Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matvælaumræðan og umhverfismálin á oddinum
Mynd / HKr.
Skoðun 29. apríl 2021

Matvælaumræðan og umhverfismálin á oddinum

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Síðustu vikur hafa verið um margt áhugaverðar þar sem hver greinin á fætur annarri fjallar um aðgengi neytenda að upplýsingum um ýmis matvæli sem sett eru í matarkörfuna. Matvælaumræðan og umhverfismálin eru nefnilega og verða á oddinum til framtíðar þar sem landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn, matvælaframleiðslan og matvælageirinn standa frammi fyrir áskorunum og auknum kröfum frá neytendum um heilnæmi afurða og upprunamerkingar. Neytendur vilja gæðavörur, með lítið kolefnisspor og upprunamerkingu því neytandinn vill val. 

En þetta er hafsjór af ýmiss konar merkingum sem eru jafn ólík og þau eru mörg. Hér verður þó að gæta þess að gera greinarmun á merkjum sem segja annars vegar til um heilnæmi eða hollustu matvæla, eins og t.a.m. Skráargatið, og hins vegar vottunarmerkjum á matvæli sem gefa til kynna að framleiðsla vörunnar fylgi eftir alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun, sjálfbærni, umhverfissjónarmið og dýravelferð. Þessu tengdu þarf líka að hafa í huga að hið opinbera og mörg fyrirtæki hafa mótað sér svokallaðar „grænar innkaupastefnur“ þar sem gerð er krafa um að vara hafi tiltekna vottun, t.a.m. þarf kaffi að vera með svokallaða Fair Trade siðgæðisvottun sem tryggir að við framleiðslu vörunnar eru gerðar lágmarkskröfur um verð, vinnuaðbúnað og umhverfismál. 

Hér á Íslandi geta bændur og þeir sem eru í frumframleiðslu sótt um vottun fyrir lífræna framleiðslu til vottunarstofunnar Túns sem er faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Þá geta framleiðendur sótt um Svaninn eða Evrópska blómið fyrir umbúðir sem eru í samræmi við ISO staðalinn 14026. En þetta er mikill frumskógur sem starfsfólk Bændasamtakanna hefur hafið vinnu á að greina og eru til þjónustu reiðubúin í samtal við félagsmenn til leiðbeininga, skrafs og ráðagerða en mikil gróska og þróun er að eiga sér stað í þessum málum á hverjum degi.   

Meira um umhverfismálin

En aðeins meira um umhverfismálin. Til að kolefnisjafna íslenskan landbúnað þarf að græða upp 300.000 hektara af landi á tímabilinu 2020–2030. Kolefnisbinding mun að mestu fara fram með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þarna hafa bændur margt fram að færa, landið, þekkinguna og verkfærin. 

Í umhverfisstefnu Bændasamtakanna sem samþykkt var á Búnaðarþingi 2019 segir að skógrækt ætti að vera fyrsti kostur þegar kemur að aðgerðum til að binda kolefni. Til þess að kolefnisjafna íslenskan landbúnað þarf að planta um 60.000 ha af blönduðum skógi á tímabilinu 2020–2030. Þetta samsvarar 6.000 ha á ári, eða 2 ha á hvert lögbýli í byggð. 

Með aukinni landgræðslu er stefnt að kolefnisbindingu en einnig unnið að vistheimt og aukinni sjálfbærni í landnýtingu. Þá má nefna endurheimt votlendis sem er öflug mótvægisaðgerð gegn kolefnislosun. Ekki er um að ræða kolefnisbindingu heldur er kolefnislosun frá framræstu landi stöðvuð en áætlað er að árlega losni um 20 tonn af CO2 í framræstu landi. Ef kolefnisjafna á íslenskan landbúnað fyrir 2030 þarf að endurheimta 30.000 ha af votlendi á tímabilinu, sem samsvarar um 3.000 ha árlega eða ca 1 ha á hvert lögbýli í byggð. En hvernig berum við okkur að? Mun það eitt og sér duga að moka ofan í alla skurði á landinu? 

Nýsköpun, styrkir og fjármálaáætlun

En væri ekki skynsamlegt  að sækja um styrki fyrir svona verkefni eins og að moka ofan í skurði og mæla losun árlega til ársins 2030 í samstarfi við óháð fyrirtæki sem mæla slíka losun? Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög um opinberan stuðning við nýsköpun. Eitt meginefni þeirra laga var að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og setja á fót Tæknisetur. 

Vissulega er margt gott sem fólst í nýrri lagasetningu en þó vantar útfærslu á þeim brýnu verkefnum sem við þurfum að takast á við, t.a.m. á sviði loftslagsbreytinga. 

Markmið ríkisstjórnarinnar og megináherslur aðgerða vegna faraldursins snúa m.a. að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins sem dregin er áfram af verðmætum störfum og fjárfestingum. Áhersla er þar með lögð á menntun, rannsóknir, nýsköpun, innviði og umhverfis- og loftslagsmál. Í fjármálaáætlun 2022–2026 er gert ráð fyrir 1 ma.kr. árlegri aukningu á tímabilinu til að stuðla að efndum Íslands á uppfærðum skuldbindingum sínum gagnvart Parísarsamningnum þannig að stefnt verði að 55% samdrátt í losun fyrir 2030 og að markmiðið um kolefnishlutleysi verði náð árið 2040. Jafnframt er nauðsynlegt að bændur leiti lausna í bindingu metans við búrekstur og nýti þar með betur áburðargildi búfjáráburðar. Fjármagnið er til staðar, Bændasamtökin eru með umhverfisstefnu og lausnin hefur verið kynnt. Þá er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja kolefnisjöfnun íslensks landbúnaðar.

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda
Skoðun 21. júní 2022

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að...

Traust og „chill“
Skoðun 20. júní 2022

Traust og „chill“

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sa...

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu
Skoðun 9. júní 2022

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu

Margt fellur með íslenskri kjötframleiðslu, landgæði, vatn, skilningur neytend...

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins
Skoðun 1. júní 2022

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins

Síðastliðinn áratug hafa áskoranir laxeldisgreinarinnar á Íslandi breyst að því ...

Nagandi afkomuótti
Skoðun 23. maí 2022

Nagandi afkomuótti

Öllum sem fylgjast með ástandi heimsmála og samfélagsins hlýtur að vera ljóst að...

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?
Skoðun 16. maí 2022

Hvað verður um nautakjötsframleiðsluna?

Mikið er ritað og rætt um hækkandi vöruverð og dýrari matarinnkaup þessi misseri...

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum
Skoðun 12. maí 2022

Alþjóðabankinn spáir áframhaldandi hækkunum á hrávörumörkuðum

Stríðið í Úkraínu hefur sett hrávörumarkaði heimsins á hliðina, breytt jafnvægi ...

Ómetanleg verðmæti
Skoðun 12. maí 2022

Ómetanleg verðmæti

Vorið er tími vonar og væntinga og þá hýrnar yfir Íslendingum, ekki síst nú efti...