Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Sjálfbær landnýting og vinna við drög að reglugerð
Mynd / Bbl
Skoðun 10. desember 2021

Sjálfbær landnýting og vinna við drög að reglugerð

Höfundur: Árni Bragason

Lög um landgræðslu nr. 155/2018 voru samþykkt 14. desember 2018 með 60 atkvæðum (þrír fjarstaddir). Í lögunum er grunntónn sjálfbær landnýting.

Í níundu grein laganna segir; „nýting lands skal vera sjálfbær þannig að ekki sé gengið á auðlindir þess og þær endurheimtar eins og unnt er, og jafnframt að viðgangur og virkni vistkerfa haldist. Nýting lands skal byggjast á viðmiðum um sjálfbærni, sbr. 11. gr.“

Í 11. greininni segir að ráðherra skuli setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu, „m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju. Landgræðslan gerir tillögur að slíkum leiðbeiningum og viðmiðum að höfðu samráði við hlutaðeigandi stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila eftir því sem við á hverju sinni. Ráðherra birtir opinberlega drög að leiðbeiningum og viðmiðum og skal frestur til að skila athugasemdum vera að lágmarki fjórar vikur.“

Reglugerðardrögin voru til umsagnar í 6 vikur og er því lokið. Alls bárust 88 umsagnir og margar gagnlegar ábendingar en greinilegt er að munur er á því hvað fólk telur að eigi að leggja til grundvallar þegar meta á hvað teljist sjálfbær nýting.

Byggt á alþjóðlegri vinnu

Þegar vinna við drög að reglugerð hófst var rætt við fjölmarga aðila um aðstoð og ábendingar en fljótt kom í ljós að leita yrði fyrirmynda erlendis. Sjálfbær landnýting hefur hins vegar verið í umræðunni og rannsóknir stundaðar um áratuga skeið víða um heim. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna FAO og Global Soil Partnership hafa t.d. fjallað um málefnið á aðildarríkjafundum og gefið út fjölda leiðbeiningarrita.

Landgræðslan skoðaði fyrst hvort við gætum tekið upp það fyrirkomulag sem Norðmenn leggja til grundvallar í sínu mati á landnýtingu, en það var ljóst að beitilönd sem við teljum í ásættanlegu ástandi hefðu kolfallið með beitingu norsku reglnanna. Því var nauðsynlegt að innleiða stað­færslu á reglum sem tækju meira tillit til ástands lands og aðstæðna á Íslandi.

Reglugerðardrögin byggja því á staðfærslu sérfræðivinnu FAO – Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sþ sem lagt hefur grunninn að þeirri aðferðafræði sem notuð er og hefur verið aðlöguð að aðstæðum um allan heim og er notuð í mörgum Evrópulöndum, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Banda­rík­j­unum og hefur verið kennd í áratug í Landgræðsluskóla Sþ á Íslandi. Nemendur sem stundað hafa nám í Landgræðsluskólanum vinna nú að innleiðingu sjálfbærnireglna í sínum heimalöndum byggða á þessari aðferðafræði.

Jarðræktar- og akuryrkjukaflinn byggir á faglegri vinnu FAO og Evrópusambandsins og á þeim reglugerðum sem í gildi eru í Evrópusambandinu. Ástæða er til að leiðrétta misskilning sem hefur farið hátt undanfarnar vikur og árétta að jarðræktar/ akuryrkjuhluti draganna, sjöunda grein og viðauki tvö, eru aðeins leiðbeinandi viðmið um betri búskaparhætti; tilraun til þess að stuðla að betri og loftslagsvænni landbúnaði. Aukin akuryrkja kallar á innleiðingu nýrra vinnubragða og vandi okkar á Íslandi er stuttur vaxtartími. Bændur í Evrópu standa frammi fyrir svipuðum vanda og íslenskir bændur því þar er sífellt verið að innleiða ræktun suðrænni afbrigða og tegunda og því eru áskoranir þeirra þær sömu og okkar. Við getum því lagt til grundvallar þær reglur sem notaðar eru í Evrópu og byggja þar á áratuga hefðum, reynslu og rannsóknum. Ég treysti bændum landsins vel til að takast á við þessar áskoranir og sem betur fer eru þeir færri og færri akrarnir sem opnir eru á veturna með tilheyrandi foki og tapi á næringarefnum og jarðvegi.

Samráð

Landgræðslan hafði samráð við fjölmarga aðila við gerð reglugerðardraganna og átti m.a. nokkra formlega vinnufundi með Bændasamtökum Íslands og Lands­samtökum sauðfjárbænda og fékk þar fjölda mjög gagnlegra ábendinga.

Í vinnuferlinu sendi stofnunin helstu beitarsérfræðingum landsins einnig drögin til skoðunar og óskaði eftir athugasemdum og ábendingum. Flestir brugðust vel við og eru þeim þakkaðar gagnlegar ábendingar.

Drög að reglugerð – grundvallarmunur á viðmiðum

Það var ljóst af samtölum við hagsmunaaðila að grundvallarmunur er á hugmyndum um skilgreiningu á sjálfbærri landnýtingu. Landgræðslan hefur lagt til grundvallar aðferðafræði sem notuð er og lögð er til grundvallar í alþjóðlegu starfi FAO og þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Samkvæmt þessari aðferðarfræði telst landnýting ekki sjálfbær ef jarðvegs-, vatns- og næringaefnaferlar eru skertir eða ekki til staðar. Það að land sé í framför er vissulega frábært en ef allan grunn vantar er áfallaþol landsins ekkert og stutt í landeyðinguna. Þetta á sérstaklega við um land sem nýlega hefur verið grætt upp því þótt gróðurþekja hafi myndast á skömmum tíma á það sama ekki við um jarðveginn. Nýting á slíku landi verður þá undir þeim formerkjum að hún sé ósjálfbær. Ef land ber ekki merki hnignunar og virkni jarðvegs er til staðar skal nýtingin teljast sjálfbær.

Beit á landi í yfir 700 metra hæð yfir sjó getur með engu móti talist sjálfbær því við slíkar aðstæður er vaxtartími beitarplantna vart meiri en 5-6 vikur því hiti lækkar um 0,6 °C til 0,7 °C við hverja hundrað metra. Grös og blómjurtir byrja að vaxa við 4-6 °C. Slíkir dagar eru fáir í 700 metra hæð og ef gróður við þær aðstæður er bitinn í lok vaxtartíma er enginn tími til að safna orku, hann drepst líklega eða skrimtir veturinn.

Skrif Bændablaðsins og umfjöllun í fjölmiðlum
Árni Bragason.

Bændablaðið hefur birt greinar um drögin og aðallega fjallað um ómöguleika þess að innleiða þær reglur sem þykja orðið sjálfsagðar víða um heim. Í þessum umfjöllunum er þess vandlega gætt að nefna ekki að þegar um er að ræða land í miklum halla sem ekki er rofið skal það metið sérstaklega eða að jarðræktarhluti draganna er leiðbeinandi. Upphrópanir benda til þess að sumir virðast ekki hafa lesið drögin en velja að tjá sig með stórum orðum. Þær upphrópanir minna helst á umfjöllun Bændablaðsins um endurheimt votlendis þar sem skrif andstæðinga endurheimtar eru lögð að jöfnu við rannsóknaniðurstöður vísindamanna.

Athugasemd ritstjóra:
Skortur á vísindalegum gögnum

Að gefnu tilefni skal tekið fram að Bændablaðið hefur í mörg ár óskað eftir að fá í hendur vísindagögn og mælingar sem staðfesta hver raunveruleg losun er úr framræstu landi á Íslandi með hliðsjón af mismunandi jarðvegsgerð. Þessi gögn hafa enn ekki fengist.

Fyrirspurn Bændablaðsins er sprottin af umfjöllun virtra vísindamanna í þessum fræðum, eins og dr. Þorsteins Guðmundssonar og dr. Guðna Þorvaldssonar og fleiri. Þeir hafa gagnrýnt fullyrðingar sem byggja ekki á vísindalegum gögnum og mælingum á Íslandi. Einnig málatilbúnað í kringum mokstur í framræsluskurði sem byggja upphaflega á rannsóknum á mýrum í Brandenburg í nágrenni Berlínar þar sem meðalhiti er 9 gráður á C en ekki 4 °C eins og á Íslandi. Hitastig hefur einmitt veruleg áhrif á örverumyndun í jarðvegi og losun gróðurhúsalofttegunda.

Meira að segja mælingar á skurðakerfinu hafa verið byggðar á ágiskunum þar til að nýverið er farið að hnitasetja skurði. Þar hafa því verið settar fram ýmsar tölur um skurðalengd og lengi var miðað við 34.000 kílómetra og að áhrifasvæði losunar á gróðurhúsalofttegundum næði 200 metra beggja vegna skurða. Á þessum forsendum var m.a. fullyrt af umhverfisráðuneyti, ráðherra þess, umhverfisverndarsamtökum og fulltrúum Votlendissjóðs að losun frá framræstu landi á Íslandi væri um 70% af heildarlosun Íslendinga á CO2. Þegar farið var í framhaldinu að áætla frekar skurðalengdina fór hún í 32.500 km, síðan í 31.610 km og loks í 29.700 km. Enn heyrist því samt haldið fram að 70% af heildarlosun Íslendinga á CO2 stafi af framræstu landi.

Eftir skrif vísindamanna og umfjöllun Bændablaðsins þar sem fullyrðingar án sannana voru gagnrýndar, fjarlægði umhverfis­ráðuneytið ófaglegar fullyrðingar um 70% losunina af vefsíðu sinni og í staðinn var farið að tala um 60% án þess að rökstyðja það nánar með vísindalegum gögnum.

Þorsteinn og Guðni sýndu líka fram á að áhrifasvæði framræsluskurða sem miðað var við stæðist ekki í veruleikanum og munaði þar miklu. Bændablaðið óskaði því sérstaklega eftir vísindagögnum og gasmælingum á landi áður en mokað hefur verið í skurði og eftir mokstur til að sýna raunhæfan samanburð. Þau gögn hafa enn ekki verið lögð fram.

Hörður Kristjánsson,
ritstjóri Bændablaðsins

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda
Skoðun 21. júní 2022

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að...

Traust og „chill“
Skoðun 20. júní 2022

Traust og „chill“

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sa...

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu
Skoðun 9. júní 2022

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu

Margt fellur með íslenskri kjötframleiðslu, landgæði, vatn, skilningur neytend...

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins
Skoðun 1. júní 2022

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins

Síðastliðinn áratug hafa áskoranir laxeldisgreinarinnar á Íslandi breyst að því ...

Nagandi afkomuótti
Skoðun 23. maí 2022

Nagandi afkomuótti

Öllum sem fylgjast með ástandi heimsmála og samfélagsins hlýtur að vera ljóst að...

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?
Skoðun 16. maí 2022

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?

Mikið er ritað og rætt um hækkandi vöruverð og dýrari matarinnkaup þessi misseri...

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum
Skoðun 12. maí 2022

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum

Stríðið í Úkraínu hefur sett hrávörumarkaði heimsins á hliðina, breytt jafnvægi ...

Ómetanleg verðmæti
Skoðun 12. maí 2022

Ómetanleg verðmæti

Vorið er tími vonar og væntinga og þá hýrnar yfir Íslendingum, ekki síst nú efti...

Teppið Tólf ský
17. desember 2019

Teppið Tólf ský

Rafmagnsfjórhjól frá Tékklandi
9. nóvember 2020

Rafmagnsfjórhjól frá Tékklandi

Nautgripir – baulaðu, búkolla
15. febrúar 2016

Nautgripir – baulaðu, búkolla

Rifs- og sólber
22. ágúst 2014

Rifs- og sólber

Slammað með tekíla
12. ágúst 2022

Slammað með tekíla