Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og framkvæmdastjóri Streituskólans. Mynd / HKr..
Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og framkvæmdastjóri Streituskólans. Mynd / HKr..
Líf og starf 8. maí 2020

Bændalúrinn er öllum hollur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Streita og kulnun eru algengari en flesta grunar og eru þá engar starfsstéttir undanskildar. Flestir fá vægari einkenni streitu en vilja sjaldnast viðurkenna þau. Besta leiðin til að koma í veg fyrir kulnun er að þekkja einkennin og beita forvörnum.

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og framkvæmdastjóri Streituskólans, segir að ólík hugsun og ólík menning einkenni oftast ólíkar starfsstéttir. „Við vitum að konur leita sér fyrr aðstoðar en karlmenn ef þörf er fyrir hana og við vitum að í mörgum stéttum er menning fyrir því að sýna ekki veikleikamerki þó slíkt hafi verið að breytast undanfarin ár.

Hvað varðar bændur og fólk á landsbyggðinni hefur það orðið út undan hvað þessa þjónustu varðar. Það er oft langt að sækja þjónustu og fræðslu og það hefur sýnt sig að því lengra sem er í þjónustuna því seinna sækist fólk eftir henni. Annað sem einnig er vitað er að því minna sem fólk veit um þjónustu því ólíklegra er það til að nýta sér hana og forvarnafræðsla og efling eru nýjungar sem sprottið hafa fram innan vinnuverndar fyrirtækja en ættu að vera öllum aðgengileg.“

Geðheilsa bænda

Ólafur Þór segir að fyrir um það bil tíu árum hafi læknarnir Kristinn Tómasson og Gunnar Guðmundsson gert merkilegar rannsóknir á heilsu­fari íslenskra bænda. „Hluti af þeim rannsóknum beindist að geðheilsu og sýndu að geðheilsa bænda væri svipuð og hjá öðrum stéttum en um leið að þeir leiti sér síður aðstoðar sé hennar þörf.

Búskapur er álagsstarf og menn mikið einir og sjaldan hægt að komast í burtu í frí. Álagsþættir bænda eru ekki bara bindingin sem felst í búrekstri því þeir hafa einnig fjárhagsáhyggjur, enda reka þeir bæði bú og heimili. Eitt af því sem hefur komið á óvart er að margir bændur eru haldnir tæknistreitu vegna allra þeirra nýjunga sem þeir þurfa að takast á við og kynna sér.

Streita og kulnun

„Það sem við köllum streitu kemur fram í nokkrum stigum og eru vefræn eða sálræn viðbrögð við álagi. Fyrstu einkennin eru þreyta og vöðvabólga sem lagast með hvíld. Annað stig streitu er það sem við köllum kulnun sem er sálfræðileg lýsing á ástandi þar sem fólk hættir að hvílast, það verður kvíðið og dapurt og þreytt og skapbreytingar geta verið tíðar. Þess konar ástand hverfur yfirleitt eftir góða hvíld og það hafa flestir lent í þessu á einhverjum tíma.

Alvarlegri stig kulnunar lýsa sé með truflum á hvíld, slökun og svefni og eftir að það gerist er viðkomandi kominn í vítahring sem erfitt getur verið að losna úr. Lokastigið er svo sjúkleg streita sem flokkast sem sjúkdómur þar sem auk fyrrgreindra einkenna fylgja alls konar verkir og einnig það sem kallast vitræn einkenni sem geta verið minnistruflanir, einbeitingarskortur, skert álagsþol og mikil andleg og líkamleg þreyta sem lagast ekki við venjulega hvíld.

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að svona ástand skapist eru forvarnir eins og fræðsla, ráðgjöf, stuðningur og ef á þarf að halda meðferð.

Ólafur Þór segir að í sjúkdómsferlinu sé eins konar taktur þar sem fólk dettur inn og út og smám saman dýpka öldurnar og það þarf sífellt minna til að lenda undir brotinu. Því lengur sem ástandið hefur varað því erfiðara er að komast út úr því vegna þess að vanlíðan er orðin mikil og vinnugetan jafnvel skert.

Því miður erum við að sjá þetta gerast víða innan fyrirtækja þar sem fólk er að berja sig mikið áfram eða að fyrirtækin krefjast of mikils af fólki. Persónugerðirnar sem hættast er við kulnun í starfi eru þeir sem eru of nákvæmir, samviskusamir og markvissir í starfi og bíta á jaxlinn hvað sem á dynur.“

Forvarnir besta vörnin

„Oft er það svo að fólk vill ekki viðurkenna eða verður ekki vart við að einkenni kulnunar séu til staðar hjá því sjálfu og þá getur verið nauðsynlegt að opna eyrun fyrir því sem aðrir og umhverfið segir og fara eftir ráðum annarra.

Karlmenn sem þjást af streitu eiga það til að halla sér að áfengi til að slaka á og  bæta svefn en það er skammgóður vermir því að til lengri tíma litið dregur áfengisneysla úr svefngæðum og eykur enn á vandann og langtímaneysla áfengis veldur yfirleitt depurð.“

Ólafur segir að besta ráðið til að draga úr streitu séu forvarnir og gæta að hvíldinni því hún sé lykilatriðið. Það sem gerist í sjúklegri streitu er að streituhormónin, Cortisol, sem heilinn stjórnar og er framleiddur í nýrnahettunum, er í of miklu magni í líkamanum og veldur allskonar slæmum áhrifum. Færi vita að einnig er til svokallað hvíldarhormón, Dehydroepiandrosterone, sem myndast við slökun og eykur vellíðan og styrkir heilavefinn eins og besta yngingarmeðal.

„Bændur þekkja bændalúrinn sem er blundur á miðjum degi með góðri slökun og hefur ótrúlegan eflingarmátt á sál og líkama. Auk þess sem öll hreyfing, sem bændur stunda mikið, er öllum holl.“

Streituskólinn

Fyrirtækið sem rekur Streituskólann heitir Forvarnir og í nafninu felst yfirlýsing um starfsemi þess. „Starfsemi fyrirtækisins er víðtæk og það sinnir meðal annars einstaklingsþjónustu, ráðgjöf fyrir fyrirtæki og rannsóknum. Heitið Streituskólinn er í senn jákvætt og fyndið og fólk er ekki eins hrætt við það eins og orðin þunglyndi eða kvíði. Streituskólinn er ekki heldur skóli í hefðbundinni merkingu orðsins heldur frekar kennslufyrirkomulag sem er allt frá því að það komi einn í viðtal, vera fyrirlestur fyrir marga eða fastur liður í starfsemi fyrirtækja og stofnana.

Kjörorð skólans er: „Fræðsla til forvarna“ og starfsemi hans miðar að því að nýta þekkingu og rannsóknir úr vísinda- og þekkingarheiminum og setja fram á sem gagnlegastan hátt og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi geðheilbrigðis.

Við sem að Streituskólanum stöndum erum af landsbyggðinni og höfum gert og haft gaman af því að fara út á land og vinna þar. Breyttir tímar eins og nú gera það að verkum að við höfum aukið notkun á fjarbúnaði og getum boðið alla okkar þjónustu gagnvirkt í gegnum hann. Auk þess sem við erum með útibú á Akureyri og á Vesturlandi.“ Nánari upplýsingar um Streituskólann má nálgast á www.stress.is og facabook-síðu skólans. 

Streituráð
Leggðu þig fram um að greina álagsþættina í lífi þínu. Það er mikilvægt að þú áttir þig á hvað veldur þér streitu, bæði í starfi og einkalífi. Sumu getur maður breytt, öðru ekki. Oft eru streituvaldar lúmskir.
 
Einföld verkefni og auðleysanleg geta vafist óþarfalega mikið fyrir okkur. Stundum eru streituvaldarnir alls ekki neikvæðir. Það er jákvætt að takast á við barnauppeldi og búrekstur en því fylgir álag að vera alltaf til staðar og viljinn til að gera vel og það getur valdið álagseinkennum gæti maður ekki að sér. 
 
Ósjálfráð fyrstu viðbrögð við streitu eru ekki alltaf heppileg. Dæmi um slíkt er meðvirkni. Að láta sem ekkert sé og gera ekkert í málinu. Skylt þessu er frestun. 
 
Mótaðu betri viðbrögð til að bregðast við með gagnlegri hætti, leita lausna, sækja stuðning og ýta burt hugsunum um mál sem ekki er hægt að hafa áhrif á.
 
Tileinkaðu þér lífstíl með sálfélagslegum forvörnum og gættu vel að hvíld. Samvera, samhugur og hjálpsemi skiptir líka miklu máli. 
 
Pottaplöntur við íslenskar aðstæður
Líf og starf 16. maí 2022

Pottaplöntur við íslenskar aðstæður

Allt í blóma er ný íslensk bók sem fjalar um ræktun pottaplantan við íslenskar a...

Innsýn í blóðmerahald á Íslandi
Líf og starf 13. maí 2022

Innsýn í blóðmerahald á Íslandi

Í erindi sem hún hélt á Búnaðarþingi veitti Bóel Anna Þórisdóttir innsýn inn í b...

Illgresi andskotans
Líf og starf 12. maí 2022

Illgresi andskotans

Nýverið sendi Þorsteinn Úlfar Björnsson frá sér bók sem hann kallar Illgresi and...

Ungmennasamband Eyjafjarðar 100 ára
Líf og starf 9. maí 2022

Ungmennasamband Eyjafjarðar 100 ára

Ungmennasamband Eyja­fjarðar, UMSE, fagnaði 100 ára afmæli sínu með hófi í Lauga...

Vörur smáframleiðenda matvæla orðnar sýnilegri og aðgengilegri neytendum
Líf og starf 4. maí 2022

Vörur smáframleiðenda matvæla orðnar sýnilegri og aðgengilegri neytendum

Lyfjafræðingurinn og sinneps­framleiðandinn Svava Hrönn Guðmundsdóttir er nýr fo...

Skeifudagurinn haldinn eftir tveggja ára hlé
Líf og starf 2. maí 2022

Skeifudagurinn haldinn eftir tveggja ára hlé

Það var gleðilegt að geta haldið Skeifudaginn með pompi og pragt eftir tveggja á...

Hafa fengið mjög góðar viðtökur hjá bændum
Líf og starf 2. maí 2022

Hafa fengið mjög góðar viðtökur hjá bændum

Fyrstu lömbin á þessu vori hafa nú litið dagsins ljós og þótt langflestar ær ber...

Lykilþáttur að afurðaverð hækki
Líf og starf 29. apríl 2022

Lykilþáttur að afurðaverð hækki

Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð í Biskupstungum, er formaður Dei...