Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Tvær fjölskyldur reka kartöflubúið á Þórustöðum saman, í efri röð eru frá vinstri: Tinna Ösp Viðarsdóttir, Árný Sól Jónsdóttir, Jón Kristjánsson, Fannar Máni Jónsson, Helgi Örlygsson, Díana Rós Þrastardóttir, Jón Helgi Helgason, Hekla Lind Jónsdóttir. Í neðri röðinni eru þeir Gabríel Máni Jónsson, Aron Máni Jónsson, Birkir Logi Jónsson og Óliver Kári Jónsson.
Tvær fjölskyldur reka kartöflubúið á Þórustöðum saman, í efri röð eru frá vinstri: Tinna Ösp Viðarsdóttir, Árný Sól Jónsdóttir, Jón Kristjánsson, Fannar Máni Jónsson, Helgi Örlygsson, Díana Rós Þrastardóttir, Jón Helgi Helgason, Hekla Lind Jónsdóttir. Í neðri röðinni eru þeir Gabríel Máni Jónsson, Aron Máni Jónsson, Birkir Logi Jónsson og Óliver Kári Jónsson.
Mynd / MÞÞ
Líf og starf 20. ágúst 2021

Komin á góðan stað í ræktuninni en alltaf hægt að gera betur

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Við erum komin á góðan stað í okkar ræktun en alltaf er hægt að gera betur,“ segir Jón Kristjánsson sem ásamt konu sinni, Tinnu Ösp Viðarsdóttur, og hjónunum Jóni Helga Helgasyni og Díönu Rós Þrastardóttur, reka Þórustaða kartöflur ehf. í landi Þórustaða 2 í Eyjafjarðarsveit.

Kartöflurækt á sér langa sögu á Þórustöðum, en Helgi Örlygsson, faðir Jóns Helga, hóf að rækta kartöflur þar árið 1977. Hann var alla tíð í vinnu á Akureyri og sinnti ræktuninni meðfram sínu starfi. Hann segir ánægjulegt að sjá verk sitt vaxa og dafna í höndum unga fólksins sem hefur mikinn metnað og hefur gæði vörunnar ávallt í öndvegi.

„Mér finnst alveg meiri háttar að einhver hafi verið til í að taka við keflinu, kannski hafa þau ekki vitað hvað þetta er mikil vinna,“ segir Helgi. Það stenst þó ekki, fjölskyldan vann saman í kartöfluræktinni við að setja niður og þau verk sem sinna þurfti þess á milli. Jón Helgi, sonur hans, var þar engin undantekning og besti vinur hans frá barnæsku, Jón Kristjánsson, kom í Þórustaði öll haust til að aðstoða við upptökustörfin. Tinna Ösp bættist svo í hópinn eftir að þau kynntust og sömuleiðis Díana Rós, kona Jóns Helga.

Á liðnu vori settu þau niður í um 32 hektara lands og vita auðvitað ekki strax hver uppskera verður. Vorið var kalt og sett var niður frekar seint. Langvarandi þurrkar og mikil hlýindi hafa verið um miðbik sumars og enn á eftir að koma í ljós hvernig ágústmánuður verður.
Samhent og höfum gaman af þessu

Öll búa þau á Þórustöðum, á sitthvorum bænum nr. 2 og 7, eiga myndarlegan barnahóp, sjö börn alls, Jón og Tinna fjögur og Díana og Jón Helgi þrjú. Börnin virðast hafa gaman af starfi foreldranna og taka að sér eitt og eitt viðvik eftir aldri og getu. „Það er ótrúlega gaman hvað samstarfið gengur vel, við erum samhent og höfum gaman af þessu,“ segir Díana Rós. Búið ber einn starfsmann í fullu starfi og er það Jón Kristjánsson sem sinnir því. Jón Helgi starfar hjá Vegagerðinni, Díana Rós er í skóla og Tinna Ösp í fæðingarorlofi. Öll hlaupa þau í hvaða verk sem er þegar þarf.

Löng hefð er fyrir kartöflurækt á Þórustöðum. Þegar Helgi hóf sína starfsemi árið 1977 hafði hlé verið gert í ræktuninni um 10 ára skeið, eða frá árinu 1967. Mörg ár á undan voru þar ræktaðar kartöflur. Jón Helgi og Jón eru vinir og skólafélagar frá fornu fari, en þeir ásamt konum sínum keyptu meirihluta rekstursins af Helga fyrir fáum árum.

Feta sig eins og kostur er að lífrænni ræktun

Þau eru sammála um markmiðin með ræktuninni, að framleiða gæðavöru fyrir íslenska neytendur og segja að viðtökur við Þórustaða kartöflum séu góðar. Fyrstu kartöflurnar fóru á markað fyrir um hálfum mánuði og seldist samstundis allt sem í boði var. „Við leggjum höfuðáherslu á gæðin, fólk á að vera öruggt um að fá góða vöru frá okkur og við leggjum mikið á okkur til að svo verði,“ segja þau.
„Við erum að feta okkur eins nálægt lífrænni ræktun eins og kostur er t.d. með tækjabúnaði og lágmörkun á tilbúnum áburði, en vottunarferlið er strangt og markaðurinn ekki tilbúinn að okkar mati. Lífræn ræktun er töluvert dýrari og væri helsti möguleikinn að fá vottun á hluta ræktunarinnar,“ segir Jón Helgi.

Alltaf happdrætti hver uppskeran verður

Á liðnu vori settu þau niður í um 32 hektara lands og vita auðvitað ekki strax hver uppskera verður. Vorið var kalt og sett var niður frekar seint. Langvarandi þurrkar og mikil hlýindi hafa verið um miðbik sumars og enn á eftir að koma í ljós hvernig ágústmánuður verður. „Það er alltaf happdrætti varðandi það hver uppskeran verður,“ segir Helgi og talar af reynslu. Í fyrra var sett niður í um 26 hektara lands og uppskeran nam 370 tonnum. Það ár var uppskera í lélegri kantinum. Árið þar á undan var hún mun betri, eða um 440 tonn í færri hekturum. „Þetta fer allt eftir veðri og vindum og maður veit aldrei nákvæmlega hvað kemur upp,“ segir Jón.

Stafrænn flokkari sem myndar allar kartöflur í bak og fyrir

Vinnslan er til húsa í gömlu fjósi sem búið er að endurinnrétta, kaffistofa var útbúin í mjólkurhúsinu. Kartöflur eru svo geymdar í tveimur kæligeymslum og kjallara og ef húsnæði er að springa grípa þau til þess að bæta við gámum úti á hlaði. „Það væri allt í lagi stundum að hafa meira húsnæði til umráða en oftast dugar þetta til,“ segja þau. Undanfarin misseri hafa þau fjárfest í nýjum tækjum, m.a. 4 rása niðursetningarvél og nýverið var keyptur stafrænn flokkari, mikill gæðagripur og mörgum kostum búinn.

Allar kartöflur fara um Newtec flokkarann sem tekur yfir 40 myndir af hverri og einni kartöflu og flokkar þær í sundur niður í 8 flokka alls, bæði eftir stærð og gæðum. „Þegar flokkarinn hefur lokið sér af förum við yfir allt aftur til að vera alveg viss um að ekkert hafa komist fram hjá vökulu auga hans. Með því viljum við tryggja að okkar kaupendur fái góða vöru,“ segir Tinna Ösp. Flokkarinn sparar mikla vinnu líkt og önnur tæki sem hægt er að nota í vinnslunni.

Kröfur þeirra um gæði vörunnar birtast líka í því að þau leggja mikið upp úr því að kaupa stofnútsæði svo útsæðið sé ávallt ferskt og nýtt. Þá leita þau sér þekkingar þar sem hana er að finna og fá til sín ráðgjafa þegar kostur er sem gefa góð ráð. Þá eru þau mikið í skiptirækt og til að mynda var meirihluti þess sem sett var niður í síðastliðið vor í land nágrannabæja og ábúendur þeirra nýta þá tún á Þórustöðum á móti.

Flokkarinn sparar mikla vinnu líkt og önnur tæki sem hægt er að nota í vinnslunni.

Tilraun með lágkolvetnakartöflur

Kappkostað er að koma til móts við vilja neytenda. Sem dæmi nefna þau að nú sé smælki mjög vinsælt, fólk grípi í miklum mæli með sér þannig poka úr verslunum og skiptir þar örugglega máli að það er fljótsoðið og bragðgott. Nú í haust eru þau einnig að reyna fyrir sér með framleiðslu á kartöflum með lágt kolvetnainnihald og gera það í samstarfi við MATÍS sem mun fara yfir málið og staðfesta hvort um lágkolvetnakartöflur er að ræða. „Fólk á sínar uppáhaldskartöflur, en er líka alveg tilbúið að prófa eitthvað nýtt. Við vonum að þetta muni takast hjá okkur. Við tökum þessar kartöflur upp í haust og þá kemur í ljóst hvort þær standist væntingar, við erum spennt að sjá hvernig til tekst,“ segir Jón Helgi.

Þórustaða kartöflur eru m.a. seldar í verslunum Samkaupa, Hagkaup Akureyri og einnig í gegnum Matarstíg Helga magra sem starfandi er í Eyjafjarðarsveit.

Þær kartöflur pantar hver og einn á vefsíðu matarstígsins (matarstigur.is). „Það er gaman að sjá hvað mikill vöxtur er þar, áhugi fólks á að panta sín matvæli beint frá býli er að aukast,“ segja þau. 

Yngstu börnin á bænum, þau Árný Sól og Fannar Máni, í fanginu á Jóni.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...