Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sprett úr spori
Lesendabásinn 4. júlí 2022

Sprett úr spori

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Í síðustu viku skilaði spretthópur af sér tillögum til að mæta hækkunum á aðfangaverði til landbúnaðar.

Ég gerði tillögur hópsins að mínum og voru þær samþykktar í ríkisstjórn. 2,5 milljörðum kr. verður varið í stuðning við landbúnað á þessu ári til viðbótar við þær 650 milljónir kr. sem greiddar voru út fyrr á árinu til þess að mæta hækkunum á áburðarverði. Ég hef staðið og mun standa með bændum og innlendum landbúnaði. Við höfum allar forsendur til þess að landbúnaðurinn verði í sókn á næstu árum og áratugum. Við höfum mannauð, landnæði, orku og vatn. Landbúnaðurinn er of mikilvægur til að vera í vörn.

Ég stend með bændum

Þegar ég kom í ráðuneytið undir lok síðasta árs voru blikur á lofti í landbúnaðinum og höfðu verið um nokkurt skeið. Orkuverðshækkanir í heiminum höfðu leitt af sér miklar verðhækkanir á áburði ásamt því sem loftslagsbreytingar halda áfram að leiða af sér vályndari veður víða um heim. Þannig tók Indland u-beygju á þessu ári, frá því að ætla sér að flytja út milljónir tonna af hveiti í það að setja útflutningshömlur á hveiti vegna mikillar hitabylgju og þurrka sem talið er að hafi spillt allt að fjórðungi af uppskerunni þar í landi. Síðan hafa aðstæður orðið alvarlegri, vaxandi dýrtíð er í heiminum öllum og allflestir seðlabankar heims hafið vaxtahækkunarferli. Verðbólga hefur ekki verið hærri í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu um áratuga- skeið. Hér á Íslandi þurfum við að horfa aftur til efnahagshrunsins til þess að sjá sömu verðbólgutölur.

Fæðuöryggi er á dagskrá

Vegna innrásar Rússa í Úkraínu er raunverulegt útlit fyrir að hungursneyð blasi við fátækari löndum, sem reiða sig á innflutta kornvöru frá sléttum Úkraínu og Rússlands. En vegna hafnarbanns Rússa í Svartahafi er ekki korn flutt út frá þeim höfnum Úkraínu sem enn eru frjálsar. Þessir heimssögulegu atburðir eru vendipunktur í alþjóðastjórnmálunum og eðlilega er umræða um fæðuöryggi með öðrum hætti en áður. Þar hefur staðan verið greind ágætlega á Íslandi, með skýrslu frá Landbúnaðarháskólanum á síðasta ári og tillögum um aðgerðir til að efla fæðuöryggi frá því í vor. Unnið er að mati á neyðarbirgðaþörf á vettvangi þjóðaröryggisráðs og verkefnið tekið föstum tökum í stjórnkerfinu.

Afkoma bænda forsenda fæðuöryggis

Það sem ég tel að sé mest aðkallandi þessi misserin og snýr beint að mínu ráðuneyti er tvennt. Það er annars vegar afkoma bænda, sem öðru fremur
er forsenda fæðuöryggis. Hins vegar er það efling á kornrækt á Íslandi, en kornvara er forsenda fyrir þeim framleiðsluháttum sem við byggjum stóran hluta af kjöt- og mjólkurframleiðslu okkar á. Við framleiðum einn hundraðasta af þessum grundvallar aðföngum sjálf. Afleiðingar þessa sjáum við nú þegar að miklar hækkanir á kornvöru kippa rekstrargrundvellinum undan mörgum búum. Þeir íslensku bændur sem rækta sitt korn sjálfir hafa hins vegar verið í skjóli fyrir hluta þessara hækkana.

Ræðum um grundvallaratriði

Bæði þessi atriði tel ég að þurfi að skoða í samhengi við þá umgjörð sem stjórnvöld hafa mótað landbúnaðinum síðustu ár og áratugi, búvörusamninga.

Búvörusamningarnir útdeila rúmum 15 milljörðum kr., bróðurparti er varið í sambland af stuðningi beint við framleiðslu og við ræktun.
Hluti þessa stuðnings gengur kaupum og sölum og hefur gert lengi. Í sauðfjárrækt er þessi stuðningur aftengdur framleiðslustýringu en í mjólkurframleiðslu er gefinn út mjólkurkvóti á hverju ári sem þarf að framleiða upp í til þess að fá stuðninginn en til viðbótar er óheimilt að selja mjólk á innanlandsmarkaði sem ekki er framleidd innan greiðslumarks, nema það sé sérstaklega heimilað vegna skorts.

Ég tel að markaðurinn geti verið ágætis þjónn en sé afleitur húsbóndi. Færa má góð rök fyrir því að það að þessi viðskipti með stuðningi hins opinbera séu að verða dragbítur á þróun landbúnaðar. Landbúnaður verður sífellt fjármagnsfrekari atvinnugrein, vegna mikillar tæknivæðingar og stækkunar búa. Það er því að mínu viti óæskilegt að stór hluti af þeim stuðningi sem veitt er til bænda fari til fjármálastofnana, í formi vaxta, og þeirra sem hætta búskap.

Þá er það einnig umhugsunarefni hversu lítill stuðningur fer í ræktun á korni, en á korni hvílir stór hluti af fæðuöryggi okkar. Þessir þættir og fleiri þarfnast umræðu í aðdraganda endurskoðunarbúvörusamninga.

Skylt efni: spretthópurinn

Af grundvallaratriðum
Lesendabásinn 20. júlí 2022

Af grundvallaratriðum

Í 12. tbl. Bændablaðsins ritaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra grein ...

Villigötur í umræðu um loftslagsmál
Lesendabásinn 19. júlí 2022

Villigötur í umræðu um loftslagsmál

Í Bændablaðinu 23. júní s.l. er birt grein eftir Árna Bragasonar landgræðslu...

Vatnsskortur í Íslandi
Lesendabásinn 18. júlí 2022

Vatnsskortur í Íslandi

Það kemur kannski einhverjum á óvart að það búa ekki allir á Íslandi við no...

Starfsemi RML
Lesendabásinn 18. júlí 2022

Starfsemi RML

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur það meginhlutverk að vera ráðgjafarfyr...

Hollur er heimafenginn hafragrautur
Lesendabásinn 15. júlí 2022

Hollur er heimafenginn hafragrautur

Hafrar (Avena sativa), einnig nefnd akurhafri, voru mikið ræktaðir í heiminum s...

Landeldi laxfiska
Lesendabásinn 14. júlí 2022

Landeldi laxfiska

Nú stendur yfir undirbúningur hérlendis undir stóraukna framleiðslu á laxi ...

Ábyrg kaup á líflömbum
Lesendabásinn 13. júlí 2022

Ábyrg kaup á líflömbum

Matvælastofnun hvetur til arfgerðagreininga með tilliti til næmis gegn riðusmiti...

Afkoma nautakjötsframleiðenda 2017–2021
Lesendabásinn 12. júlí 2022

Afkoma nautakjötsframleiðenda 2017–2021

Skýrsla RML um rekstur og afkomu nautakjötsframleiðenda fyrir árin 2017-2021 ...