Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Fé rennur eina slóð fram Fossdal í Arnarfirði haustið 2022.
Fé rennur eina slóð fram Fossdal í Arnarfirði haustið 2022.
Mynd / Aðsendar
Lesendarýni 21. nóvember 2023

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur

Höfundur: Bjarni Guðmundsson, Hvanneyri.

Göngumanni í íslenskum úthaga er það léttir að ramba á kindagötu. Því má treysta að gatan sé haganlega lögð og sjaldan endar hún í ógöngum. Að vísu er kindagata svo mjó að göngumaður með fullvaxta gönguskó á fótum þarf að tileinka sér göngulag tískusýningarkvenna til þess að fylgja henni nákvæmlega. Kindagötur eru verðmætur hluti af íslensku menningarlandslagi.

„Grafgötur“ á Seldal í mynni Skorradals haustið 2023.

Mér er tamast að tala um kindagötur og mun því nota það heiti hér. Það heiti er þó ekki að finna í Íslenskri orðabók. Þar er notað heitið fjárgötur – „stígur sem fé fer eða hefur myndað“. Þegar tíðni heitanna tveggja í textum á vefslóðinni www.timarit. is er athuguð sést að fjárgata kemur nær fjórum sinnum oftar fyrir en kindagata. Hvort hér er um landshluta-, héraða- eða jafnvel bæjamun að ræða verður ekki slegið föstu. Það mætti athuga.

Kindagötur eru sennilega jafn gamlar búsetu manna hérlendis enda hafi hinir fyrstu landsmenn haldið sauðfé sér til viðurværis og afkomu. Giska má á að margar kindagötur landsins séu að stofni til frá upphafi Íslandsbyggðar. Þær má því telja með elstu menningarminjum þjóðarinnar. Göturnar verðskulda því athygli.

Á vori tölta lömb gjarnan við hlið mæðra sinna og leita snertingar og öryggis. Þroskamerki er líður á sumarið er það að lömb taka að elta mæður sínar yfirveguð og í reglulegri „strollu“, fylgja kindagötum, læra á þær og eiga sinn daglega þátt í að halda götunum við.

Kindagötur eru vel þekktar í öðrum sauðfjárræktarlöndum, svo sem á Bretlandseyjum – sheep tracks, sheep paths á máli þarlendra. Þar eru þær líka eldfornar að stofni til. Jafnvel má lesa tilvist kindagatna úr samlíkingum í ýmsum textum Gamla testamentisins: „Drottinn er minn hirðir, leiðir mig um réttan veg“ segir til dæmis í Sálmum Davíðs. Þar var að vísu um að ræða aðra rekstrarhætti sauðfjár en við Íslendingar eigum að venjast, þ.e. að hjörðin elti hirði sinn en var ekki rekin.

Lengst af ársins er kindum eðlilegt að mynda hópa; hjarðhegðun einkennir þær. Það veitir þeim samkennd og öryggi. Einangrun veldur flestum streitu. Þegar ein ær færir sig úr stað fylgja aðrar gjarnan á eftir – og þá sömu slóð. Því skila eftirlegukindur sér gjarnan sjálfar heim til húsa þegar hagi hefur verið smalaður og „tæmdur“ af fé. Hegðun forystufjár er sérstakur kafli sem hér verður ekki fjallað um.

Kindagata, tiltekið grafgata, er fullmjó fyrir fullskóaðan göngumann nema hann beiti göngulagi tískusýningarfólks.

Víða þar sem sauðfé gengur frjálst myndar það stíga – kindagötur. Fé hefur til dæmis ekki gengið lengi á túni, ekki síst á hausti, þegar það tekur að mynda ákveðna stíga sem það síðan fylgir samviskusamlega. Gjarnan ganga þá nokkrar kindur saman í röð með jöfnu bili sín á milli. Féð rásar – fylgir rás. Á færeysku kallast kindagata rás eða seyðarás þótt stundum sé þar líka talað um seyðagötu.

Þótt kindur dreifi sér á beit um haga leita þær jafnan gatna sinna þegar kemur að því að færa sig á milli beitarsvæða. Þegar snjór er á jörðu og þá ekki síst þegar færi verður þungt er fé fljótt að mynda stíga með því að raða sér upp í göngu þannig að hver kind eltir aðra.

„Ég hef aldrei rekizt á illa lagða fjárgötu“, skrifaði Gestur Guðfinnsson. „Og engar götur þekki ég skemmtilegri. Tökum t. d. einstigið upp Illakamb við Jökulsá eða fjárgöturnar í Skorarhlíðum, þar sem engu er ofaukið á breiddina og hamrarnir fyrir ofan og hengiflugið fyrir neðan kitlar mann svo notalega í knésbæturnar, allt öðruvísi en lífshættan á Lækjargötunni eða Miklubrautinni.“

En svo voru til staðir þar sem kindagötur þekktust varla. Tungnamaðurinn Jónatan Hermannsson skrifaði mér m.a. um reynslu sína:

Ég hef einu sinni á ævinni séð kindagötu. Það var fjárlausa haustið og hlýtur því að hafa verið 1952. Þá höfðu hjónin Óskar Jóhannesson og Hildur Guðmundsdóttir keypt góðjörðina Brekku í Biskupstungum og hugðust hefja þar búskap . . . Við vorum stödd á Brekku, líklega til að heilsa upp á nýkomna sveitunga, en ég man ekkert um það. Man heldur ekkert frá þeirri heimsókn nema að við móðir mín vorum stödd í óhrjálegum lyngmó og hún bendir á þröngva götu og segir: „Þetta er kindagata.“ Ég man að hún notaði þetta orð eins og þú, Bjarni, og gatan var eins og þú lýsir. Ég man að ég hugsaði: „Það eru engar kindagötur heima, það er líklega af því að það er fjárlaust, þær koma ábyggilega þegar nýja féð kemur í haust.“ En þær komu aldrei. Ég veit ekki af hverju, en það var aldrei rennsli á fé í högunum heima. Allan veturinn hélt það sig við hús þótt það lægi við opið, enda litla beit að sækja í gróðursnauða þursaskeggsmóa eða svellaðar mýrar. Í högum var féð þrjá mánuði á ári – frá byrjun sauðburðar og þar til það var rekið á fjall og svo frá réttum og þar til tekið var á gjöf – einn og hálfan mánuð hvort sinn.

Kindagata á Kirkjubólsdal haustið 2023.

Kindagötur, og að minnsta kosti ef það eru grafgötur ̧ eru fullmjóar fyrir fætur göngumanns í nútíma skóbúnaði eins og fyrr var nefnt. Í þýfðu landi myndast þær með tímanum, djúpar og niðurgrafnar svo að hin myndhverfa skýring Íslenskrar orðabókar verður augljós: „ganga (fara) í grafgötur um e-ð leita e-s vandlega > það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það“.
Svo virðist sem kindurnar myndi grafgötu þannig að gatan verður mishæðalítil í láréttum fleti þótt liggi um mjög þýft landslag. Gatan verður því mjög þægileg göngumanni að því leyti – og fénu að sjálfsögðu líka.

Lauslegar mælingar benda til þess að kindagöturnar séu víðast um 14-15 cm á breidd. Vel má láta sér detta í hug að götubreiddin fari að einhverju marki eftir ræktun og gerð fjár viðkomandi svæði; að vænta megi breiðari götu þar sem fé er breiðara um bringu og vöðvafylltara í lærum. Í gamni en líka nokkurri alvöru mætti því spyrja hvort kindagötur séu t.d. breiðari á Ströndum en í héruðum þar sem vænleiki fjár er minni?

Kindagötur fylgja jafnan þurrari hluta lands en sneiða hjá mýrum og votlendi, sé á öðru völ. Með sama hætti leiða þær að hentugum vöðum á ám og lækjum.

Hér má bæta því inn að götur eftir umferð hesta – reiðgötur – eru gjarnan um 30 cm á breidd, tæplega eitt fet. Þær eru því vel „manngengar“ án þess að við hafa þurfi göngulag tískusýningarfólks. Álíka eru kúagöturnar en breidd þeirra hef ég ekki mælt sérstaklega.

Sárasjaldan rekumst við á brattar kindagötur. Kemur þá að hvað merkilegasta einkenni þeirra. Rauðsendingurinn Gunnlaugur A. Júlíusson hefur bent mér á að í brattlendi sé hann almennt um 6-7°. Oft er því að sjá sem gatan hafi í öndverðu verið hugsuð af heildarsýn yfir svæðið. Má ég þar til nefna dæmi af Kirkjubólsdal og Haukadal í Dýrafirði: Götur, sem liggja á hækkandi framdali, fá stefnu sína mjög heimarlega á dölum svo hækkun gatnanna verður jöfn og þægileg. Víða liggja þær samsíða hæðarlínum landsins á alllöngum köflum. Annars staðar skera götur hæðarlínurnar með afar jöfnum stíganda. Þetta er aðdáunarverð skynjun sauðfjár á staðfræði landsins (tópógrafíu) og breytni samkvæmt henni.

Brúnir kindagatna eru gjarnan betur grónar og gróskumeiri en landið umhverfis. Veldur því traðkið en líka skítur og þvag fjárins sem um göturnar fer. Því ber meira á heilgrösum en öðrum plöntutegundum í götubrúnunum. Athyglisverð er rannsókn Ingólfs grasafræðings Davíðssonar frá árinu 1969 í Eyjafirði: „Varpasveifgras vex við gamlar fjárgötur og þar sem kvíaær gengu upp á Flesjum uppi á Hámundarstaðahlíð í um 600 m hæð yfir sjó, en er smávaxið.“ Féð ber fræ á klaufum sínum og með skítnum.

Þá má nefna að ég er vaxinn upp við spurninguna um það hvort hafi verið farið að grænka með götu eftir ferð á vori um úthaga heima í Kirkjubólsdal. Það var mælikvarði á það hversu gróandanum miðaði – að það væri að koma sauðgróður. Fast með kindagötum er gjarnan minna um sinu en fjær þeim. Því ber þar líka meira á fyrsta vorgróðri en fjær götu.

o o Oo o

Hérlendis hefur sauðfé farið fækkandi á undanförnum árum og flest bendir framhalds þeirrar breytingar allra næstu árin. Það verða því æ færri fætur til þess að halda við fornum kindagötum. Þegar kindagötunum er ekki lengur haldið við týnast þær. Fornar leiðir geta jafnvel orðið ófærar göngumönnum. Dæmi um það eru götur í Hvanndölum og í skriðunum í Kollumúla í Stafafellsfjöllum. Um Gjögurgötuna inn í Kollumúla skrifaði mér Skaftfellingurinn Bjarni bóndi Bjarnason í Hlíð í Lóni:

. . . þar er svo bratt á nokkrum stöðum að gatan hverfur á haustin ótrúlega fljótt eftir að féð hefur verið rekið heim og er þá illfært þegar skriðan er orðin gödduð. Stundum bundum við á okkur brodda heimasmíðaða sem við kölluðum fjóskeflinga til að standast skriðuna því alltaf var efsta lagið eitthvað laust og skramlaði maður þá ofan á og gat verið erfitt að stoppa sig. En gatan kom alltaf aftur strax og féð var komið aftur á vorin og virtist mér hún vera alltaf því sem næst á sama stað þó stundum virtist hún með snöggri beygju upp til að ná gömlu götunni.

Nokkur synd er það því sífellt fjölgar þeim sem kjósa að skoða landið sem göngufólk. Þótt GPS sé gott og gagnlegt hjálpartæki er þó enn þekkilegra að lesa landið eins og sauðkindin upplifir það og ekki síst að njóta einstakra hæfileika hennar til þess að leggja gönguslóðir þannig að vel hæfi göngumanni. Erlendis eru kindagötugöngur orðnar hluti af útivistarferðamennsku megi marka „Google-leit“ með orðunum sheep track eða sheep path. Hins vegar er rétt að biðja farendur á vélknúnum tvíhjólum að hlífa kindagötum og að forðast akstur á þeim.

Kindagötur eru menningarverðmæti sem eru allrar athygli verð. Þær, eins og aðrar þjóðminjar, ber að umgangast af virðingu og varúð, en nýta til leiðsagnar og fróðleiks á lengri eða skemmri heilsubótargöngum. Og að lokum: Kindagötum verður ekki haldið við án sauðfjár . . .

Eftirmáli: Nokkru efni og tilvísunum í heimildir er sleppt hér. Ég þigg ábendingar um efni greinarinnar með þökkum og hef netfangið bjarnig@lbhi.is

Skylt efni: kindagötur

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...