Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Stefna stjórnvalda í tollamálum ógnar íslenskri matvælaframleiðslu
Skoðun 2. júlí 2020

Stefna stjórnvalda í tollamálum ógnar íslenskri matvælaframleiðslu

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Innflutningur á búvörum hefur snaraukist á síðustu árum og með nýlegum tollasamningi við Evrópusambandið hafa álögur á innflutning minnkað til muna. Bændasamtökin hafa lýst áhyggjum sínum af útboði tollkvóta á landbúnaðarvörum á seinni hluta ársins. Erindi var sent á ráðherra sjávar­útvegs- og landbúnaðarmála þann 30. apríl síðastliðinn þar sem farið var fram á að fallið yrði frá útboði á tollkvótum fyrir tímabilið júlí til desember á þessu ári.

Ástæðan er fyrst og fremst þau áhrif sem kórónuveiran hefur haft á viðskipti með búvörur. Svarbréf barst þann 19. maí þar sem ekki var fallist á tillögu Bændasamtakanna. Í rökstuðningi BÍ var meðal annars bent á þau áhrif sem fækkun ferðamanna hefur haft á matvælamarkaðinn hér á landi. Ein aðalforsenda þess að ríkisvaldið jók innflutningskvóta á sínum tíma í samningum við ESB var einmitt sögð ör fjölgun ferðamanna. Sú forsenda er algjörlega brostin eins og alþjóð veit.

Í öðru lagi hafa bændur áhyggjur af nýju úthlutunarkerfi sem gæti leitt af sér lægra verð á tollkvótum fyrir innflytjendur. Það þýðir í raun að tollvernd innlendra búvara veikist sem því nemur. Nú hefur ráðuneytið auglýst og úthlutað á grundvelli nýja útboðskerfisins. Niðurstaðan er sú að tollar á flestum  afurðum sem boðnar voru upp lækka umtalsvert. Á sama tíma höfum við í orði staðið vörð um íslenska framleiðslu og talað um eflingu landbúnaðar í landinu. Nú er svo komið að til dæmis nautakjötsframleiðendur sjá fram á stórfellt tap á sínum rekstri vegna þess hvað tollverndin er rýr. Það er deginum ljósara að sú stefna sem ríkisvaldið hefur kosið að taka í tollamálum veikir og ógnar verulega íslenskri matvælaframleiðslu. Bændasamtökin gera þá kröfu að tollasamningur við Evrópusambandið verði endurskoðaður vegna þess forsendubrests sem orðið hefur í veigamiklum atriðum hans.

Íslenskt atvinnulíf gengur nú í gegnum djúpa efnahagslægð og þess vegna er mikilvægt að verja öll innlend störf og nýta skynsamlega þær matvælaauðlindir sem við eigum í landinu. Af hverju ættum við að keppa að því að flytja inn matvæli erlendis frá sem við getum auðveldlega framleitt sjálf? Stjórnmálamenn þurfa að svara þessari spurningu og tryggja að rekstrarumhverfi matvælaframleiðslunnar sé ekki fórnað í þágu örfárra heildsala.

Matvælasjóði hleypt af stokkunum

Stjórn Matvælasjóðs hefur komið saman og fyrsta verk hennar verður að semja reglur vegna úthlutana úr sjóðnum. Stefnt er að því að auglýsa eftir umsóknum eftir miðjan ágúst og úthluta styrkjum í haust. Í sjóðnum eru umtalsverðir fjármunir sem nýtast munu landbúnaði til framfara og þróunar. Ég vil hvetja bændur og fyrirtæki þeim tengd að fylgjast með þegar auglýst verður og nýta sumarið í að huga að hvernig við getum gert betur og aukið verðmætasköpun í landbúnaði. Horfum út fyrir kassann og nýtum tækifærin sem felast í íslenskum landbúnaði. Við sem bændur verðum að tengja okkur betur við neytendur og spyrja hvað þeir vilja. Hvað varð til dæmis um „íslensku kindakæfuna“ og „alvöru rúllupylsuna“? Ég tel að hluti af búvöruframleiðslunni eigi að horfa til sjávarútvegsins og spyrja hvað við getum lært af þeim. Sem dæmi má nefna skurð á afurðum og pökkun, frystingu og tala nú ekki um að lengja tímann sem við getum boðið ferskt lambakjöt. Ég hef verið spurður að því af hverju við getum ekki keypt kjöt af gimbrum. Notum sumartímann meðan við erum að slá eða ferðast til að hugsa hvað við getum gert betur í okkar framleiðslu.

Aukin framleiðsla á grænmeti

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í sumar í garðyrkjunni og eru það gleðitíðindi. Í blaðinu í dag er sagt frá nokkrum stórhuga bændum sem hafa ákveðið að stækka bú sín og auka framleiðsluna. Það gera þeir meðal annars vegna þess að nýr garðyrkjusamningur veitir mönnum framtíðarsýn, þó gildistíminn sé reyndar ekki nema til ársins 2026. Með samningnum eru skapaðar forsendur fyrir því að hægt verði að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Það er jákvætt og metnaðarfullt markmið fyrir greinina í heild.

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?
Skoðun 16. maí 2022

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?

Mikið er ritað og rætt um hækkandi vöruverð og dýrari matarinnkaup þessi misseri...

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum
Skoðun 12. maí 2022

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum

Stríðið í Úkraínu hefur sett hrávörumarkaði heimsins á hliðina, breytt jafnvægi ...

Ómetanleg verðmæti
Skoðun 12. maí 2022

Ómetanleg verðmæti

Vorið er tími vonar og væntinga og þá hýrnar yfir Íslendingum, ekki síst nú efti...

Bændur eru hluti af lausninni
Skoðun 12. maí 2022

Bændur eru hluti af lausninni

Nýjar matarvenjur og sívaxandi áhersla á breyttar framleiðsluaðferðir, m.a. í la...

Heimili í dreifbýli þurfa öflugar eldvarnir
Skoðun 5. maí 2022

Heimili í dreifbýli þurfa öflugar eldvarnir

Mörg heimili í dreifbýli eru þannig í sveit sett að langt er í næstu slökkvistöð...

Hækkanir matvælaverðs í heiminum eiga sér vart fordæmi
Skoðun 28. apríl 2022

Hækkanir matvælaverðs í heiminum eiga sér vart fordæmi

Gleðilegt sumar, ágæti lesandi, og takk fyrir veturinn sem hefur verið á margan ...

Ljósin blikka
Skoðun 28. apríl 2022

Ljósin blikka

Viðvörunarljós blikka nú um allan heim vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í matvæla...

Lúpína er eina vonin á erfiðustu svæðunum
Skoðun 7. apríl 2022

Lúpína er eina vonin á erfiðustu svæðunum

Uppblástur í Norðurþingi er mikill og þrátt fyrir áratuga sáningu grasfræs og no...