Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Geirfuglinn, Pinguinus impennis, var stór, um 70 sentímetra hár og fimm kílóa þungur, ófleygur fugl af stofni svartfugla
Geirfuglinn, Pinguinus impennis, var stór, um 70 sentímetra hár og fimm kílóa þungur, ófleygur fugl af stofni svartfugla
Líf og starf 26. október 2020

Fuglinn sem gat ekki flogið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Dr. Gísli Pálsson mannfræðingur sendi nýlega frá sér bók sem fjallar um geirfuglinn eða Fuglinn sem gat ekki flogið. Fuglinn þótti góður til matar og varð aldauða með drápi síðustu tveggja fuglanna við Eldey árið 1844. Gísli segir mikla gerjun í mannfræði sem felist meðal annars í ákalli um að fræðin verði ekki eins mannhverf og þau hafa oft verið.

Dr. Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði.

Gísli segist lengi hafa haft áhuga á tengslum manns og náttúru og meðal annars kennt námskeið við Háskóla Íslands sem hét Maður og náttúra um tíma. „Í gömlum mannfræðirannsóknum er oft fjallað um nánasta umhverfi, landið sem hjarðmenn nýta eða hjarnið á Inúítaslóðum og hafið við sjávarplássin, og smám saman hefur orðið til það sem er kallað umhverfismannfræði. Mannfræðingar hafa því alltaf haft umhverfið með í rannsóknum sínum, því til að skilja hvernig fólk hegðar sér og hugsar verður við að vita hvort það ræktar plöntur, gerir út á sjó svo dæmi séu tekin.“

Íslendingar sakbitnir vegna geirfuglsins

Geirfuglinn á sér nokkuð sérstaka sögu í hugum margra Íslendinga og margir muna eflaust eftir því þegar uppstoppaður geirfugl var keyptur á uppboði hjá Sotheby´s í London árið 1971.

„Ég held að Íslendingar hafi alltaf haft áhuga á geirfuglinum, kannski eilítið sakbitnir yfir því að sennilega hafi síðustu geirfuglarnir verið felldir hér við land. Þrátt fyrir að í raun hafi verið búið að veita stofninum sem slíkum rothögg á Nýfundnalandi mun fyrr.“


Maðurinn hluti af náttúrunni

„Lengi vel var í mannfræði eins og öðrum fræðum ríkjandi tvíhyggja. Hér er náttúran og umhverfið sem við búum við eins og það var orðað og svo maðurinn sem skapar einhvers konar mannlíf, rétt eins og við dönsum á sviði ofar náttúrunni. Í seinni tíð hafa mannfræðingar bent á að þessi tvískipting gangi ekki því maðurinn sé hluti af náttúrunni en ekki aðskilinn frá henni og lifi í félagi við dýr og plöntur.“

Gísli segir að sem mannfræðingur hafi hann tiltölulega nýlega farið að fjalla um „hin dýrin“ eins og sagt er. „Um þessar mundir á sér stað mikil gerjun í mannfræði, heimspeki og öðrum fræðigreinum sem felst í ákalli um að fræðin verði ekki eins mannhverf og þau hafa oft verið. Lengi var litið á dýrin sem einungis matarforða eða hluta af vistkerfinu en dýrin eru meira en það og oft félagar okkar og vinir – og reyndar plönturnar líka.

Ég hef verið talsvert tendraður af þessum fræðum, einkum hugtakinu „other than human“ sem hefur verið þýtt sem annað-en-menn og er tilraun til að gera fræðin minna mannhverf og veita öðru lífi meiri athygli en áður hefur verið gert. Skoða til dæmis „önnur dýr“ á þeirra eigin forsendum.“

Geirfuglabækurnar

„Bókin Fuglinn sem gat ekki flogið fylgir þessari hugmyndafræði og fjallar um tengsl manna og dýra og í þessu tilfelli geirfuglsins.

Í bókinni Fjallið sem yppti öxlum minnist ég tvisvar á geirfuglinn án þess að hafa þá haft nokkur áform um að skrifa um hann bók. Það var svo fyrir röð af tilviljunum að ég hófst handa við skrifin, mestu máli skipti að ég komst á snoðir um söguleg handrit í Cambridge-háskóla á Bretlandseyjum en ég sá vísað til þeirra í tveimur eða þremur heimildum.
Menn telja að geirfuglinn hafi orðið aldauða 1844 en fjórtán árum seinna komu til Íslands tveir breskir áhugamenn um fugla sem ætluðu sér að vita hvort þeir fyndu lifandi geirfugla. Þeir ætluðu sér út í Eldey til að ná sér í fugl og egg ef hægt væri en komust ekki og fundu enga geirfugla annars staðar.

Errol Fuller, einn helsti geirfuglafræðingur samtímans, í „furðukamesi“ á heimili sínu skammt frá London að virða fyrir sér geirfuglsegg.

Þeir ákváðu því í staðinn að leita uppi mennina sem voru í síðustu geirfuglaveiðiferðinni. Tólf mannanna voru enn á lífi af fjórtán manna áhöfn og Bretarnir tóku viðtal við þá alla og suma nokkrum sinnum. Þessi viðtöl eru varðveitt í handriti í Cambridge sem ég kalla Geirfuglabækurnar.“

Mér vitandi hafði aldrei verið gerð úttekt á handritinu út frá íslenskum sjónarhóli og þar sem heimildin er stórmerkileg hellti ég mér út í að skoða hana í þaula. Ég fór til Cambridge og heimsótti safnið þar sem handritið er geymt og sá að það er aðgengilegt og skoðaði það. Þar sem handritið þykir verðmætt má ekki ljósrita það þannig að ég samdi við safnið um að það sendi mér ljósmyndir af því og það er eina afritið sem er til í heiminum og ég má ekki deila því vegna höfundaréttarlaga.“

Frásagnir bænda frá Höfnum

Gísli segist hafa einhent sér í lestur á handritinu og að læra að lesa rithöndina. „Það tók smátíma að venjast henni og stílnum því að stundum koma orð á þýsku, hollensku og dönsku, en obbinn er á ensku.

Kotvogur í Höfnum þar sem bresku fuglamennirnir gistu.

Í handritinu kemur ýmislegt fram sem ég tel að ekki hafi verið á allra vitorði um fuglinn og veiðar á honum. Bændurnir sem talað er við eru frá Höfnum og lýsa fuglinum og atferli hans. Stundum sjá þeir hann úti á sjó og skondnar lýsingar eru á því þegar fuglinn eltir þá eins og hann sé forvitinn og vangaveltur um það hvort hann sjái eða ekki. Geirfuglar og fleiri fuglategundir eru með sérstaka himnu yfir auganu sem opnast og lokast og virðast sumir bænda hafa haldið að geirfuglinn væri blindur.

Af handritinu má ætla að veiðimennirnir hafi sjaldan skoðað fuglinn í návígi og að þeir hafi bara arkað upp á sker og eyjar, drepið nokkra fugla og selt þá.

Annað sem er áhugavert er að fuglarnir virðast hafa verið spakir og móttökur þeirra kurteisar og þeir því auðveld bráð. Í annarri lýsingu segir frá því þegar vinnumaður hefur með sér lifandi fugl í land og ríður með hann til Keflavíkur í von um að selja hann.“

Fækkun fugla og aukin eftirspurn

„Geirfuglakjöt þótti góður matur og Íslendingar átu þá og egg þeirra öldum saman, eins og minjar sýna, og fiðrið var notað í fatnað og sængur og beinin brennd sem eldiviður.

Egg geirfugls.

Þegar fuglunum fór að fækka óx eftirspurnin eftir þeim frá söfnum og söfnurum sem vildu eignast eintak og verðið hækkaði. Þessi hugsun tengist Viktoríu-tímanum og söfnunaráráttu þess tíma samhliða því að helstu náttúrugripasöfn í heimi verða til. Það urðu allir að eiga eintak og eftir því sem fuglinn varð fágætari því meiri var eftirspurnin og samkeppnin um eintak, hvort sem það egg, uppstoppaður fugl eða geirfuglshamur.“

Wolley og Newton

„Bretarnir sem skráðu Geir­fuglabókina hétu John Wolley og Alfred Newton og voru báðir forfallnir fuglaáhugamenn sem höfðu farið víða til að skoða fugla en geirfuglinn var ástríða þeirra.

Newton var á þessum tíma að vinna sig upp virðingarstigann við Cambrige-háskóla. Wolley er formlega skráður fyrir handritinu, en andaðist árið eftir Íslandsferðina. Heim kominn kynnist Newton náttúrufræðingnum Charles Darwin og þeir eiga töluverðar samræður og hljóta að hafa rætt um geirfuglinn og afdrif hans. Fræðilega skildi þó leiðir þeirra þar því Darwin talar um aldauða á þúsundum ára þar sem tegundir koma og fara vegna þróunar en Newton er að horfa upp á fuglategund sem er nánast að deyja út í beinni útsendingu og af mannavöldum.

Nýlega sagði bandarískur vísindasagnfræðingur að Alfreð Newton hefði verið fyrstur til að vekja athygli á aldauða tegunda með geirfuglinum og að aldauði geirfuglsins sé upphaf nútíma umræðu um aldauða tegunda af mannavöldum. Geirfuglabókin er því tvímælalaust einstök heimild um aldauða eða endalok tegundar.“

Maðurinn sem stal sjálfum sér

Gísli er fæddur í Vestmannaeyjum en var í sveit í Landeyjum þar sem hann kynntist náttúrunni og fékk áhuga á henni.

Hann safnaði eggjum og átti svolítið safn af þeim og þar kviknaði áhugi hans á fuglum.
Hann er prófessor emerítus í mannfræði við Háskóla Íslands og höfundur fjölda bóka um mannfræði og ekki síst um tengsl manna og náttúru. Auk þess sem hann er höfundur bókarinnar Maðurinn sem stal sjálfum sér og segir frá ævi þeldökks manns, þræls frá Jómfrúareyjum sem kemur til Íslands árið 1802. Gerist bóndi, kvænist, eignast börn og endar sem verslunarstjóri á Djúpavogi. Bókin naut mikilla vinsælda og var þýdd á ensku, frönsku og dönsku og uppi eru hugmyndir um að gera eftir henni kvikmynd þótt ekkert sé fast í hendi með það að sögn Gísla.

Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag og er einn þeirra að finna í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Mynd / Erling Ólafsson.

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....