Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bátar í Grundarfjarðarhöfn árið 2012.
Bátar í Grundarfjarðarhöfn árið 2012.
Mynd / Guðjón Einarsson.
Líf og starf 4. nóvember 2022

Gríðarleg fækkun skipa

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Fiskiskipum og bátum með aflahlutdeild, sem gefur rétt til úthlutunar á kvóta, hefur fækkað gríðarlega síðustu tvo áratugi. Ástæðan er aðallega hagræðing og sameining aflaheimilda. Einnig hafa stærri og öflugri skip og bátar leyst önnur afkastaminni skip af hólmi. Mikill fjöldi kvótalausra báta er hins vegar gerður út á leigukvóta að einhverju marki.

Í upphafi kvótaársins 2001/2002 fengu 1.461 skip og bátar úthlutað aflamarki (kvóta) á grundvelli aflahlutdeildar. Í upphafi fisk­veiðiársins 2022/2023 fengu hins vegar 396 bátar úthlutað aflamarki. Hér er um verulega fækkun skipa að ræða, eða um 73%. Þessar tölur er að finna í gögnum á vef Fiskistofu.
Rétt er að geta þess að heildar­úthlutun aflamarks í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002 er ekki langt frá því sem var úthlutað í haust í þorskígildum talið þótt einhver munur sé á tonnatali í einstökum tegundum.

Úthlutun kvóta skiptist á nokkra útgerðarflokka, þ.e. skuttogara, skip með aflamark, smábáta með aflamark og krókaaflamarksbáta. Hér á eftir verður meðal annars rakin þróun fjölda skipa í hverjum útgerðarflokki.

Fjöldi kvótalausra báta með veiðileyfi

Áður en lengra er haldið er rétt að ítreka að samantektin um þróun á fjölda skipa og báta í kvótakerfinu byggist á skipum sem fá kvóta úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda.

Þótt aðeins rétt innan við 400 skip og bátar hafi fengið úthlutað kvóta í byrjun yfirstandandi fiskveiðiárs eru engu að síður í flotanum um 1.200 skip og bátar með veiðileyfi. Ekkert er því til fyrirstöðu að fá veiðileyfi þótt skip hafi ekki aflahlutdeild. Kvótalaus skip geta leigt til sín kvóta eða veitt samkvæmt sérleyfum og sérúthlutunum ýmiss konar.

Það eru reyndar mun fleiri skip og bátar sem leigja til sín kvóta í einhverjum mæli en þau sem fá úthlutað kvóta, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu.

Ef krókaaflamarkið er tekið sem dæmi þá hafa allir krókabátar svonefnt krókaaflamarksveiðileyfi en gera má ráð fyrir því að aðeins um þriðjungur þeirra ráði yfir hlutdeildum sem skapar þeim rétt til að fá úthlutað kvóta.

Skuttogarar – breytt hlutverk

Skuttogurum sem fá úthlutað kvóta hefur fækkað úr 92 togurum á tímabilinu niður í um það bil 40 skip. Ýmislegt skýrir þessa fækkun fyrir utan almenna sameiningu aflaheimilda. Í upphafi tímabilsins voru til dæmis gerðir út nokkrir togarar sem höfðu takmarkaðar aflaheimildir og þeir heltust smám saman úr lestinni. Í lok síðustu aldar voru allmargir frystitogarar gerðir út en þróunin hefur orðið sú að sjófrysting hefur dregist saman á kostnað vinnslu í landi. Þá má nefna að allmargir skuttogarar voru gerðir út á rækju hér áður fyrr en rækjuveiðar nú eru aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Um tíma var þónokkur endurnýjun í togbátum sem að hluta til tóku við hlutverki skuttogara.

Skip með aflamark – einyrkjum fækkar

Skip með aflamark er fjölbreyttur flokkur. Hér er um að ræða togbáta, línubáta, netabáta, dragnótabáta og síðast en ekki síst uppsjávarskip. Í upphafi tímabilsins taldi þessi útgerðarflokkur 311 skip og báta sem fengu úthlutun, en þeir eru nú í kringum 95.

Skip í þessum útgerðarflokki voru mikið gerð út af einyrkjum eða fjölskylduútgerðum. Við kynslóðaskipti hefur útgerðin gjarnan verið seld. Kaupendur eru oftast stórútgerðir sem geta bætt auknum aflaheimildum á skip sem þær eiga fyrir.

Árið 2002 lönduðu svo dæmi sé tekið rúmleg 40 uppsjávarskip loðnuafla en í ár lönduðu 22 skip loðnu. Stærri útgerðir sem reka vinnslu á uppsjávarfiski í landi hafa keypt til sín kvóta á sama tíma og ný og afkastameiri uppsjávarskip hafa komið til landsins. Að vísu hefur loðnukvóti dregist saman en makríll hefur komið þar á móti að vissu marki.

Smábátar með aflamark – kvótinn keyptur upp

Smábátaútgerðin var lengi vel utan kvótakerfisins. Snemma á tíunda áratug síðustu aldar runnu smábátar af ákveðinni stærð, þ.e. bátar sem stunduðu netaveiðar, inn í aflamarkskerfið. Fengu þessir bátar nafnið smábátar með aflamark.

Í upphafi voru smábátar með aflamark 1.040 að tölu. Þeir voru komnir niður í 467 fiskveiðiárið 2001/2002 en eru nú í kringum 44 sem fá úthlutun. Þessi útgerðarflokkur hefur því nánast þurrkast út.

Stærri útgerðum var og er heimilt að kaupa varanlegan kvóta (aflahlutdeild) af smábátum með aflamark. Smábátaeigendur hafa séð sér hag í því að selja kvótann, enda hafa margir þeirra haft lítinn kvóta sem stóð vart undir útgerð til lengri tíma.

Krókaaflamarkið – færri og stærri bátar

Árið 2001 var krókaaflamarkið tekið upp. Þá fengu smábátar, sem áður voru í svonefndu þorskaflahámarki, aflahlutdeild sem bundin var við ákveðnar fisktegundir og aðeins mátti veiða með krókum, einkum var veitt með línu en einnig handfærum. Viðskipti með kvóta eru frjáls í krókaflamarkinu, bæði sala varanlegs kvóta (aflahlutdeildar) og leiga innan ársins. Hins vegar má ekki selja kvóta til báta í aflamarkskerfinu. Þannig átti að slá skjaldborg um krókabáta og smábátaútgerðina.

Við úthlutun aflaheimilda í upphafi fiskveiðársins 2001/2002 fékk 591 bátur úthlutað krókaaflamarki á grundvelli hlutdeildar. Í upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs voru krókaaflamarksbátarnir 217 sem fengu úthlutun.

Nokkur samþjöppun varð í krókaaflamarkinu þegar í upphafi því smábátaútgerðir sem ráku einnig fiskvinnslu í landi nýttu sér þá möguleika sem kerfið bauð upp á. Sameining aflaheimilda jókst enn frekar þegar leyft var að stækka smábáta. Í upphafi var hámarksstærð krókabáta 6 brúttótonn, ári eftir að krókaaflamarkið kom voru mörkin færð upp í 15 brúttótonn og loks í 30 brúttótonn árið 2013. Stærri bátar kalla á meiri aflaheimildir til að þeir hafi verkefni allt árið.

Því var slegið upp í fréttum sem heimsmeti þegar einn smábátur náði að veiða um 1.000 tonn árið 2004. Nú á tímum veiða stærstu smábátarnir mun meira. Árið 2021 fengu fjórir bátar meira en 2.000 tonna afla hver, samkvæmt samantekt á vefnum aflafrettir.is. Aflahæsti báturinn var með tæp 2.500 tonn.

Stærstu smábátarnir sem veiða mest eru nú fæstir gerðir út af einstaklingum heldur af félögum með landvinnslu sem hafa sprottið upp í krókaaflamarkinu en einnig hefur stórútgerðin haslað sér þar völl í síauknum mæli síðustu árin með kaupum á bátum með kvóta og útgerð þeirra. Trillukarlinn er ekki lengur allt í öllu í útgerð smábáta í krókaaflamarkinu en það er önnur saga.

Sóknardagabátar – horfið stjórnkerfi

Þriðja stjórnkerfið fyrir smábáta í byrjun þessarar aldar var svonefnt sóknardagakerfi. Bátar í því kerfi máttu veiða á handfæri í ákveðinn fjölda daga á sumri. Tekin voru frá tiltekin tonn sem voru eyrnarmerkt dagabátum en í raun var ekkert þak á dagsafla þeirra né heildarafla.

Gefin voru út 219 veiðileyfi fyrir dagabáta haustið 2001 en bátarnir voru í kringum 300 næstu tvö árin. Dagabátarnir veiddu ávallt mun meira en gert var ráð fyrir og stjórnvöld ákváðu því að setja þá inn í krókaaflamarkið árið 2004. Við það fjölgaði krókaaflamarksbátum tímabundið. Kvótinn sem sóknardagabátarnir fengu var yfirleitt svo lítill að langflestir seldu sinn hlut. Þróunin hélt því áfram og eftir þrjú ár voru krókaaflamarksbátar færri en þeir voru fyrir breytingarnar.

Strandveiðar – nýtt kerfi fyrir handfæri

Á árinu 2009 var tekið upp nýtt kerfi fyrir handfærabáta, svonefndar strandveiðar sem fram fara yfir sumartímann. Hér gefst ekki tóm til að lýsa strandveiðum nákvæmlega. Strax á fyrsta ári fóru 554 bátar á strandveiðar. Flestir voru strandveiðibátar 761 árið 2012 en í ár héldu 712 bátar til strandveiða.

Fæstir strandveiðibátanna eru eingöngu á strandveiðum, aðeins 136 bátar í ár. Bátar með veiðileyfi í krókaaflamarki eða aflamarki – hvort sem það eru bátar sem fá úthlutað kvóta eða leigja eingöngu kvóta til sín – hafa heimild til að skrá sig út úr sínu kerfi yfir sumarið og sinna eingöngu strandveiðum.

Fjölmargir bátar sem hafa króka­ aflamarksveiðileyfi og þónokkrir smábátar með aflamarksveiðileyfi hafa nýtt sér þennan möguleika og veiða í kvótakerfinu haust og vetur en í strandveiðikerfinu yfir sumarið.

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...