Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mæðgurnar Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum, og dóttir hennar, Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, nemandi í Tónlistarskóla Kópavogs, spiluðu nokkur lög við hátíðarathöfnina.
Mæðgurnar Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum, og dóttir hennar, Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, nemandi í Tónlistarskóla Kópavogs, spiluðu nokkur lög við hátíðarathöfnina.
Mynd / MHH
Líf og starf 29. apríl 2016

Grasagarður Reykjavíkur og Lystigarðurinn á Akureyri hlutu Garðyrkjuverðlaunin 2016

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Að venju var opið hús í Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta. 
 
Þúsundir gesta heimsóttu skólann þennan dag og nutu þess að sjá gróðurinn og kaupa sér grænmeti á staðnum. Hápunktur dagsins var afhending garðyrkjuverðlaunanna 2016, auk umhverfisverðlauna Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss. 
 
Verknámsstaður garðyrkjunnar
 
Grasagarður Reykjavíkur fékk verðlaun fyrir að vera verknámsstaður garðyrkjunnar 2016. Garðurinn var stofnaður árið 1961 þegar Reykjavíkurborg var gefið safn 175 íslenskra jurta til varðveislu. Garðurinn var í þá daga um 700 m2 en er í dag tæplega 50.000 m2 (tæpir 5 hektarar). Grasagarðurinn er safn lifandi plantna og hefur það hlutverk að varðveita plöntutegundir og efla skilning á mikilvægi gróðurs með fræðslu og rannsóknum. Safngripir garðsins eru nú um 5000. Starfsmenn Grasagarðsins eru sjö talsins, flestir garðyrkjumenntaðir en auk þeirra koma að umhirðu garðsins sumarstarfsmenn og fjöldi sjálfboðaliða. Í gegnum tíðina hefur Grasagarðurinn tekið í verknám fjölda garðyrkjunema sem hafa fengið að glíma við fjölbreytt ræktunarverkefni í spennandi umhverfi. Í kaupbæti hafa þessir nemar fengið yfirgripsmikla þekkingu á þeim plöntutegundum sem hægt er að rækta við íslenskar aðstæður og búa þeir svo sannarlega að þeirri þekkingu þegar kemur að framtíðarstörfum í þágu garðyrkjunnar. „Við þjálfun garðyrkjunema hefur Grasagarðurinn sýnt mikla fagmennsku og ábyrgð og er það skólanum því sönn ánægja að veita Grasagarði Reykjavíkur viðurkenningu sem verknámsstaður garðyrkjunnar árið 2016“, segir m.a. í umsögn skólans.
 
Heiðursverðlaun garðyrkjunnar
 
Að þessu sinni hlaut Björgvin Steindórsson, skrúðgarðyrkjumeistari og forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar, heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2016. Björgvin Steindórsson er fæddur á jóladag árið 1954 á Akureyri. Hann varð stúdent frá MA 1974 og ákvað svo að ganga í háskóla en uppgötvaði að hann hafði ekki áhuga á því að stunda þægilega innivinnu ævina á enda. Hann dreif sig því í skrúðgarðyrkjunám Garðyrkjuskóla ríkisins og lauk því árið 1982 og varð skrúðgarðyrkjumeistari árið 1988. Árið 2005 lauk hann svo diplómanámi í garðyrkjutækni frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Björgvin hefur unnið við garðyrkjustörf hjá Akureyrarbæ nær alla sína starfsævi, fyrst sem verkstjóri hjá garðyrkjudeild bæjarins en síðar sem umsjónarmaður og verkstjóri hjá Lystigarði Akureyrar, eða allt fram til ársins 1997 þegar hann tók við sem forstöðumaður garðsins. Hefur hann gegnt því starfi æ síðan. Um 12 ára skeið rak Björgvin einnig eigin skrúðgarðyrkjuþjónustu á Akureyri þar sem hann teiknaði, skipulagði og sá um framkvæmdir á lóðum.
 
„Björgvin hefur ásamt starfsfólki sínu átt sinn þátt í að koma Lystigarði Akureyrar á kortið sem einu helsta aðdráttarafli bæjarins. Hann hefur haft fagmennsku að leiðarljósi í sínu ævistarfi en jafnframt notið þeirra forréttinda að fá að starfa við aðaláhugamál sitt, garðyrkju. Að sögn fjölskyldu hans hafa sumarfríin verið vel nýtt við frætínslu og garðaskoðun víða um heim og nú er röðin komin að þjálfun barnabarnanna sem vita fátt skemmtilegra en að hjálpa afa við garðyrkjustörfin“, segir m.a. í umsögn skólans um heiðursverðlaunahafa garðyrkjunnar.
 
Umhverfisverðlaun Hveragerðis og Ölfuss
 
Forseti Íslands afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar á sumardaginn fyrsta en þau hlaut fyrirtækið Fengur í Hveragerði en fyrirtækið er brautryðjandi á sviði endurvinnslu timburs en þarna eru vörubretti tætt niður, og þurrkuð við gufu úr iðrum jarðar. Afurðin fer síðan víða sem undirburður fyrir húsdýr.
Nýlega hóf Fengur að safna rúllu­plasti frá bænum sem einnig er tætt niður, þurrkað og selt úr landi sem hráefni til frekari vinnslu. Hefur framleiðsla þeirra víða getið sér gott orð og þá ekki síst fyrir það að þarna er verið að breyta efnum, sem að öðrum kosti yrðu urðuð, í verðmætt hráefni og vöru. 
 
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra afhenti umhverfisverðlaun Sveitarfélagsins Ölfuss en þau hlaut Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri sem þakklæti til Landgræðslunnar 2016 fyrir ótrúlegan árangur í uppgræðslu í Ölfusi. Landgræðsla í Þorlákshöfn á sér langa sögu en gífurlegt sandmagn hefur í aldanna rás borist upp úr fjörunni austan við byggðina og einnig úr Ölfusárósi. Þaðan hefur sandurinn borist í átt að Selvogsheiði og allt vestur í Selvog. Auðug fiskimið eru úti fyrir ströndinni og mönnum varð snemma ljóst að ekki væri hægt að tryggja búsetu og matvælavinnslu í Þorlákshöfn nema ráðist yrði í umfangsmiklar landgræðsluaðgerðir til að stöðva sandfokið. Árið 1935 var mesta sandsvæðið girt af og friðað fyrir búfjárbeit. Girðingin var 22 km að lengd og friðaði um 7.800 ha. lands. Allt frá þeim tíma hefur verið unnið að landgræðslu við Þorlákshöfn og þó að margt hafi unnist á síðustu áratugum er ljóst að seint verður séð fram úr þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til að tryggja varanlegan árangur uppgræðslustarfsins.

7 myndir:

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...