Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hjónin Guðmundur Ármann og Birna Ásbjörnsdóttir standa á bak við vöruþróunarverkefni úr broddmjólk.
Hjónin Guðmundur Ármann og Birna Ásbjörnsdóttir standa á bak við vöruþróunarverkefni úr broddmjólk.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 22. janúar 2021

Ætla að framleiða heilsuvörur úr broddmjólk mjólkurkúa

Höfundur: smh

Meðal þeirra níu sprotafyrirtækja sem tóku þátt í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita síðastliðið haust var fyrirtækið Melta, en þar er ætlunin að framleiða heilsuvörur úr broddmjólk mjólkurkúa.

Til sjávar og sveita stendur yfir ár hvert í tíu vikur frá september til nóvemberloka og þar gefst útvöldum frumkvöðlum í matvælaframleiðslu meðal annarra tækifæri til að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til vara er komin á markað. Frumkvöðlar hafa aðgang að reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og ráðgjöfum – auk þess að hafa aðgang að góðri vinnuaðstöðu.

Ráðagóðir kúabændur

Hjónin Guðmundur Ármann og Birna Ásbjörnsdóttir standa að verkefninu. Guðmundur er menntaður rekstrarhagfræðingur og með gráður í lífefldum landbúnaði og umhverfisfræðum, en Birna er með meistaragráðu í næringarfræði og er að ljúka doktorsnámi við Háskóla Íslands þar sem hún sinnir einnig kennslu.

Guðmundur segir að þau hafi lengi notið þess að komast yfir broddmjólk, spurður um forsögu verkefnisins.
„Birna fær sér oft ábrystir með kanil og rjóma en það er ekki mitt. Mér finnst hins vegar mjög gott að fá mér lítið glas af hreinni broddmjólk og það gerum við oft og iðulega bæði. Við höfum alltaf horft til þess að broddmjólk gerði okkur gott, enda hefur hún verið nýtt frá fornu fari og er hún hluti af okkar matarmenningu. Í dag er þessi þekking að tapast og fólk er ekki að nýta þessa afurð eins og áður og það er miður. Einhverju sinni vorum við að fá okkur sopa af broddmjólk og ég segi við Birnu, getum við ekki gert eitthvað við þetta? Hún tók þann bolta og við höfum þroskað og þróað verkefnið síðan.“

Í þróunarvinnunni hafa þau verið í samstarfi við nokkra kúabændur sem hafa látið þau hafa broddmjólk til vöruþróunar, auk þess sem þeir hafa reynst þeim sérstaklega vel og verið ráðagóðir.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga kúabænda á verkefninu og notið jákvæðni og velvildar hvar sem verkefnið hefur borið á góma,“ segir Guðmundur.

Broddmjólk í hylkjum og fersk

Stefnt verður að tveimur aðal­vörutegundum sem framleiddar verða undir merkjum Melta; hylkjuð broddmjólk með lifandi gerlum og ferskvara þar sem lifandi gerlum er bætt í broddmjólkina.

„Í fyrstu þróuðum við vörulínu með þurrkaðri broddmjólk, en þar komu upp örðugleikar við framkvæmdina, sérstaklega við að fá broddmjólkina þurrkaða. Þannig að við byrjuðum aftur og höfum verið að þróa ferskvöru úr broddmjólk. Staðan er þannig í dag að við erum komin yfir flesta þröskuldana og erum við því langt komin með þróun á fyrstu vörum úr þurrkaðri og ferskri broddmjólk.“

Þar sem ekki er heimilt að selja ógerilsneydda mjólk verður broddmjólkin, bæði hylkjuð og fersk, blönduð sérvöldum lifandi gerlum.
„Með þeim hætti verða heilsueflandi þættir hámarkaðir og þannig verða í boði vörur með sérhæfða virkni. Við þessa vinnu er þekking Birnu ómetanleg, en meistaraverkefni hennar í næringarlæknisfræði við háskólann í Surrey á Englandi var rannsókn á mjólkursýrugerlum, en rannsóknin náði yfir 64 þúsund manns. Birna er að klára doktorsnám við HÍ & Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og verður íslensk broddmjólk rannsökuð með tilliti til áhrifa á ákveðna heilsufarsþætti núna á nýju ári við Harvard-háskóla. Við erum að gera okkur vonir um að sú vinna geti vaxið og opnað á enn frekari tækifæri í vöruþróun,“ útskýrir Guðmundur.

Inniheldur margvísleg heilsueflandi efni

Samkvæmt Guðmundi hefur brodd­­mjólk lítið verið rannsökuð á Íslandi en samkvæmt erlendum rannsóknum bendir margt til að hún hafi margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna.

„Broddmjólk hefur mjög lítið verið rannsökuð hérlendis, en broddmjólk mjólkurkúa er næringarrík afurð sem vitað er að inniheldur margvísleg heilsueflandi efni eins og fásykrur, glycoconjugates, núkleótíð, andoxunarefni, vítamín (A, E, C) og steinefni (kopar, selen, sínk). Sérstaða íslensku mjólkurinnar byggir á sérstöðu íslenska kúakynsins og gefur tilefni til að ætla að íslensk broddmjólk geti haft fjölmarga heilsusamlega eiginleika. Innihaldsefni í íslenskum broddi hafa þó ekki verið greind áður svo vitað sé, fyrir utan mælingar á einu mótefni.

Broddmjólk er rík af immúnó­gló­búlínum, ólígó­sakka­ríðum og bakteríu­­drepandi peptíðum ásamt öðrum líffræðilegum efnum, svo sem vaxtarþáttum. Samkvæmt erlendum rannsóknum geta þessir þættir haft jákvæð áhrif á heilsu manna.“

Mikil sóun á broddmjólk í dag

„Það er mikilvægt að finna broddmjólk farveg og að þessi mikilvæga afurð verði nýtt á sem bestan hátt. Almennt er kálfur að fá um fimm lítra af broddmjólk, en kýrin framleiðir um 20 lítra. Við viljum sækja það sem þarna fer á milli og framleiða hágæða vöru til heilsueflingar.

Stefnan er að koma fyrstu vörum á markað í vor, en við eigum eftir að klára lokaþætti vöruþróunar og þurfum að fá þar liðsinni og vinnu sérfróðra aðila og þurfum að finna fjármagn til þess. Það var högg að Matvælasjóður sá sér ekki fært að styðja við verkefnið, en á þessum tímapunkti hefði það komið sér einstaklega vel. Verkefnið fékk á sínum tíma góðan stuðning frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og frá Upp­byggingarsjóði Suðurlands, sem kom sér einstaklega vel og var auk þess mikilvæg hvatning.

Við vöruþróun er unnið með nýjustu rannsóknir og samspil mjólkursýrugerla og broddmjólkur. Þarna erum við að feta nýja leið og að koma með vörur á markað sem hafa rannsakaða og sannreynda virkni, m.a. á meltingu, ónæmiskerfi, sýkingar og á blóðið. Hægt er að fræðast frekar og fylgjast með á heimasíðu verkefnisins, melta.is,“ segir Guðmundur.

Verkefnið Til sjávar og sveita er í umsjón Icelandic Startups í samstarfi við Íslenska sjávarklasann og Matís. Bakhjarlar þess eru Matarauður Íslands, Nettó, Landbúnaðarklasinn og atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið.

Skylt efni: broddmjólk | Melta

Nýjar ferðaleiðir á Suðurlandi og Reykjanesi
Líf og starf 22. mars 2023

Nýjar ferðaleiðir á Suðurlandi og Reykjanesi

Markaðsstofa Suðurlands vinnur nú að því að markaðssetja nýja ferðaleið, svokall...

Vilja veðurstöð í Vík í Mýrdal
Líf og starf 21. mars 2023

Vilja veðurstöð í Vík í Mýrdal

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt samhljóða að leggja það til við Veður...

Ragnar og Lísa hlutu umhverfisviðurkenningu 2023
Líf og starf 20. mars 2023

Ragnar og Lísa hlutu umhverfisviðurkenningu 2023

Ragnar Ragnarsson og Lisa Dombrowe hlutu umhverfis- viðurkenningu Fjallabyggðar ...

Eyrugla
Líf og starf 20. mars 2023

Eyrugla

Eyrugla er nýlegur landnemi hérna á Íslandi. Hún var áður reglulegur gestur en u...

Mesta áskorunin er að stoppa upp uglur
Líf og starf 17. mars 2023

Mesta áskorunin er að stoppa upp uglur

Brynja Davíðsdóttir hefur getið sér gott orð fyrir uppstoppun á ýmsum tegundum d...

Dráttarvél mýkri en Range Rover
Líf og starf 17. mars 2023

Dráttarvél mýkri en Range Rover

Undanfarna þrjá áratugi hefur hinn breski vinnuvélaframleiðandi JCB framleitt dr...

Gerði lokræsi um land allt
Líf og starf 16. mars 2023

Gerði lokræsi um land allt

Pálmi Jónsson fór um land allt og útbjó lokræsi í ræktarlandi bænda með plógi sm...

Steinefna- og próteinríkur afskurður
Líf og starf 16. mars 2023

Steinefna- og próteinríkur afskurður

Mikið fellur til af stilkum, laufblöðum og öðrum afskurði frá íslenskri garðyrkj...