Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Erlendur kátur við plaggið um starfsleyfið til grænkera ostagerðar, hið fyrsta sem veitt er hér á landi.
Erlendur kátur við plaggið um starfsleyfið til grænkera ostagerðar, hið fyrsta sem veitt er hér á landi.
Mynd / smh
Líf og starf 21. apríl 2023

Fyrsta íslenska grænkeraostagerðin

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrsta starfsleyfið sem veitt hefur verið til grænkera ostagerðar fékk nýsköpunarfyrirtækið Lifefood í október á síðasta ári.

Erlendur Eiríksson og Fjóla Einarsdóttir hafa alið með sér draum um veganostaframleiðslu í Hveragerði frá 2018 og nú er komið að því að markaðssetja vörurnar. Hér er Erlendur með kartarellur.

Aðdragandinn nær aftur til ársins 2018 þegar þróunarvinna hófst, en fyrirtækið var stofnað af tvennum vinahjónum, þeim Erlendi Eiríkssyni, Fjólu Einarsdóttur, Ingólfi Þór Tómassyni og Ernu Rán Arndísardóttur, árið 2019 í þeim tilgangi að framleiða hágæða osta úr plöntuafurðum. Nú er komið að mikilvægum tímamótum í sögu fyrirtækisins því fyrstu ostarnir eru væntanlegir í tilteknar sérverslanir á næstu vikum.

Erlendur ostagerðarmaður er með sitt tilraunaeldhús í Austurmörk í Hveragerði, en þar hafa þau einnig komið sér upp vinnslurými – og hyggjast stækka framleiðslugetuna umtalsvert á næstu misserum. „Hér er allur tækjabúnaður ýmist notaður og keyptur ódýrt eða við fengið að hirða upp einhvers staðar sem átti að henda,“ segir Erlendur blaðamanni sem tók hús á þeim Fjólu í tilefni tímamótanna.

„Þegar við höfum frétt af hlutum og tækjum sem átti að farga þá höfum við beðið um að fá að hirða þá, lagað aðeins til og svo hafa þeir staðið sig vel hér í okkar aðstöðu.

Þetta er mjög í anda þeirrar sjálfbærnihugsjónar sem við leggjum upp með í okkar framleiðslu, auk þess erum við tilbúin til að gera næstum hvað sem er til að koma draumnum af stað,“ segir Erlendur.

Tímafrek þróunarvinna

Vörulína Lifefood er tilbúin, framleiðslan safnast upp í kælunum í Austurmörk og stutt er í að ostarnir fari í verslanir.

Vörutegundirnar grundvallast á tveimur ostagerðargrunnum, þar sem lagt er upp með að nota íslenskt hráefni að mestu leyti. „Annar byggir á aðferð sem ég lærði í Þýskalandi með kasjúhnetum og kókosmjólk, en við höfum lagað að íslenskum aðstæðum og notum kartöflur og haframjólk. Svo höfum við verið að prófa að nota í þessum grunni rófur og blómkál – sem kemur mjög skemmtilega út. Hinn grunnurinn er fyrir mjúka osta, þar sem kasjúhnetumjólk er undirstaðan. Síðan notum við auðvitað gerla fyrir þroskunarferli ostanna. Út úr þessum tveimur grunnum koma svo 11 vörutegundir – mjúkir og harðir ostar sem henta fyrir flest tilefni,“ segir Erlendur sem er einnig með reynslu af ostagerð frá Skyrgerðinni í Hveragerði.

Kartöfluostarnir verða sérstaða grænkeraostanna, en þá hefur Erlendur verið lengi með í þróun. Íslenskar kartöflur eru þar grunnhráefni og eins ætlar hann að nota eigin haframjólk – sem verður gerð frá grunni – í framleiðsluna. Hann segir að það hafi farið óhemjumikill tími í að þróa eigin osta enda geti tíminn einn skorið úr um ágæti hverrar vörutegundar. Þau ætli líka að skapa sér sérstöðu með því að vera með eins „hreina vöru“ og mögulegt er – með fáum innihaldsefnum.

Gufuinntak í vinnslunni

Sem fyrr segir er lagt upp með markmið um sjálfbærni í framleiðslunni og liður í því er að að nýta hveragufuna sem er aðgengileg í Austurmörkinni. „Við erum með gufuinntak fyrir allt húsið. Öll starfsemin verður því knúin með þeirri náttúrulegu orku; ofn og annar tækjabúnaður,“ segir Fjóla.

Hún segir að næstu vikur og mánuðir verði áhugaverður tími hjá þeim. „Við ætlum að markaðssetja vörurnar okkar á næstunni og svo erum við komin í samtal við mögulega fjárfesta til að skala framleiðsluna upp. Það er ekki alveg ljóst í hvaða verslunum ostarnir verða seldir, en þar koma nokkrar sérverslanir til greina og skýrist fljótlega.“

Vörulína veganostanna

Kartöfluostar

Rauðisterki: Þurrkuð jarðarber og rósablöð úr Hveragerði með smá eldpipar til að gefa þessu kikk.

Villisveppir og truffluolía: Eins og er þá notum við blandaða franska villisveppi og hvíta truffluolíu (jarðsveppaolíu) til að ná fram djúpu og jarðnesku bragði.

Túnfífill og graslaukur: Þar sem túnfífillinn var notaður sem lækningajurt hér áður fyrr var engin spurning um að þróa einn góðan fallegan sumarost með þessari jurt sem allir kannast við. Svo stráum við heimaræktuðum graslauk yfir.

Hreinn og beinn: Þessi er grunnurinn að jarðeplaostunum. Honum svipar til hefðbundins brauðosts og er frábært á samlokur, í salöt og á heita rétti.

Reyktur og Svartur: Reyktsvört lífræn paprika frá Sólheimum hulin með ávaxtaösku. Spennandi og falleg viðbót á ostabakka.

Ferskostar: Smyrjanlegir og mjúkir ostar úr lífrænum kasjúhnetum með ostagerlum og blöndu af íslenskum kryddjurtum og grænmeti.

Blandað Sólheimagrænmeti: Ferskasta blandaða árstíðarbundna grænmetið sem hægt er að finna og ræktað á lífrænan hátt.

Fjallagrös og kúmen: Íslensk handtínd fjallagrös og kúmen. Bæði gott og stútfullt af heilnæmri næringu íslenskrar náttúru.

Tómatar og basil pestó: Hálfþurrkaðir lífrænir tómatar frá vinum okkar í Friðheimum ásamt ferskum basil, hvítlauk, næringargeri og kasjúhnetubitum.

Svartur hvítlaukur: Gerjaður svartur hvítlaukur og svartur pipar. Dimmur og smá spæsí.

Mjúkir ostar

Camembert/BrieStyle – Mjúkur og hvítur: Hvítmygluostur sem gerður er eftir hefbundnum aðferðum ostagerðar en við notum okkar eigin kasjúhnetumjólk í stað þess að nota hefðbundna dýramjólk í framleiðsluna.

Gráða/Blámygluostur – Blár og bragðmikill: Þessi ostur tekur hvað lengstan tíma að búa til og ná fram besta bragðinu og fallegum bláum línum. Þess virði að bíða eftir! Blámygluostur sem gerður er eftir hefbundnum aðferðum ostagerðar en við notum okkar eigin kasjúhnetumjólk í stað þess að nota hefðbundna dýramjólk í framleiðsluna. Til að hækka fituinnihaldið í ostinum notum við lífræna kókosmjólk en kókosbragðið hverfur í þroskaferlinu og ostabragðið tekur yfir á dásam- legan hátt.

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...