Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Í mótlætinu geta falist tækifæri
Mynd / Wikimedia Commons - FishInWater
Skoðun 25. september 2020

Í mótlætinu geta falist tækifæri

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Áföll af ýmsum toga geta oft haft skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélög. Ef fólki auðnast hins vegar að horfa á þá óáran sem yfir dynur hverju sinni á yfirvegaðan hátt má oft líka finna tækifæri sem lýsa upp veginn fram undan.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út í júlí í sumar yfirlit yfir stöðu mála hvað varðar fæðuöryggi og næringu fyrir íbúa heimsins. Þar kemur fram að þrátt fyrir göfug markmið um að útrýma hungri í heiminum fyrir 2030 þá hefur miðað hægt í þeim efnum. Meira að segja svo, að frá 2014 hefur jafnt og þétt verið að síga á ógæfuhliðina.

Samkvæmt úttekt WHO er áætlað að næstum 690 milljónir manna gangi um svangir á hverjum einasta degi, eða 8,9 prósent jarðarbúa. Eykst fjöldi hungraðra um ríflega 10 milljónir á hverju ári, eða um nærri 60 milljónum á fimm árum. Þetta ástand hefur síðan versnað mjög í kjölfar heimsfaraldurs vegna COVID-19. Ástæðan er stöðvun atvinnulífs og matvælaframleiðslu vegna sjúkdómsins. Einnig stóraukið atvinnuleysi sem leiðir til þess að fólk á ekki fyrir lífsnauðsynjum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir líka á fæðuóöryggið, sem er annar mælikvarði sem lýsir þróun sem leiðir til hungurs. Árið 2019 bjuggu nærri 750 milljónir, eða næstum tíundi hver maður í heiminum, við mikið fæðuóöryggi. Það þýðir að ef fæðuöryggi þessa fólk verður ekki tryggt mjög fljótt, mun allur þessi fjöldi brátt upplifa hungur upp á hvern einasta dag.

„Heimurinn er ekki á leið með að útrýma hungri fyrir árið 2030. Ef núverandi þróun heldur áfram mun fjöldi þeirra sem verða fyrir áhrifum af hungri fara yfir 840 milljónir árið 2030,“ segir í úttekt WHO.

„Bráðabirgðamat bendir til þess að COVID-19 heimsfaraldur geti bætt á milli 83 og 132 milljónum manna við heildarfjölda vannærðra í heiminum á árinu 2020. Það veltur síðan á framvindu hagkerfa heimsins hvernig þróun verður.“

Það er ekkert ýkja langt síðan almenningur á Íslandi var í þeirri stöðu að mikil fátækt, vannæring og hreint hungur var daglegur veruleiki. Það sem bjargaði Íslendingum úr þeirri skelfingarstöðu var matvælaframleiðsla fyrir aðrar þjóðir þegar þeirra matvælaframleiðsla varð fyrir áföllum vegna styrjalda. Þar var það einkum sjávarútvegurinn sem gat brugðist hratt við með stórauknum veiðum og útflutningi á fiski fyrir hungraða Evrópubúa. Í þeirri stöðu varð Evrópubúum það vel ljóst hversu fæðuöryggi þjóða er gríðarlega mikilvægt.

Heimsfaraldur vegna COVID-19 ætti að kenna okkur Íslendingum að það er ekkert sjálfsagt mál að hægt sé að valsa óhindrað í matarbúr annarra þjóða í leit að bestu bitunum. Heimsfaraldur hefur gert það að verkum að matvælaframleiðsla, fataverksmiðjur og tækjaframleiðsla hefur víða dregist saman eða hreinlega stöðvast. Þegar svo er dugar ekki fyrir okkur Íslendinga að sitja með hendur í skauti. Við verðum að bregðast við og upphugsa ráð sem gerir okkur sjálfbær og tryggir okkar fæðuöryggi.

Íslenskar landbúnaðarafurðir hafa á liðnum árum ekki verið að standa undir nema hluta af okkar neyslu á landbúnaðarvörum. Þarna er því augljóst tækifæri til að gera betur. Þar verður hugvit og skynsemi að vera í hávegum haft, þannig að ný og aukin framleiðsla fari fram með sem arðbærustum hætti og geti þegar fram í sækir líka skapað okkur gjaldeyristekjur. Þetta tókst í sjávarútvegi þrátt fyrir meingallað kerfi, af hverju ætti það ekki líka að geta átt við í landbúnaði?

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...