Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sojabaunabelgir.
Sojabaunabelgir.
Skoðun 5. apríl 2017

Erfðatækni – áhættusöm og ónauðsynleg

Höfundur: Sandra B. Jónsdóttir, sjálfstæður ráðgjafi
Í viðtali við Árna Bragason í nýútkomnu tímariti Bændablaðsins segir hann okkur verða að nota erfðatæknina. Í upphafi viðtals segir hann að erfðatæknin valdi stökkbreytingum í plöntum. Það er gott að sjá að hann skuli viðurkenna að myndun erfðabreyttra lífvera hafi mikil stökkbreytandi áhrif, þar sem erfðabreytingar geta valdið tjóni á DNA röðum og breytt erfðaupplýsingum í erfðamengi plöntunnar. 
 
En Árni tekur síðan til varna fyrir stökkbreytingar sem erfðatæknin veldur með því að segja að vísindamenn hafi um langan aldur framkallað stökkbreytingar í plöntum með því að nota geislun og efnafræðiferli – plöntukynbótatækni sem nefnd er framköllun stökkbreytinga (mutagenesis). Sú tækni þróaðist úr kjarnorkuiðnaðinum á fjórða áratug síðustu aldar en er að mestu aflögð vegna þess hve lítinn árangur hún ber. 
 
Flestar plöntur sem þannig eru myndaðar deyja, eru vanskapaðar eða ófrjóar, og það tekur mikinn tíma, fjármagn og sérþekkingu að fá fram lífvænlegan einstakling. Erfðatæknin á það sammerkt með þessari aðferð að báðar framleiða plöntur sem ekki gætu orðið til í náttúrunni, auk þess að stökkbreytingar sem báðar aðferðir valda geta leitt af sér óvæntar breytingar í genamengi plantna sem skapað geta áhættu fyrir umhverfi og heilsufar. Ef framköllunaraðferðin hefði náð einhverjum marktækum árangri hefði sú aðferð orðið jafn umdeild og erfðatæknin, og hefði með sama hætti kallað á öflugt opinbert regluverk til að stýra því. 
 
Árni heldur því fram að megin andstaðan við erfðabreyttar plöntur sé sú skoðun að þær auki notkun eiturefna. En hvorki hann né líftæknifyrirtækin treysta sér til að viðurkenna að ferlið sjálft – tæknin sem notuð er til að erfðabreyta plöntum – getur haft jafn mikla hættu í för með sér fyrir heilsufar eins og aukin eiturefnanotkun. Margar rannsóknir, t.d. þær sem J.R. Latham og A.K. Wilson birtu 2006, hafa bent á afleiðingar stökkbreytinga sem erfðatæknin hefur í för með sér.
 
Í lok síðasta árs birtist síðan merkileg rannsókn sem gerð var af nokkrum leiðandi sameindalíffræðingum undir forystu Dr. Michael Antoniou, allt sjálfstæðir vísindamenn. Hún sýnir fram á með skýrum hætti að erfðatæknin felur í sér heilsufarsáhættu sem ekki hefur skikkanlega verið lagt mat á. Þar er beitt nýjustu greiningaraðferðum sem sýna m.a. að í Monsanto maísyrkinu NK603 veldur erfðabreytingaferlið auknu magni efna sem hugsanlega eru eitrandi.
 
Mikilvægi þessarar rannsóknar verður seint ofmetið. Í fyrsta lagi varpar hún ljósi á hve veikum vísindagrunni leyfisferli Evrópu og Bandaríkjanna standa, en á báðum svæðum var NK603-maísyrkið tilgreint verulega jafngilt (substantially equivalent) venjulegum maís. Í öðru lagi afhjúpar rannsóknin hve gölluð erfðatæknin er – nokkuð sem líftækniiðnaðurinn afneitar með öllu. Nú kynnir iðnaðurinn nýjar aðferðir við genabreytingar (CRISPR cas9, Talens, Zinc fingers) og lætur sem þær séu svo öruggar að ekki sé þörf á að setja um þær reglugerðir. Sannleikurinn er hinsvegar sá að þessar aðferðir auðvelda erfðabreytingar, gera þær ódýrari og gróðavænlegri, - en ekki öruggari. 
 
Árni reynir að bjarga orðspori Monsanto með því að benda á að fyrirtækið stundi rannsóknir á hefðbundnum kynbótum, auk erfðabreytinga. En ástæða þess er sú að Monsanto veit að allar helstu framfarir í þróun nytjaplantna (hvort sem um er að ræða aukna næringu, aukna uppskeru, þol gegn þurrki, frosti eða flóðum) hafa orðið með hefðbundnum kynbótum, - ekki erfðabreytingum. Í tvo áratugi hefur líftæknifyrirtækjum mistekist að framkalla flókna eiginleika í erfðabreyttum plöntum sem t.d. auka uppskeru, og hafa fundið sig knúin til að beita þjófabrögðum (sn. bio-piracy). Þau virka þannig að líftæknifyrirtæki á borð við Monsanto nota plöntu sem kynbætt var til uppskeruauka og setja í hana gen sem tjáir þol gegn einhverju eiturefni sem það framleiðir (yfirleitt glýfosat eða Bt-eitur). Síðan er einkaleyfi sett á fræ hins nýja erfðabreytta yrkis, sem svo er selt bændum á tvö- eða þreföldu verði hefðbundins fræs, en uppskeruaukningin er þökkuð erfðabreytingunni. 
 
Árni tekur undir yfirdrifinn kórsöng líftæknifyrirtækja um að brauðfæða heiminn og fullyrðir að auka verði matvælaframleiðslu um 70% næstu 50 árin. Það er goðsögn. Gögn Sameinuðu þjóðanna sýna að um miðja þessa öld muni fólksfjöldinn ná jafnvægi við 9 milljarða – og þar sem landbúnaðurinn framleiðir nú næga fæðu fyrir 14 milljarða er erfitt að sjá hversvegna fæðuframboð er vandamál. Hungur meðal mannkynsins stafar ekki af matarskorti heldur vegna þess að þeir sem svelta hafa ekki efni á að kaupa sér mat. Aukning framleiðslu mun ekki seðja hina hungruðu frekar en aukin bílaframleiðsla geri öllum kleift að eignast bifreið. Fátækt er vandinn sem við blasir, en erfðabreytt matvæli eru engu ódýrari en venjuleg matvæli. Með því að hvetja til aukinnar framleiðslu erfðabreyttra matvæla sem vísindin sýna í vaxandi mæli að séu áhættusöm fyrir heilsufar okkar, sýna líftæknifyrirtækin að þau hafa meiri áhuga á að fóðra eigin bankareikninga en að brauðfæða heiminn. 
 
Staðhæfingar Árna um að erfðatækni gæti komið lífrænni ræktun til góða eru hugarburður. Nær sanni væri að segja erfðabreyttan landbúnað geta haft gagn af lífrænum aðferðum. Reglur um lífræna framleiðslu eru settar á alþjóðlegum vettvangi og bændur rækta í samræmi við þær vegna þess að afraksturinn tryggir neytendum náttúrulegri og öruggari matvæli sem þeir sækjast æ meir eftir. Notkun eiturefna og tilbúins áburðar er bönnuð í lífrænni ræktun, sem byggir aftur á móti á sáðskiptum og niturbindandi plöntum til að auðga jarðveginn og hámarka næringargildi afurðanna. Lífrænn landbúnaður útheimtir meiri vinnu og því þurfa bændur hærra verð fyrir afurðir sínar.  Hví skyldu þeir bregðast trausti neytenda og vinna gegn sívaxandi hlutdeild sinni í matvælamarkaðnum (11% aukning í Bandaríkjunum 2014-2015) með því að nota tækni sem skaða mundi tiltrú á afurðum þeirra? Reglur um lífræna ræktun banna notkun erfðabreyttra lífvera, og af gildum ástæðum mun svo verða framvegis.
 
Sandra B. Jónsdóttir,
sjálfstæður ráðgjafi.
Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...