Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Dökkgrænir hálfmánar til vinstri á myndinni er handsáð lúpína, nokkurra ára gömul. Ofar til vinstri er margra ára dreifing á grasfræi og tilbúnum áburði, þar er mjög lítill árangur miðað við kostnað og vinnu.
Dökkgrænir hálfmánar til vinstri á myndinni er handsáð lúpína, nokkurra ára gömul. Ofar til vinstri er margra ára dreifing á grasfræi og tilbúnum áburði, þar er mjög lítill árangur miðað við kostnað og vinnu.
Mynd / Björn Halldórsson
Skoðun 7. apríl 2022

Lúpína er eina vonin á erfiðustu svæðunum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Uppblástur í Norðurþingi er mikill og þrátt fyrir áratuga sáningu grasfræs og notkun á tilbúnum áburði er árangurinn víða lítill í hlutfalli við vandamálið. Björn Halldórsson, bóndi á Valþjófsstöðum í Norðurþingi, segir að breyta þurfi stefnu Landgræðslunnar þegar kemur að notkun lúpínu, því að hún sé það sem skilar mestum árangri á erfiðum svæðum, og segir það vera draumsýn að nota bara íslenskar plöntur til landgræðslu.

Lúpína í blóma.

Björn segir nauðsynlegt að ræða um uppgræðslu á erfiðum svæðum eins og á heiðunum í Núpasveit og upp af Öxarfirði í átt að Hólsfjöllum. „Melrakkaslétta er sæmilega gróin, nema Leirhafnarfjöllin, en ástandið á heiðum suður af Núpasveit er þannig að það er ekkert annað í boði en að nota lúpínu ef við ætlum að ná verulegum árangri í uppgræðslu.“

Erum að falla á tíma

„Við erum búin að reyna í rúman áratug að bera grasfræ og tilbúinn áburð hér á Valþjófstaðafjallið og satt best að segja er árangurinn lítill og við erum að falla á tíma þar sem síðasti jarðvegurinn er að fjúka burt og út á haf.
Sá litli árangur sem grasfræið og áburðargjöfin hefur verið að skila er að það vex upp lítils háttar af krækiberja- og beiti­lyngi en jarðvegsmyndun er lítil og sums staðar á undanhaldi ef áburðargjöf er hætt. Þetta þýðir að þau svæði sem eru komin með lítils háttar gróðurþekju eru ekki að skila neinni teljandi uppskeru og við sem höfum takmarkað landrými getum ekki leyft okkur að vera með stór svæði án uppskeru.“

Mynd af mel eftir áratuga uppgræðslu með tilbúnum áburði og grasfræi.

Hækkandi áburðarverð

Í kjölfar hækkandi áburðarverðs hefur Landgræðslan boðað minnkandi áburðargjöf og að sögn Björns er ekkert annað að koma í staðinn nema það að treina áburðarskammtinn yfir stærra svæði og um leið enn minni árangur.
„Það þýðir að í mörgum tilfellum þurfa bændur að leggja fram fleiri klukkutíma eða daga í sjálfboðavinnu en áður, meiri olíu á vélar og meira slit á vélum.“

Í bréfi sem Björn sendi Landgræðslustjóra segir að hafa þurfi í huga „að sum uppgræðslusvæði eru mjög ill yfirferðar, melar jafnvel alþaktir misstórum steinum, oft hliðarhalli og mikil veltihætta fyrir vélar. Þannig aðstæður fara illa með vélar og eru heilsuspillandi fyrir ökumann. Á þessi verstu svæði er því ekki í boði að fara með vélar á hverju ári, heldur bera sæmilega á og sleppa síðan úr einu til þremur árum áður en borið er á aftur.“

Lúpína það helsta sem skilar árangri

„Ég er búinn að reyna grasfræ og tilbúinn áburð og líka lúpínu á Valþjófsstaðafjall, sem er móbergs­fjall sem hefur myndast við gos undir jökli. Bergið er laust í sér og jarðvegurinn þurr og aðstæður til ræktunar erfiðar.
Sáning lúpínu er það helsta sem hefur sýnt verulegan árangur, en því miður get ég ekki lengur fengið fræ af lúpínu frá Landgræðslunni og mig grunar að það sé ekki vegna þess að hún geti ekki framleitt fræ, heldur fremur spurning um vilja.

Lerki á gömlum mel. Melurinn var nánast gróðurlaus fyrir um hálfri öld, en var græddur upp með lífrænum áburði, heyrusli og lítils háttar af tilbúnum áburði. Fyrir tæpum tuttugu árum var svo gróðursett lerki þarna.

Í dag er það stefna Landgræðsl­u­nnar að nota ekki erlendar plöntutegundir til landgræðslu en það er bara ekki til nein íslensk planta sem ræður við þessar aðstæður. Ég hef bæði gróðursett og sáð lúpínu í fjallið í um áratug og reynt eftir bestu getu að halda fé frá og þar sem hún nær að blómstra og fella fræ er hún farin að dreifa sér dálítið sjálf og annar gróður farinn að koma upp í kringum hana.“

Snjóskaflar brúnir af áfoki

Björn segir að með því að mega ekki nota erlenda tegund eins og lúpínu sé verið að hefta og takmarka landgræðslumöguleika í landinu. „Í austan hvassviðri í vetur hér í Norðurþingi urðu snjóskaflar brúnir af áfoki og í þeim má sjá fræbelgi af beitilyngi sem hafa rifnað af plöntunum í rokinu. Þetta og það að röst af slíkum fræbelgjum mátti finna í flæðarmálinu hér niðri við sjó er svo aftur vísbending um að gríðarlegt magn af jarðvegi og fræi hafi fokið út á haf.

Ástandið er grafalvarlegt og að mínu mati þarf Landgræðslan að endurskoða stefnu sína gagnvart lúpínu.“

Áfok á snjóskafli við Valþjófsstaði í Norðurþingi.

Náttúruverndarhugtakið gjaldfellt

„Að mínu mati er búið að gjaldfella náttúruverndarhugtakið. Margir telja í dag að náttúruvernd felist aðeins í því að endurheimta plöntur sem fólk heldur að hafi vaxið á ákveðnum svæðum á ákveðnu tímabili og séu íslenskar og þær einu réttu.

Ég tel það vera draumsýn að nota bara íslenskar plöntur til landgræðslu því veruleikinn leyfir það ekki. Náttúruvernd í mínum huga felst í því að gera eitthvað sem er til bóta fyrir náttúruna,“ segir Björn Halldórsson.

Í áfoki á snjó má greina fræbjöllur af beitilyngi.

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...