Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Halla Signý Kristjánsdóttir og  Þórarinn Ingi Pétursson.
Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.
Lesendarýni 16. febrúar 2021

Framtíð landbúnaðar á Íslandi er í okkar höndum

Höfundur: Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.

Bændur hafa undanfarið tekist á við margs konar áskoranir. Stóraukinn innflutningur á land­búnaðarafurðum undan­farinn áratug hefur veikt íslenska matvælaframleiðslu. Inn­lendir framleiðendur keppa við stórtæka iðnaðarframleiðslu erlendra þjóða á matvörumarkaði hér­lendis. Þá hefur COVID- 19 sett strik í reikninginn með fækkun ferðamanna, ætla má að samdráttur vegna færri komu ferðamanna jafngildi rúmlega 30 þúsund færri neytendum á landinu á síðastliðnu ári.

Í fjárlögum fyrir árið 2021 má finna tillögu um 970 milljóna króna úthlutun til kúa- og sauðfjár­bænda. Unnið er að reglugerð um þessa úthlutun í landbúnaðar­ráðuneytinu og má hennar vænta á næstu vikum.

Umhverfisvænni landbúnaður og færri kolefnisspor

Neytendur hafa í auknum mæli fært sig yfir í vefverslun, þeir gera auknar kröfur um minni umbúðanotkun, minni matarsóun ásamt sífellt hækkandi kröfum um minni kolefnisspor. Það er hægt að segja að íslenskir neytendur séu að snúa sér í sömu átt og íslenskir matvælaframleiðendur, hreinar afurðir sem framleiddar eru í nærumhverfi. Þetta á bæði við um þá sem neyta kjöts sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda tala sama tungumál og stjórnvöld verða að hlýða því kalli.

Breytingar á búvörusamningi garðyrkju­afurða voru samþykkt­ar fyrir jólin, markmið samkomu­lagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkju með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25%. Auk þess er fyrirkomulag niðurgreiðslu dreifikostnaðar raforku einfaldað og ylræktendum þannig tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar. Það er mikilvægt fyrir garðyrkjuframleiðslu að standa vörð um tollvernd á grænmeti og standa vörð um plöntuheilbrigði því öll ræktun, fóðrun og matvælaframleiðsla hvílir á plöntuheilbrigði.
Það þarf að vernda og verja

Til þess að standa jafnfætis innfluttum matvælum á markaði hér á landi verðum við að grípa til aðgerða, og það höfum við gert. Þjóðir setja á tolla til að vernda sína framleiðslu. Evrópusambandið er mikið tollabandalag þar sem innri markaðurinn er eitt svæði og lönd utan hans annað. Ísland setur tolla á ákveðnar vörur sem og önnur lönd. Af hverju er það gert? Jú, eins og áður hefur verið komið inn á er það gert til að vernda íslenska framleiðslu og hagkerfið. Það er þjóðhagslega hagkvæmara að við neytum íslenskra framleiðsluvara því það skapar störf og það eru fjölbreytt störf við framleiðslu landbúnaðarvara, frá mold til matar.

Samvinnu afurðastöðva þarf að tryggja

En betur má ef duga skal, ætla má að nautgripabændur séu með um 3.000 nautgripi sem bíði þess að komast í slátrun. Því er víða farið að þrengjast í húsi og fóðra þarf þessa gripi, það er mikil kostnaðaraukning fyrir bændur sem skilar sér ekki í sláturinnleggi þegar að því kemur. Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lagt fram tillögur um breytingar á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurða­stöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomu­lag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þessi tillaga hefur ekki náð í gegn en hún gæti skilað mun betri afkomu afurðastöðva sem skilar sér bæði til bænda og neytenda. Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi að landbúnaður innan ESB er að miklu leyti undanþeginn samkeppnislögum.

Innlendir aðilar standa höllum fæti gagnvart síauknum innflutningi á kjötvörum, samkeppnin er við erlenda framleiðendur sem eru margfalt stærri en þeir sem hér er að finna. Því er það nauðsynlegt að afurðastöðvum verði heimilað að bregðast við þessari samkeppni með auknu hagræði í rekstri bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Sambærileg breyting sem gerð var fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði hefur skilað mikilli hagræðingu sem hefur síðan skilað sér bæði til neytenda og bænda. Vænta mætti að sambærilegur árangur gæti náðst á kjötmarkaði ef sambærileg leið yrði farin.

Hvað þarf til að styrkja íslenska matvælaframleiðslu?

Það má með mikilli vissu segja að endurskoða þarf alla ytri umgjörð/ starfsskilyrði landbúnaðarins ef ekki á illa að fara. Landbúnaðurinn þarf ákveðin „verkfæri“ til þess að takast á við breytta heimsmynd. Það þarf að styrkja íslenska matvælaframleiðslu vegna matvælaöryggis, matvæla­heilbrigðis og síðast en ekki síst til að minnka kolefnisspor.

Þetta þarf að gera:
  • Veita undanþágu frá 71. gr. búvörulaga (samstarf afurðastöðva í kjötiðnaði).
  • Aðgerðaáætlun um matvæla­öryggi og vernd búfjárstofna í 17 liðum þarf að framfylgja að fullu.
  • Flýta þarf heildarúttekt á tollasamningi Íslands og ESB, sér í lagi í kjölfarið á Brexit.
  • Yfirfara tollskrá frá a-ö og samlesa við alþjóðlega staðla.

Ríkisstjórnin hefur sett á stað metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Þjóð sem hefur það að leiðarljósi að minnka kolefnisspor og nálgast sjálfbærni til framtíðar hlýtur að hlúa að umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu sem allra best. Íslensk kjötframleiðsla vegur þar þungt auk þess sem hún styður við byggðastefnu. Framsóknarflokkurinn hefur og er til staðar fyrir innlenda matvælaframleiðslu og mun verða um ókomna framtíð. Áfram veginn!

Halla Signý Kristjánsdóttir
og Þórarinn Ingi Pétursson.

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...