Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Steinar velta sér ekki upp úr aldri þeirra fléttna og mosa sem á þeim dvelja.
Steinar velta sér ekki upp úr aldri þeirra fléttna og mosa sem á þeim dvelja.
Lesendarýni 16. janúar 2024

Ég hélt ég yrði ekki eldri

Höfundur: Kristján Friðbertsson. Höfundur er plöntunörd.

Um tvítugt spjallaði ég við mann sem sagðist vera 27 ára. Þetta man ég, því hann var augljóslega að ljúga að mér. Sjálfsagt eldri en ég, en tuttugu og sjö ára?

Kristján
Friðbertsson.

Nei, hann gæti ekki verið svo rosalega gamall. Aldursbilið væri þá meira en sem næmi þriðjungi alls þess sem ég hafði lifað. Tvítugur er maður bæði ungur og eilífur og elli ekkert nema framandi, ágengt hugtak. Tuttugu og sjö ára er eiginlega bara „gamall kall“.

Tæpum aldarfjórðungi síðar hefur heil ævi til viðbótar bæst við hjá mér. Ekki hef ég hugmynd hvort hann er enn þá 27 ára, ef hann var það þá nokkurn tímann. Ég er a.m.k. ekki lengur tvítugur. Samt ekki aldarfjórðungi eldri.

Í dag er ég sirka þrítugur eða svo og hef verið í þó nokkurn tíma. Svipað gildir um flestöll í kringum mig og það er ekkert að fara að breytast. Þau sem eru eldri hafa a.m.k. ekki elst síðustu 10-20 árin. Þetta er nefnilega að mestu leyti sjónhverfing, sjáðu til.

Hvað er aldur?

Þrátt fyrir hið villandi nafn er sólarhringur einfaldlega tíminn sem það tekur jörðina að snúast heilan hring um sinn eigin öxul (möndul).

Raunverulegur hringur í kringum sólina tekur mun lengri tíma og á meðan snýst jörðin u.þ.b. 365 sinnum um eigin öxul, m.ö.o. 365 dagar í einu ári. Aldur er því einfaldlega sú tala sem segir okkur hversu marga hringi jörðin hefur farið um sólina síðan við yfirgáfum móðurkviðinn. Fyrir vikið segir aldur ekki til um þroska og ekki endilega hvað einhver hefur upplifað.

Hvað brýr varðar er það ástand frekar en aldur sem mestu skiptir.

Stóra samhengið

Talið er að það hafi tekið Ísland að lágmarki 26 milljón ár (260 þúsund aldir) að verða að því sem það er í dag, þó landið sé jarðsögulega ungt. Ef maður með 260 þúsund krónur í smápeningum, missir tíkall sem hverfur ofan í forarpytt, þá er ólíklegt að hann eyði of löngum tíma að leita hans í drullunni. Hverju skipta svo sem tíu krónur? Þessi tíkall er hins vegar saga landsins frá víkingaöld. Allt sem hefur gerst á Íslandi síðustu þúsund árin jafngildir 10 kr. af 260 þúsund.

Með hliðsjón af aldri Íslands, nú eða jarðarinnar, er tími mannkyns á jörðu afar skammur. Fólk, fyrirtæki, stofnanir, lönd og landamæri, dægurmálaþras, allt þetta kemur og fer á innan við andartaki. Já, líka hið svokallaða „fræga fólk“ sem reynir að sannfæra þig um að það sé merkilegra en annað. Hvert og eitt þeirra skiptir undantekningarlítið sáralitlu máli í stóru myndinni.

Fjölærar jurtir, líkt og hundasúran, neita oft að gefa upp aldur.

Um aldur og ævi

Lífslíkur mannfólks í dag eru miklu hærri en áður, er mannsævin samt stutt? Fer eftir því hvern þú spyrð. Fyrir fullvaxta dægurflugu (Ephemeroptera) getur sólarhringur verið heil lífstíð, en lífstíð hákarls getur hins vegar talið 4-5 aldir. Ýmsar örverur geta farið í dvala í þúsundir, jafnvel milljónir ára og geta því náð mjög háum aldri, þrátt fyrir að hafa í raun kannski bara lifað nokkra daga. Aldur segir því ekki einu sinni til um hve marga daga lífveran hefur raunverulega lifað. Til eru hveldýr (Hydrozoa) sem geta vaxið fram og til baka að vild milli þess sem við myndum kalla ungbörn eða fullorðin. Eru því í raun eilíf hvað öldrun varðar. Þá skiptir aldur ekki nokkru máli.

Aldur er nefnilega einn af þessum hlutum sem við lesum oft miklu meira í en við ættum að gera. Sérstaklega án samhengis. Af hverju eru t.d. til reglur um það hvenær fólk eigi að hætta störfum á vinnumarkaði, óháð þeirra getu, heilsu og vilja?

Tré er tímavél. Við sjáum það yngjast eftir því sem við horfum lengra upp eftir því.
Virkilega bara blekking?

Er aldur nokkuð meira en einföld flokkaskipting þjóðfélagsins? Hvað með að skipta bara yfir í aldursflokkaheiti, t.d. ungkálfur, kálfur, ungnaut, naut og úr sér genginn öldungur?

Aldur, sjálfsblekking og villandi skilaboð um samfélagið í kring geta vakið með okkur áhyggjur. Áhyggjur sem sumir fá útrás fyrir með reglulegum skammti af fegrunaraðgerðum. Með því að vera heiðarlegur við mig sjálfan sem og aðra hef ég enga þörf fyrir slíkt. Hver sem er má alveg vita að ég er auðvitað ungnaut og mun alltaf vera. En þetta er ekki endilega einfalt. Þó við séum flest sammála um tímaeiningarnar, erum við ekki endilega sammála um hvað þær þýða. Enda upplifum við flæði tímans á mismunandi hátt. Við upplifum fyrsta sólarhringinn, fyrsta árið og fyrsta áratuginn sem mun lengri en þann síðasta. Undir eðlilegum kringumstæðum breytist því viðhorf okkar til aldurs, eftir því sem tíminn líður.

Myndarlegt, gamalt degli í Skotlandi. Innfellda myndin sýnir að vart má á milli greina hvor er eldri. Eða myndarlegri.
Hvað skiptir máli?

Samblanda af aldri, þroska og heilsu skiptir máli. Þar er aldur settur í samhengi og þroski og heilsa metin út frá því sem algengt er fyrir heildina. Reynsla, þekking og geta skipta hins vegar meira máli hvert fyrir sig, óháð aldri, þó ekki endilega óháð samhengi.

Eftir fyrstu tvo, ekki síst þrjá, áratugina skiptir aldurstalan ein og sér sífellt minna máli. Flest erum við frá ákveðnum aldri í grunninn áfram sama manneskjan. Sami aðilinn bak við stýrið. Kannski með smávægilegum, jafnvel sveiflukenndum, breytingum á ytra byrði.

Áhrifa fer auðvitað að gæta á getu ýmiss konar með tímanum og innri mekaníkin getur farið að segja til sín. 

Við verðum samt ekkert eldri. Í það minnsta ekki gömul. Ekki fyrr en mjög seint.

Ef þín innri rödd segir annað, hefur þú ekki bara valið þér rangan mælikvarða í lífinu?

Tré sem lifa og deyja

Langlíf tré geta tengt kynslóðir saman. Tengt afkomendur öldum síðar við forfeður og formæður. Tengt vegfarendur við mannkynssöguna og þróun hennar yfir þessar aldir. Nema auðvitað einhver taki upp á því að fella það á miðri leið, líkt og gerðist við Hadríanusarmúrinn í Bretlandi nýlega.

Sum tré fá jafnvel að segja sögu sína löngu síðar, líkt og 15 milljón ára trjáleifarnar á Vestfjörðum. Leifar þeirra barr- og beykitrjáa sem þar er að finna, innan um ýmsar aðrar trjátegundir, eru svo sannarlega púsl í sögu landsins. Púsl sem hafa náð að koma sér fyrir ekki bara á mælikvarða mannfólks, heldur einnig á jarðsögulega mælikvarðanum.

Elstu Íslendingar framtíðar

Sjálfur mun ég ekki ná háum aldri, enda ekki fyrirséð að ég hætti að vera sirka þrítugur. En tré hins vegar, já, tré verða eldri. Ekki endilega birki og reyniviður, enda almennt skammlíf, en sum tré.

Ég get sem dæmi safnað fræi af garðahlyn (Acer pseudoplatanus) hérlendis og sáð því. Úr því verður íslenskt tré sem getur náð 500 ára aldri og því t.d. verið samferða hákarli um heila lífstíð, væru búsvæði þeirra ekki aðskilin. Af þeim báðum hef ég raunar lært mikið um lífið. Hákarlinn kenndi mér mikilvægi þess að synda og af hlyninum lærði ég að vaxa að ummáli ár hvert.

Hákarlarækt er mér framandi, svo mín tenging við framtíðina verður frekar trjárækt. Með föður mínum og bróður, systkinabörnum, vinum, vinnufélögum og öðrum hef ég nú þegar gróðursett hin ýmsu tré og hvergi hættur enn. Hvet ég auðvitað sem flesta til hins sama og í sannleika sagt eflaust heilsusamlegra markmið en ummálsvöxturinn.

Vonandi munu afkomendur einhverra þeirra sjá eitthvað af þessum trjám í framtíðinni og njóta góðs af þeim. Sjá þau og láta hugann reika til forfeðra, til tímans sem við erum að upplifa nú og til alls þess sem í millitíðinni gerist.

Aldur skiptir ekki máli og dægurmálaþras og pirringur alls ekki. Minningar nýjar og gamlar og tengingar við fyrri tíma skipta hins vegar máli. Tíkallinn skiptir máli, þó hann sé hlutfallslega lítill (eins og ég).

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...