Enn um endurheimt votlendis
Mynd / Bbl
Lesendabásinn 7. september 2020

Enn um endurheimt votlendis

Höfundur: Þröstur Ólafsson, form. stjórnar Votlendissjóðs

Alllengi hefur mig undrað hve margir bændur virðast vera andsnúnir eða feimnir við að ræða endurheimt votlendis. Í máli þeirra margra kraumar einhver niðurbæld gremja sem fær útrás þegar minnst er á deiglendi. Þar kunna að vera á ferð gömul um­­mæli forvera um mýrar og dý sem vaða þurfti í mjóalegg til að komast leiðar sinnar. Jarðir gátu verið nytjarýrar vegna bleytu og búskapur allur torsóttur. Þetta er liðin tíð. Enginn hefur í hyggju að þrengja kosti búskapar eða umgengni í heimahögum.

Skipulegar athuganir segja okkur að stærsti hluti framræsts mýrlendis er ekki og hefur aldrei verið nýttur til hefðbundins búskapar. Við vitum hins vegar öll, sem búið höfum bæði við mýrlendi og framræst heimalönd, að landið þornar og rýrnar; mýrargróðurinn hverfur, eftir verður fábreyttari gróður. Við framræsingu fær súrefni greiðari leið til örvera sem brjóta niður lífræn efni í jarðveginum og kolefnið gufar þá upp í and­rúmsloftið í formi koldíxýðs og veldur gróðurhúsaáhrifum. Með þornuninni skreppur landið saman. Það lækkar á hverjum áratug, verður einhæfara og rýrara; geymist illa til framtíðarnota. Í mýrarjarðvegi hefur vatnið bundið kolefni safnast fyrir á löngum tíma með því að mýraróður vinnur koltvísýring úr andrúmsloftinu og bindur kolefnið í jarðvegi og skilar súrefni til andrúmsloftsins.Þetta kolefni er undirstaðan í mó sem notaður var áður fyrr sem eldiviður hér á landi. Því eldri sem koltvísýringurinn er þeim mun betra eldsneyti er hann. Það er fyrrnefnd losun koltvísýrings sem við, sem vinnum að endurheimt votlendis,viljum draga úr eða stöðva. Ekkert land er endurheimt án skriflegs samkomulags milli landeigenda og Votlendissjóðs.

Hve mikil er losunin?

Vísindamenn hérlendis sem erlendis hafa um áratugaskeið mælt þessa losun koltvísýrings. Samkvæmt þeirra kokkabókum er hún staðreynd. Um það er ekki deilt af af þeim sem rannsakað hafa málið. Deila má um og mistúlka hve mikil hún sé. Við sem berjumst fyrir endurheimt votlendis erum sannfærð um að mælitækin gefi áreiðanlegri niðurstöðu en ágiskun eða getgátur. Svo langt hefur tækninni fleygt fram að erlendis er farið að fylgjast með losun koltvísýrings frá næmum tækjum í drónum og jafnvel gervihnöttum. Það styttist í að hægt verði að fá niðurstöður þaðan um losun íslensku mýranna.Fullyrðingar um að losun koltvísýrings frá framræstu landi sé bull og vitleysa, án þess að bera við nokkur haldbær rök, minnir á staðhæfingar um að jörðin sé flöt. Sumt framræst land er vissulega orðið svo rýrt að losun þaðan er lítil. Vísindafólk Landgræðslunnar leiðbeinir og upplýsir Votlendissjóð um ástand á hverjum stað, áður en ákveðið er hvort fýsilegt sé að endurheimta votlendið. Nú þegar hefur verið hætt við að moka ofan í skurði sem Landgræðslan segir litla sem enga losun eiga sér stað. Þetta rannsóknafólk hefur í samstarfi við erlenda vísindamenn komist að niðurstöðum sem standa munu sem slíkar, þar til nákvæmari útkoma er fundin. Við höfum ekkert áreiðanlegra við að styðjast.

Skynsemi eða glópska?

Á upphafsdögum veðurfræðinnar hérlendis voru margir sem fussuðu og sveiuðu, ef þeim þótti spáin vera þeim óhagstæð eða út í hött. Þegar svokallað kvótakerfi var sett á fót á grundvelli rannsókna fiskifræðinga, sem birtu svartar skýrslur um ástand fiskistofna, voru fréttamenn ekki í neinum erfiðleikum með að finna sjómenn sem sögðu frá mikilli fiskgengd víðs vegar á miðum. Heima í Reykjahverfi var ekki gefið mikið fyrir umsagnir fræðimanna að sunnan um hnignandi gróðurfar í sumarhögum á Reykjaheiðinni og rofabörð þar sögð hafa staðið þar óbreytt í manna minnum. Það er fremur regla en hitt að nýjar og áður óþekktar, stundum óþægilegar, vísindalegar niðurstöður sem fjalla um nærumhverfi okkar og lífsbjörg séu véfengdar. Sem viti bornar manneskjur verðum við þó að skilja á milli huglægra, oft hagsmuna- og menningartengdra fullyrðinga, kenningasmíða eða niðurstöðu rannsókna.

Magn losunar

Meðal þeirra niðurstaðna sem dregnar eru títt í efa, er það magn koltvísýrings sem vísindamenn segja framræst land losa. Að baki þeirra efasemda liggur engin rannsókn eða skipuleg skráning. Engar rökheldar tölur. Margir yrðu glaðir, ef það reyndist við frekari rannsóknir eða mælingar úr gervihnöttum, allt vera tóm tjara. Vísindamenn hefðu farið offari. Votlendissjóður framkvæmir engar sjálfstæðar rannsóknir. Allt sem við styðjumst við er fengið frá vísindafólki Landgræðslunnar og LbhÍ. Eins og gengur og gerist finnast fræðimenn sem ekki deila að öllu leyti meginniðurstöðum stærstum hluta kollega sinna. Lifa verður við það því við höfum ekkert trúverðugra við að styðjast. Samkvæmt fyrrnefndu er meðal losun af framræstu landi hérlendis liðlega 19 tonn af C02 á hektara. Það er sagður vera stærsti einstaki orsakavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda hérlendis.

Hvað hangir á spýtunni fyrir bændur?

Samfélagsvitund er nauðsynlegur eiginleiki allra sem nú lifa, hvort heldur í sveitum eða bæjum, landeigenda sem landleysingja. Sú mikla lífseyðandi loftslagsvá sem vofir yfir, leyfir engum að vera hlutlausum eða skeytingarlitlum. Margir þeirra sem afneita CO2 losun framræsts mýrlendis eru einnig í hópi þeirra sem segja yfirvofandi loftslagsvá vera bull, en það ræðum við ekki frekar hér. Það hefur verið rætt í þaula á vegum allra helstu alþjóðasamtaka heims. Í reglum Votlendissjóðs er skýrt ákvæði þess efnis að eftir átta ár frá ofanímokstri öðlast landeigendur ráðstöfunarrétt þeirra stöðvunareininga koltvísýr­ings sem, skv. mælingum er afleiðing endurheimtar á landi þeirra. Þetta verður dýrmæt eign sem auðveldar bændum að kolefnisjafna búskap sinn.

Hver borgar brúsann?

Nokkrir fréttamanna sem fjallað hafa um Votlendissjóð og framkvæmdir hans, hafa látið í ljós vissa örvinglan yfir því að skattfé sé notað í þeim tilgangi að endurheimta votlendi. Sjóðurinn hefur ekki borið gæfu til þess enn að njóta þess að greiða framkvæmdakostnað með peningum skattborgaranna eins og það heitir á pólitísku tungutaki. Votlendissjóður er fjármagnaður af sjálfsaflafé sem kemur frá samfélagslega ábyrgum einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Sá stuðningur er þakkarverður og ber þess vott að fjölmargir vilja leggja málefninu lið. Samfélagslega ber það vott um félagsþroska, að gera Votlendissjóði það kleift að fjármagna þetta mikla samfélagsverkefni með frjálsum framlögum.


Þröstur Ólafsson,
form. stjórnar Votlendissjóðs

Staða íslensks landbúnaðar vandinn og lausnin
Lesendabásinn 25. nóvember 2020

Staða íslensks landbúnaðar vandinn og lausnin

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur lagt línurnar um stjórnmálaumræðu ársins 2020. F...

Ísland er stefnulaust þegar kemur að lífrænni framleiðslu
Lesendabásinn 10. nóvember 2020

Ísland er stefnulaust þegar kemur að lífrænni framleiðslu

Ísland stendur norrænum þjóðum mun aftar þegar kemur að lífrænni framleiðslu og ...

Takk fyrir mig
Lesendabásinn 9. nóvember 2020

Takk fyrir mig

Tíminn undanfarið hefur verið um margt skrítinn. Eins og flestir þekkja er það v...

Fyrirspurn til ráðherra landbúnaðarmála, Kristjáns Þórs Júlíussonar
Lesendabásinn 9. nóvember 2020

Fyrirspurn til ráðherra landbúnaðarmála, Kristjáns Þórs Júlíussonar

Ég sendi þessa fyrirspurn vegna þess að ég er mjög ósátt með þá stöðu sem viðski...

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar
Lesendabásinn 5. nóvember 2020

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar

Sú ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að...

Mörkin varin
Lesendabásinn 4. nóvember 2020

Mörkin varin

Sauðfé hefur verið eyrnamarkað á Íslandi allar götur frá landnámi. Mörgum kom þv...

Ekki bara lífsstíll, en líka það
Lesendabásinn 4. nóvember 2020

Ekki bara lífsstíll, en líka það

Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna þess að ráðherra landbúnaðarmála, Kristján Þ...

Nútímavæðum vélasölu
Lesendabásinn 30. október 2020

Nútímavæðum vélasölu

Hvaða leið er best að fara þegar fjárfesta á í nýju eða notuðu landbúnaðartæki? ...