Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hvað þýða loftslagsbreytingarnar?
Leiðari 16. apríl 2014

Hvað þýða loftslagsbreytingarnar?

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Skýrsla nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út á dögunum er umhugsunarverð. Þar er talið að loftslagsbreytingar muni ógna fæðuöryggi jarðarbúa í framtíðinni. Mat skýrsluhöfunda er að framboð á matvælum muni ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum.

Þetta eru að sjálfsögðu uggvænlegar fréttir sem kalla á viðbrögð alþjóðasamfélagsins án tafar. Þær kalla einnig á það að við Íslendingar metum stöðu okkar. Hvaða áhrif hafa þessar loftslagsbreytingar á okkur? Þau geta sum orðið neikvæð. Sviptingar í veðurfari geta aukist og hingað geta borist meindýr sem við erum ekki vön að þurfa að berjast við, því þau hafa ekki lifað af íslenskan vetur. Fiskigengd getur líka breyst með neikvæðum hætti þó að við höfum aðallega upplifað það á hinn veginn í ljósi þess að makríll varð á fáum árum mikilvægur veiðistofn í íslenskri landhelgi. Það eru líka ýmis önnur áhrif sem geta verið jákvæð vegna hnattrænnar stöðu okkar, sem opna möguleika okkar til að leggja okkar að mörkum við að framleiða meiri mat. Það getur orðið mögulegt að rækta hér landsvæði og nytjajurtir sem ekki var raunhæft áður. Kornrækt hefur til dæmis margfaldast síðustu tvo áratugina, en verulegt svigrúm er enn til að bæta þar í og draga þar með úr þörf fyrir fóður sem flytja þarf hingað um langan veg með tilheyrandi áhrifum á umhverfið.

Nýtum orkuna betur

Angi af sama meiði er innlend orkuframleiðsla. Þó svo að sú orka sem nú þegar er framleidd hér á landi sé umhverfisvænni en í flestum öðrum löndum þá ættum við ekki að slaka neitt á í því að finna leiðir til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þýðir meðal annars að nýta meira þá möguleika sem við eigum til framleiðslu á lífrænni orku í stað innflutts jarðefnaeldsneytis og bæta um leið orkunýtinguna í heild. Það er fólgin mikil orka í lífrænum úrgangi, en einnig og ekki síður þurfum við að finna leiðir til að nýta raforku á fleiri sviðum, ekki síst í samgöngum og flutningum.

Viðbrögð okkar sem þjóðar þurfa að snúast um hvað við getum lagt að mörkum samfara þessum tíðindum. Þar með talið framlag okkar bænda til aukinnar framleiðslu fóðurs og matvæla á Íslandi. Landbúnaðurinn er hluti af lausn vandans. Takið eftir því að í öllum tillögum um aðgerðir til þess að sporna við þessari óheillavænlegu þróun á heimsvísu, þá er landbúnaðurinn í einu af aðalhlutverkunum.

Aukin fæðuframleiðsla er skipulagsmál

Íslensk stjórnvöld hljóta að velta fyrir sér hvaða aðgerða er þörf til þess að bregðast við þessari stöðu, bæði í bráð og lengd. Fram hefur komið m.a. í máli sérfræðinga Veðurstofu Íslands að aukin fæðuframleiðsla framtíðar sé skipulagsmál nútíðar. Íslenskir bændur hljóta að túlka það sem svo að við þurfum að passa upp á landbúnaðinn okkar, hann þarf að vera arðsamur, og til að takast á við breytta tíma eiga rannsóknir, ráðgjöf og þróunarstarf að vera í lykilhlutverki. Menntun í búfræði og garðyrkju þarf að taka mið af þessu, það hefur úrslitaáhrif varðandi nýliðun og fjárfestingavilja. Þó að við þekkjum ekki alls kostar þær breytingar sem kunna að verða á ræktunarskilyrðum og tegundavali, virðist ljóst að allar sviðsmyndir krefjast þess að góð ræktunar- og beitilönd séu varðveitt og varin hverskonar eyðingu.

Við þekkjum heldur ekki hvernig heimsviðskipti með matvæli munu þróast og hvort það verður með þeim hætti að það skapi frekari útflutningstækifæri fyrir okkur, það er vel líklegt. Þó læðist að sá grunur, að áhugi alþjóðasamfélagsins á að eyða of mikilli orku í að flytja til mat, jafnvel fram og til baka, gæti minnkað. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga rifjast það upp að hnattræn umhyggja þarf að endurspeglast í aðgerðum heimafyrir. Hvaða stefnu hafa framboð til sveitarstjórna, verðandi handhafar skipulagsvaldsins, til verndunar ræktunarlands, til eflingu landbúnaðar, og til að bæta búsetuskilyrði í sveitum- þar sem matvælaframleiðslan fer fram? Hafa framboðin yfirleitt leitt hugann að þessum málum?

Öxlum ábyrgð

Mestu máli skiptir að þjóðir heims taki málið alvarlega. Verði ekki brugðist við er lífsbjörg milljarða í verulegri hættu. Þó að spáð sé verr fyrir mörgum öðrum löndum heldur en þeim sem liggja á norðlægum slóðum þá berum við líka ábyrgð. Við þurfum að draga úr útblæstri eins og aðrir. Afleiðingarnar geta orðið neikvæðar hér líka – en við getum þurft að taka á okkur stærri og meiri skyldur en áður við framleiðslu matvæla. Að því þarf að huga, fyrr en síðar.

Af mönnum og matvælum
Leiðari 23. júní 2022

Af mönnum og matvælum

Þann 20. júní síðastliðinn voru fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands viðst...

Íslenskur landbúnaður grunnstoð fæðuöryggis
Leiðari 8. júní 2022

Íslenskur landbúnaður grunnstoð fæðuöryggis

Talsverð vinna hefur farið fram á skrifstofu Bændasamtakanna í að fylgjast með...

Hljóð og mynd
Leiðari 24. júní 2021

Hljóð og mynd

Landbúnaður er ein grundvallar­atvinnu­greina á Íslandi og gegnir mikilvægu hlut...

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál
Leiðari 16. júlí 2020

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál

Frá og með 1. júlí síðastliðnum hækkuðu tollar á ákveðnar afurðir af útiræktuðu ...

Ljúkum afgreiðslu samninga
Leiðari 21. júlí 2016

Ljúkum afgreiðslu samninga

Landbúnaður skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi er hann mikilvæ...

Raunveruleiki eða uppspuni?
Leiðari 12. maí 2016

Raunveruleiki eða uppspuni?

Einn af frambjóðendum í komandi forsetakosningum sagði meðal annars þegar hann k...

Umræðan og veruleikinn
Leiðari 28. apríl 2016

Umræðan og veruleikinn

Stjórnmálalegu uppnámi síðustu vikna virðist ekki lokið þó að ríkisstjórn með ný...

Sviptingar
Leiðari 14. apríl 2016

Sviptingar

Það hefur verið ókyrrð í íslensku samfélagi síðustu vikur. Stjórnmálamönnum geng...