Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Allir vegir færir
Skoðun 12. febrúar 2021

Allir vegir færir

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Glíman við kórónavírusinn hefur nú staðið í rúmlega eitt ár og kostað gríðarlegar fórnir í mannslífum og fjárhag þjóða. Ef menn horfa bjartsýnisaugum á framþróun barátt­­­u­nnar á Íslandi höfum við sem þjóð alla möguleika til að snúa dæminu hratt í okkar hag og í annarra þágu.

Það var fyrst í lok desember 2019 sem heilbrigðisyfirvöld í Wuhan í Kína viðurkenndu að tugir höfðu smitast í borginni Wuhan í Hubei-héraði af völdum kórónavíruss sem ylli alvarlegri lungnabólgu í fólki. Í kjölfarið setti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin í gang viðbragðsáætlun til að takast á við sjúkdóminn. Það var þó ekki fyrr en 5. janúar 2020 sem WHO gaf út viðvaranir að um faraldur væri að ræða. Það var svo 11. janúar 2020 sem kínverskur ríkisfjölmiðill staðfesti fyrsta fórnarlamb þessa víruss, sem var sagður vera 61 árs gamall maður sem heimsótt hafði markað með lifandi dýr í Wuhan. Nokkrum dögum seinna, eða 21. janúar, var tilkynnt um smit í Washington-ríki í Bandaríkjunum, Japan, Suður-Kóreu og í Taílandi. Þann 30. janúar 2020 lýsti WHO svo yfir neyðarástandi á heimsvísu, en fyrsta staðfesta smittilfellið á Íslandi var tilkynnt 28. febrúar 2020. Þessi smit leiddu síðan til þess heimsfaraldurs sem við þekkjum sem COVID-19.

Þann 28. janúar síðastliðinn voru staðfest smit á heimsvísu orðin 105,5 milljónir og 2,3 milljónir dauðsfalla í heiminum voru þá rakin til COVID-19. Þar af höfðu 29 látist á Íslandi, en hér voru þá staðfest 6.016 smit. Ljóst má vera af þessum tölum að lykilatriðið til að koma í veg fyrir dauðsföll af völdum veirunnar er að útiloka smit.

Á Íslandi hefur tekist nokkuð vel að hafa hemil á útbreiðslu, þegar strangar reglur hafa verið í gangi. Greinilegt er að strangt eftirlit á Keflavíkurflugvelli með tvöfaldri skimun hefur leitt til þess að Ísland er nú eina landið í Evrópu sem er með grænan lit á válista þjóðanna. Ef það tekst að halda smitum þannig niðri hér á landi, þar til meirihluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur má búast við að upp úr því getum við vænst viðsnúnings í atvinnulífinu. Því hlýtur að skipta höfuðmáli að við fáum nægt bóluefni sem fyrst, það er spurning bæði um mannslíf og þjóðarhag. Þarna ber stjórnvöldum að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að þetta gangi sem hraðast fyrir sig.

Um leið og Íslendingar hafa náð að stöðva framgöngu sjúkdómsins og hefja endurreisn efnahagslífsins getum við líka farið að einbeita okkur að því að hjálpa öðrum þjóðum við að ná sama takmarki. Því er okkur afar mikilvægt að ná þeim þrótti sem til þarf sem fyrst. Þar er ágætt að hafa í huga reglur um súrefnisgrímur sem gilda um borð í farþegaflugvélum. Ef við höfum ekki súrefni sjálf þá hjálpum við heldur engum öðrum sem á þurfa að halda. Þetta skiptir nefnilega afar miklu máli og það á alltaf að vera í forgangi.

Sem matvælaframleiðsluþjóð berum við mikla ábyrgð. Það sýndi sig vel í síðustu heimsstyrjöld. Þá höfðum við engan hernaðarmátt, en við gátum samt lagt okkar af mörkum. Við gátum stundað fiskveiðar og landbúnað og nýtt þá framleiðslu til að hjálpa öðrum þjóðum eins og Bretum um matvæli. Í dag erum við enn betur í stakk búin bæði í landbúnaði og fiskveiðum og vinnslu til að sinna þessu mikilvæga hlutverki okkar. Ef við glötum þessu, hjálpum við hvorki okkur sjálfum né nokkrum öðrum. Um leið og við höfum sigrast á veirunni ætti okkur því að vera allir vegir færir. 

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...