Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fimm ár voru fyrr í sumar frá því Bjórböðin voru opnuð á Árskógssandi.
Fimm ár voru fyrr í sumar frá því Bjórböðin voru opnuð á Árskógssandi.
Mynd / Bruggsmiðjan
Líf og starf 22. september 2022

Fyrstu fimm herbergin á Hótel Kalda opnuð í ágúst

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Þetta er heilmikið ævintýri sem við erum nú að leggja út í,“ segir Agnes Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi.

Í byrjun apríl síðastliðnum keypti félagið fiskvinnsluhús sem staðið hafði ónotað í 23 ár og hófst handa við að gera það upp sem hótel. Það fær nafnið Hótel Kaldi. Bruggsmiðjan byggði upp Bjórböðin sem fögnuðu 5 ára afmæli í byrjun sumars, en gestir þar hafa mikið spurt um gistingu í tengslum við heimsókn sína þangað.

„Það má segja að með þessum framkvæmdum, að kaupa gamalt fiskvinnsluhús og breyta því í hótel, séum við að bregðast við fjölda fyrirspurna frá okkar gestum. Bjórböðin hafa átt vinsældum að fagna líkt og aðrir baðstaðir en fólk vill gjarnan gera meira úr ferðinni og auðvitað keyrir enginn heim sem hefur fengið sér bjór í baðinu,“ segir Agnes.

Agnes Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar, við heitu pottana

Agnes og Ólafur Þröstur Ólafsson stofnuðu Bruggsmiðjuna sem var í hópi fyrstu handverksbrugghúsa landsins, fyrsta framleiðslan kom á markað í lok september árið 2006. Starfsemin hefur vaxið og dafnað síðan, búið að byggja við, bæta við tækjum og auka framleiðslugetuna umtalsvert. Fyrir fimm árum opnuðu þau Bjórböðin til viðbótar við starfsemi brugghússins og segir Agnes að vel hafi gengið í heildina, þó því sé ekki að leyna að heimsfaraldur af völdum kórónuveirunnar hafi sett mark sitt á reksturinn.

Góðar viðtökur

„Faraldurinn hefur gert okkur grikk eins og öðrum rekstri, við þurftum að hafa lokað langtímum saman þau ár sem hann stóð yfir, enda starfsemin skilgreind í flokki baðstaða. En ég kvarta ekki, það gekk mjög vel í fyrrasumar, Íslendingar voru mikið á ferðinni hér um slóðir.

Þeir elta gjarnan veðrið sem er skiljanlegt og það var gott norðan heiða bróðurpart sumars,“ segir hún. Bjórböðin eru annars konar en hefðbundnir baðstaðir, tveir og tveir deila stóru baðkari og hafa aðgang að framleiðsluveigum fyrirtækisins á meðan þeir slaka á í baðinu. Alls er hægt að taka 50 böð á dag þannig að gestir eru um 100 talsins þegar fullt er. „Almennt er ég mjög ánægð með hvernig til hefur tekist, viðtökur hafa verið góðar og við erum komin inn á kortið hjá bæði íbúum hér um slóðir og ferðamönnum,“ segir hún.

Keyptu húsið í apríl og hófust handa

Agnes segir að allt frá því Bjórböðin voru opnuð sumarið 2017, hafi gestir spurt mikið um gistingu í tengslum við heimsókn sína. Fátt hafi verið í boði á nærsvæðinu. „Þessi hugmynd hefur verið að gerjast hjá okkur nokkuð lengi, við höfum verið að skoða möguleika og hvernig best væri að koma til móts við þessar óskir,“ segir Agnes. Fiskvinnsluhúsið, sem er steinsnar frá Bruggsmiðjunni og Bjórböðunum, var í eina tíð með umfangsmikla starfsemi á Árskógssandi, en vinnsla hefur ekki verið þar í ríflega tvo áratugi. „Þetta hús var beint fyrir framan okkur, ónotað. Þannig að það lá einhvern veginn beint við að kaupa það, setja í nýjan búning og bjóða þar upp á gistiaðstöðu,“ segir Agnes.

2000 fermetra hús

Húsið var keypt í byrjun apríl og strax hafist handa. Iðnaðarmenn hafa verið þar að störfum í vor og sumar við breytingar og fjölskyldan leggur hönd á plóg og tekur til hendinni á kvöldin eftir vinnudaginn.

„Það er allt á fleygiferð og mikið að gera, en þetta er mjög skemmtilegt og við hlökkum til að taka þessa viðbót við okkar starfsemi í notkun,“ segir Agnes. Til að byrja með verða fimm herbergi í boði fyrir tíu gesti. „Við höldum svo áfram verkinu, tökum eitt og eitt skref í einu, það hefur alltaf reynst okkur vel að fara á okkar hraða í þetta.“

Húsið er allt um 2.000 fermetrar að stærð, þar af eru um 800 fermetrar á efri hæð þess þar sem hótelstarfsemin verður. Auk herbergjanna verður matsalur á hæðinni, kaffihús og anddyri. Um 50 manna salur er þar einnig og verður hann leigður til viðburða af ýmsu tagi. Agnes segir að stefnan sé að klára verkefnið á tveimur árum.

Góð viðbót við ferðaþjónustuna

„Ég er bjartsýn fyrir hönd ferðaþjónustunnar hér á svæðinu, það hefur orðið stöðug aukning undanfarin ár og útlitið gott,“ segir Agnes. Þar vísar hún m.a. til þess að Niceair muni fljúga ferðalöngum inn á svæðið á næstu árum auk þess sem fleiri flugfélög fljúgi beint eða ætli sér að hefja áætlunarflug til Akureyrar. „Staðsetning okkar er mjög góð, við erum í miðjum Eyjafirði, stutt að fara bæði til Akureyrar og Siglufjarðar sem eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Við höfum mikla trú á því að hótelrekstur hér verði góð viðbót við ferðaþjónustuna á svæðinu.“

Skylt efni: Bjórböðin

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....