Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hækkun á úrvinnslugjaldi rúlluplasts er metin á 100–120 milljónir króna á ársgrundvelli.
Hækkun á úrvinnslugjaldi rúlluplasts er metin á 100–120 milljónir króna á ársgrundvelli.
Mynd / H.Kr.
Af vettvangi Bændasamtakana 29. maí 2023

Fulla ferð áfram og ekkert stopp!

Höfundur: Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Þau hafa verið fjölbreytt verkefnin sem Bændasamtökin hafa látið sig varða síðasta árið og koma frá Alþingi eða hinum ýmsu stofnunum stjórnsýslunnar. Auknar kröfur, aukið flækjustig og hin ýmsu háleitu markmið stjórnvalda hafa verið áberandi viðfangsefni í þessari vinnu. Minna hefur hins vegar verið um einföldun regluverks, raunverulegar aðgerðir og greiningu á starfsskilyrðum og stöðu íslensks landbúnaðar á óvissutímum.

Vigdís Häsler.

Starfsfólk Bændasamtakanna hafa þrátt fyrir þetta verið óþreytandi við að benda stjórnvöldum á raunverulegar aðstæður íslenskra bænda og hvað það er sem stjórnvöld þurfi að gera til að metnaðarfull markmið um íslenskan landbúnað geti orðið að veruleika.

Í þessari vinnu hefur eitt þema stjórnvalda þó komið meira á óvart en önnur, en það eru boð stjórnvalda um auknar álögur á landbúnað. Það má ganga svo langt að halda því fram að rekin hafi verið herferð með yfirskriftinni Bændur borga. Á sama tíma og framlög samkvæmt búvörusamningum dragast saman að raunvirði hafa í vetur verið boðaðar auknar álögur á íslenskan landbúnað sem samanlagt ná hið minnsta 1.000 milljónum króna á ársgrundvelli. Telur þar einna mest auknar álögur með boðuðum breytingum á gjaldskrá MAST sem metnar voru hið minnsta á 500 milljónir á ársgrundvelli. Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði fóru sameiginlega fram á það við matvælaráðherra að draga málið til baka auk þess sem samtökin mótmæltu þessum breytingum harðlega á sameiginlegum fundi með atvinnuveganefnd Alþingis. Það er með öllu óásættanlegt að eftirlitsstofnanir í meira mæli fjármagni sig með því að auka hlut hliðartekna sem koma beint úr vasa bænda og matvælaframleiðenda sem sæta þurfa eftirlitinu til að geta haldið úti sinni starfsemi og er ætlað að byggja undir stoðir fæðuöryggis.

Bændasamtökin draga vagninn

Úrgangsmálin eru annað viðfangsefni þar sem stjórnvöld virðast ætla að leggja það í hendur sveitarfélaga að ákvarða gjaldtöku á landbúnaðinn án nokkurrar kröfu um skynsamlegar lausnir. Telja þessar álögur á landbúnaðinn í hundruðum milljóna á ársgrundvelli. Bændasamtökin sendu í apríl sl. erindi til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, matvælaráðuneytisins, MAST, innviðaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem samtökin komu því áliti sínu á framfæri að slík gjaldtaka væri úr hófi og óframkvæmanleg auk þess sem núverandi gjaldtaka væri að öllum líkindum framkvæmd án lagaheimilda.

Þá samþykkti Alþingi í desember sl. hækkun á úrvinnslugjaldi rúlluplasts sem leggst beint á smásöluverð og var sú hækkun metin á 100–120 milljóna króna á ársgrundvelli. Bændasamtökin mótmæltu þessari hækkun og þrátt fyrir að Alþingi tæki undir sjónarmið samtakanna var hækkunin látin standa. Er þetta miður enda hafa allar slíkar hækkanir áhrif þar sem landbúnaðurinn er ein keðja og auknar álögur af hálfu ríkisins á einhvern aðila í keðjunni bitna beint og óbeint á allri virðiskeðju landbúnaðarins, sem nær frá bónda að borði.

Heimavinna ráðherra

Eins og alkunna er hafa aðföng eins og heyrúlluplast hækkað umtalsvert í verði eins og flest annað, fyrst vegna Covid og síðan innrásar Rússa í Úkraínu.

Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um fyrrnefnda hækkun á úrvinnslugjaldi rúlluplasts, var á það minnst að hækkun þessi væri umtalsverð og að hún gæti orðið bændum íþyngjandi enda væri óvíst hvernig verðþróun á þessari mikilvægu rekstrarvöru myndi þróast á næstu mánuðum. Þá var því einnig beint til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að koma til móts við bændur vegna þessara hækkana en engin áform virðast vera um slíkar mótvægisaðgerðir. Því verður að spyrja sig hvenær ráðherra ætli að skila af sér heimavinnunni sem Alþingi setti honum fyrir í byrjun desember sl.

Bændasamtökin hafa í þessu samhengi bent á mótvægisaðgerðir sem hægt er að ráðast í þegar í stað en þær fela í sér að úrvinnslugjald á endurunnu heyrúlluplasti verði að fullu fellt niður með það fyrir augum að gera það samkeppnishæfara í verði gagnvart heyrúlluplasti sem framleitt er úr frumefnum. Með því mætti auka hlutdeild endurunnins heyrúlluplasts í íslenskum landbúnaði en gera má ráð fyrir að lækka mætti kolefnisspor við notkun á heyrúlluplasti á Íslandi umtalsvert ef eingöngu yrði notað endurunnið heyrúlluplast. Niðurstaða greiningar sem fyrirtækið ecoAgro lét Landbúnaðarháskólann (LbhÍ) vinna eru sannarlega jákvæðar og veita frekari vissu um að 100% endurunnið heyrúlluplast henti vel við íslenskar aðstæður. Samhliða telja Bændasamtökin að það sé eðlilegt að ráðast í söfnunarátak á heyrúlluplasti þannig að allt plast skili sér til endurvinnslu en slíkt átak þarfnast samvinnu bænda, sveitarfélaga, úrvinnsluaðila og stjórnsýslunnar.

Hífa, slaka, gera eitthvað!

Þegar trollið er komið í skrúfuna, stíf norðanátt og Hornbjarg skammt undan má búast við því að heyra óreyndan skipstjóra fara með þessa rullu yfir áhöfninni Hífa, slaka, gera eitthvað! Sama staða virðist vera uppi hjá sveitarfélögunum í úrgangsmálum sem tengjast landbúnaði. Sum vilja hífa, önnur vilja slaka og restin vill bara gera eitthvað og á meðan hefur skipið rekið að landi. Þannig hafa sveitarfélögin í auknum mæli óskað eftir liðsinni Bændasamtakanna til þess að finna lausnir á förgun dýrahræja og nokkur þeirra hafa jafnvel tilkynnt samtökunum formlega um lokun urðunarstaða og hvatt Bændasamtökin til þess að finna til nýja staði! Samtökunum er ekkert óviðkomandi og við tökum vel á móti verkefnum sem ætlað er að efla og styrkja stöðu íslensks landbúnaðar, en á sama tíma eru samtökin þó fullkomlega meðvituð um að lögboðin verkefni sveitarfélaga verða ekki svo auðveldlega yfirfærð á sextán manna starfslið skrifstofu samtakanna.

Staða þessa málaflokks er með öllu óásættanleg, bæði með tilliti til þeirra aðferða sem notaðar eru við eyðingu meirihluta úrgangsins og með tilliti til kostnaðar. Þannig fer líklega meirihluti þessa úrgangs í dag annaðhvort til urðunar sem viðurkennt er að sé slæmur kostur, eða til brennslu, sem er vafalítið dýrasti kosturinn. En í stað þess að hljóma eins og Bjartur í Sumarhúsum í verra horninu, þá eru samtökin reiðubúin, vel mönnuð af starfsfólki sem býr að menntun og þekkingu sem þarf til að takast á við verkefnin fram undan, hvort sem það er að hífa, slaka, eða gera eitthvað.

Dýrahræ, aukaafurðir og annar lífrænn úrgangur

Umhverfis- og loftslagsmálin verða í brennidepli á næstu árum, þrátt fyrir að stjórnarbreytingar í ýmsum löndum Evrópu síðustu misseri hafi gefið til kynna breyttar áherslur á sviði alþjóðavæðingar. Verkefnið fram undan er eftir sem áður risavaxið.

Í mars sl. var birt minnisblað um ráðstöfun dýraleifa, þar með talið um ábyrgð sveitarstjórna og mögulegar úrvinnsluleiðir sem unnið var af Environice fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Skýrslan er í mörgu ágætt yfirlit yfir stöðu mála en þó telja Bændasamtökin að þær leiðir til úrlausna sem lagðar eru til í skýrslunni séu með öllu ótækar auk þess sem þær séu til þess fallnar að leggja óhóflegar álögur á landbúnað. Bændur geta með engu móti staðið undir þeim kostnaði sem hlýst af því að byggja dýrar brennslustöðvar í öllum landshlutum, en í skýrslunni var einmitt sú lausn boðuð. Og bændur borga brúsann.

Það er þannig skýr afstaða Bændasamtakanna að í umhverfis- og loftslagsmálum verði að horfa til þess að aðgerðir verði ekki til þess að útvista vandanum til annarra landa með því til dæmis að landbúnaðarframleiðsla færist úr landi. Enda færi slíkt gegn öllum áformum og markmiðum stjórnvalda um fæðuöryggi og sjálfbærni.

Bændasamtökin vilja því fara aðra leið og mun hagstæðari fyrir alla aðila, en sú leið byggir á samvinnu allra sveitarfélaga og þeirri einföldu aðferðafræði að hámarka þau verðmæti sem felast í lífrænum úrgangi, hvort sem um er að ræða dýrahræ, aukaafurðir eins og sláturúrgang eða annan lífrænan úrgang. Bændasamtökin telja farsælast að horfa til þeirra aðferða sem búa til verðmæti. Nú þegar er til að mynda rekin öflug kjötmjölsverksmiðja á Íslandi sem framleiðir áburðarefni úr lífrænum úrgangi og getur meðhöndlað úrgang með hærri áhættuflokkun eins og sláturúrgang. Þá eru miklar vonir bundnar við að innan tíðar verði komin upp verksmiðja á Íslandi sem framleiðir hefðbundinn áburð úr lífrænum úrgangi eins og fiskiseyru, búfjáráburði og ýmsum öðrum lífrænum úrgangi. Önnur aðferð sem horft er til samhliða framangreindum aðferðum er framleiðsla lífkola úr lífrænum úrgangi en með þeirri aðferð má meðhöndla úrgang með hæstu áhættuflokkun.

Allar þessar aðferðir eiga það sameiginlegt að styðja hringrásarhagkerfið og búa til verðmæti sem um leið lágmarkar kostnaðinn við það að losna við úrganginn.

Hvað þarf til?

Í raun er það eina sem þarf til vilji til samvinnu. Sveitarfélögin verða að hætta að haga sér eins og óreyndur skipstjóri, sem veltir ábyrgðinni yfir á hásetana, og koma þess í stað sameinuð að þessu stóra verkefni sem úrgangsmálin eru. Á þeirri vegferð verða sveitarfélögin að hafa í huga að bændur hvorki hafa hug á, né fjárhagslega getu til að greiða fyrir dýrar brennslustöðvar í öllum landshlutum eða jafnvel fjölmörgum sveitarfélögum eins og áætlanir virðast vera uppi um. Aðrir mun hagkvæmari valkostir eru í boði svo lengi sem sveitarfélögin vinna öll saman að einni skynsamlegri heildarlausn á landsvísu með hag allra að leiðarljósi.

Þau eru nokkur ráðuneytin sem þurfa að styðja þessa vegferð og má þar helst nefna innviðaráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og matvælaráðuneytið. Öll þurfa þessi ráðuneyti að taka til í sínum ranni með því að aðlaga regluverk að nýjum lausnum og ekki hvað síst yfirfara það Evrópuregluverk sem hefur verið innleitt með tilliti til þess hvar sé hægt að aðlaga að íslenskum aðstæðum.

Ljóst er að verði regluverkið ekki uppfært í samræmi við nýja tækni á sviði úrgangsmála þá eru allar lausnir sem styðja hringrásarhagkerfið í uppnámi.

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...

Fámenn þjóð í stóru landi
Lesendarýni 9. ágúst 2024

Fámenn þjóð í stóru landi

Í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands má sjá að 365.256 (95%) Íslendingar búa í b...

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi
Lesendarýni 7. ágúst 2024

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi

Staðið hefur yfir með hléum hrina eldgosa samfara jarðhræringum á Reykjanesskaga...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun