV. Forveri þessa bí...

Rispuhöfrungar ráku á land í Hrútafjarðarbotni
Líf og starf 1. febrúar 2023

Rispuhöfrungar ráku á land í Hrútafjarðarbotni

Um miðjan júlí síðastliðinn rak á land í botni Hrútafjarðar tvo fremur óvenjuleg...

Smáforrit sem mælir kolefnisbindingu trjáa
Líf og starf 31. janúar 2023

Smáforrit sem mælir kolefnisbindingu trjáa

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Orb vinnur að hugbúnaði sem mælir og áætlar kolefn...

Breyttir tímar
Líf og starf 31. janúar 2023

Breyttir tímar

Dagana 12. og 13. janúar var haldin í Hörpu ráðstefnan „Psychedelics as Medicine...

„Þetta getur varla verið svo flókið“
Líf og starf 27. janúar 2023

„Þetta getur varla verið svo flókið“

„Þetta getur nú ekki verið svo flókið, við hljótum að gera gert þetta.“ Hver hef...