Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ferðaþjónustan og fjármálafræðin
Mynd / HKr.
Skoðun 29. september 2020

Ferðaþjónustan og fjármálafræðin

Höfundur: Jóhannes Geir Sigurgeirsson

Mikið er rætt um stöðu ferða­þjónustunnar í dag. Oft á þann veg að ætla mætti að greinin væri einangruð og komi ekki öðrum við en þeim sem eiga hana og þar starfa og komi lítt við aðra þætti þjóðfélagsins. Lítum aðeins á stöðuna:

Greinin hefur verið í vexti um áratuga skeið og fyrir bankahrunið var hún orðin ein af þrem höfuð undir­stöðum í efnahagslífi þjóðarinnar. Í kjölfar hrunsins og síðan eldgosa sem stöðvuðu allt flug um tíma var farið í markaðsátak sem enginn sá fyrir hverju skilaði þegar upp var staðið. Við tók nánast veldisvöxtur sem stóð fram til 2018. Allt í einu var ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugrein landsins og hafði algjörlega snúið við áratuga langri baráttu við að halda gengi krónunnar uppi og hafði í raun styrkt hana umfram það sem greinin sjálf þoldi. Við var að taka aðlögunartímabil með hægum vexti og nýrri nálgun; við þurftum á því að halda: Taka stöðuna og marka stefnu til framtíðar.

Áhrif COVID

Svo kom COVID. Rétt til að árétta hvað er að gerast þá er staðan nú sú að stærsta atvinnugrein þjóðarinnar verður tekjulítil og í sumum tilfellum tekjulaus í eitt ár í það minnsta. Þá bendir allt til þess að það muni taka tvö til fjögur ár að koma greininni á lappir aftur ef allt gengur vel.

Margt hefur gengið vel í baráttunni við efnahagslegu áhrifin á síðustu mánuðum. Tekist hefur að örva innlenda eftirspurn þannig að samdráttur landsframleiðslu hefur verið minni en reiknað var með. Þá eru bæði ríkissjóður og Seðlabankinn í stöðu til að geta veitt kröftuga mótstöðu.

Ef við setjum þetta í sögulegt samhengi þá eru áhrif tímabundins tekjuhruns aðalatvinnuvegar þjóðarinnar nú minni en hrun á einni tegund í sjávarútvegi þegar síldin hvarf á sjöunda áratug síðustu aldar. Það eru miklu fleiri stoðir sem bera okkur uppi í dag. Það hefur verið kallað eftir einhverju nýju og ferðaþjónustan svaraði því kalli. Við skulum hins vegar hafa það alveg á hreinu að ef ekki tekst að koma fótunum hratt aftur undir greinina stöndum við frami fyrir gríðarlegum efnahagslegum vanda.

Dýrasta leiðin

Snúum okkur aftur af ferða­þjón­ustunni: Þær aðgerðir sem gripið var til á síðasta vori miðuðu allar við að hlutirnir mundu falla í fyrra horf með haustinu og það væri verið að fleyta greininni yfir nokkra mánuði. Nú liggur fyrir að svo er ekki: Það þarf nýja nálgun þar sem nú liggur fyrir að greinin í heild stendur ekki undir rekstrarkostnaði og á ekkert upp í fjármagnið í eitt ár eða meira.
Hvað er til ráða? Duga hefðbundin ráð og verkfæri viðskiptalífsins síðustu áratugina til að bregðast við þessari stöðu. Fjármálafræðin í dag mun aldrei endurreisa greinina aftur nema á mjög löngum tíma. Við skulum horfast í augu við að leið fjöldagjaldþrota og alls sem þeim mundi fylgja er dýrasta leiðin. Fyrir greinina sjálfa, fjármálakerfið, ríkissjóð og þar með þjóðina alla.

Hraður bati byggir á ferðaþjónustunni

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða flestar við að landið rísi hratt aftur þegar tök nást á heimsfaraldrinum. Það er að til staðar verði framleiðsluaukning til að mæta skuldsetningu sem óhjákvæmilega fylgir þeim auknu framkvæmdum sem ríkissjóður er að fara í til viðbótar þeim kostnaði sem fellur til við aðgerðir á vinnumarkaðinum. Það er aðeins eitt sem getur skilað okkur þeim hraða bata sem stefnt er að:

Það er að ferðaþjónustan verði í stakk búin til að taka hratt við sér þegar birtir til. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hvað varðar endurreisn Icelandair og viðtökur við hlutafjárútboðinu benda til að til staðar sé skilningur á að gjaldþrotaleiðin skili ekki þeim árangri sem stefnt er að: Það nákvæmlega sama á við um aðra þætti atvinnugreinarinnar. Þeir verða að vera til staðar og í startholunum en til þess að svo verði verður að taka á skuldavandanum. Viðskiptamódelin sem unnið er eftir reikna ekki með tekjulausu ári. Ef ekkert verður tekið á málinu heildstætt mun endurreisn ferðaþjónustunnar taka í það minnsta tvöfaldan þann tíma sem nefndur var hér að ofan með.

Það verður ekki öllum bjargað

Nú má enginn skilja þessi skrif þannig að öllum verið bjargað. Það var hafin endurskipulagning í greininni fyrir COVID:
Hún mun halda áfram. Fyrirtæki munu sameinast, önnur leita eftir nýjum meðeigendum og einhver hætta starfsemi. Jákvæðu hliðarnar eru að til staðar er uppbygging og mikil þekking til að byggja á; en eins og alltaf fylgja skuldir hraðri uppbyggingu:
Þar liggur vandinn sem nú þarf að taka á. Í þessum pistli er fyrst og fremst fjallað um skuldavandan. Það væri einnig hægt að fjalla um þætti eins og fasteignagjöld og tryggingar á tekjulausu ári en það er ekki gert hér.

Ný nálgun í ferðaþjónustu

Ef við berum gæfu til að taka heildstætt á málinu verður ferðaþjónustan í stakk búin til að standa undir vexti á nýjan leik. Vexti sem þarf ekki mikla nýja fjárfestingu. Fólkið í ferðaþjónustunni gerir sér grein fyrir að það verðu ekki horfið til fyrri tíma. Ný nálgun í ferðaþjónustu mun að öllum líkindum byggja á færri en lengri ferðum og fyrst um sinn eftirspurn eftir fámenni frekar en stórborgum ásamt meiri umhverfisvitund. Allt eru þetta þættir sem falla að íslenskri ferðaþjónustu. Að láta reka á reiðanum gagnvart vandanum er ávísun á hægan bata sem mundi gera áætlanir ríkisstjórnarinnar um að vaxa út úr vandanum að engu.

Það þarf samræmdar aðgerðir

Það liggur fyrir að fresta þarf afborgunum og vöxtum: Einnig að tryggja vaxtakjör sem eru í einhverju samræmi við það sem samkeppnisaðilarnir í öðrum löndum Evrópu búa við ásamt endurgreiðsluáætlun í samræmi við þann tíma sem tekur að koma fótum undir greinina að nýju. Upphæð skulda sem fá þessa með ferð þarf að hafa þak sem getur verið upphæð á herbergi í hótelum og gistiheimilum og hlutfall af tekjum í öðrum greinum. Aðgerðir í þessa átt er eina leiðin til að tryggja jafnræði og en verða ekki framkvæmdar nema með frumkvæði og atbeina stjórnvalda. Þessi leið getur einnig gert aðkomu nýrra fjárfesta á forsendum greinarinnar auðveldari. Þetta er ekki einfalt mál og þarfnast vandaðs undirbúnings og vilji er allt sem þarf en stefnumótun í þessa veru þarf að liggja fyrir sem allra fyrst: Hitt er bara vinna.

Fjármálafræði andskotans

Hin hefðbundna leið fjármálafræða síðustu áratuga mun að mati undirritaðs í öllum tilfellum vera dýrasta leiðin fyrir alla. Tökum eitt dæmi hvað það varðar: Bankarnir eru að hækka vexti til fyrirtækja þvert á lækkun stýrivaxta Seðlabankans á grunni þess að áhætta á lánatöpum fari vaxandi og því verði að mæta með hærri vöxtum. Við þær aðstæður sem ferðþjónustan stendur frami fyrir í dag og hér hefur verið rakin er þetta fjármálafræði andskotans og mun ef eitthvað er auka tapáhættu bankanna og seinka efnahagsbatanum: Það blóðmjólkar enginn bestu mjólkurkúna sína í geldstöðu. Við þetta má svo bæta að væntanlega er hægt að flokka stöðuna í ferðaþjónustunni í dag undir Force Majeure (ófyrirsjáanlegar aðstæður sem ekki verður komist undan; algjöran forsendubrest). Velta má fyrir sér hvort við þær aðstæður sé forsvaranlegt og jafnvel löglegt að innheimta vexti.

Keynes eða Friedman

Við höfum um árabil búið við efnahags- og fjármálastefnu ný­frjáls­hyggjunnar sem byggir á að Seðlabankar heimsins hafa verið við stýrið og stjórntækin eru stýrivextir og peningamagn í umferð. Í hinni einföldu mynd tók Milton Friedman við að John Keynes hvað varðar stjórnun efnahagsmála þó það hafi ekki átt við um aðra þætti þjóðlífsins. Margt bendir til að þessi stefna hafi leitt til hraðari eignatilfærslu en þekkst hefur áður. Á þessari hugmyndafræði byggir einnig sú fjármálastefna sem íslensku bankarnir eru fastir í nú um stundir. Ofan af því verður ekki undið nema með aðgerðum ríkisvaldsins. Það er í sjálfu sér rökrétt þar sem ríkisstjórnir heimsins eru í dag hver af annarri að hverfa aftur til Keyenisma þar sem ríkisfjármálin og aðgerðir ríkisvaldsins eru drifkrafturinn í efnahagslífinu:
Eru við stýrið með Seðlabankana í aftursætinu eins og einn hagfræð­ingur orðaði það nýlega. Allt fer í hringi:
Getur ekki verið að hugmynda­fræðin sem meðal annars Roosvelt byggði New Deal stefnu sína á eigi rétt á sér í dag. Á slíkri stefnu­breytingu byggja þær hugmyndir sem hér eru settar fram.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Höfundur er ferðaþjónustubóndi á Norðurlandi.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Skylt efni: ferðaþjónusta

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...