Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kaffinefndin góða á Dalvík, þær stöllur: Hjördís Jónsdóttir, Ásta Einarsdóttir, Elín Guðjónsdóttir og Súsanna Friðbjörnsdóttir fremst.
Kaffinefndin góða á Dalvík, þær stöllur: Hjördís Jónsdóttir, Ásta Einarsdóttir, Elín Guðjónsdóttir og Súsanna Friðbjörnsdóttir fremst.
Líf og starf 14. febrúar 2023

Í fullu fjöri eftir sextugt

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Við fáum nú kveðjur landshorna á milli auk upplýsinga frá nokkrum þeirra félaga eldri borgara sem er að finna á landsvísu.

Alls eru félögin fimmtíu og fimm talsins og samkvæmt Landssambandi eldri borgara er starfsemi þeirra allra afar virk. Formenn félaganna er kveðjuna senda hér á eftir eiga það sameiginlegt að benda á heimasíður félaga sinna og oft á síður á miðlinum Facebook, en þar má finna helstu uppákomur, dagskrár, myndasöfn og annað. Einnig hvetja allir formenn þá sem áhuga hafa að líta inn og vita hvort ekki sé eitthvað sem gæti vakið áhuga þeirra. Félagstengsl og félagslíf eru jú öllum holl.

Með kveðju ...

Ásdís Illugadóttir, formaður í Mývatnssveitinni segir okkur að félagsmenn hittist aðallega yfir veturinn og sæki þá samverustundir og íþróttatíma sem eru í boði í sveitinni. Skipulagðar séu skemmtiferðir innan- lands auk leikhúsferða og gjarnan er farið út að borða í leiðinni. Er stefnan einmitt tekin á Hof nú í febrúar að sjá söngleikinn CHICAGO auk málsverðar. Einnig er áætluð 3 daga skemmtiferð á S-Austurland í júní. Viðburðir sem þessir eru vel niðurgreiddir af félaginu, en tekjustofn þess eru árgjöld og árlegur styrkur frá sveitarfèlaginu. Engin sundlaug er hins vegar lengur starfrækt á staðnum og fólk afar óánægt með það. 40 kílómetrar eru í næstu laug og yfir heiði að fara sem aftrar eldra fólki eðlilega að sækja þá heilsubót, því miður.

Frá Raufarhöfn berast þær fréttir að félagið hafi hlotið styrkveitingu úr uppbyggingarsjóði SSNE en samkvæmt formanninum, henni Kristjönu Bergsdóttur, sótti félagið um styrk til uppsetningar útilistaverks Helga Ólafssonar rafvirkja, Drekanum. Gnæfir verkið nú tvo metra upp í loftið, staðsett við Óskarsstöðina á Raufarhöfn. Að auki hlaust styrkur til uppsetningar myndaskilta til glöggvunar, þar sem áður voru síldarsöltunarplön og er þar með sögu síldarára Raufarhafnar viðhaldið. Er Félag eldri borgara afar virkt, en fyrir um áratug síðan tóku aldursforsetar sig til og stofnuðu það – með það fyrir augum að njóta návista hver annars og vinna að verkefnum. Eru félagsmenn 34 talsins og sami kjarni uppistaða félagsins í dag og við stofnun þess.

Listamaðurinn Helgi Ólafsson með verki sínu Drekinn á Raufarhöfn.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir, formaður í Hveragerði vill koma á framfæri að skráningar til þátttöku á námskeiðum vormisseris séu í fullum gangi fyrir áhugasama. Bæði fréttabréf og stundatafla hafi verið send út nýverið og á vefsíðunni www.hvera.net er allt að finna sem gæti orðið núverandi eða væntanlegum meðlimum til gagns og gamans.

Valdemar Guðmundsson, formaður Félags eldri borgara í Strandasýslu telst til að félagar staðarins séu 91 talsins. Sex þó búsettir utan sýslunnar. Boðið er upp á fjölþætta starfsemi. Á sunnudögum er komið saman í flugstöðinni sem er í eigu sveitarfélagsins og hýsir m.a. auk samkoma eldri borgara, bæði bridds- og Lionsklúbbinn. Þar er spjallað, spilað og drukkið kaffi með fjölbreyttu meðlæti sem félagar koma sjálfir með. Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga er gengið í íþróttasalnum, boccia á miðvikudögum í sama sal, en á föstudögum er leiðbeinandi með félögum í salnum og tækjasal. Á miðvikudögum er að auki farið á sjúkrahúsið, tveir og tveir saman, spjallað og lesið fyrir vistmenn.

Formaðurinn Ásgerður Pálsdóttir í Húnaþingi segir félagið leggja áherslu á ferðalög og heilsueflingu, hið síðarnefnda í samvinnu við sveitarfélagið – boðið er upp á stólaleikfimi, vatnsleikfimi og stólajóga vikulega yfir veturinn. Styttri ferðir félagsmanna, dagsferðir, leikhúsferðir og kvöldverðir, eru jafnan, en árlega er farin lengri ferð. Síðasta sumar var farið um norðanverða Vestfirði en nú í sumar verða þeir heimsóttir að sunnanverðu. Gestir komi í heimsókn til að fræða félagsmenn og skemmta, þá er vikuleg „söngstund“ þar sem fólk kemur saman og syngur af hjartans lyst við undirleik snillinga staðarins og er það mikil sálubót og hugarléttir mörgum að geta hist og sameinast í söng. Þá hefur félagið stutt Landssamband eldri borgara í baráttu fyrir bættum kjörum,
og einnig málarekstur Gráa hersins.

Helga Mattína Björnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Dalvíkurbyggð leyfir okkur að heyra frá starfinu: „Við eigum okkar eigið félagsheimili sem heitir Mímisbrunnur og er opið hús á mánudögum. Við höfum tekið þátt í verkefni LEB og ÍSÍ sem kallast Bjartur lífsstíll, en alla mánudaga kemur sjúkraþjálfari til okkar með stólaleikfimi og teygjur sem er mjög vel sótt. Á þriðjudögum er kóræfing hjá Mímiskórnum okkar og á miðvikudögum er spiluð vist sem er sérdeilis vinsæl. Á fimmtudögum er opið hús, annan hvorn fimmtudag fáum við hjúkrunarfræðing frá heilsugæslunni okkar sem mælir blóðþrýsting, blóðsykur og gefur ráð. Hinn fimmtudaginn er létt bingó

Síðasta föstudag hvers mánaðar er Sokkabandið, vinsæll prjónaklúbbur – aðrir föstudagar breytilegir eftir tilefninu. Alla daga er kaffi á könnunni og eitthvað gott með því. Svo er haustgleði, aðventuhátíð, þorrablót og vorgleði. Alltaf er farið tvær til fjórar skemmti- og leikhúsferðir á hverju ári og félagatal er um 120.“

Laufey Jóhannsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Garðabæ, segir okkur frá því að félagið er með samning við Garðabæ og er hreyfing ofarlega á lista. Samningar eru við Janus- Heilsueflingu og öflugt og skipulagt starf er í vatnsleikfimi, zúmba gold, leikfimi, boccia, qi-gong, stólajóga, línudansi, dansleikfimi og félagsvist auk samlesturs í fornsögunum.
Haldnar eru skemmtanir á borð við þorrablót, fræðsluerindi og dansiböll – en félagið státar af vel virkum Facebook- og Instagram-síðum auk heimasíðunnar www.febg.is.

Hugarleikfimin í forgrunni hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Myndina tók Einar S. Einarsson.

Félagsmenn eldri borgara í Eyjafjarðarsveit eru 78 talsins og fræðir formaðurinn, Hulda M. Jónsdóttir okkur um að hist sé, yfir vetrartímann á hverjum þriðjudegi, spilað bridge, prjónað, saumað út, heklað, skorið sé út og postulín málað. Stólaleikfimi í boði hjá sjúkraþjálfara og gott kaffi sem kostar 1.500 kr fyrir manninn. Miðvikudaga hafi þau aðgang að íþróttahúsi Hrafnagilsskóla, fari þar í boccia og stundi ýmsar íþróttaæfingar. Á föstudögum í vetur hefur sjúkraþjálfari leiðbeint þeim í íþróttahúsinu varðandi styrkjandi æfingar svo og mælt gripstyrkinn.

Sami sjúkraþjálfari sér um vatnsleikfimi alla mánudaga frá september til nóvemberloka og fyrirhugað er að því verði haldið áfram út febrúar, enda vel sótt af bæði konum og körlum. Á sumrin eru vikulegar gönguferðir á svæðinu og félagar farið í hópferðir til Akureyrar á söfn, kaffihús eða annað áhugavert á veturna auk jólahlaðborðs í lok nóvember.

Að auki sé farið í tvær ferðir árlega, önnur yfir 2-3 daga, þá ferðast í aðra landshluta og svo dagsferð síðla sumar. Nýverið var haldið tölvu- og tæknilæsinámskeið sem Símey á Akureyri stóð fyrir. Meðal annars var kennsla á notkun apps/smáforrita eins og t.d. Easy Park - svo nú geta allir í Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit lagt bílnum sínum án nokkurra vandkvæða á Akureyri.

Það er yndislegt að sóla sig í sundlauginni í góðum félagsskap félags eldri borgara. Frá formanni FEB Eyjafjarðar.

Í Rangárvallasýslunni er allt í fullu fjöri og mikið að gera á þriðju- og miðvikudögum, þá er handverk á fullu. Jón Ragnar Björnsson formaður segir okkur að gott sé að líta á Facebook-síðuna svo og vefsíðuna þeirra - febrang.net, þar sé ýmislegt að finna, m.a. fundargerðir sem upplýsa mikið það sem er í gangi. Alls er skráður 131 stofnfélagi en í janúarlok árið 1993 komu saman í Hlíðarenda á Hvolsvelli nokkrir áhugamenn um málefni eldri borgara, frá Hellu, Hvolsvelli og nágrannasveitum að frumkvæði Ólafs Ólafssonar.

Á þessum fundi var samþykkt að boða til stofnfundar Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu og má með sanni segja að þar hafi félagsmenn verið ansi ötulir og hressir síðan.

Frá Vestmannaeyjum ritar okkur hann Gísli Valtýsson, fyrir hönd formannsins Þórs Vilhjálmssonar. Félag eldri borgara í Vestmannaeyjum var stofnað í upphafi árs 1998 og er því 35 ára gamalt. Félagið hefur aðstöðu í húsi sem heitir Kvika, þar er tæplega 450 fermetra aðstaða fyrir félagsstarfið, sem Vestmannaeyjabær leggur félaginu til. Félagar í Félagi eldri borgara í Eyjum eru um 330 talsins. Það kallar á breytt lífsmynstur að verða eldri borgari, hætta á vinnumarkaði eftir áratuga störf. Sumum finnst eins og það séu alltaf sunnudagar. En lífið heldur auðvitað áfram en á breyttum forsendum. Hjá mörgum verða barnabörnin stærri hluti af tilverunni eftir starfslok. Ýmsar tómstundir sem áður var ekki tími til að sinna fá aukið vægi. Sumir eru vel undir starfslokin búnir, aðrir ekki eins og gengur. Þetta er því ekki einsleitur hópur, heldur ótrúlega litríkur, flottur, og orkumikill hópur og margir enn í fullu fjöri og tilbúnir í ný verkefni. Fólk leggst ekki sjálfkrafa í kör við það að mæta ekki lengur til vinnu að morgni; síður en svo. Þá er einmitt tíminn til að lifa og njóta, og gott að hafa fastan lið í tilverunni eins og t.d. Félag eldri borgara, þar sem maður er mannsins gaman og fjölbreytt félagsstarf í boði.

Hann er flottur og vígalegur línudanshópurinn frá Vestmannaeyjum.

Meðan Covid-ið gekk yfir heimsbyggðina markaði sú veira mjög allt félagsstarf okkar sem annarra. En nú er það vesen að mestu liðið hjá og félagstarfið því komið í fast form. Félagsstarf okkar eldri borgara í Eyjum er ágætlega líflegt. Haustfagnaður í upphafi vetrar og vorfagnaður í vetrarlok marka upphaf og endi hvers starfsárs.

Vikulega eru haldnar spilavistir í húsnæði félagsins í Kviku, sönghópar, bæði karla og kvenna æfa þar einnig vikulega. Árlegt þorrablót er hluti af félagsstarfinu. - Að venju er þar margt um manninn. Hvert sumar og hvert haust hefur verið farið í ferðalag, ýmist innanlands eða utanlands. Alla virka daga hittist hópur félagsfólks í Kviku og spilar minigolf, eða svokallað pútt. Einn dag í viku hverri er svokallað handverk og hittingur með leiðsögn við handverkið en hittingurinn stjórnar sér sjálfur. Annan hvern mánudag yfir vetrartímann eru ýmsar uppákomur í Kviku á vegum félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar, þar sem dægurmálin eru á dagskrá, fyrirlestrar, fróðleikur og gaman. Þá er félagsfólki boðið upp á vikulega leikfimi í Íþróttahúsinu undir stjórn íþróttakennara. Þótt hefðbundið félagsstarf sé í pásu á sumrin, er þá margt sér til gamans gert undir heitinu „Út í sumarið“.

Það er staðreynd að virk þátttaka í félagsstarfi lífgar upp á daginn, það er líka staðreynd að virk þátttaka í félagsstarfi getur stuðlað að betri andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Það er því full ástæða til að hvetja, ekki síst eldri borgara, að nýta sér það félagsstarf sem þeim stendur til boða.

Svala Halldórsdóttir
Frá Selfossi: Svala Halldórsdóttir

Fædd á Norðfirði, lengst af búsett á Akureyri og því aðfluttur Selfyssingur. Svala starfaði á heilsugæslustöðinni á Selfossi fyrst um sinn en steinhætti að
vinna um leið og hún náði 67 ára aldri.

„Ég átti góða vinkonu, fjórum árum eldri,“ segir Svala, „sem var komin svolítið inn í málin svona hjá þeim sem komnir eru á aldur og ég naut góðs af. Þetta kemur ekki til manns sjálfkrafa og fólk verður bara að drífa sig og kynna sér þá starfsemi sem er í boði. Ég þekki ekki annað en öllum sé rosalega vel tekið. Við höfum reyndar mismunandi áhugamál, hún Erla vinkona er á kafi í að spila á meðan ég er það ekki, en hef frekar verið dugleg að fara í sund og svoleiðis. Maður verður að bera sig eftir þessu sjálfur, eftir því hverju maður hefur áhuga á.“

Svala talar um aldursfordóma, að þeir sem ganga í félag eldri borgara mætti stundum ætla að hefðu annan fótinn í gröfinni. Hún minnist móður sinnar og móðursystur sem veltu fyrir sér að leggja land undir fót til Kanaríeyja með eldri borgurunum, þá sjálfar um áttrætt. Málið var útkljáð þegar móðursystirin þverneitaði að fara með „gamla fólkinu“.

„Mín reynsla er sú,“ heldur Svala ákveðin áfram, „að það er ofboðslega gaman að fara í ferðir með „eldri borgunum“, þá jafnöldrum og eldri. Siggi maðurinn minn, sem er aðeins yngri en ég, hefur til dæmis aldeilis notið góðs af að fara með mér – nú er ég í söguklúbb, bæði fornsögum og því sem við köllum öndvegishóp. Siggi fór meðal annars með mér til Orkneyja, en við ferðumst gjarnan þangað sem sögusviðið er í lestrinum – og svo fórum ég og vinkona mín til Færeyja síðastliðið haust – þá einnig í hópi eldri borgara.“

Svala bendir á að félagsskapurinn í Félagi eldri borgara á Selfossi sé bráðskemmtilegur. „Það er hægt að taka fyrstu skrefin með því einfaldlega að mæta og fá sér kaffi hérna á fimmtudögum á opnu húsi,“ segir hún og hlær. „Á þriðjudögum er spilað ... En svo er ekkert hægt að miða við mig, ég hef svo mikið að gera, er í sundleikfimi tvisvar í viku, mætt klukkan sex, labba með vinkonu minni fimm daga í viku ef veður leyfir, sögu- hópunum tveimur – nú erum við t.d. að lesa glæpasögu eftir Ragnar Jónasson sem gerist á Siglufirði og því er áætluð ferð þangað í vor.

Nýja íþróttahúsið á Selfossi býður svo upp á aðstöðu tvisvar í viku – þar er stúlka sem leiðbeinir með tækin, auk þess sem hægt er að ganga þar innandyra í leiðinlegu veðri. Kórastarf, pútt ... það er alveg heil dagskrá á vefsíðunni allavega.

Félagsskapur og tengsl er alveg nauðsynlegt finnst mér og það er bara að bera sig eftir þessu. Númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Svala hlæjandi og mælir sterklega með að fólk drífi sig af stað. „Þetta er rosalega skemmtilegt og Siggi minn hefur til dæmis óstjórnlega gaman af því að koma með okkur gamla fólkinu ...bráðungur maðurinn.“

Svanhildur Sanný Pálsdóttir

Frá Snæfellsbæ: Svanhildur Sanný Pálsdóttir

Svanhildur Pálsdóttir, 74 ára, er ung og í fullu fjöri að eigin mati.
„Ég var móttökuritari heilsugæslustöðvar Snæfellsbæjar í 47 ár, varð svo sextug (eldri borgari – úff!) og fannst það bara fáránlegt," segir Sanný. „Verandi í 100% vinnu að fá bréf þar sem mér var boðið að koma og kynna mér starfsemi eldri borgara á svæðinu.

Fyrsta hugsunin var, nei, þetta er alls ekki fyrir mig, þetta er bara fyrir hina! Svo bréfið fór nú strax í ruslið. Auðvitað kom að því að ég varð ellilífeyrisþegi og þá varð ég alveg skelfingu lostin! Er ég virkilega komin á þennan stað í lífinu !?! (Ég ... sem er alveg eins og ég hef alltaf verið!) Skömmu síðar, sjötíu ára, hætti ég að vinna og þá var mér nú allri lokið,“ segir Sanný hlæjandi.

„Það varð mér til lífs að Jóhanna Gunnarsdóttir, svilkona mín, hvatti mig til að koma og fá mér kaffi niðri á Klifi, samkomuhúsinu ... með eldri borgurunum. Það var tekið svo afskaplega vel á móti mér, ég boðin alveg hjartanlega velkomin. Ég á henni bestu þakkir fyrir að hafa hvatt mig, þarna eru allir svo jákvæðir og glaðir að ég má helst ekki missa af neinu sem boðið er upp á. Dagskráin er margbreytileg, bæði boccia, handverk, crossfit, sundleikfimi, ferðir og ýmislegt annað, auk þess sem alltaf er hægt að mæta bara til að fá sér kaffi og spjalla, sem er alveg yndislegt.“

Á stefnuskránni er svo að flytjast í 500 fm samkomuhús ætlað undir starfsemi eldri borgaranna. Miðvikudagarnir á Klifi verði þó áfram enda afar notalegt, handavinnan og spil. Hjúkrunarfræðingur er mannskapnum innan handar, afar mikið og gott utanumhald, enda hvetur Sanný alla þá sem áhuga hafa á að koma og kynna sér málið.

„Einhverjir á mínum aldri hafa þó ekki tekið á sig rögg og fengið sér kaffi, sitja frekar heima, ef til vill hræddir um að vera ekki velkomnir – en ég segi það, maður verður bara að byrja og fara og fá sér kaffisopa. Hér eru allir velkomnir og tekið á móti fólki með bros á vör. Ég ætlaði nú svosum ekki að mæta neitt, fannst ég ekki eiga heima í félagi eldri borgara – ég væri
ekki orðin gömul! En þetta snýst ekkert um það. Við erum jafnaldrar hérna og öll góðir félagar í félagi jafnaldra. Það eru svo mikil forréttindi að vera komin á þennan stað og njóta þess að vera til. Einnig eru þeir velkomnir sem eru öryrkjar – við erum alltaf að
gera eitthvað skemmtilegt.

Ég segi núna; nú er ekkert að því að eldast, það eru svo sannarlega forréttindi sem ber að þakka. Bestu kveðjur til allra jafnaldra!“

Skylt efni: Félag eldri borgara

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...