Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Að loknu Búnaðarþingi
Leiðari 13. mars 2015

Að loknu Búnaðarþingi

Vel heppnuðu Búnaðarþingi er lokið. Setningin í Hörpu tókst afar vel og sóttu hana á fimmta hundrað manns, eða mun fleiri en í fyrra.  Öllum sem veittu stuðning við skipulag eða framkvæmd hennar eru færðar alúðarþakkir og landbúnaðarverðlaunahöfunum frá Brúsastöðum og Efstadal er jafnframt óskað til hamingju.
 
Fyrir utan gesti setningarinnar komu þúsundir manna í Hörpu þessa helgi á matarmarkað Búrsins eða til að fylgjast með úrslitakeppnum Food and Fun og um matreiðslumann ársins.   
 
Á þinginu sjálfu var að venju mikið fjallað um mál sem tengjast innviðum í dreifbýli, eins og orkuverð, fjarskipti og samgöngumál.  Alþingi hefur nú stigið það mikilvæga skref að samþykkt hafa verið lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku.  Með því verður orkudreifingarkostnaður til almennra notenda jafnaður að fullu í áföngum.  
 
Ályktað um fjölmörg mál
 
En það er bara eitt skref af mörgum. Þingið ályktaði um að enn vantar upp á að náist að jafna að fullu húshitunarkostnað á köldum svæðum.  Þar þarf að gera betur. Þá var ítrekuð krafa um aðgang að öflugum og traustum nettengingum um land allt og að allar byggðir og þjóðvegir landsins hafi virkt GSM-samband. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að gera átak í lagningu ljósleiðara út um land. Aðgangur að fjarskiptaþjónustu er orðinn ófrávíkjanleg forsenda búsetu, hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli og skiptir verulegu máli að hún sé í lagi. Í sömu ályktun var einnig undirstrikað að bæta þurfi afhendingaröryggi raforku og nýta samlegðarháhrif veituframkvæmda vegna ljósleiðara til að ljúka lagningu þriggja fasa rafmagns um landið. Þá var jafnframt ályktað um ástand vegakerfisins út um land en stórlega skortir á að viðhaldi vega hafi verið nægilega sinnt á undanförnum árum. Þar þarf að gera mikla bragarbót ef ekki á illa að fara.
 
Talsvert var fjallað um markaðsmál. Hvatt var til aukinnar markaðssóknar og vöruþróunar bæði gagnvart erlendum mörkuðum og ferðamannamarkaðnum hér heima. Jafnframt þyrfti að kortleggja betur tækifæri íslenskrar búvöruframleiðslu á öllum mörkuðum og tryggja að þær aðstæður væru fyrir hendi sem geri landbúnaðinum kleift að nýta þau tækifæri með skilvirkum, heilbrigðum og arðbærum hætti.  Þingið ályktaði einnig um að afurðastöðvar þyrftu að hafa skýrar heimildir til að vinna saman að útflutningi.
Ályktað var um málefni Landbúnaðarháskólans og undirstrikað að sjálfstæðir og öflugir landbúnaðarháskólar væru þýðingarmikill hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar.  Fallist var á að skoða mætti hugmyndir menntamálaráðherra um frekara samstarf háskólanna þriggja í Norðvesturkjördæmi. Minnt var á mikilvægi þess rannsóknastarfs sem fram fer á tilraunabúinu í nautgriparækt á Stóra-Ármóti og í sauðfjárrækt á Hesti.
 
Hótel Saga áfram í eigu BÍ
 
Hvað varðar innri mál samtaka bænda þá fór allnokkur tími þingsins í að ræða eignaumsýslu.  Niðurstaðan varðandi Hótel Sögu varð sú að Bændasamtökin eigi bæði rekstur hótelsins og fasteign þess í a.m.k. þrjú ár eða þar til Búnaðarþing ákveður annað. Ákveðið var jafnfram að halda áfram viðræðum BÍ og Landssambands kúabænda um að koma á fót sameiginlegu félagi um rekstur nautastöðvar meða það fyrir augum að efla kynbótastarf, ráðgjöf, kennslu og rannsóknir í nautgriparækt auk þess sem markvisst verði unnið að jöfnun sæðingakostnaðar.
 
Búnaðarþing samþykkti miklar breytingar á samþykktum Bændasamtakanna sem meðal annars fela í sér breytingar á fyrirkomulagi Búnaðarþings, en í framtíðinni verður þingið haldið annað hvert ár en árið á móti verður haldinn ársfundur. Þá voru samþykktir breytingar á reglum um aðild að Bændasamtökunum, bæði hvað varðar einstaklinga og aðildarfélög. Einstaklingum sem ekki eru bændur en vilja styðja markmið samtakanna er nú heimilt að gerast aukafélagar í þeim. Eins var samþykkt sú stefna að samtökin skuli í framtíðinni verða fjármögnuð með veltutengdum félagsgjöldum.  
 
Fulltrúafjöldi aðildarfélaga á Búnaðarþing er óbreyttur frá fyrri samþykktum. Einn fulltrúi bætist þó við í ljósi þess að Geitfjárræktarfélag Íslands fékk aðild að BÍ á þinginu og verða því fulltrúar á Búnaðarþingi 2016 alls 49.
Ítarleg samþykkt var gerð um búvörusamninga enda er það stærsta kjaramál bænda. Stefnumörkunin felur meðal annars í sér að búnaðarlagasamningur verði efldur og gerður að rammasamningi um starfsumhverfi. Sá samningur verði í raun rammasamningur og undir þeim hatti séu gerðir undirsamningar. Markmið rammasamnings verði ekki síst að stækka og efla íslenskan landbúnað, bæta afkomu bænda, samkeppnishæfni landbúnaðar í heild, nýliðun, rannsókna- og vísindastarf, fæðuöryggi og nýsköpun.  Þá er mörkuð sú stefna að takmarka  eða banna eigi  innflutning dýraafurða sem eru framleiddar við lakari aðstæður og kröfur um aðbúnað en gerðar eru til innlendrar framleiðslu. 
 
Stefnan er tekin á samninga sem fela í sér tollvernd sem tryggi samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Nánara fyrirkomulag tollverndar verði afmarkað í undirsamningum. Tekið er á fjölmörgum fleiri þáttum í samþykktinni eins og fram kemur annars staðar hér í blaðinu.
 
Í setningarræðu þingsins var verslunin gagnrýnd nokkuð harkalega um leið og fram kom að það væri ekki eftirsóknarvert að standa í endurteknum deilum við hana. Nýútkomin skýrsla Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á dagvörumarkaði gefur því miður ekki góðar vonir um að verslunin sé viljug að taka til í eigin ranni. Í skýrslunni kemur fram að verslunin hefur verið að taka til sín gengishagnað af innfluttum vörum. Innlendar vörur hækka aftur á móti í takt við vísitölu framleiðsluverðs. Þetta undirstrikar það sem sagði í ræðunni að verslunin væri að taka of mikið til sín. Hún þarf að svara mun skýrar þeirri gagnrýni sem skýrslan setur fram og óskandi væri að fjölmiðlar landsins tækju efni hennar til rækilegrar umfjöllunar.  
Hljóð og mynd
Leiðari 24. júní 2021

Hljóð og mynd

Landbúnaður er ein grundvallar­atvinnu­greina á Íslandi og gegnir mikilvægu hlut...

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál
Leiðari 16. júlí 2020

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál

Frá og með 1. júlí síðastliðnum hækkuðu tollar á ákveðnar afurðir af útiræktuðu ...

Ljúkum afgreiðslu samninga
Leiðari 21. júlí 2016

Ljúkum afgreiðslu samninga

Landbúnaður skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi er hann mikilvæ...

Raunveruleiki eða uppspuni?
Leiðari 12. maí 2016

Raunveruleiki eða uppspuni?

Einn af frambjóðendum í komandi forsetakosningum sagði meðal annars þegar hann k...

Umræðan og veruleikinn
Leiðari 28. apríl 2016

Umræðan og veruleikinn

Stjórnmálalegu uppnámi síðustu vikna virðist ekki lokið þó að ríkisstjórn með ný...

Sviptingar
Leiðari 14. apríl 2016

Sviptingar

Það hefur verið ókyrrð í íslensku samfélagi síðustu vikur. Stjórnmálamönnum geng...

Til framtíðar litið
Leiðari 22. mars 2016

Til framtíðar litið

Útgáfudagur þessa blaðs er síðasti dagur bænda til að kjósa um nýja búvörusamnin...

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda
Leiðari 10. mars 2016

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda

Nú standa yfir kynningarfundir um búvörusamninga. Búið er að skipuleggja 19 fund...