Hvað skal lesa í sumar?
Í tilefni sumars skal bent á tvær bækur úr ólíkum áttum sem eru þess virði að hafa með sér í fríið hvort sem ætlunin er að ferðast um álfur og lönd eða hanga heima í ró og næði. Fátt er nefnilega varasamara en að koma ólesinn til vinnu aftur og hafa ekki frá neinu að segja nema kannski því að hafa legið á sólarströnd, gengið upp á fjall eða keyrt á milli borga og bæja í útlöndum. Auðvitað kann fólk að rata inn á forvitnileg söfn en fátt kemur þó í stað þess að lesa góða bók. Og skal þá byrjað á því að nefna ævisögu um einn af meisturum síðustu aldar.
Piet Mondrian. A Life er viðamikil ævisaga mannsins sem átti stóran þátt í að þróa abstrakt geometríu eða stangflatarlist, eins og hún hefur verið nefnd á íslensku, í byrjun síðustu aldar. Hans Janssen er höfundur bókarinnar en hann lést ári áður en hún kom út í enskri þýðingu 2022. Janssen var einn af helstu sérfræðingum heims í Mondrian og hafði einnig skrifað bókina Piet Mondrian: The Man Who Changed Everything og sömuleiðis bók um De Stijlhópinn sem Mondrian tilheyrði, The Story of De Stijl. Janssen var um árabil sýningarstjóri nútímalista hjá Gemeentemuseum Den Haag í Hollandi, heimalandi Mondrians.
Bókin er byggð á gríðarmikilli rannsóknarvinnu þar sem meðal annars koma við sögu áður óþekkt bréf, greinar og skjalaefni sem fræðafólk hefur hingað til ekki skoðað. Ritið varpar enda skýru ljósi á þróun listar og fagurfræði Mondrians um leið og ævi hans er rakin nákvæmlega allt frá því hann var námsmaður í Amsterdam til mótunaráranna eftir fyrra stríð í París og þar til hann dvaldi í London og New York frá 1938 til dauðadags. Bókin sýnir ekki síst fram á það hvað Mondrian átti stóran þátt í því að móta strangflatarlistina og raunar þá módernísku list sem þróaðist fram eftir öldinni.
Á sama tíma og Mondrian var að leggja grunn að abstraktlist í París var íslenskur sveitadrengur úr Vopnafirðinum að skrifa sig inn í íslenska, danska og já, evrópska bókmenntasögu. Gunnar Gunnarsson skrifaði raunar sína eigin ævisögu í Fjallkirkjunni fyrir um hundrað árum . Verkið kom út í fimm bindum árin 1923 til 1928 en þar rekur hann tilurðarsögu skálds, Ugga Greipssonar, sem að sönnu er saga Gunnars sjálfs þótt hann hafi ætíð haldið því fram að um væri að ræða skáldskap fyrst og fremst. Sagan er skrifuð sem endurminningar Ugga sem elst upp við ágæt efni á Austurlandi í bændasamfélagi aldamótanna 1900. Hann flytst búferlum ásamt foreldrum sínum, unir hag sínum vel uns móðir hans deyr af barnsförum og hann eignast stjúpmóður. Hann tekur að yrkja fullur söknuðar og einsetur sér að verða skáld, siglir utan til Danmerkur og hefur nám við Lýðháskóla, lifir þar lengst af við sult og seyru og miðar hægt á leið sinni til skáldskapar en við lok bókar vinnur hann sinn fyrsta rithöfundasigur og kvænist danskri konu.
Hér er sérstaklega mælt með sumarlestri á fyrsta bindinu, Leik að stráum eins og hún heitir í íslenskri þýðingu Halldórs Laxness sem kom út árið 1941. Bókin lýsir æskuárum í austfirskri sveit. Óhætt er að segja að þetta er eitt af meistaraverkum norrænna bókmennta á tuttugustu öld.
