Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þátttakendur á námskeiðinu, ásamt Ágústu Sigurjónsdóttur.
Þátttakendur á námskeiðinu, ásamt Ágústu Sigurjónsdóttur.
Mynd / SBH
Lesendarýni 8. desember 2022

Frjótæknar komnir á nýjan stað

Höfundur: Baldur Helgi Benjamínsson og Andri Már Sigurðsson.

Dagana 1.-4. nóvember sl. tóku fjórtán íslenskir frjótæknar þátt í endurmenntunarnámskeiði hjá nautgriparæktarfélaginu Viking Danmark og fór það fram í Álaborg á Jótlandi.

Námskeiðið var haldið að frumkvæði Frjótæknafélags Íslands og hafði Andri Már Sigurðarson, frjótæknir hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og formaður félagsins, forgöngu að því. Ásamt Andra kom Baldur Helgi Benjamínsson, kúabóndi og kynbótafræðingur á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, að skipulagningu námskeiðsins, í samráði við framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Búnaðarsambands Suðurlands, Búnaðarsamtaka Vesturlands og forstöðumann Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands. Um uppsetningu námskeiðsins og skipulagningu ytra sá Niels Haulrik Kristiansen, endurmenntunarstjóri VikingDanmark. Nokkrir makar voru með í för og alls taldi hópurinn sem fór utan 19 manns.

Góð kennsluaðstaða

Námskeiðið fór að mestu fram í aðstöðu sem VikingDanmark (VD) hefur komið sér upp við nautgripasláturhús samvinnufélagsins Danish Crown, sem staðsett er í austurhluta Álaborgar. Þar er 4-500 gripum slátrað daglega, alla virka daga, og fjöldi starfsmanna er 135. Við hlið griparéttarinnar er kennsluaðstaða þar sem bóklegur hluti námskeiðsins fór fram. Verklegi hlutinn fór fram í réttinni sjálfri, þar er rúmgott svæði þar sem hægt var að koma fyrir sextán kúm í einu í læsigrindum. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Line Fruegaard, dýralæknir hjá VD, áðurnefndur Niels Haulrik Kristiansen og Ágústa Sigurjónsdóttir, frjótæknir hjá VD og búfræðingur frá Hvanneyri 1996.

Um tíu öðrum frjótæknum var svo fylgt eftir við dagleg störf. VikingDanmark er ræktunarfélag nautgripabænda í Danmörku sem rekið er sem samvinnufélag um sæðingastarfsemina. Það á síðan 50% hlut í Viking Genetics, á móti FABA í Finnlandi (25%) og Växa í Svíþjóð (25%) en það félag heldur utan um kynbótastarfið og rekur nautastöðina í Assentoft á Jótlandi, þar sem um 375 naut frá löndunum þremur eru haldin og sæðistaka og kyngreining sæðis fer fram. Notkun á kyngreindu sæði er orðin mjög útbreidd í Danmörku og t.d. í Jersey kúnum er hún nærri allsráðandi. Gert er ráð fyrir að innan fimm ára verði notkun á hefðbundnu sæði orðin hverfandi lítil.

Klara í Syðri-Hofdölum heilsar upp á kvígur á Klovborg. Mynd: ATB

Upprifjun í líffærafræði

Fyrsti námskeiðsdagur fór í upprifjun á líffæra- og lífeðlisfræði, ásamt helstu atriðum sem tengjast frjósemi nautgripa.

Fengu þátttakendur ítarlega kennslu í gangferli kúa, og stöðu á eggjastokkum og lærðu að meta með miklu öryggi hvar kýrin er stödd í gangferlinum út frá stöðu eggbús og gulbús, ásamt mati á blöðrum á eggjastokkum. Einnig fengu þeir mjög góða kennslu í fangskoðun og mati á aldri fósturs í viðkomandi kú með aðferðum sem þátttakendur höfðu ekki lært áður. Eftir mjög gagnlegan fyrirlestur fórum við og skoðuðum líffæri og var það mjög gagnlegt í beinu framhaldi af fyrirlestrinum. Hjá VD er lögð áhersla á að leita eftir a.m.k. þremur vísbendingum til að staðfesta fang, sem dæmi finna fósturhimnur og fósturæðar ásamt stöðu leghorna, t.d vökva og stærð. Allir sem tóku þátt voru sammála um að þetta hefði verið mjög gagnlegt og kæmi til með að styrkja þá mjög mikið í starfi.

Dagur með frjótækni

Á öðrum degi námskeiðsins var hópnum skipt upp og slóst helmingur hópsins í för með frjótækni frá VD og fylgdi honum eftir í starfi þann daginn. Baldur Helgi og Þorvaldur Jónsson, frjótæknir hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands, voru með frjótækninum Brett Yanz, sem fæddur er í Kanada en fluttist til Danmerkur fimm ára að aldri. Hann hefur verið frjótæknir frá 1988 og býr í Hjørring á Norður- Jótlandi. Á starfssvæði hans eru um 7.000 kýr á tiltölulega litlu svæði sem telst vera „meget kvægtæt“; mikill þéttleiki. Búin sem við heimsóttum voru mjög stór, mörg með á bilinu 4-700 kýr. Minnsta búið var með tæplega 100 kýr. Vegalengdir milli búanna voru stuttar og í eitt skipti voru búin hlið við hlið, þannig að bara þurfti að keyra yfir veginn. Heimsóknirnar þennan daginn voru tólf og rúmlega 110 kýr voru sæddar og fangskoðaðar. Mest sagðist Brett hafa sætt 26 kýr á einum bæ sama daginn. Á velflestum búum voru stígvél til reiðu fyrir þjónustuaðila; frjótækna og dýralækna. Aðstaða til sæðinga var víðast hvar mjög góð.

HandyVik pantar og skráir

Eitt af því sem mesta athygli vakti í þessari ferð var HandyVik farsímaappið sem VikingDanmark hefur látið útbúa og heldur utan um allar pantanir frá bændum og skráningar á þjónustu frjótækna hjá félaginu. Bændur panta langflestar sæðingar í gegnum þetta app og tekur það við pöntunum til kl. 7.30 á morgnana. Fyrir pantanir sem berast eftir þann tíma þarf að greiða aukalega og berist pantanir eftir kl. 10.30 fara þær yfir á næsta dag. Símatími frjótækna er 15 mínútur á dag. Gerð sæðingaáætlana er mjög útbreidd og þegar bóndi pantar sæðingu birtast þrjár tillögur að nautavali í appinu og velur frjótæknir eina af þeim á viðkomandi kú. Með þessu er handskráningum haldið í algjöru lágmarki og villuhættu þar með. Þá er mögulegt að senda bændum símaskilaboð um væntanlega komutíma frjótæknis, sem er til mikils hagræðis. Einnig er hægt að skrá margvíslegar upplýsingar um búið og aðstöðuna, sem auðveldar til muna afleysingu o.þ.h. Það er samdóma álit þeirra sem í ferðina fóru að slíku appi sem tengist skýrsluhaldskerfi nautgriparæktarinnar þurfi að koma í gagnið hér á landi hið fyrsta.

Ígrundað yfir æxlunarfærum. Mynd / SBH
Sónarskoðun

Þriðji dagur námskeiðsins fór að mestu í verklegar æfingar á sláturhúsinu. Fyrir hádegi voru kýrnar metnar lifandi og eftir hádegi voru æxlunarfæri metin og krufin eftir að búið var að slátra kúnum. Þá fóru einnig fram æfingar í notkun á sónar og var Easi-Scan:Go frá IMV notaður til verksins. Með honum er hægt að greina fóstur niður undir 30 daga meðgöngu. Hann er líka með innbyggðu þráðlausu neti, þannig að bóndinn getur fylgst með því sem fyrir augu ber í sínum síma. Þess má geta að um 70-80% frjótækna í Evrópu nota sónar við fangskoðun. Með slíku tæki er einnig hægt að staðfesta hvort um tví- eða fleirkelfinga er að ræða, ásamt því að mæla með mun meiri nákvæmni aldur fósturs. Einnig er hægt að leggja mat á eggjastokka, stöðu gulbúa og eggbúa og einnig blöðrur á eggjastokkum. Loks er hægt að fangskoða mun stærri hópa á skemmri tíma með mikilli nákvæmni, og hefur það í för með sér minna álag á hendur og axlir frjótækna.

Nokkrir af þátttakendum á námskeiðinu eru meðlimir í félagi norræna nautgriparæktarmanna, NÖK, Nordisk Økonomisk Kvægavl. Einn af helstu forsvarsmönnum NØK í Danmörku er Lars H. Pedersen, kúabóndi á búinu Klovborg, sem er rétt norðan við Álaborg. Hann fékk veður af námskeiði þessu og bauð hann og kona hans, Lis Pedersen, öllum hópnum til kvöldverðar heima á Klovborg. Var þar veitt á báðar hendur og lýsti heimboðið einstöku vinarþeli þeirra hjóna. Sungin voru íslensk ættjarðarlög og náði ferðin ákveðnum hápunkti þegar þorri íslensku frjótæknastéttarinnar söng Bjössi á mjólkurbílnum fyrir bílstjóra Arla, um leið og hann dældi rúmlega 12.000 lítrum um borð í mjólkurbílinn. Niels, sonur þeirra hjóna, hefur nú tekið við búrekstrinum og eru um 635 Jersey kýr á Klovborg og 730 á Lykkegård. Heimasíða búsins er www.klovborg.dk

Allar dyr opnar

Heimferðadagurinn byrjaði með heimsókn í VikShop, sem er vefverslun Viking með margvíslegar rekstrarvörur fyrir bændur og frjótækna. Starfsemi þessi byrjaði í bílskúr fyrir nokkrum árum en er nú komin í allstórt vöruhús, með veltu nokkuð á annan milljarð kr. á ári. Markmið verslunarinnar er að útvega félagsmönnum rekstrarvörur á hagstæðustu kjörum sem möguleg eru. Lokahnykkurinn var síðan heimsókn á nautastöð VikingGenetics í Assentoft þar sem starfsemi stöðvarinnar og framkvæmd kynbótastarfsins var kynnt í ítarlegu máli. Í lok ferðar voru þátttakendur sammála um að framkvæmd námskeiðsins og viðurgjörningur allur hefði verið framar vonum.

Enda sýnir reynslan að þegar knúið er dyra hjá ræktunarfélögunum á Norðurlöndunum, þá standa okkur Íslendingum allar dyr opnar. Því má þakka persónulegum tengslum sem hafa m.a. orðið til á vettvangi NÖK. Þau tengsl má nýta með margvíslegum hætti; eðli máls samkvæmt geta ekki allir frjótæknar farið af landi brott í einu og því er grundvöllur fyrir fleiri námskeiðum af þessu tagi. Einnig þarf að huga að nýmenntun frjótækna í framtíðinni og hvort hún geti farið fram í samstarfi við Viking. Forsvarsmenn félagsins hafa áhuga á að skoða möguleika á kyngreiningu sæðis úr íslenskum nautum á stöðinni í Assentoft. Þann möguleika verður að skoða áður en ráðist er í gífurlegar fjárfestingar í tækjum og aðstöðu hér heima.

Þá er mjög mikill áhugi á að koma upp skráningarappi á borð við HandyVik hér á landi og hafa íslenskir kúabændur raunar ályktað um nauðsyn þess og því ætti ekkert að vera að vanbúnaði að hrinda slíku í framkvæmd á næstu misserum.

Skylt efni: frjótæknar

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...

Fámenn þjóð í stóru landi
Lesendarýni 9. ágúst 2024

Fámenn þjóð í stóru landi

Í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands má sjá að 365.256 (95%) Íslendingar búa í b...

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi
Lesendarýni 7. ágúst 2024

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi

Staðið hefur yfir með hléum hrina eldgosa samfara jarðhræringum á Reykjanesskaga...