Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Góðri sjúkdómastöðu ógnað
Mynd / BBL
Skoðun 18. október 2018

Góðri sjúkdómastöðu ógnað

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Í síðustu viku féll dómur í Hæstarétti í áfrýjunarmáli ríkisins gegn Ferskum kjötvörum. Málsatvik eru í stuttu máli þau að í nóvember 2016 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða fyrirtækinu bætur vegna þess að því var bannað að flytja inn ferskt hrátt kjöt. Í síðustu viku staðfesti Hæstiréttur framangreindan héraðsdóm.

Málið er hluti af langvarandi ágreiningi um þær skorður sem settar voru við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum sem lögleiddar voru, þegar matvælalöggjöf ESB var innleidd árið 2009.

Um er að ræða þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar en fjölmargir hafa bent á þá áhættu sem felst í auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna og fleiri sem vara við óheftum innflutningi þá hafa dómstólar haft þau sjónarmið að engu.

Niðurstaðan getur að óbreyttu valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu. Vegna aldalangrar einangrunar íslenskra búfjárstofna hafi dýrin lítið ónæmi fyrir fjölmörgum smitefnum sem algeng eru erlendis, en aldrei hafi orðið vart við hér á landi. Ísland er ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar. 

Vald markaðarins virðist trompa vísindaleg rök

Niðurstaðan dregur skýrt fram að vísindaleg rök hafa ekkert gildi gegn markaðslegum rökum að mati dómstólanna. Allt víkur fyrir þeim, bæði heilsufarsleg, umhverfisleg og almenn sanngirnisrök. Í 13. grein EES-samningsins eru að vísu ákvæði um að taka megi tillit til sjónarmiða sem snerta heilsu manna og dýra en í þessum niðurstöðum er hún að því má segja, túlkuð út af borðinu en ekki færð mikil efnisleg rök fyrir af hverju ekki er tekið tillit til hennar. Hún heldur greinilega ekki gegn valdi markaðarins.

Stóraukinn innflutningur á búvörum hingað til lands síðustu ár er staðreynd eins og fjallað er um hér í blaðinu. Milliríkjasamningar og minni tollvernd hafa gert það að verkum að markaðir eru opnari en áður var. Þessu fylgja óhjákvæmilega auknar líkur á því að hingað til lands berist ýmis smit með matvælum, s.s. salati eða kjötvörum, sem ógnað geta heilsu manna og dýra. Frystiskylda á kjöti er varúðarráðstöfun sem minnkar líkur á að óværa berist hingað til lands. 

Munum áfram verja okkar stöðu

Hvað sem öðru líður þá munum við áfram verja okkar stöðu sem er einstök. Það hefur komið skýrt fram í umræðu um þessi mál að okkar færustu vísindamenn í sýklafræði og bæði manna- og búfjársjúkdómum hafa varað sterklega við innflutningi á ófrosnu hráu kjöti og öðrum þeim vörum sem geta borið með sér smit. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu.

Sérstaða felst í góðri búfjárheilsu

Sérstaða íslensks landbúnaðar felst meðal annars í því að hér er búfjárheilsa góð og sýklalyfjanotkun í landbúnaði í algjöru lágmarki. Þar sem notkunin er mest er hún mörgum tugum sinnum meiri en hér. Sýklalyfjaónæmi er talið ein helsta lýðheilsuógn mannkyns á næstu áratugum en það hefur aukist hratt samhliða ofnotkun sýklalyfja í nútímalandbúnaði. Sjúkdómastaða íslensks búfjár er í algerum sérflokki jafnvel svo að aðrar þjóðir hafa sótt hingað þekkingu í sinni baráttu svo sem til að takast á við kampýlóbaktersýkingar í kjúklingum – sem eru ein algengasta orsök matarsýkinga víða um lönd. Hér er skimað fyrir þessari sýkingu reglulega allt árið og skylt er að frysta eða hitameðhöndla afurðir ef sýking kemur upp. Það er ekki gert annars staðar nema í Noregi en þar eru afurðir ekki skimaðar nema yfir sumarmánuðina.

Það eru vissulega viðbótartryggingar í boði gegn salmonellu í matvælalöggjöf ESB og sjálfsagt er að sækjast eftir þeim en það er ekkert slíkt í boði þegar kemur að kampýlóbakter.  Þar hefur ESB gefist upp og ábyrgðinni varpað yfir á neytendur.

Beitum sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra

Bændasamtök Íslands telja eðlilegt og sanngjarnt að íslensk stjórnvöld fari fram á það við ESB að áfram verði heimilt að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu manna og dýra, enda standa til þess full rök sem ekki hafa verið hrakin. Viðræður eru í gangi við ESB en niðurstaða þeirra er ekki ljós.

Baráttu samtakanna er ekki lokið. Verndun íslensku búfjárkynjanna sem menningarverðmæta og erfðaauðlindar sé mál sem varðar alla. Auk skuldbindinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni er fjölbreytileikinn hluti af aðdráttarafli landsins fyrir ferðamenn og órjúfanlegur hluti af menningu landsbyggðarinnar.

Leggjum baráttunni lið

Bændur vita sem er að landsmenn vilja styðja við íslenskan landbúnað sem best mátti sjá á aðsókninni að hinni glæsilegu landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll um síðustu helgi.  Bændur þakka öllum þeim tugþúsundum sem sóttu eða komu að sýningunni fyrir komuna og heita á alla stuðningsmenn landbúnaðarins að leggja baráttunni áfram lið.

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...