Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Sigurbjartur Ingibergsson mótsstjóri útskýrir reglurnar.
Sigurbjartur Ingibergsson mótsstjóri útskýrir reglurnar.
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Höfundur: Páll Imsland

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fór fram í Breiðfirðingabúð föstudaginn 15. nóvember sl.

Hornafjarðarmanni er afbrigði af spilinu Manna sem var mjög vinsælt meðal Íslendinga á meðan menn stunduðu það enn að spila á spil sér til afþreyingar, afþreyingu sem mikið hefur hnignað á síðustu áratugum. Líklega byrjaði þessi afþreying að láta undan fyrir sjónvarpsáhorfi þegar sjónvarpið breiddist út en hefur örugglega hjaðnað enn hraðar eftir að einstaklingstölvur og snjalltæki komu til sögunnar.

Afbrigðið af Manna sem kallast Hornafjarðarmanni er rakið til séra Eiríks Helgasonar (1892–1954) sem var prestur á Sandfelli í Öræfum og síðan prófastur í Bjarnanesi í Hornafirði. Það var mjög vinsælt í Austur-Skaftafellssýslu og breiddist þaðan út með vertíðarmönnum sem reru frá Hornafirði á 20. öldinni og fleirum og var orðið þekkt um mest allt land áður en halla fór undan fæti fyrir almennri spilamennsku.

Hornafjarðarmanni hefur þó gengið í endurnýjun lífdaga á síðustu áratugum, eftir að eldhuginn Albert Eymundsson á Höfn í Hornafirði efndi til kappmóta í Hornafjarðarmanna. Það byrjaði allt á 100 ára afmæli Hornafjarðar sem verslunarstaðar árið 1997. Nú er keppt í þessu spili á ýmsum vettvangi. Hæst ber þó þrjú kappmót í spilinu. Eitt þeirra er keppnin um Hornafjarðarmeistara í Hornafjarðarmanna. Annað er Íslandsmótið í Hornafjarðarmanna, sem fram fer á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík árlega og er nú nýafstaðið. Hið þriðja er Heimsmeistaramótið í Hornafjarðarmanna, sem jafnan fer fram í tengslum við Humarhátíð á Hornafirði í júlí ár hvert. Fólk kemur víða að til að taka þátt í þessum mannamótum sem einkennast af sérstöku samspili skemmtunar og keppni.

Í Hornafjarðarmanna spila þrír á borði og safna stigum. Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Sá sem í lokin hefur aflað sér flestra stiga hefur unnið. Í keppnum í spilinu er spilað á mörgum borðum og flakka menn á milli númeraðra borða eftir ákveðnum reglum.

Mótsstjóri mannamótsins að þessu sinni var Sigurpáll Ingibergsson frá Fiskhóli á Höfn í Hornafirði. Íslandsmeistari árið 2024 varð Bjarki Elvar Stefánsson, sem er ættaður frá Hofskoti í Öræfum. Í lokasennunni atti hann kappi við hjónin Elínu Guðmundardóttur, sem er Norðfirðingur og Jón Guðmundsson frá Dvergasteini á Höfn. Veglegur farand-verðlaunagripur fylgir titlinum Íslandsmeistari í Hornafjarðarmanna. Hann er sérhannað hornfirskt leirlistaverk eftir Kristbjörgu Guðmundsdóttur leirlistakonu, en hún er af hornfirskum ættum, frá Byggðarholti í Lóni. Það var því sterkur skaftfellskur blær yfir mótinu.

Íslandsmeistari í Hornafjarðarmanna, Bjarki Elvar Stefánsson, fyrir miðju, og hjónin Elín Guðmundardóttir og Jón Guðmundsson sem urðu í 2. og 3. sæti.

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...