Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Mjöðvitnir í Bræðratungu segi ég glæsilegustu ferhyrnda kind sem ég hef séð. Eigandi hans var Gunnlaugur Skúlason dýralæknir en hrúturinn mun fæddur í Eystra-Geldingaholti.
Mjöðvitnir í Bræðratungu segi ég glæsilegustu ferhyrnda kind sem ég hef séð. Eigandi hans var Gunnlaugur Skúlason dýralæknir en hrúturinn mun fæddur í Eystra-Geldingaholti.
Lesendarýni 7. mars 2023

Ferhyrnt fé

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson, sjálfstætt starfandi búvísindamaður.

Hér höldum við áfram flakki okkar um yfirlitsgreinina Genetics of the phenotypic evolution in sheep: a molecular look at diversity-driving genes í hinu þekkta búfjárkynbótariti Genetics Selection Evoluton. Í síðustu tölublöðun höfum við flakkað um efni greinarinnar og bætt þar við spuna um það sem ég tel mig hafa lært um viðkomandi eiginleika hjá íslensku sauðfé á langri starfsævi.

Umfjöllun þeirra sem rita yfirlitsgreinina er stutt um þennan eiginleika í samanburði við aðra útlitseiginleika. Þeir segja að þennan eiginleika sé aðeins að finna hjá mjög fáum fjárkynjum í heiminum. Þannig vitna þeir til Ólafs Dýrmundssonar, annað dæmið af tveim um að vitnað sé til íslenskra heimildamanna í greininni, sem heimildarmanns um að íslenska féð búi yfir þessum erfðum en Ólafur nefnir það í fréttabréfi til vesturheimskra fjáreigenda íslensks fjár að hér sé þennan eiginleika að finna. Vísindin eru ekki stærri sem þar er verið að bera á borð. Tölur sem Ólafur nefnir um fjölda þessa fjár held ég hafi þá verið alveg út í bláinn enda segir hann þær aðeins ágiskun. Enn búum við við nákvæmlega sömu vöntun á þannig tölum hér á landi.

Þeir, samkvæmt venju, fjalla talsvert um margs konar stökkbreytingar sem rannsakaðar hafa verið vítt um heim hjá þessu tiltölulega fáséða fé og setja nöfn á hin ýmsu gen sem þeir telja að þessu tengist. Eins og áður vísa ég þeim sem kynnu að hafa áhuga á að læra slíkar skammstafanir á yfirlitsgreinina sjálfa. Þeir telja að þessi gen sé mikið að finna á litningi númer tvö hjá sauðfé.

Þá fjalla þeir í stuttu máli um tengsl ferhyrnds og ákveðinna brota í augnlokum hjá fé, fyrirbæri sem margir eigendur á svona fé hér á landi munu kannast við. Stóru meiri fróðleik til að kynna fann ég ekki í greininni.

Eldra efni Bændablaðsins

Ég vil áður en ég fer að spinna nánar um þetta efni minna á stórfróðlegar kynningar Páls Imsland hér í blaði á hinni stórmerkilegu ræktun á þessum eiginleika hjá Jökli Helgasyni á Ósabakka, sem er eini aðili sem sinnir honum af vísindalegri nákvæmni í bland við aðra eiginleika, m.a. fjölbreytta liti. Ég var vegna þessarar greinar búinn að boða heimsókn til Jökuls til að reyna að glöggva mig frekar á þessum eiginleikum og tengslum þeirra. Rysjótt veðrátta hefur hamlað gamlingja eins og mér að leggja land undir fót. Lesendur verða því að bíða vors verði ég einhvers vísari eftir slíka ferð. Jökull hefur auk litaerfðavísa verið að leika sér með annað ríkjandi gen sem sagt var frá í síðasta pistli, geninu fyrir kollóttu. Þá birtast furðufyrirbæri eins og ferukollótt og ennisbrúskur. Þær erfðir hef ég hins vegar hvergi lesið um neitt það bitastætt að megi endursegja.

Rétt er einnig að minna á stórskemmtilega frásögn Ólafs Dýrmundssonar af pílagrímsferð til Manar. Þar stunda menn einhverja misskilda hugsjónaræktun á ferhyrndu fé. Þessa grein er að finna í þessu blaði í byrjun júlí 2017. Hvet alla til að rifja hana upp.

Engar innlendar rannsóknir eða tölfræði

Kosturinn við að nánast ekkert er þekkt um eiginleikann hjá íslensku fé er að hægt er að spinna út og suður nær endalaust.

Fullljóst er að eiginleikinn erfist sem ríkjandi. Þannig er eiginleikinn týndur úr erfðamenginu sýni nýr einstaklingur ekki sín áætluðu fjögur horn. Eiginleikann er því sáraeinfalt að flytja einan og sér á milli kynslóða og ferð hans í stofninum verður ekki falin. Skyldleikarækt þarf þess vegna aldrei að koma til sögunnar. Varla nema almestu sérvitringar sem ætla sér að fara að rækta þetta sem sérstakan stofn. Tilhneiging er samt til að blanda hann litum og því miður hafa einhverjir mengað forystufé með þessum eiginleika.

Á að flokka ferhyrnt fé sem erfðagalla?

Kem ég þá að því að ferhyrnt á að mínu viti að flokka sem erfðagalla. Ég þekkti svona vanskapaða einstaklinga ekki fyrr en á unglingsárum að einn margra fjáreigenda á Dalvík á þeim árum varð sér úti um slíkt furðudýr úr fjarlægri sveit. Hornin voru það löng og bogamynduð að aumingja skepnan gat aðeins bitið í vegköntum. Þá minnist ég stríðs Lárusar Birgissonar á hrútastöðinni í Borgarnesi við að koma Hyrni þar fyrir í þrengslunum og endaði með að Hyrnir var sviptur hornunum að mestu með hornskellingu. Þannig er ljóst að mikið óhagræði hlýst af slíku fé á garða, hornin eru öðrum hornum hættulegri umhverfinu og meðferð á þessu fé á beit getur orðið dýraníð. Nægi þetta ekki til að skilgreina erfðagalla veit ég ekki hvað þarf til.

Misskilin verndunarþörf

Ein firra sem stundum heyrist er að það þurfi fjölda fjár til að viðhalda eiginleikanum. Þar nægir í raun að mestu einn stöðvarhrútur eins og Satúrnus nú. Bændur virðast líka farnir að umgangast eiginleikann af skynsemi enda samkvæmt hrútaskrá innan við 50 afkvæmi hans sem rötuðu í sláturhús síðasta haust. Hvergi er að finna upplýsingar um höfuðdjásn þessara afkvæma en ætla má að flest hafi verið án fjögurra horna, þau lömb hafa verið sett á hafi notkun hrútsins haft einhvern tilgang. Með að hafa einn svona hrút á stöð er dreifing tryggð vítt um land sem er það eina sem þarf til að tryggja öruggt viðhald gensins. Framboð á sérvitringum er áreiðanlega alltaf nægjanlegt. Ágætt er að sæmilegir framleiðslueiginleikar fylgi með fjórum hornum hjá stöðvarhrúti og hefur sæmilega tekist til með síðustu stöðvarhrúta með fjögur horn þó að það væri heldur óburðugt oft hér á árum áður.

Hvaðan er genið komið í íslenska féð?

Þetta leiðir hugann að því hvar eiginleikinn sé upprunninn hjá íslensku fé. Áreiðanlega kom hann ekki með landnámsmönnum eða réttara því sauðfé sem þeim fylgdi. Skrifandi menn nokkrum hundruðum ára eftir landnám virðast ekki hafa séð slík furðudýr. Slík dýr eru ávallt vel færð til bóka á gömlum skinnpjötlum. Hér er sett fram sú kenning að einhverju sinni fyrr á öldum hafi einn hrútræfill borist til landsins með erlendum sjóurum. Sennilega frá Bretlandi af Jacob kyni sem frægt er fyrir þessi fjögur horn. Afkomendur hafi síðan dreifst til margra landshorna eins og með sæði frá stöðvunum er dreift í dag. Hinn margfrægi erfðabreytileiki sem margir hafa ranghugmyndir um að þurfi að viðhalda með fjölda fjár er því aðeins varðveisla á þessu eina geni. Nýlega var mér sagt að til hefði verið ferhyrnt fé norður í Árneshreppi á síðustu öld. Voru það mögulega leifar fyrstu landtöku gensins frá hvalveiðimönnum þar norður frá fyrr á öldum? Til er önnur og leiðinlegri saga af landtöku hrúta þar í sveit en áttu að verða fæða sjómanna frá síðustu öld.

Örstutt saga sæðinga og ferhyrnda fjárins

Sæðingar eru eins og sagt er besti kosturinn við að tryggja endurnýjun gensins frá kynslóð til kynslóðar. Halldór Pálsson var mikið fyrir sérkennilegheit hjá íslensku fé. Hann undi því illa að ekkert ferhyrnt fé var að finna í Borgarfjarðarhólfi. Hafði hann upp á, að því mér hefur verið sagt, grámórauðum hrúti vestur í Staðarsveit og lét flytja á stöðina við Borgarnes og dreifa sæði úr. Þetta er upphaf sæðinga með ferhyrndum hrútum hér á Íslandi. Frekari deili á þessum hrúti kann ég engin. Þetta var á áttunda áratuginum. Bændur biðu fram yfir aldamót eftir að næsta furðudýr kæmi á stöðvarnar. Þeir hafa síðan gegnt vel hlutverki sínu þar og með sífellt skynsamlegri og að því er virðist minnkandi notkun þessara hrúta.

Sæðingastöðvarnar hafa flest ár á þessari öld boðið upp á sæði úr ferhyrndum hrúti. Alur 13- 975 frá Þúfnavöllum í Hörgárdal var einn þeirra, glæsigripur. Alur bar Borgarútgáfu af geninu fyrir ferhyrndu, sem nánar er fjallað um í greininni. Mynd/Halla Eygló Sveinsdóttir

Nokkrar mismunandi útgáfur gensins

Ég tel mig geta greint tvo meginupprunastaði fyrir genið og síðan einn eða tvo með takmarkaðri útbreiðslu. Þetta vil ég tala um sem mismunandi útgáfur af geninu

Langútbreiddustu útgáfuna vil ég kalla Borgargenið kennt við Borg í Arnarfirði og þann landsþekkta sérvitring Hákon Sturluson sem síðar bjó á Hjallkárseyri við sama fjörð. Við fjárskiptin dreifðust fjögur horn í flest varnarhólf frá Þjórsá vestur og norður að Skjálfandafljóti. Auk þess dreifðist það innan Vestfjarða. Frægt var forystufé á Mýrum í Dýrafirði þar sem forystueiginleikinn og þessi útgáfa af geninu fylgdust að meðan sauðfé var þar að finna. Þess má geta að á fyrstu árunum eftir fjárskiptin voru flutningar í Árnessýslu frjálslegri en síðar varð og genið gat flotið frjálst austur yfir Hvítá. Þaðan minnist ég einnig glæsilegasta einstaklings með þetta gen sem ég hef séð, Mjöðvitnis í Bræðratungu. Hann mun hafa verið fæddur í Eystra-Geldingaholti en lifað í hartnær áratug.

Aðra útgáfu af geninu kalla ég Mörtungugenið, kennt við samnefndan bæ á Síðunni. Það fé er að finna í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta fé mun hafa dreifst til Austurlands við riðufjárskiptin þar. Mest hefur það samt dreifst með sæðingum en Hyrnir, Höfði og núverandi Satúrnus hafa þá útgáfu gensins. Allir aðrir stöðvarhrútar báru genið kennt við Borg. Norður á fæðingarslóðir Satúrnusar mun það hafa flust með sæði úr Hyrni. Þegar ég kom að Mörtungu, í sambandi við fyrirhugaða stöðvarferð Höfða, sagði Ólafur Oddsson mér að þangað hefði genið komið á þriðja áratug síðustu aldar með lambhrúti sem fenginn hafði verið úr sláturfé hjá SS í Reykjavík og síðan reiddur á hestbaki yfir stórfljótin þangað austur.

Miklu takmarkaðri útbreiðsla gensins er útgáfa þess sem ég kenni við Borgarfjörð eystri. Það gen mun hafa lifað af riðuniðurskurð uppi á Skriðdal, mest þar í Geitdal þar sem fjárbúskapur mun nú aflagður. Einhver útbreiðsla á þessari útgáfu er í sumum sveitum í Austur-Skaftafellssýslu út af hrúti sem Ásgrímur Halldórsson flutti til Hafnar austan af Borgarfirði fyrir mörgum áratugum. Brunn fyrir genið á Borgarfirði segja menn mér hafa verið í Húsavík

Fjórðu útgáfuna af geninu kenni ég við Vopnafjörð. Þekktust er ræktun á fé með þessa útgáfu hjá Sverri Möller á Ytra-Lóni. Hvort útbreiðslan er meiri en á Langanesi og Vopnafirði er mér ókunnugt. Mögulega eru þessar aukaútgáfur á austurhluta landsins ein og sú sama. Þekkt er að á Langanes kemur eiginleikinn frá Teigi í Vopnafirði um 1970. Mér var bent á að mögulega sé þetta gen komið af Borgarfirði um miðja síðustu öld og því um sömu útgáfu að ræða á báðum stöðum.

Nú er nánast hver fullorðin sauðkind hér á landi skráð í FJARVIS. Skora ég á alla eigendur þessara furðugripa að skrá hornalag þeirra þar. Þannig má þar rekja ferðalag einstakra útgáfa af geninu í fjárstofni landsmanna. Það er áhugavert. Þannig mundi þá að lokum einnig fást marktæk tölfræði um ferhyrnt fé hér á landi.

Í næstu grein förum við síðan að ræða fjölbreytni lita. Það þekki ég að er áhugamál margra.

Skylt efni: sauðfjárrækt

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...