Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Skírnis árið 1928, kemur meðal annars fram að nöfn vikudaganna eigi sér þó nokkra sögu. Ef litið er yfir síðurnar má sjá hvernig nafnagift daganna eins og við þekkjum þá tengist í raun þeim fræðum Egypta og ákvörðun um að tengja heitin við stjörnufræði. Vikan í Egyptalandi á 13. öld var semsé nátengd stjörnufræði og fengu dagar vikunnar nöfn eftir þeim reikistjörnum er þekktust á þeim tíma.

Samkvæmt stjörnufræðum töldu menn sólina, tunglið, Mars, Venus, Júpíter, Merkúr og Satúrnus helstu reikistjörnurnar og að fjarlægð þeirra frá jörðu fylgdi þessari röð.

Var almenn trú þess efnis að daglegt líf okkar manna færi eftir áhrifum stjarnanna, en talið var að sú stjarna sem dagurinn var kenndur við hefði bæði sérstök umráð yfir fyrstu stundu dagsins, auk þess sem allur sá dagur væri sérstaklega á valdi hennar.

Sólin hefði umráð yfir fyrstu klukkustund sunnudagsins og því var hann kenndur við hana og nefndur dies solis (sólardagur eða sunnudagur). Sömu sögu var að segja með næsta dag sem var þá kenndur við tunglið og nefndur mánadagur (dies lunæ). Mars átti fyrstu stundu þriðjudagsins, sem þess vegna varð hans dagur (dies Martis), og miðvikudagurinn var dagur Venusar (dies Veneris). Júpíter stjórnaði fimmtudeginum (dies Jovis), Merkúr föstudegi (dies Mercurii) og laugardagur var dagur Satúrnusar (dies Saturni).

Dagar heiðingjanna í dag

Þarna á milli egypskrar stjörnufræði og svo heiðinna siða má finna sterka tengingu í fyrstu tveimur þeim nöfnum er telja dagana. Sólardagurinn egypski heitir hjá heiðingjunum (okkur) sunnudagur enda þýðir sunna sól. Tunglið, öðru nafni máni, kennir mánudag. Venusardagurinn okkar er þó ekki miðvikudagur heldur föstudagur – enda Venus/Freyja þeirra heiðnu vill tengjast frjósemi og þar frjádegi eða föstudegi. Þriðju-, miðviku- og fimmtudagar heiðingja voru nefndir eftir guðunum Tý, Óðni og Þór (tirsdag, onsdag og torsdag á skandinavískunni) og svo var þvottadagurinn mikli og dagur reikistjörnunnar Satúrnusar upp á Egypta kallaður lørdag /laugardagur. Í forníslensku hétu þó vikudagarnir okkar Íslendinga – líkt og hjá frændþjóðunum: týsdagur, óðinsdagur, þórsdagur og frjádagur.

Annars er víst rétt að geta þess að þrettándu aldar Egyptar höfðu beyg af laugardegi, degi Satúrnusar, en sú pláneta þykir hafa margþætt áhrif á mannkynið og helst ekki af góðu. Vanlíðan, hindranir og sorg, álög og þjáningar eru aðalsmerki hennar og merkilegt að vita hvort einhverjir skynja þau áhrif um helgar.

Tunglið snýst að venju

Hvað varðar mánuðinn í heild var hann upphaflega og er að sjálfsögðu enn í dag, tíminn sem tekur tunglið að snúast um möndul sinn – eða um það bil fjórar vikur. Þannig upphófst þetta eiginlega tímatal þjóða, en á öldum áður, er ekki var við rafljós að styðjast, varð fólk oft að sníða athafnir sínar eftir tunglskininu og þá nauðsynlegt að vita hvenær þess var von. Orðið mánuður er dregið af orðinu máni, sem merkir tungl eins og áður hefur komið fram og var tíminn talinn á milli tunglfyllinga, í kringum 30 dagar.

Mánuðirnir okkar Íslendinga báru eilítið önnur nöfn hér áður fyrr og miðuðust þau gjarnan við veðurfar, búhætti eða annað sem stóð þeim nærri. Í Snorra-Eddu má finna örlítil tilbrigði við gömlu mánaðaheitin þó þau séu flest hin sömu, en tímatalið samkvæmt Snorra-Eddu var á þá vegu að allir mánuðirnir byrjuðu á sama (tólfta) töludegi hvers mánaðar eins og við þekkjum þá í dag.

Tímatal Snorra-Eddu

Vetur byrjaði 12. október á gormánuði og lauk 11. apríl í einmánuði. Sumar tók við af vetri og hófst með gaukmánuði þann 12. apríl en lauk á kornskurðar/haustmánuði þann 11. október. Upptalning þeirra er eftirfarandi, frá og með vetri, 12. október. Gormánuður, ýlir/frermánuður, jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður, þorri, góa, einmánuður. Sumar, frá og með 12. apríl: Gaukmánuður, sáðtíð/eggtíð/stekktíð, sólmánuður/selmánuður, miðsumar/heyannir, tvímánuður, kornskurðarmánuður/haustmánuður. Hin nýrri/gömlu mánaðaheiti koma hér á eftir og er nákvæm dagsetning þeirra örlítið á flökti.

Hin nýrri/gömlu mánaðaheiti

Vetur: Gormánuður hefst fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21.–28. október),
Ýlir hefst mánudag í 5. viku vetrar (20.–27. nóvember),
Mörsugur hefst miðvikudag í 9. viku vetrar (20.–27. desember),
Þorri hefst föstudag í 13. viku vetrar (19.–26. janúar),
Góa hefst sunnudag í 18. viku vetrar (18.–25. febrúar),
Einmánuður hefst þriðjudag í 22. viku vetrar (20.–26. mars)

Sumar: Harpa hefst sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19.–25. apríl),
Skerpla hefst laugardag í 5. viku sumars (19.–25. maí),
Sólmánuður hefst mánudag í 9. viku sumars (18.–24. júní),
Heyannir hefjast á sunnudegi 23.–30. júlí,
Tvímánuður hefst þriðjudag í 18. viku sumars (22.–29. ágúst),
Haustmánuður hefst fimmtudag í 23. viku sumars (20.–26. september)

Vetrarmánuðir

Nafn gormánaðar vísar til sláturtíðar en fyrsti dagur hans er jafnframt fyrsti vetrardagur. Ýlir, sem næstur er honum í röðinni, er stundum nefndur skammdegismánuðurinn en uppruni nafns hans er óráðinn. Mörsugur, a.m.k. samkvæmt Gísla Jónssyni íslenskufræðingi, kennara og pistlahöfundar þáttanna um íslenskt mál í Morgunblaðinu, dregur nafn sitt af því að vera „sá mánuður er sýgur mörinn, ekki einasta úr skepnunum, heldur nánast öllu sem lífsanda dregur“. Nafn mánaðarins þorra, sem hefst að loknum mörsugi, er tiltölulega óskilgreint, en einhverjir vilja meina að orðið sé skylt lýsingarorðinu þurr eða að þverra.

Þegar hoppandi berrassaðir menn boða gæfu áhorfenda

Bóndadag ber jafnan upp á fyrsta dag þorra og bar nú í ár upp á 21. janúar. Rétt er – fyrir þá er telja sig bónda á sínu heimili – að fara eftir þeim íslenska sið að vakna fyrir allar aldir og hoppa í kringum heimili sitt á öðrum fæti, hálfberrassaðir, dragandi brókina á eftir sér. Halda síðan veislu.

Eða, eins og segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, að "... karlmenn skyldu fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa."

Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra og veitir gæfu þeim er á horfa“ segja Þjóðsögurnar. (Þetta er rétt að muna að ári fyrir þá sem ekki vissu og ef til vill gott að klippa út greinina.)

Áhugavert er að sjá auglýsingar fjölmiðla í tilefni bóndadagsins, en fyrstu slíkar auglýsingar á prenti birtust í dagblöðunum í kringum níunda áratuginn. Eyjafréttir, árið 1983, voru ekki að skafa utan af því og settu í blaðið auglýsingu frá blómaverslun þeirra Eyjamanna – Eyjablóm – sem klykkt er út með setningunni Hann á það skilið? Einhverjum þætti slíkt orðalag, þótt grípi sannarlega augað, nú ekki við hæfi, svona út á við a.m.k., í dag.

Góa

Öðrum hnöppum var að hneppa með blómaauglýsingar konudagsins, sem birtust alla jafna tuttugu árum fyrr á síðum prentmiðlanna. Þar var annar póll tekinn í hæðina og konum hyglt eins og enginn væri morgundagurinn. Jafnvel þótti við hæfi að þær veldu sér blómin sjálfar.

Blómaflaustur þetta hófst annars allt með uppátækjasemi í bland við alúð blómakaupmanns nokkurs, Þórðar Þorsteinssonar að nafni, en hann átti einmitt Gróðrarstöðina að Sæbóli sem var lengi farsællega rekin í Fossvogi. Vegna áhrifa Þórðar kemur svo fyrsta blaðaauglýsing konudagsblóma, árið 1957, frá Félagi garðyrkjubænda og blómaverslana. Þórður þessi, ásamt fjölskyldu sinni, sá stórum hluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu fyrir blómum til fjölda ára auk þess sem ágóða mæðradags hvers árs létu hann og Helga kona hans ávallt renna til mæðrastyrksnefndar.

Mánuður góu hefst annars á sunnudegi átjándu viku vetrar sem er nefndur konudagur. Síðasti dagur góu nefnist hins vegar góuþræll og samkvæmt íslenska almanaksvefnum þykir hann einn versti óhappadagur ársins.

Yngissveinadagur

Einmánuður er síðasti vetrarmánuðurinn en fyrsti dagur hans er helgaður ungum piltum, kallaður yngismanna- eða yngisveinadagur. Þótti við hæfi að stúlkur færu á fætur þann dag fyrr en piltar og færðu þeim glaðning.

Yngismeyjadagur

Harpa, fyrsti sumarmánuðurinn, er haldinn hátíðlegur, í raun bæði með sumardeginum fyrsta og þá jafnframt degi yngismeyja. Ekki fer þó fregnum af því að piltar hafi rokið upp fyrir allar aldir og stússað við ungmeyjarnar, þótt dagurinn væri víst helgaður þeim. Heldur hefur þó fólk vanist því að halda hátíðlegan fyrsta sumardag á meðan dagur yngismeyja hefur fallið í skuggann, en aldir eru síðan sumrinu var fyrst blótað þennan dag.

Og svo áfram veginn

Skerpla tekur við af hörpu sem áttundi mánuður ársins og er uppruni nafnsins óræður, en gæti komið af orðinu skorpinn eða þurrinn. Sólmánuðurinn, þriðji sumar­mánuðurinn, byrjar á sólstöðum og í byrjun hans þótti gott að fara á grasafjall eins og var kallað. Jurtum til lækninga var safnað og hvannir skornar auk þess sem töfrar Jónsmessunnar voru hylltir. Heyannir, nafn mánaðarins næst á eftir sólmánuði, kennir iðju þess tíma árs, heyskapar auk þess sem þótti best, um miðjan mánuð að hefja sölvatekju. Nafn tvímánaðar hefur verið skýrt á ýmsa vegu en réttasta skýringin er sjálfsagt sú að á þeim tíma eru tveir mánuðir til vetrar. Að lokum ber að nefna haust­mánuð, sem einnig er nefndur garð­lags­mánuður þar sem á þessum tíma þótti ekki seinna vænna en að ganga í að bæta túngarða, hús eða annað sem þótti bóta við. En nú er ekki seinna vænna að fara að huga að konudeginum ef frúrnar hafa ekki skellt í lás eftir síðasta bóndadag.

(Svona ef einhver gerði alvöru úr því að hoppa um buxnalaus ...)

Auglýsing Bóndadagsblómanna árið 1983 en þar virtust menn efins um ágæti þess að færa bændum blóm.
Það hefur sjálfsagt verið eitthvað tilfallandi.

Skylt efni: Gamli tíminn

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...