Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fjárlagafrumvarpið
Mynd / smh
Leiðari 4. desember 2014

Fjárlagafrumvarpið

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Stjórnarmeirihlutinn hefur kynnt breytingatillögur sínar við frumvarp til fjárlaga 2015. Oft er það svo í umræðu dagsins að stjórnmálamenn fá litlar þakkir fyrir störf sín, enda er þeirra verki aldrei lokið.  Að þessu sinni er þó hægt að benda á nokkur atriði í tillögum meirihlutans sem eru til framfara fallin ef Alþingi samþykkir tillögurnar.

Fyrst má þar nefna Landbúnaðarháskólann. Staða hans hefur undanfarið verið alvarleg. Með stofnum skólans á sínum tíma var það yfirlýst stefna að efla rannsóknir og kennslu á sviði landbúnaðar og umhverfismála í víðum skilningi. Þetta hefur skólinn reynt  að efna við þröngan fjárhagsramma. Inn í það mál hafa síðan blandast deilur um hugmyndir um að sameina skólann Háskóla Íslands.

Aðilar sem vilja vinna að uppbyggingu skólans hafa snúið bökum saman í því skyni að skapa aðstæður fyrir nýja sókn skólans. Markmiðið er að skólinn verði að þeim háskóla sem hann átti að verða að við stofnun hans og sé fær um að veita fyrsta flokks menntun og útskrifi einstaklinga sem hafi kunnáttu til að nýta til fulls þau tækifæri sem sókn íslensks landbúnaðar býður. Þar hafa m.a. komið að þingmenn Norðvesturkjördæmis úr öllum flokkum, sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð, bændur, hollvinasamtök skólans og fleiri. Í því hefur aldrei falist að samstarfi og samvinnu við Háskóla Íslands eða aðra háskóla sé hafnað, en það er ekki stuðningur við að fórna sjálfstæði skólans.

Komið til móts við þarfir LbhÍ

Í tillögum meirihlutans nú er komið til móts við þessi sjónarmið. Bætt er inn í reksturinn bæði á fjárlögum 2015 og í fjáraukalögum 2014 alls um 33 milljónum króna.  Að auki er að finna í tillögunum mikilvæga heimild til að selja jörðina Þormóðsdal í Mosfellssveit og jarðir í landi Keldna í Reykjavík sem eru í umsjón Landbúnaðarháskólans og ráðstafa söluandvirði að hluta til skólans. Því til viðbótar eru framlög til rannsókna háskóla í þágu landbúnaðar hækkuð umtalsverð og verða rúmar 206 milljónir króna á næsta ári. Þessir nýtast skólanum til rannsóknarstarfs í Landbúnaðarháskólanum og á undanförnum árum í raun borið það uppi.  Með þessum aðgerðum má segja að horfið sé af niðurskurðarbraut undanfarinna ára og uppbygging hefjist að nýju. Því ber að fagna.

Þá er að sama skapi bætt inn í rekstur Hólaskóla.  Rekstrarfé hans er aukið og skólinn fær 40 m. kr. sérstakt framlag til viðhalds fasteigna, sérstaklega þeirra sem nýtast við kennslu í hestafræðum en það nám er einn stærsti þátturinn í starfseminni á Hólum.

Í tillögunum felast jafnfram úrbætur í samgöngu- og fjarskiptamálum. Vegagerðin fær aukið svigrúm til vetrarþjónustu og til framkvæmda þar sem lögð er áhersla á að horft verði til framkvæmda við safn- og tengivegi auk nýframkvæmda á dreifbýlum svæðum. Samhliða eru þó 850 milljónir króna færðar úr nýframkvæmdum yfir á viðhald, en eins og bændur og annað landsbyggðarfólk þekkja vel er víða æpandi þörf á viðhaldi vega. Jafnvel svo að þeir liggja undir skemmdum. Þau  verkefni hafa því miður setið á hakanum undanfarin ár. Þá er einnig gerð tillaga um 500 m.kr. framlag til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir uppbyggingu á flugvöllum á landsbyggðinni. Slíkt skiptir  verulegu máli.

Fjarskiptaáætlun komin á kortið

Gerð er tillaga um 300 m.kr. tímabundið framlag til fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Í áætluninni munu koma fram töluleg markmið næstu ára um ljósleiðaravæðingu og uppbyggingu annarra fjarskipta á komandi árum.

Gert er ráð fyrir að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi á næstu mánuðum en í drögum er m.a. gert ráð fyrir vinnu við skipulagningu, áætlunargerð og kortlagningu stjórnvalda með innviðagagnagrunni sem talið er að kosti um 40 m.kr. á næsta ári.

Þá er gert ráð fyrir verkefnum við að tengja ótengda staði og/eða hringtengingar landsvæða og miðað við að um 200 m.kr. verði varið til þeirra. Að auki er stefnt að öðrum verkefnum í framhaldinu, svo sem hringtengingu landsvæða með meira en 5.000 íbúa og eflingu stofnnets og uppbyggingu ljósleiðaranets þar sem m.a. er horft til eflingar brothættra byggða. Hér í blaðinu má lesa nánar um þetta verkefni í grein sem alþingismennirnir Haraldur Benediktsson og Páll Jóhann Pálsson skrifa, en þeir hafa leitt starfshóp um málið.

Uppbygging ljósleiðaranets um landið allt er gríðarlega mikilvæg fyrir landsbyggðirnar, bæði íbúa, atvinnustarfsemi og ekki síður ferðamenn, innlenda sem erlenda. Það er því afar jákvætt að þetta verkefni sé nú að komast í gang og við hljótum um leið að vænta þess að með tillögum í komandi fjarskiptaáætlun sjáum við til lands í því máli. Lesendum blaðsins er án efa vel kunnugt um þá áherslu sem búnaðarþing hefur lagt á þennan málaflokk.

Nafn BÍ loksins tekið út úr fjárlögum

Að lokum er rétt að nefna eina tillögu til viðbótar, sem snýst þó ekki um neinar fjárhæðarbreytingar. Hún er á þá leið að heiti fjárlagaliðarins „Bændasamtök Íslands“ verði breytt í „Búnaðarlagasamningur“.  Enda er þar um að ræða framlög til verkefna samkvæmt samningnum. Fjármunirnir sem þarna um ræðir renna m.a. til ráðgjafarstarfs í landbúnaði, jarðabóta í sveitum, til Framleiðnisjóðs (sem er þróunar- og nýsköpunarsjóður landbúnaðarins) búfjárræktarstarfs og fleira sem er óskylt rekstri hagsmunasamtaka bænda.

Bændasamtökin hafa um árabil gagnrýnt þetta fyrirkomulag og hafa ítrekað farið fram á að þessu heiti yrði breytt, þar sem núverandi heiti endurspeglar ekki í hvað fjármunirnir renna. Af því hefur ekki orðið fyrr en loks nú. Það hefur verið árviss viðburður að ýmsir, sem rýna í fjárlögin, telja að þarna sé ríkissjóður að styrkja hagsmunagæslustarf Bændasamtakanna sem er fjarri lagi. Það er í raun stórundarlegt hvað hægt hefur gengið að fá þessu breytt, en að sama skapi sérstakt ánægjuefni að það skuli nú loks ganga eftir.

Ekki þarf þó að orðlengja að það er áhyggjuefni að enn skuli vera áform um hækkaðan virðisaukaskatt á matvælum, matarskatt. Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi þá teljum við hjá Bændasamtökum Íslands þá ráðstöfun vera til þess fallna að veikja samkeppnisstöðu innlendrar búvöru. Vonandi hverfa menn af þeirri braut.

Hljóð og mynd
Leiðari 24. júní 2021

Hljóð og mynd

Landbúnaður er ein grundvallar­atvinnu­greina á Íslandi og gegnir mikilvægu hlut...

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál
Leiðari 16. júlí 2020

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál

Frá og með 1. júlí síðastliðnum hækkuðu tollar á ákveðnar afurðir af útiræktuðu ...

Ljúkum afgreiðslu samninga
Leiðari 21. júlí 2016

Ljúkum afgreiðslu samninga

Landbúnaður skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi er hann mikilvæ...

Raunveruleiki eða uppspuni?
Leiðari 12. maí 2016

Raunveruleiki eða uppspuni?

Einn af frambjóðendum í komandi forsetakosningum sagði meðal annars þegar hann k...

Umræðan og veruleikinn
Leiðari 28. apríl 2016

Umræðan og veruleikinn

Stjórnmálalegu uppnámi síðustu vikna virðist ekki lokið þó að ríkisstjórn með ný...

Sviptingar
Leiðari 14. apríl 2016

Sviptingar

Það hefur verið ókyrrð í íslensku samfélagi síðustu vikur. Stjórnmálamönnum geng...

Til framtíðar litið
Leiðari 22. mars 2016

Til framtíðar litið

Útgáfudagur þessa blaðs er síðasti dagur bænda til að kjósa um nýja búvörusamnin...

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda
Leiðari 10. mars 2016

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda

Nú standa yfir kynningarfundir um búvörusamninga. Búið er að skipuleggja 19 fund...