Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Heimavinnsla afurða og aukin verðmætasköpun
Skoðun 21. nóvember 2019

Heimavinnsla afurða og aukin verðmætasköpun

Höfundur: Guðrún S. Tryggvadóttir formaður Bændasamtaka Íslands - gst@bondi.is
Í bókunum Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi er sláturtíðinni gerð góð skil. Nokkuð nákvæmar lýsingar eru á því hvaða störfum heimilisfólk sinnti og hvað var nýtt af skepnunni. Í þá daga efaðist enginn um uppruna matvælanna enda rak stærstur hluti þjóðarinnar bú og framleiddi sín eigin matvæli. 
 
Þó ekki sé liðið svo ýkja langt í árum talið þá er aðeins rúmt 1% þjóðarinnar sem í dag stundar landbúnað og eru að langstærstum hluta frumframleiðendur. Afurðafyrirtæki sjá um vinnsluna á vörunum sem almenningur kaupir í verslunum. Tenging sveitar og borgar hefur minnkað og fá börn sem enn fara í sveit. Það gerir það að verkum að tenging framleiðenda og neytenda hefur trosnað. Börn heyra meira af sveitinni en þau sjá og fá að upplifa og það er veruleikinn í dag.
 
Neytendur gera kröfur
 
Heilindi í matvælaframleiðslu eru  gríðarlega mikilvæg og nauðsyn í tengingu framleiðanda og neytenda. Upplýsingar um framleiðsluferlið, umhverfismál og dýravelferðarmál eru ekki síður mikilvæg. Neytendur verða sífellt betur upplýstari og meðvitaðri. Nú þegar spyr fólk spurninga eins og; hversu langt eru matvælin búin að ferðast? Hvernig er aðbúnaður dýranna? Við hvernig aðstæður voru þau alin? Hversu langt þurfti að flytja dýrið til slátrunar og hversu langan tíma var það á ferðinni? Hvert er viðhorf og hvernig er framleiðslunni háttað með tilliti til umhverfismála? Hvernig er aðbúnaður starfsfólksins?
 
Í tíð Guðrúnar frá Lundi var enginn að velta fyrir sér innflutningi á fersku kjöti, upprunalandi eða merkingum. Það að eiga í sig og á kostaði vinnu, blóð, svita og tár. Íslendingar hugsuðu sig tæplega í Evrópumeðaltali hvað varðaði matarkörfu heimilisins. Það kostar enn vinnu að eiga í sig og á og þar er gæðum lífsins að sönnu misskipt. Það liggur í hlutarins eðli að verð matvæla skiptir suma meira máli en aðra. Það er sumir eiga einfaldlega miklu auðveldara með að eyða meiri fjármunum í mat en aðrir. En það segir sig sjálft að matur kostar. Séu matvæli mjög ódýr, hvað þýðir það? Er afsláttur á velferð og umhverfismálum? Er starfsfólki vinnslunnar greidd mannsæmandi laun eða er kannski um mannréttindabrot að ræða? Er eðlilegt að matvæli séu mjög ódýr eða erum við að fá það sem við borgum fyrir? Hvernig geta neytendur tekið ákvarðanir út frá mjög takmörkuðum upplýsingum eða metið hvað í raun sé eðlilegt verð fyrir vöruna? Virðiskeðjan í framleiðslu matvæla er ekki í jafnvægi og verð til frumframleiðenda er í mörgum tilfellum of lágt.
 
Matvælaframleiðsla lýtur miklu eftirliti
 
Í síbreytilegu matvælaumhverfi er enn nauðsynlegra en áður að raunverulegur uppruni matvæla sé auðsjáanlegur og neytandinn geti treyst því að gæði liggi að baki og upplýsingar um uppruna séu sannar. Eftirlit með innfluttum matvælum byggir að talsverðu leyti á yfirferð ritaðra gagna sem fylgja vörum við komu til landsins. Nú er verið að herða eftirlit sem er einn liður aðgerðaráætlunar vegna innflutnings á fersku kjöti og eggjum og því ber að fagna. En það verður líka að virka til lengri tíma litið. 
Matvælaframleiðsla hér á landi er undir ítarlegu eftirliti Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlitsins sem er nauðsynlegt og enginn vilji er fyrir því að slá af þeim heilbrigðis- og velferðarkröfum sem gerðar eru til innlendrar framleiðslu. En þó svo að haldið sé í þessar kröfur þá er ekki gott að þær séu svo hamlandi fyrir bændur að nánast óyfirstíganlegt sé að slátra gripum heima á býlinu og selja neytendum afurðir sem aldrei hafa yfirgefið býlið fyrr en í neytendaumbúðum.  
 
Slátrun heima á býlum er í dag ólögleg, nema til eigin neyslu og afurðirnar eiga ekki að fara út fyrir bújörðina. Þó er það þekkt að slík slátrun er leyfð í nágrannalöndum okkar og víðar. Hérlendis hefur gengið illa að finna leiðir til að gera þessa fullvinnslu matvæla mögulega fyrir bændur og oft virðast hindranirnar í formi „computer says no“ vera ástæðan.    
 
Það eru allir sammála um að eðlilegt eftirlit þurfi með slátrun á býli og að kröfum um hreinlæti, dýravelferð og heiðarleika í viðskiptum sé fullnægt. Það sem menn eru ekki sammála um er hvort þessar kröfur sé hægt að uppfylla með reglugerð sem gerði bændum kleift að slátra skepnum í litlum mæli og selja sérstaklega merkt. Skepnan þurfi þannig ekki að ferðast í sláturhús, kjötið fái að „hanga“ og sé hugsanlega unnið eftir óskum viðskiptavinarins. Í sauðfjár- og nautgriparækt eru bændur sem hafa áhuga á að fara í heimaslátrun og -vinnslu þótt stærsti hlutinn haldi áfram að leggja inn í afurðastöðvar. Vinnsla í smáum stíl er bæði til þess fallin að svara kalli neytenda og bænda. 
 
Finnum lausnir og sköpum aukin verðmæti
 
Læknar eru  farnir að stunda fjarlækningar á fólki, er ekki hægt að nýta að einhverju marki fjareftirlit á ástandi dýra fyrir slátrun? Er hægt að búa til skyldunámskeið fyrir þá bændur sem vilja stunda slátrun á býli sem tryggir grunnþekkingu og gefur vottun til slátrunar í litlum mæli? Það er einhver hluti bænda og einhver hluti neytenda sem hefur áhuga á að geta stundað viðskipti með matvöru á þennan hátt, er það ekki eðlilegt að til þess sé fundin leið enda byggir þess konar vinnsla á menningararfi okkar, líkt og það að prjóna og hekla? Milliliðalaus viðskipti byggja á trausti og samtali framleiðanda og kaupanda. Framleiðsla fylgir eftirspurn og neyslubreytingar verða þannig nær framleiðendanum. Hugsanlega á sér stað samtal milli framleiðenda og neytenda sem ýtir undir nýsköpun í matvælaframleiðslunni, einmitt af því að fólk er að tala saman. Það að fara í svona vinnslu heima gerir það að verkum að mannorð viðkomandi bónda og býlis er undir. Hver leggur mannorð sitt að veði án þess að tryggja góða vöru? Grundvallaratriði er að auka virði afurða í landbúnaði. Ef við ætlum ekki að enda með fá stór bú og stopulan landbúnað er nauðsynlegt að tryggja fjölbreytni og fjölbreytt tækifæri í sveitum landsins. Öflugt rannsóknastarf og nýsköpun þarf að styðja við starfsemi til sveita til eðlilegrar framþróunar í matvælaframleiðslunni. 
 
Frestun á atkvæðagreiðslu um nautgripasamning
 
Ákveðið hefur verið að fresta boðaðri atkvæðagreiðslu um endurskoðaðan nautgripasamning um rétta viku. Fram hafa komið áhyggjur af ákveðnum atriðum sem lýsir sér meðal annars í undirskriftalista sem fulltrúar BÍ fengu afhentan á þriðjudag. Á það er hlustað og af þeim sökum hefur verið ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni og láta reyna á að ræða við fulltrúa ríkisins um mögulegar úrbætur varðandi þau stærstu í ljósi þessarar stöðu.
Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...