“... fátækt fólk er ævinlega hamíngjusamara en þetta svokallaða ríka fólk, sem er í raun og veru ekki til. Því hvað er ríkt fólk? Það er fólk sem hefur mikið í veltunni og á ekki neitt nema áhyggjurnar ef alt væri gert upp, og fer útúr heiminum alveg nákvæmlega eins snautt og hinir, að því undanteknu að það hefir haft meira af búksorgum, minna af sannri lífsgleði.“ (Sjálfstætt fólk).  Ekki er víst að fátækir kotbændur fyrr á öldum tækju undir þessa fleygu setningu Laxness, þó hugsjónin sé falleg, enda lífsbaráttan erfið mörgum.
“... fátækt fólk er ævinlega hamíngjusamara en þetta svokallaða ríka fólk, sem er í raun og veru ekki til. Því hvað er ríkt fólk? Það er fólk sem hefur mikið í veltunni og á ekki neitt nema áhyggjurnar ef alt væri gert upp, og fer útúr heiminum alveg nákvæmlega eins snautt og hinir, að því undanteknu að það hefir haft meira af búksorgum, minna af sannri lífsgleði.“ (Sjálfstætt fólk). Ekki er víst að fátækir kotbændur fyrr á öldum tækju undir þessa fleygu setningu Laxness, þó hugsjónin sé falleg, enda lífsbaráttan erfið mörgum.
Líf og starf 15. september 2021

Listrænn arfur þjóðarinnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Fyrsta listahátíð þjóðarinnar var haldin 19. júlí 1970. Þar var, meðal annarra, í forsvari Manfreð Vilhjálmsson arkitekt sem var ötull talsmaður íslenskrar menningar, en hann hafði gert sér lítið fyrir og bent á að torfbærinn væri á réttmætum stalli sem elsta byggingarlist íslensku þjóðarinnar.

Torfbænum var því gert hátt undir höfði á listasýningunni og sett upp sérleg torfbæjarsýning.

Á hana komu margir mætir menn, áhugamenn byggingalistar, sem amatörar auk erlendra rokkstjarna. Hljómsveitin Led Zeppelin hafði nefnilega verið pöntuð til landsins í tilefni listahátíðar, en meðlimir þeirrar sveitar mættu hnarreistir á torfbæjarsýninguna, nokkrum klukkustundum eftir komu sína til landsins. Þar skoðuðu þeir og fræddust um þetta merkilega fyrirbæri af miklum áhuga, áður en þeir stigu á svið og spiluðu fyrir fullu húsi í Laugardalshöllinni, mánudagskvöldið 20. júlí.

Torfbæir eru nefnilega mjög merkilegir

Þó margir Íslendingar vilji ekki kannast við annað en að þjóðin okkar sé fátæk af listrænum arfi þá sagðist Manfreð aðspurður telja torfbæinn viðeigandi sýningarefni. Hann væri dæmi um elsta arkitektúr og þá hluta af menningu þjóðarinnar, enda byggingarlist skilgreind sem listin að reisa hús eftir vissum reglum.

Ekki voru allir á sama máli og töldu bygginga- eða húsagerðarlist helst hafa hafist þegar bárujárnshúsin komu til sögunnar í byrjun tuttugustu aldarinnar. Svolítið var litið niður á torfbæi enda víðar um álfuna, t.d. í Norður-Evrópu, voru slík híbýli aðallega fyrir fátækari stéttir. Það sem aðgreindi Ísland hins vegar að þessu leyti var að í torfbæjum bjuggu háir jafnt sem lágir, þó það hafi ef til vill ekki þótt fínt, svona út á við.

Svo var það nú að íslenski torfbærinn þótti fremur lélegt húsnæði, saggafullt, kalt og dimmt auk þess sem endurbyggingar var þörf nær árlega á einhvern hátt vegna veðurfarsins sem lamdi dýrðina að utan með öllum kröftum. Sérstaklega á Suðurlandi, en vegna stöðugri veðurskilyrða var ending torfbæja heldur lengri á Norðurlandi. Nú, að auki taldist ekki sérlega eftirsóknarvert að alast upp í þessum húsakynnum þar sem hreinu lofti og hreinlæti yfir höfuð var að miklu leyti ábótavant. Varð raunin að rétt fyrir upphaf tuttugustu aldar var lagt bann á frekari torfhýsabyggingar í Reykjavík. Ellefu hundruð ára torfhúsaöld á Íslandi var þarna senn á enda, þó enn um stund væri það algengasti húsakostur þjóðarinnar.

En rétt skal vera rétt og þar sem húsagerð telst afurð menningar, flokkast bygging torfbæja, menning.

Afsprengi fátæktar og elju

Í fyrra bindi bókarinnar Íslensk byggingararfleifð eftir Hörð Ágústsson kemur fram að ljósmyndir af torfbæjum sem teknar hafa verið á 19. öldinni móta að miklu leyti hugmyndir okkar Íslendinga hvað varðar útlit, en þær sýna að mestu röð bæjarhúsa sem snúa burstum og timburþiljum fram. Hins vegar ef litið er á grunn­teikningar af bæjum frá árunum 1755 og 1813 er húsa­skipan allt önnur. Hörður segir svo í upphafi kaflans um torfbæinn:

„Um miðja 18.öldina er hinn forni gangabær langalgengastur. Hann var í raun húsaþyrping, raðað að mestu samhverft um einskonar samgönguæð, göng sem voru ýmist bein eða krókótt, stutt eða löng. Fram af þeim voru bæjardyrnar sem sneru eina timburþili bæjarhúsana fram á hlað. Að öðru jöfnu lágu húsin hornrétt á göngin og voru samsíða hlaði. Í fremstu röð voru annars vegar skálinn eða svefnhús vinnufólks, einkum karla þegar hér er komið sögu, og stofa hins vegar á betri bæjum eða hús af ýmsu tagi, einkum búr stæðu hvort gegn öðru. Aftast kom svo baðstofan sem lá beggja vegna við enda ganga. Þar var vinnustaður kvenna og afþiljað hjónahús, ýmist í öðrum hvorum enda eða byggt hornrétt á baðstofuna..."

Þetta hljómar allt vel enda skipulagt með tilliti til notagildis líkamshitavæðingar ábúenda þar sem líkamshiti kom í stað ofnvarma, eldhús og búr voru eðlilega nálægt hvort öðru og svo gekk gangur endilangt eftir bænum til að auðvelda aðgengi í þær stofur sem þurfti. Vinnustofur, svefnskála vinnufólks og þar fram eftir götunum. Annars voru mörg dæmi þess að að fólk kaus fremur að vinna, sofa og matast í sama herbergi þó nýtískulegra þætti að hafa það aðskilið. Sumir jafnvel fært sig aftur í þær aðstæður eftir að hafa reynt búsetu á hinn veginn, enda hiti í sameiginlegri baðstofu meiri en við módernískari herbergjaskipan.

Náttúrulegt og rakagefandi?

Ekki bjuggu þó allir við þann kost að geta hringsólað um síendurbyggða bæi. Fara margar sögur af fólki sem kúldraðist í hálfsignum og rökum húsakosti enda sumir að sligast undan lífinu, hvort heldur var andlega eða líkamlega. Þó má líta með aðdáun til þeirra kotbænda sem þjörkuðust áfram og þrjóskuðust við byggingar, einungis með þeim kosti sem var að finna í náttúrunni í kring. Telja má líklegt að nútímafólk búi ekki yfir þeirri elju þó margir séu í hjarta sínu viljugir til að vera hvað náttúrulegastir og sjálfbærnisinnaðastir.

Einn þeirra sem lét sig hafa það að gerast kotbóndi af verstu gerð var söguhetjan Bjartur í Sumarhúsum. Eftirminnilegt er þegar hann bauð konuefni sínu að búa í þvílíkum kumbalda að henni blöskraði. Talið er að fyrirmynd kumbaldans sem skreytti þessa vel þekktu sögu hafi Laxness fundið í torfbænum Sænautaseli, en hann eyddi þar ófáum nóttunum á þriðja áratug 20. aldar. Á Sænautaseli (sem kemur nú mun betur fyrir heldur en lýst er í sögunni) voru ábúendur í heil hundrað ár, en flutt var úr bænum árið 1943.

Tegund torfbæja sú, er kallaðir eru burstabæir, þóttu þá heldur smartari. Þeir urðu vinsælir undir lok 18. aldar og voru oftar en ekki í eigu þeirra efnaðri. Þá var framhúsunum snúið um 90° þannig að gaflinn snéri að hlaðinu og eftir því sem árin liðu var timbri gjarnan smellt á framhliðina.

Áþreifanlegur hluti sögu okkar

Efniviður torfbæja hins vegar, er eins og nafnið gefur til kynna, torf að stærstum hluta – enda torftekja talin til hlunninda hér áður fyrr. Best þótti ef hægt var að skera torf úr mýrum en þá innihélt það hvað síst af leir og sandi. Torfið var svo eðlilega látið þorna áður en hlaðið var úr því, annars var hætta á að það sigi saman og veggir aflöguðust. Torfið var annars mjög einangrandi á meðan það hélst þurrt. Tíðar breytingar á hitastigi, miklir þurrkar eða sól jafnt sem væta og frost gátu farið illa með byggingarefnið og þurfti reglulega að dytta að bæjum. Grind torfbæja var úr þeim við sem til féll en átti þó á hættu að verða fórnarlamb rakaskemmda auk þess sem mikill skortur var á góðu byggingartimbri. Svo fór þetta allt eftir vilja og getu ábúenda hvort og hversu mikið var tjaslað við bæinn.
Í dagblaðinu Þjóðólfi, árið 1863, er því lýst hvað gerði það að verkum, að flikka þurfti oft upp á torfbæi og sagt frá því að Íslendingar séu:

„... alltaf að byggja sama húsið svo að segja árs árlega; eitt árið hefir vatn hlaupið í einhvern vegginn eða gaflaðið eða frostið klofið og sprengt inn, annað árið er þaktróðið orðið ónýtt og fúið svo að þaktorfið liggur inná viðum, og þarf að rífa þakið og leggja nýtt tróð á húsið, fjórða árið brotinn sperrukjálki eða 1-2 langbönd eða mæniás og þarf enn að rífa þakið fyrir þá sök, fimta árið er ytri þekjan rofin og þarf að tyrfa allt húsið að nýu o.s.frv. Þetta er vanalegi gángurinn í húsbyggíngum hér á landi yfir höfuð að tala."

Jákvæði punkturinn við þessar sífelldu lagfæringar var þó sá að breyta mátti og bæta herbergjaskipan árstíðabundið enda var viðhald hluti af árlegum störfum íbúanna sem margir hverjir hafa verið orðnir langþreyttir og oft rakir inn að beini.

Að minnsta kosti þótti fóstru móður minnar, sem lést ríflega hundrað ára gömul, rakinn og vætan hvað verst. Fædd í torfbæ og alin þar upp fyrstu árin gat hún ekki annað en lofsungið komu gúmmístígvéla í byrjun 20. aldar, en slíka byltingu getum við nútímamenn ef til vill gert okkur í hugarlund – þar sem hægt var þá að ösla um baðstofugólfin án þess að vökna í fætur.

Skylt efni: Torfbær | Listahátíð

Smalað í Hrútatungurétt
Líf og starf 16. september 2021

Smalað í Hrútatungurétt

Fyrstu haustréttir landsins fóru fram laugardaginn 4. september og standa nú rét...

Listrænn arfur þjóðarinnar
Líf og starf 15. september 2021

Listrænn arfur þjóðarinnar

Fyrsta listahátíð þjóðarinnar var haldin 19. júlí 1970. Þar var, meðal annarra, ...

Bóndinn á Klauf með allt að 8 tonn af byggi á hektara
Líf og starf 13. september 2021

Bóndinn á Klauf með allt að 8 tonn af byggi á hektara

Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf í Eyjafirði og stjórnar­maður í Bændasamt...

Undirbýr smalamennsku og framboð til setu á Alþingi þó orðinn sé áttræður
Líf og starf 10. september 2021

Undirbýr smalamennsku og framboð til setu á Alþingi þó orðinn sé áttræður

Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp, var með 150 kindur...

Inniheldur CBD sem virkjast í tevatninu
Líf og starf 9. september 2021

Inniheldur CBD sem virkjast í tevatninu

Íslenskt hampte úr innlendri ræktun er nú í fyrsta sinn fáanlegt í íslenskri mat...

Hentar öllum sem áhuga hafa á skapandi sjálfbærni
Líf og starf 8. september 2021

Hentar öllum sem áhuga hafa á skapandi sjálfbærni

Sjálfbærni og sköpun er heiti á námi sem boðið er upp á við Hallormsstaðaskóla. ...

Segist vera sveitatútta en er fædd í borginni, skírð í höfuðið á ömmu sinni og er stolt af því
Líf og starf 7. september 2021

Segist vera sveitatútta en er fædd í borginni, skírð í höfuðið á ömmu sinni og er stolt af því

Úndína Ýr Þorgrímsdóttir, dýra­læknanemi við Kaupmanna­hafnarháskóla, er að gera...

Tilraunaræktun á skordýrum til manneldis eða fóðurframleiðslu
Líf og starf 3. september 2021

Tilraunaræktun á skordýrum til manneldis eða fóðurframleiðslu

Rúna Þrastardóttir hefur starfað í sumar hjá Landbúnaðar­háskóla Íslands að rann...