Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Danmörk var fyrsta ríki heims til að innleiða ríkiseftirlit með lífrænni framleiðslu. Merkið er í dag, 30 árum eftir að það var kynnt, orðið þekkt og virkt.
Danmörk var fyrsta ríki heims til að innleiða ríkiseftirlit með lífrænni framleiðslu. Merkið er í dag, 30 árum eftir að það var kynnt, orðið þekkt og virkt.
Lesendarýni 10. nóvember 2020

Ísland er stefnulaust þegar kemur að lífrænni framleiðslu

Höfundur: Berglind Häsler

Ísland stendur norrænum þjóðum mun aftar þegar kemur að lífrænni framleiðslu og hefur ekki sett sér nein langtíma markmið í þessum efnum. Þetta kemur fram í markaðsgreiningu sem unnin var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og kom út í ár. Heiti skýrslunnar er Markaðsgreining lífrænnar fæðu á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. 

Samkvæmt skýrslunni tileinka neytendur sér í vaxandi mæli heilbrigðari lífshætti auk þess sem meðvitund um kosti lífrænna afurða hefur aukist. Þessi staðreynd í bland við stuðning og stefnumótun stjórnvalda, sérstaklega í Danmörku og Svíþjóð, hefur gert það að verkum að framleiðsla og sala á lífrænum afurðum hefur aukist verulega. 

Danir eiga heimsmet

Þrjátíu ár eru liðin frá því að Danir mótuðu sér stefnu um lífræna framleiðslu og er nú svo komið að markaðshlutdeild lífrænna vara er sú hæsta í heiminum í Danmörku, eða 12%, og er gert ráð fyrir að það hlutfall verði orðið 34% árið 2030 vegna sífellt vaxandi eftirspurnar neytenda. Útflutningur hefur aukist ár frá ári og er Danmörk víða orðin þekkt sem matvælaþjóð sem státar af hágæðavörum. Helstu ástæður þess að danskir neytendur eru svo hlynntir lífrænni framleiðslu eru að þeir vilja leggja sitt af mörkum til umhverfismála og aukinnar dýravelferðar.

Ísland rekur lestina

Svíþjóð státar af hæsta hlutfalli lífræns vottaðs lands, eða 19%, og hefur það hlutfall aukist um 160% milli áranna 2005 til 2017. Lífræn framleiðsla verður því alltaf fyrirferðarmeiri í sænsku landbúnaðarstefnunni eftir því sem fram líður og sprettur þessi breytta nálgun mikið til frá kalli neytenda eftir lífrænt vottuðum afurðum. Í Danmörku hefur hlutfall lífræns vottaðs lands vaxið um 108% milli áranna 2005–2018. Í markaðsgreiningu ráðherranefndarinnar kemur fram að breytan í þessu sé fyrst og fremst sú að stjórnvöld beggja landa hafi sett sér langtíma markmið fyrir lífræna framleiðslu og aukið stuðning við lífræna framleiðendur.

Ísland rekur lestina þegar kemur að hlutfalli lífræns vottaðs lands af öllum Norðurlöndunum. Árið 2017 var það 1,5%. Við flytjum sama og ekkert út og í skýrslunni kemur fram að lítil eftirspurn heima fyrir gefi framleiðendum lítið tilefni til að framleiða lífrænt. Þetta sé þó hægt og rólega að breytast og gerir skýrslan ráð fyrir hægum vexti, sérstaklega í ljósi þess að árið 2017 voru aðlögunarstyrkir hækkaðir umtalsvert en slíkum styrkjum er ætlað að koma til móts við bændur sem vilja skipta um kúrs. Því er spáð að íslenskir neytendur sem og framleiðendur muni hægt og rólega átta sig á gildi lífrænna afurða og er því er gert ráð fyrir að þegar við nálgumst árið 2030 verði hlutfallið orðið hærra. 

„Danska leiðin“ 

Stefna Dana hefur vakið mikla athygli um víða veröld og það virðist engu skipta hvaða stjórnmálaflokkar halda um stjórnartaumana – áfram er haldið á sömu braut þótt flokkarnir gefi reyndar mismikið í. Stefnan tekur á mörgum samhangandi þáttum:

  • Unnið er að því að örva markaðinn með fræðslu um ágæti lífrænnar framleiðslu til neytenda. 
  • Opinber innkaupastefna leggur áherslu á lífrænar afurðir.
  • Stutt er við bændur sem vilja skipta yfir í lífræna framleiðslu og fá bændur fræðslu og þjálfun.
  • Stutt er við rannsóknir. 
Langtíma markmið Dana eru einföld og skýr: 
  • 30% lífrænt vottað landbúnaðarland fyrir árið 2030 
  • 30% markaðshluteild af lífrænum afurðum fyrir árið 2030 
  • 60% lífrænar afurðir í opinberri innkaupastefnu fyrir árið 2030 

Án stefnu í þessum efnum er vandséð að álíka árangur náist. Framleiðendur vilja og verða að vita hvort stjórnvöld, neytendur og kerfið í það heila standi með þeim til lengri tíma. Sumir halda því fram að lífræn vottun sé tískubylga, en eins og sjá má af landbúnaðarstefnu annara Norðurlanda sem og fleiri landa sem við berum okkur saman við er ljóst að hér er horft til framtíðar. Þess má geta að stefna Evrópusambandsins er að 25% landbúnaðarlands verði orðið vottað lífrænt fyrir árið 2030. 

Lítil vitund um ágæti lífrænnar framleiðslu

Í skýrslunni kemur fram að hugtakið „lífræn framleiðsla“ er ekki jafn vel þekkt á Íslandi og á  hinum Norðurlöndunum. Lítið sé til af gögnum um lífræna markaðinn á Íslandi og sú eigindlega rannsókn sem skýrsluhöfundar gerðu með viðtölum og fleiri aðferðum bendi til þess að lítið sem ekkert sé unnið að því að auka vitund neytenda um ágæti lífrænnar framleiðslu líkt og gert er á hinum Norðurlöndunum. Þau gögn sem þó séu til, gefi til kynna að markaðurinn sé stækkandi, bæði hvað varðar framleiðendur og neyslu en ekki séu næg gögn til að áætla vöxtinn eða stærð markaðarins. 

Þegar skoðað sé hvað keyri vöxt hins lífræna markaðar komi í ljós að ekki svo mikið sé sprottið frá framleiðendunum sjálfum heldur frekar frá neytendum og innflutningi. Lífræn framleiðsla sé vissulega til staðar á Íslandi en lang mest af því sem er neytt sé flutt inn. Skýrsluhöfundar gera þó ráð fyrir því að bæði íslenskir neytendur og framleiðendur eigi í auknum mæli eftir að átta sig á gildi lífrænna afurða.

 Setjum okkur markmið

Í skýrslunni er það áréttað að Ísland hafi ekki sett sér nein langtíma markmið í þessum efnum líkt og þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Hvorki er viðkemur framleiðslu né neyslu. Þá vekur það athygli við lestur skýrslunnar að gögn um lífræna markaðinn á Íslandi eru af svo skornum skammti að skýrsluhöfundar þurftu að undanskilja Ísland við skoðun á ýmsum þáttum.

Átaksverkefninu Lífrænt Ísland var hrundið af stað í vor. Á sama tíma voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar um lífræna framleiðslu á Íslandi og áhuga neytenda. Leiddi hún í ljós að ríflega 80% þjóðarinnar er jákvæð gagnvart lífrænni framleiðslu á Íslandi.

Markmiðið Lífræns Íslands er að opna augu neytenda, framleiðanda og stjórnvalda fyrir ágæti lífrænnar framleiðslu. Verkefnið er leitt af VOR og stutt af Bændasamtökum Íslands og Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu. Horft er til dæmis til Danmerkur og Svíþjóðar í þessum efnum og vonumst er til að neytendur og stjórnvöld leggist á sveifina. Það er mikilvægt að bregðast við kalli neytenda og svara eftirspurn eftir lífrænni framleiðslu. Mótum okkur stefnu til framtíðar. 

Höfundur: 

Berglind Häsler,

verkefnastjóri Lífræns Íslands og umsjónarmaður
Hlaðvarps Havarí, samtal um lífræna framleiðslu. 

Það má hlusta á lengri útgáfu þessarar greinar
í hlaðvarpinu Havarí.

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...