Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Högni fyrir utan vinnuaðstöðu sína á Smiðjuvegi í Kópavogi, en hann hafði nýlega fengið þessa massívu bita frá Slippnum á Akureyri en skip voru dregin upp á þeim áður fyrr. „Þetta er gull sem ég fékk að norðan og mér sýnist ég muni gera skrifborð úr þeim fyrir arkitekt sem kom hérna við á dögunum,“ sagði Högni.
Högni fyrir utan vinnuaðstöðu sína á Smiðjuvegi í Kópavogi, en hann hafði nýlega fengið þessa massívu bita frá Slippnum á Akureyri en skip voru dregin upp á þeim áður fyrr. „Þetta er gull sem ég fékk að norðan og mér sýnist ég muni gera skrifborð úr þeim fyrir arkitekt sem kom hérna við á dögunum,“ sagði Högni.
Mynd / ehg
Líf og starf 17. nóvember 2020

Fjársjóður og fagurt gildi í gömlu timbri

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Högni Stefán Þorgeirsson hefur undanfarin 10 ár rekið fyrirtækið Arctic Plank þar sem hann nýtir timbur sem annars væri hent og býr til úr því hina ýmsu gæðagripi, allt frá stólum og borðum til sérsmíðaðra gólf og veggfjala sem prýða margvíslega staði hérlendis og erlendis. Högna er ekkert heilagt þegar kemur að hráefninu og nýtir meðal annars millispýtur úr vörubrettum og sólbakaðan hlöðuvið til endurnýtingar. 

Högni er smiður og dúklagningamaður í grunninn og hefur unnið við ýmislegt í gegnum tíðina en upprunalega ætlaði hann að verða arkitekt. 

„Ég flutti til Danmerkur árið 1995 og starfaði mestmegnis sem smiður og við að leggja gólf. Smátt og smátt fór ég út í parketið líka og fór að gera upp hús með vinum mínum. Ég hef alltaf verið heillaður af gömlu timbri og ég held því fram að það hafi síast inn hjá mér í æsku en mamma er Norðfirðingur og sem krakki hef ég sterka minningu af því þegar afi tók mig með sér að rífa panil af bústað til að taka nagla úr, þétta og laga hann til en leggja hann síðan aftur,“ útskýrir Högni.

Úr íbúð þar sem gamall efniviður hefur verði nýttur sem gólfefni og fleira. 

Með danskt „timburrusl“ til Íslands

Högni sá ýmis tækifæri í Danmörku og ekki leið á löngu þar til hann var komin í uppgrip í að bjarga gömlum gólffjölum og timbri sem annars hefði verið hent. 

„Upp úr aldamótunum urðu gjaldþrot hjá sveitarfélaginu Vesterbro og farið var að gera upp stóran hluta af hverfinu. Þarna vann ég sjálfstætt og fékk verkefni við að rífa úr gólfefni af íbúðum hjá sveitarfélaginu. Ég sá alveg ofsjónum yfir því að verið væri að henda gömlu timbri en sum húsin þarna voru frá árinu 1880. Ég fékk vin minn með mér að rífa út um fjögur þúsund fermetra en hann sá ekki alveg tækifærin í þessu eins og ég,“ segir Högni brosandi og bætir við:

„Þegar ég flutti heim árið 2000 tók ég 400 fermetra með mér til Íslands sem ég er búinn að nýta á ýmsum stöðum. Ég keypti hæð í Bankastrætinu og notaði hluta af timbrinu þar, eitthvað fór í íbúð í Miðtúni og eins í Hlíðunum svo þetta danska „timburrusl“ hefur víða nýst. Árið 2010 keyptum ég og konan mín hús en þá lausskrúfaði ég gömlu spýturnar á húsið og fékk vin minn Hálfdan Pedersen leikmyndahönnuð í lið með mér. Hálfdan kom að hönnun og smíði Geysisbúðanna og hann fékk restina af timbrinu til að nota í verslunina á Skólavörðustíg. Þannig að timbrið sem ég reif út úr íbúðum á Lille Ystegade árið 1998 hefur gengið í endurnýjun lífdaga á hinum ýmsu stöðum og kemur hvarvetna vel út.“

Skrokkhlutaskurðarmynd úr gömlu timbri.

Vill upphefja söguna

Högna er sem sagt ekkert heilagt þegar kemur að því að nýta gamalt timbur, hvort sem er úr gömlum eikarbátum, vörubrettum, sólbökuðum hlöðuvið eða þakefni. Því eru allar vörur sem framleiddar eru hjá Arctic Plank endurnýttar til hins ýtrasta.

„Mér finnst alltof dýrmætt að slátra sögunni, ég vil miklu frekar upphefja hana. Ég komst til dæmis að því fyrir tíu árum að það var enginn að nýta vörubretti hér heima svo ég skoðaði skógræktarskýrslur í Bandaríkjunum en þar eru árlega framleidd um 300 milljónir vörubretta og á ári hverju er tugum milljóna af þeim fargað sem enda í spæni eða við landnýtingu. Þá fór ég að hugsa hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað annað en að kurla vörubretti og var sannfærður um að það væri hægt að endurnýta þau í eitthvað sniðugt,“ segir Högni og bætir við:

„Minn stærsti samkeppnisaðili á Íslandi varðandi vörubrettin er slökkviliðið en einnig fer drjúgur hluti af þeim upp á Grundartanga þar sem þau eru kurluð og nýtt sem eldsneyti fyrir iðnaðinn þar. Þetta er stórkostlega vanmetið hráefni í hitt og þetta en flestir líta á þetta sem rusl á meðan ég sé bara tækifæri í öllu gömlu timbri.“

Endurnýtir 60 tonna eikarbát

Fljótlega eftir að Högni kom til landsins frá Danmörku fékk hann verkefni í samvinnu við Hálfdan vin sinn að vinna gólfið og pallinn hjá Kex Hostel en verkið var hugsað í þrívídd og vel var tekið eftir.

„Það er oft pikkað í mig og sagt að ég safni of miklu rusli og það var svolítið skemmtilegt þegar mér bauðst að nýta mér hluta úr gömlum eikarbát hjá Slippnum í Keflavík og ég bað um að fá hann allan að þá hlógu þeir að mér. En ég fékk sem sagt 60 tonna eikarbát sem hefur meðal annars nýst í stóla og borð og verður eitthvað fleira úr. Það getur komið svo skemmtileg áferð í eikina þegar saltið úr sjónum er búið að kvarna lakkið af og það byrjar að blæða út frá naglaförunum. Það er líka hátt sýrustig í eikinni svo það er úrvalsefni til að vinna með,“ segir Högni sem leikur sér með hinar ýmsu viðartegundir og er ekkert heilagt hvað hann gerir úr gullinu sínu.

„Hausinn er alltaf stútfullur af hugmyndum, það vantar ekki og ég er alltaf með augun opin fyrir því að vinna með þennan fjársjóð sem gamalt timbur er. Það er líka sérstaklega skemmtilegt að vinna með mismunandi hönnuðum og arkitektum sem hafa sínar hugmyndir og síðan vinnum við verkin í sameiningu þangað til allir eru sáttir við lokaútkomuna.“

Á Smiðjuveginum, sem Högni kallar helgidóminn sinn, má sjá sýnishorn af því sem hann framleiðir úr gömlu timbri, gólf og veggjaklæðningar ásamt stólum og borði sem er eftirlíking af Langjökli.

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk
Líf og starf 7. maí 2021

Í startholum með að framleiða skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég fann það strax og ég byrjaði að fást vi...

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni
Líf og starf 6. maí 2021

Tuttugu lausnir keppa til úrslita í Ullarþoni

Sextán teymi, sem standa á bak við tuttugu lausnum tengdum ull með einum eða öðr...

Góður staður til að gera ekki neitt
Líf og starf 5. maí 2021

Góður staður til að gera ekki neitt

Sælureitur í sveit er heiti á verk­efni sem Stefán Tryggva- og Sigríðarson og In...

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt
Líf og starf 4. maí 2021

Krafa viðskiptavina um græna nálgun eykst sífellt

„Við viljum standa fyrir eitthvað meira en að veita grundvallarþjónustu, svefnst...

Þróun vörumerkis er langhlaup
Líf og starf 3. maí 2021

Þróun vörumerkis er langhlaup

Þórhildur Laufey Sigurðardóttir er bókmenntafræðingur og grafískur hönnuður og s...

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig
Líf og starf 29. apríl 2021

Greindist með Parkinson-sjúkdóminn 2015 en lætur það ekki stoppa sig

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi og bjó þar, þar til við fluttum í Hrútafjörðin...

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök
Líf og starf 23. apríl 2021

Salan aldrei meiri hjá svínabændum en afkoman lök

Samkvæmt tölum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um framleiðslu og sölu á...

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til
Líf og starf 19. apríl 2021

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til

Fyrsti Evrópski ullardagurinn var haldinn á föstudaginn. Ísland var þátttakandi ...