Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hjónin Ólafur Þröstur Ólafsson og Agnes Sigurðardóttir stofnuðu Kalda eftir að hafa horft á fréttir RÚV eitt kvöld í júlí árið 2005. Mynd tekin 2010.
Hjónin Ólafur Þröstur Ólafsson og Agnes Sigurðardóttir stofnuðu Kalda eftir að hafa horft á fréttir RÚV eitt kvöld í júlí árið 2005. Mynd tekin 2010.
Mynd / H.Kr.
Líf og starf 29. nóvember 2022

Lengi býr að fyrstu gerð

Höfundur: Höskuldur og Stefán

Í síðustu tölublöðum Bændablaðsins hefur saga handverksbrugghúsa á Íslandi verið rakin og heldur sú yfirferð áfram hér. Að þessu sinni er ætlunin að fjalla um Bruggsmiðjuna Kalda, en Kaldi var fyrsti handverksbjórinn á Íslandi sem fór í almenna sölu.

Hinn 20. júlí 2005 kynnti fréttaþulur RÚV, Logi Bergmann, frétt um lítil brugghús í Danmörku, með þeim orðum að á síðastliðnum fimm árum hefðu um þrjátíu ný brugghús sprottið upp víðs vegar um Danmörku og væru í auknum mæli farin að veita Carlsberg-risanum aukna samkeppni. Þetta sakleysislega innslag sem varði í rúma mínútu auk inngangs í fréttatíma RÚV þetta miðvikudagskvöld í júlí velti af stað stærstu breytingum á áfengismarkaði á Íslandi síðan bjórinn var leyfður árið 1989.

Míkróbrugghúsbylgjan hófst formlega þegar Kaldi varð til árið 2006. Mynd/Kaldi

Bylgjan hefst

Agnes Anna Sigurðardóttir sá nefnilega þessa frétt en hún og eiginmaður hennar höfðu skömmu áður selt fiskverkun og útgerð vegna hnémeiðsla sem Ólafur Þröstur Ólafsson hafði orðið fyrir. Eins og sagan var sögð greinarhöfundum einhvern tímann í fyrndinni var staðan sú að hvorugt vildi flytja frá Árskógssandi þar sem þau bjuggu og voru því á höttunum eftir nýjum viðfangsefnum. Eftir að hafa séð fréttina rauk Agnes til, hóaði í karlinn sem var úti við heyskap og kynnti honum hugmyndina. Þarna var ljóslifandi komin hugmyndin fyrir þau að sökkva sér ofan í. Þau bókuðu í flýti farmiða til Danmerkur til að kynna sér þessi brugghús. „The rest is history,“ eins og sagt er.

Nokkrum mánuðum síðar var búið að stofna kennitölu, panta brugggræjur, sannfæra tékkneskan bruggmeistara í fjórða ættlið að nafni David Masa um að koma til Íslands auk þess að reisa um 380 fm hús utan um herlegheitin. Míkróbrugghúsbylgjan var formlega hafin á Íslandi, eins og við þekkjum hana í dag og það er allt út af einni rúmlega mínútu langri frétt á RÚV. Hver segir svo að blaðamenn hafi ekki áhrif?

Hjónin sannfærðu tékkneska bruggmeistarann David Masa um að koma til Íslands í vinnu. Mynd / Kaldi

Kaldaáhrifin

Þó ætla verði að þessi alþjóðlega tískubylgja, smábrugghúsin, hefði hlotið að koma til Íslands fyrr eða síðar veldur sá miklu sem upphafinu veldur. Gaman er frá því að segja að brugghúsið úr fréttinni fyrrnefndu heitir Bryggery Skovlyst og er í um 25 mín. akstursfjarlægð frá miðbæ Kaupmannahafnar. Brugghúsið er enn starfandi en það er raunar brugghús og veitingastaður sem kann að skýra hugmyndir hjónanna um þróun Kalda síðar meir, án þess að hægt sé að fullyrða það hér.

Kaldi varð til og fyrsta bruggunin fór fram þann 22. ágúst 2006. Fyrsta framleiðslan var Ljós-Kaldi en svo fylgdu aðrar tegundir fljótlega á eftir: Dökkur-Kaldi, Norðan- Kaldi og Stinnings-Kaldi. Segja má að Kaldi hafi fljótt náð sterkri stöðu hjá íbúum Norðurlands enda Bruggsmiðjan strax vinsæll áningarstaður fyrir hópa sem vildu kíkja í brugghús, gera sér glaðan dag og smakka bjórinn beint af beljunni (lesist tönkum). Það má reyndar líka með góðum rökum segja að góðærisástandið í íslensku samfélagi hafi hjálpað til, en hærri verðmiði á bjórum Bruggsmiðjunnar stoppaði fáa árin 2006 og 2007.

Bjórinn stóð undir væntingum og náði þeirri fótfestu að Bruggsmiðjan Kaldi hefur í rúman einn og hálfan áratug borið höfuð og herðar yfir hin litlu „sjálfstæðu“ brugghúsin. En áhrifin voru reyndar mun víðtækari en bara á míkróbruggið. Þegar Kaldi kom á markaðinn voru einungis um sex tegundir af jólabjór í sölu, en Íslendingar höfðu ekki endilega haft mikinn áhuga á honum áður ef frá er talið nokkuð magn af Tuborg- jólabjór sem hér var seldur á ári hverju. Kaldi fór fljótlega að brugga Jólabjór og frá árinu 2010, þegar um níu tegundir jólabjórs voru í boði, til ársins í ár þar sem að 99 tegundir af jólabjór eru í boði, hefur Jólakaldi verið einn sá alvinsælasti frá smærri brugghúsunum. Sem dæmi má nefna að hann var í efsta sæti í smakkpanel Fágunar (Félags áhugafólks um gerjun) sem Fréttatíminn stóð fyrir árið 2011 með einkunnina 90% og skaut þar frumraun Borgar Brugghúss, Stekkjastaur, sem var í öðru sæti með 87%, ref fyrir rass. Vilja margir meina að sú sprengja sem varð á jólabjóramarkaðinum á öðrum áratug 21. aldarinnar hafi að miklu leyti verið tilkomin vegna þess sem síðar hafa verið kölluð Kaldaáhrifin.

Bjórböð og fálkaorða

Kaldi hefur vaxið jafnt og þétt á þessum rúmlega 16 árum sem liðin eru frá stofnuninni. Það sem einkennir reksturinn er að Agnes og Ólafur hafa alla tíð hugsað það sem fjölskyldufyrirtæki, en sonur hjónanna, Sigurður Bragi, er núna yfirbruggmeistari Kalda og fjölskyldan saman, börn og tengdabörn reka herlegheitin.

En Kaldi er í dag meira en bara brugghús. Árið 2017 opnaði fyrirtækið bjórböð, KaldaSpa ásamt veitingastað. Bjórböðin voru alltaf hugmynd um framþróun sem þau gengu með en þar er hægt að baða sig í svokölluðum ungbjór og drekka alvöru bjór af krana við hlið baðkarsins fyrir þá sem vilja njóta að utan og innan. Fyrirmyndin er vafalítið tékknesk en víðar í Evrópu þekkjast bjórböð sem þessi og mælast einstaklega vel fyrir. Eftir því sem greinarhöfundar hafa heyrt og prófað sjálfir stendur upplifunin í Kaldaböðunum erlendum fyrirmyndum síst að baki. Þá hefur veitingastaðurinn hlotið góðar viðtökur og nú síðast var verið að opna Hótel Kalda, sem hóf starfsemi formlega 1. september 2022.

Kaldi hefur vaxið jafnt og þétt á þessum rúmlega 16 árum sem liðin eru frá stofnuninni og er í dag meira en bara brugghús. Árið 2017 opnaði fyrirtækið
t.d. bjórböð. Mynd / Kaldi

Kaldi hefur á þessum árum vaxið úr því að vera 160 þúsund lítra brugghús í 380 fm skemmu á Árskógssandi yfir í að vera brugghús sem getur framleitt rúmlega 700 þúsund lítra, Bjórspa og veitingastaður og nú síðast hótel. Og engan veginn virðist fjölskyldan vera hætt. Þess má einnig geta að á nýársdag 2019 var Agnes sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til atvinnumála í heimabyggð.  Greinarhöfundar vilja hins vegar meina að Agnes hafi fyrst og fremst fengið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til bjórheima.

Það er því sannanlega hægt að segja um þetta ævintýri að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Stuttleg og að því er virtist fremur lítilvæg skemmtifrétt á miðvikudagskvöldi á RÚV kom ekki bara þessu brugghúsi af stað heldur var árangur Kalda þannig að handverksbjórabylgjan spratt upp í kjölfarið. Reyndar kom fram annað brugghús á svipuðum tíma, Ölvísholt, sem einnig er starfandi enn þann dag í dag, en það er m.a. efni næstu greinar.

Skylt efni: handverksbrugghús | bjór

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...