Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Guðríður Eva vinnur mikið í tölvu við að sinna ýmsum erindum áður en hún fer í vitjanir á sveitabæi eða tekur á móti fólki með veik gæludýr á stofuna sína eða til að afgreiða í versluninni sinni.
Guðríður Eva vinnur mikið í tölvu við að sinna ýmsum erindum áður en hún fer í vitjanir á sveitabæi eða tekur á móti fólki með veik gæludýr á stofuna sína eða til að afgreiða í versluninni sinni.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf og starf 29. maí 2020

Ætlaði sér alltaf að verða dýralæknir enda með ólæknandi áhuga fyrir dýrum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Guðríður Eva Þórarinsdóttir hefur nýleg stofnað sitt eigið dýralækninga­fyrirtæki, sem sjálfstætt starfandi dýralæknir með starfsaðstöðu á Flúðum. 
 
Hún er fædd í Hrunamannahreppi og býr á Flúðum með kærastanum sínum, Jóni William. Guðríður Eva er frá bænum Reykjadal sem er rétt fyrir ofan Flúðir. Guðríður er elst af fjórum systkinum og á þrjá yngri bræður. 
 
„Ég fór beint í Menntaskólann að Laugarvatni eftir grunnskóla og þaðan beint til Kaupmannahafnar í dýralæknanám. Ég var rétt að verða 20 ára þegar ég flutti til Danmerkur og hafði stundað alls konar sumarvinnu og vinnu með skóla t.d. garðyrkju, afgreitt í búðinni, verið barþjónn á Útlaganum, unnið á sambýli og í reiðskóla svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðríður Eva.
 
Ekki erfið ákvörðun
 
Guðríður Eva segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að fara í nám í dýralæknum og verða þar með dýralæknir. Nei, ég man bara aldrei eftir mér öðruvísi en að ætla að verða dýralæknir. Ólæknandi meðfædd dýrasýki hefur líklega ráðið mestu þar um. Ég get því ekki sagt að ákvörðunin hafi verið erfið, en það var smá þröskuldur að þurfa að fara utan í nám. Ég er heimakær sveitastelpa og það var aðeins út fyrir þægindarammann að fara ein og flytja út. Ég lærði í Kaupmannahöfn og námið tók mig 6 ár í það heila. Ég bjó úti í 5 ár en var svo á Íslandi á meðan ég skrifaði lokaverkefnið mitt.“
 
Dýralæknir í sjö ár
 
Guðríður Eva hefur starfað í sjö ár sem dýralæknir. Frá því að hún flutti heim vann hún á Dýralækna­miðstöðinni á Hellu í blönduðum praksis. Veturinn 2013–2014 var hún í hlutastarfi og með því skrifaði hún lokaverkefnið sitt og var svo í fullu starfi eftir að hún útskrifaðist vorið 2014. 
 
„Dýralæknamiðstöðinni á Hellu var lokað í lok árs 2019 og í  framhaldi ákvað ég að fara út í sjálfstæðan rekstur af því að mér fannst það bara mjög spennandi og ákvað því að taka stökkið og prófa að sjá um mig sjálf. Það var engin stofa á Flúðum eða hérna í næsta nágrenni og þetta var því bara spennandi tækifæri,“ segir Guðríður Eva aðspurð af hverju hún hafi ákveðið að fara út í sjálfstæðan rekstur.
 
Fjölbreytt verkefni
 
Á Flúðum er Guðríður Eva með litla dýralæknastofu þar sem hún er með góða aðstöðu fyrir sig og það sem starfseminni fylgir. Hún getur tekið á móti smádýrum þar í daglegar skoðanir, eftirlit og minniháttar aðgerðir. Hún er líka með smáverslun með gæludýrafóðri, hestavörum og bætiefnum fyrir kýr og kindur. Síðan er Guríður Eva með vel búinn bíl og keyrir til bænda sem eru með hross, kýr og kindur. 
 
Hún er líka með fínt hesthús heima í Reykjadal þar sem hún hefur tekið til sín hross, sem t.d. slasast illa og þurfa að vera í langri meðhöndlun. „Ég fer víða um Suðurland í vitjanir, en er vissulega mest hér í uppsveitum Árnessýslu. Þó að starfsstöðin mín hafi flutt frá Hellu og á Flúðir þjónusta ég enn þó svolítið af fólki fyrir austan í Rangárvallasýslu.“
 
Týpískur sveitadýralæknir
 
Þegar Guðríður Eva er spurð hvar hennar svið liggi helst í dýralæknum er hún fljót að svara. 
„Já, ég er svona þessi týpíski sveitadýralæknir í blönduðum praksis. Sinni þessu öllu í bland, hestum, kúm, hundum köttum og sauðfé og fjölbreytileikinn er einmitt það allra besta við starfið. Það leiðinlegasta við starfið er að taka fastar hildir úr kúm en það skemmtilegasta eru vorverkin, sauðburðurinn og svo finnst mér afskaplega gaman af öllu sem tengist hryssunum; sónarskoðanir, sæðingar og allt það sem viðkemur ræktun og frjósemi hrossa. Það er líka svo gaman fyrir hrossaræktaráhugamanneskju eins og mig að sjá öll folöldin, hitta ræktendur og geta forvitnast undan hvaða hestum þau eru. Þá fær maður oft hugmyndir um hvaða hesta maður vill sjálfur nota á sínar hryssur,“ segir hún og bætir við: „Í fyrra var ég í fyrsta skipti í samstarfi með hjónunum í Hemlu með sæðingarstöð fyrir hryssur. Hulda Jónsdóttir, þáverandi samstarfsskona mín á Hellu, var með mér í þessu og við sæddum um 80 merar við stóðhestinum Ský frá Skálakoti, það var ótrúlega skemmtilegt starf. Við erum núna að undirbúa okkur að byrja aftur á Hemlu og í sumar verða tveir hestar í Hemlu, Skýr frá Skálakoti og Pensill frá Hvolsvelli.“
 
Vorið mikill álagstími
 
„Vorið er mikill álagstími hjá dýralæknum, það er alltaf einhver vinna við sauðburð, nokkrir keisaraskurðir og burðarhjálp. Það kemur líka törn í folageldingum á vorin og svo fara folöld að fæðast og allt sem tengist stóðhestahaldi. Þetta er vissulega mjög annasamur tími en líka svo ótrúlega skemmti­legur,“ segir Guð­ríður Eva þegar hún var spurð um mesta álagstíma dýralækna.
 
Dýrin eru uppáhalds áhugamálið
 
Guðríður Eva segir að þó það hljómi kannski einkennilega þá séu dýrin, hestar og hundar hennar aðaláhugamál. 
 
„Við erum líka með litla hrossarækt og reynum að sinna hrossunum og ríða út eins mikið og tími gefst til. Svo eigum við 3 ástralska fjárhunda og erum aðeins að fikra okkur áfram í hundarækt líka. Svala, yngsta tíkin okkar, er okkur fædd, en við vorum með 8 hvolpa í fyrrasumar og héldum henni eftir.“ 
 
Að lokum er vert að vekja athygli á heimasíðu dýralækningaþjónustu Guðríðar Evu en slóðin á hana er www.dyralaeknirinn.com.  Á síðunni er  hægt að finna allar aðrar upplýsingar eins og símanúmer, netfang og þess háttar hjá henni.

Skylt efni: dýralæknar

Jólamarkaðir í desember
Líf og starf 30. nóvember 2023

Jólamarkaðir í desember

Hinn árlegi Jólamarkaður Miðjunnar verður haldinn í Framsýnarsalnum 1. desember ...

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...

Þýzka stálið
Líf og starf 24. nóvember 2023

Þýzka stálið

Bændablaðið fékk til prufu dráttarvél af þriðju kynslóð 300 línunnar hjá Fendt s...

Konunglegur smjörkálskjóll
Líf og starf 22. nóvember 2023

Konunglegur smjörkálskjóll

Á tískuviku Lundúnaborgar nú í september vakti athygli sjálfbær tíska hönnuðanna...

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum
Líf og starf 21. nóvember 2023

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum

Nemendur í blómaskreytingum hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands fóru ásamt kennurum o...

Fjáreigendafélag Reykjavíkur  er menningarverðmæti
Líf og starf 16. nóvember 2023

Fjáreigendafélag Reykjavíkur er menningarverðmæti

Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út bók dr. Ólafs Dýrmundssonar Sauðfjárh...

Málgagnið finnst víða
Líf og starf 15. nóvember 2023

Málgagnið finnst víða

Hjörleifur Jóhannesson tók þessa skemmtilegu mynd af búðareiganda í Tam Duong í ...